Könguló, könguló, vísaðu mér á berjamó. Eða það sem betra er, leyfðu mér að kíkja í vefinn þinn. Þeir sem hafa arkað eða staulast í gegnum hraunið við austanvert Hítarvatn kannast eflaust við köngulóavefina sem liggja þar oft þvert á gönguleiðina. Án þess að fara ítarlega í skordýrafælni, þá þekki ég nokkra aðila sem mundu væntanlega taka á sig stóran krók framhjá þessum vefum frekar en stíga í gegnum þá, sem er útaf fyrir sig bara gott.
Upplýsingabanki
Þegar grannt er skoðað má finna ýmsar vísbendingar um skordýralíf hvers staðar með því að kíkja á köngulóarvefi. Köngulær eru mjög iðnar og taka reglulega til í vefjum sínum, endurnýja þá og ganga úr skugga um að netið sé nægjanlega tryggt. Þess vegna má ganga að því með nokkurri vissu að í vefjunum leynast sýnishorn allra þeirra fljúgandi skordýra sem er að finna á viðkomandi stað. Þetta getur gefið okkur, veiðimönnunum dýrmætar upplýsingar um það æti sem fiskurinn er mögulega í. Því nær vatninu sem vefurinn er, því betra.
Hver kannast ekki við þegar sólin er lágt á lofti og maður keyrir á móti henni? Ekkert sérstaklega þægilegt og ósjálfrátt pírir maður augun, fálmar eftir skyggninu, setur það niður og sólgleraugun upp. Þegar þið lendið í þessu næst og þurfið að stoppa á rauðu ljósi, prófið að skyggnast um og takið eftir því að eiginlega allir litir hverfa á milli ykkar og sólarinnar. Dökkir skuggar og form segja okkur miklu meira hvað er á ferðinni heldur en litir.
Kannski er ég alveg úti á túni með þessar pælingar, en þegar fiskurinn horfir á eftir mýpúpunni stíga upp á yfirborðið og umbreytast í fullvaxna flugu, þá ímynda ég mér hann svolítið svipað sjálfum mér á móti sól. Stærsti munurinn er sá að ég get pírt augun, hann ekki. Þessar pælingar mínar urðu til þess að ég skoðaði svolítið litaflóru þurrflugna og viti menn; það eru til þurrflugur sem veiða heil ósköp án þess að eiga sér nokkra fyrirmynd í lífríkinu.
Bull-fluga
Hefur einhver sér svona skordýr á Elliðavatni? Nei, vonandi ekki því þá hefur eitthvað stórkostlegt farið úrskeiðis í frárennslismálum í Kópavogi. Formið er nokkuð þekkt meðal skordýra, en litirnir eru eiginlega alveg út úr kú. Getur verið að fiskurinn sé bara að spá í formið og þess vegna veiðir Royal Coachman? Mér er sagt að grænn Coachman veiði ekkert síður en rauður og þá velti ég fyrir mér hvort al-svartur Coachman veiði og þá er ég að meina alveg svartur en hnýttur í Coachman-útlínum.
Kannski eru allir þessi litir á flugum meira fyrir veiðimanninn heldur en fiskinn, hver veit. Mér dettur aftur á móti ekki í hug að mælast til þess að menn hætti að hnýta Royal Coachman, Royal Wulff eða aðrar litskrúðugar þurrflugur. Eiginlega þvert á móti, hnýtið nú eins margar þurrflugur og mögulegt er og notið þær eins oft og ykkur sýnist næsta sumar.
Þegar mýið hefur fengið nóg af því að hanga á botninum sem lirfa hugar hún að umbreytingu í púpu. Þegar umbreytingunni er lokið losar hún sig upp af botninum, leitar ofar í vatnsbolinn og hættir sér út í óvissuna þar sem hungraður fiskurinn tekur oftar en ekki á móti henni. Þetta hljómar svolítið eins og fiskurinn sitji fyrir hverri einustu mýpúpu og hremmi hana um leið og hún hefur ferð sína upp á yfirborðið, en þannig er þetta í raun ekki.
Toppflugan
Hefðum við kost á og þol til að svamla undir yfirborði vatnsins snemma vors þegar vatnshitinn hefur stigið rétt yfir 4°C þá sæjum við heilu strókana af mýpúpum losa sig upp af botninum og berast út í vatnsbolinn. Hér gildir að fela sig innan fjöldans til að lifa af þetta stutta ferðalag upp að yfirborðinu. Ég hef hvergi séð hve hátt hlutfall mýpúpunnar lendir í fiskkjafti, en óábyrgt gæti ég skotið á að 80-90% púpa nær ekki upp að yfirborðinu og kemst til flugu. Þetta byggi ég aðeins á eigin lauslegri athugun þegar fluga klekst með því að telja flugur á u.þ.b. einum fermetra vatnsins. M.v. að á botninum getum við fundið 20.000 einstaklinga á hverjum fermetra, þá er eru það í besta falli 20% sem ná því að verða að flugu. Ég tek það skýrt fram að ég hef samt aldrei náð að telja 1000 flugur klekjast á yfirborði nokkurs fermetra, en þar kemur á móti að ég sat svo sem ekki lengi við og taldi. Hæst náði ég í 100 og þá ruglaðist ég.
Mobuto
Á þessum árstíma erum við ekki alveg komin í þau spor að þurfa á flugum að halda sem eru eftirlíkingar mýpúpunnar, en það er rétt að huga að betri tíð og blómum í haga. Flugurnar sem við ættum að hafa tiltækar þegar mýpúpan er á ferli gætu t.d. verið Toppfluga Engilberts og Mobuto. Auðvitað koma Krókurinn og Kibbi þarna líka sterkt inn. Eru ekki allir örugglega með einhverja þessara í hnýtingu eða þegar klárar í boxi?
Flugur sem notaðar eru í stóra fiska, eins og lax eru yfirleitt nokkru stærri heldur en þær sem við notum í silunginn. Undantekningar? Já, stórir ísaldarurriðar virðast vera hrifnari af stórum flugum. En hvort kom á undan, stór fluga og stór fiskur, eða stór fiskur og stór fluga? Rétt svar er; hvorugt. Það var nefnilega lítill fiskur sem kom fyrstur, svo stækkaði hann með því að éta lirfur, flugur og síli. Þegar hann var orðinn svo stór að minni fæða var honum ekki nóg, þá réðst hann á stærri fisk, dvergbleikju, murtu og seiði stærri bleikju. Þá tók vöxtur urriðanns kipp og veiðimenn þurftu færa sig upp um flugustærð. Ástæðan er óskaplega einföld, það er affærarsælast að bjóða fiskinum eitthvað sem hann ásælist, ekki smárétti þegar stórsteikur eru á boðstólum.
Blóðormur
En það eru nú samt til stórir fiskar sem sem éta smágerða fæðu og braggast bara nokkuð vel. Því megum við ekki gleyma að hnýta litlar flugur þessa dagana. Trúlega er mýið einhver smágerðasta fæða silungs sem við getum líkt eftir. Til að byrja með eru lirfur mýflugunnar af svipaðri stærð og krókur #18 og niður í #22, rauðar og hreyfa sig ekkert sérstaklega mikið á botninum. En, ekki gleyma því að þegar fiskur rótast í blóðormi á botninum, þá nær hann ekki að éta nema örlítinn hluta af því sem losnar af steinunum. Restin flýtur burt og getur verið á sveimi í vatninu innan um annað líf sem ekki er botnfast. Sem sagt; það má alveg draga Blóðorminn, hann þarf ekkert að liggja sem dauður á botninum. Og blóðormur þarf ekkert endilega að vera þyngdur, léttur Blóðormur sem leyft er að reka getur líka gefið fisk. Litlar flugur, litlir fiskar? Já, en ekki bara.
Ummæli
26.02.2015 – Sigurður Kr.:Áður en ég fór í fyrsta skipti upp í veiðivötn kom ég við í veiðibúð og bað um flugur sem virkuðu þar. Þegar afgreiðslumaðurinn lét mig fá Black ghost #2 með keiluhaus varð mér á orði að mig vantaði sko flugur, ekki rotara. „Stórir fiskar, stórar flugur“ var þá svarið sem ég fékk.Ég hef reyndar ekki enn kastað fyrrnefndum Black ghost en ég fékk fleiri flugur þarna í svipaðri stærð og fékk á þær fiska uppfrá. Þegar ég var úti í BNA fyrir nokkrum árum álpaðist ég inn í í stóra veiðibúð og kíkti á flugrnar hjá þeim. Þar var meðal annars hægt að fá svokallað „trophy trout collection“ og þar voru á ferð stórir og feitir streamerar. Greinilegt að kaninn trúir líka á „stórir fiskar, stórar flugur“. Svona streamerkall eins og ég stóðst ekki mátið og keypti náttúrulega einn svona pakka. Hef reyndar ekki fengið neinn trophy fisk á þetta en það er aldrei að vita.
Væntanlega er það í yfirgnæfandi tilfellum sem menn veiða vorfluguna sem púpu eða lirfu, þ.e. þegar hún er á botninum eða við það að brjótast upp úr vatninu. Þá erum við með Peacock eða einhverja þeirra ótal Caddis eftirlíkinga á taumi sem má finna í flugnaúrvalinu, má þar nefna húsnæðislausar vorflugur og Hérann.
Á eftir púpu og lirfuveiðum eru alltaf einhverjir sem spreyta sig á að líkja eftir vorflugunni þennan stutta tíma sem hún situr á vatninu eftir að hafa brotið sér leið upp á yfirborðið. Þetta er tiltölulega stuttur tími, því vorflugan er kröftugt kvikindi sem staldrar ekki lengi við á yfirborðinu eftir að hafa tekið á sig mynd flugunnar. Þó ekki sé alveg komið að því að vorflugurnar fari að verpa næstu kynslóð, þá er vert að geta þess að fullorðin flugan er hlutfallslega miklu meira áberandi og staldrar lengur við þegar hún verpir heldur en þegar hún brýst upp á yfirborðið. Eftir mökun, snýr flugan aftur út á vatnið til að verpa og er nokkuð áberandi á yfirborðinu á meðan að á því stendur og fiskurinn oft nokkuð agressífur í flugunni.
Fljótlega eftir varpið deyr flugan og það er eins og hún hverfi þá sjónum veiðimanna, en ekki fisksins. Það getur verið erfitt fyrir okkur að greina fluguna þegar hún flýtur á vatninu, en fiskurinn sér hana tiltölulega vel og oft eru það stærri fiskarnir sem týna þær í sig af yfirborðinu. Verðum við varir við uppitökur að loknu varpi flugunnar, þá væri e.t.v. ekki úr vegi að bregða Elk Hair Caddis undir og sjá hvort við náum ekki einhverjum stórum, svöngum fiski.
Þær eru næstum ljóðrænar, lýsingarnar af yfirvegaða veiðimanninum sem nálgast lækinn hægum, varfærnum skrefum rétt áður en hann tyllir sér niður í öruggri fjarlægð og gjóir augum eftir vatnsborðinu. Ef við bætum nú tweed jakka, hnébuxum og sixpensara við, þá er komin mynd úr handbók hins heiðarlega veiðimanns frá fyrrihluta 20. aldar. Þetta er einhver elsti veiðimaður sögunnar, hann er nefnilega enn í fullu fjöri rúmlega 100 árum síðar. Að vísu er hann komin í önnur föt en háttarlagið er enn það sama. Hann er að skima eftir ummerkjum fiskjar í læknum. Fyrstu merkin eru auðvitað uppitökur. Ef engar uppitökur er að sjá, þá má alltaf skima eftir skordýrum; tegund, stærð og háttalagi, því þau eru fæða fisksins.
Þegar veiðimaðurinn hefur náð að kortleggja lækinn hvað varðar lífið og gróður þá er stór partur eftir; straumurinn. Eins og nærri má geta er straumurinn ekki eins um allan læk og ekki er allur straumur fiskinum þóknanlegur. Annars erum við svolítið heft að því leiti til að við sjáum bara yfirborðið. Það sem getur virkað sem ólgandi straumur í okkar augum er hreint og beint stöðuvatn þar sem fiskurinn liggur. Svo má ekki gleyma þeim stöðum þar sem straumurinn á yfirborðinu verður að engu eða þar sem ekkert verður að straum. Dýpið í læknum hefur mikil áhrif á það hversu hratt vatnið rennur eins og nærri má geta. Sama má segja um breidd lækjarins. Allur fiskur vill súrefni og umfram allt fæðu án þess að þurfa að djöflast of mikið til að ná henni.
Gömul vísa verður aldrei of oft kveðin, skimaðu eftir því sem ekki að sjá við fyrstu sýn. Fæðan berst með strauminum og stundum er meira að segja hægt að veiða andstreymis undan straumi. Ha? Jú, þar sem straumurinn fer fyrir nes eða tá, snýst straumurinn stundum við og þar safnast oft fiskur saman í æti sem hefur þjappast saman.
Ummæli
12.01.2014 – Veiði-Eiður: Góður pistill Kristján! Það sem stendur hvað mest upp úr frá s.l sumri er þegar ég fór í litla bleikjuá á norðurlandi. Var búinn að skima eftir veiðilegum stað en fann engan. Stoppaði svo við litla “breiðu” sem var nú ekki beint veiðileg. En úti í henni miðri var spegill, svona einskonar “læna”. Ég starði lengi á hana og ákvað að lokum að prófa að kasta andstreymis og viti menn, 26 gleyptu púpuna áður en ég fékk nóg. Það var merkilegt að ef ég kastaði til hliðar við spegilinn þá gerðist ekkert, en ef ég hitti akkúrat í hann þá var nánast alltaf fiskur á.
Svar: Já, þeir lifa lengi í minningunni þessir staðir og augnablik þegar maður hittir akkúrat á. Stundum eru það aðeins örfáar tommur sem skilja að veiðistaðina og ‘dauðahafið’.