Ætið: Bitmý

Bitmý

Á Íslandi finnast sex tegundir bitmýs. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að flugurnar eru smágerðar, dökkar og frambolurinn kreppist eilítið upp fyrir afturbolinn. Púpurnar líkjast flugunni meira heldur en lirfan sem eru töluvert stærri en fullvaxin fluga, allt að 1 sm. Lirfan er lík ormi, með haus og röð króka aftur eftir bolnum. Myndbreyting lirfunnar á sér stað í nokkurs konar kramarhúsi sem hún byggir sér.

Lirfurnar festa sig við botninn, oft í þéttum klösum og standa upp á endann í vatninu. Myndbreyting hennar á sér stað í nokkurs konar kramarhúsi sem hún byggir sér.

Alþekkt er að fyrsta klak mýflugna á sér stað snemma að vori þegar vatnshitinn hefur rétt skriðið upp fyrir 4°C og því eru þær oft fyrsta merki um líf að vori í vötnum landsins.

 

Ummæli

Nafnlaus ábending – 25.júní 2012Frábær síða og kærar þakkir fyrir hana!

Langaði aðeins að vekja athygli á að myndin af lirfunni er rykmýslirfa ekki bitmý. Þær eru ekki alltaf rauðar og í raun er þessi muskubrúni litur algengari en rauður. Googlaðu simulium vittatum (algengast bitmýstegundin hér) og þá ættirðu að finna myndir af lirfunni. Hún er yfirleitt ljósari að lit og þykkust um afturendann með mikla fálmara á höfðinu til að veiða fæðu. Mér hefur alltaf fundist héraeyra vera ein besta líkingin af bitmýi.

Kristján: Já, nú hefur mér orðið fótaskortur á lyklaborðinu. Var að væflast með tvær myndir af lirfu rykmýsins, ekki viss hvora ég ætlaði að nota og hef greinilega feðrað aðra þeirra bitmýinu. Þegar þetta er skrifað hef ég leiðrétt þessi mistök mín og, eins og kemur fram í nafnlausu ábendinunni, sett Hérareyrað inn sem góða eftirlíkingu lirfunnar sem er svo sannanlega réttmætt. Kærar þakkir fyrir þessa ábendingu, það eru einmitt svona ábendingar sem ég hef grun um að mig hafi vantað á efni síðunnar, rétt vil ég hafa rétt.

Fæðuframboð

Það er ekkert svo meitlað í stein að ekki sé hægt að breyta því. Þannig er því farið með ákveðin gátlista sem ég útbjó mér fyrir nokkrum árum og ég uppfærði hér síðast síðla árs 2010. Þessi gátlisti byggir á því fæðuframboði sem er að finna í vötnunum okkar árið um kring og hefur gagnast mér ágætlega þegar ég vel mér flugu við veiðarnar.

Fæðuframboð

Nú hef ég uppfært hann enn eitt skiptið og í þetta skiptið hef ég bætt inn í hann kjörhitastigi hverrar umbreytingar í lífríki vatnanna eins nærri áræðanlegum heimildum og reynslu minni sem ég kemst. Þegar þessu er síðan náð getur maður útbúið lista yfir tegundir / gerðir flugna sem gætu verið fulltrúar lífríkisins hverju sinni.

Agnið skv. lífríkinu

Ummæli

13.06.2012 Gústaf IngviFlottur póstur hjá þér og gaman væri að fá þessar myndir í stærri upplausn ef mögulegt væri :) Væri gaman að hafa þetta með í veiðitöskuni í góðri upplausn

13.06.2012 KristjánJá, takk fyrir ábendinguna. Ég hafði bara ekki hugsað þetta alveg svona til enda, auðvitað. Til að nálgast stóra útgáfu af Fæðuframboðinu, smelltu hér og til að nálgast stóra útgáfu af Agninu, smelltu hér. Vona að þetta komi að góðum notum.

17.06.2012 Árni Jónsson: Flottar myndir og frábær útskýring. Þetta er mjög gagnlegt og aðgengilegt.

Mýflugan

Rykmý

Það hefur komið mörgum veiðimanninum á óvart að sjá hve stórir urriðar nærast á mýflugu og virðast bara braggast vel. Mýflugan er hreinn og klár bunki að próteini, almennt auðveld bráð, hvort heldur á lirfu eða púpustigi og þetta veit fiskurinn.

Þegar við leitum að silungi er sjálfsagt að hafa augun hjá sér og skima eftir mýflugunni á öllum þroskastigum. En mýflugan finnst nú ekki hvar sem er. Helst er að finna hana í vatni þar sem það er ekki mikið dýpra en 4m, við jaðar dýpis eða jafnvel grynningum. Botninn hefur mikið að segja, kjörlendið er mjúkur leirkenndur botn eða stöðugur malarbotn og við bestu skilyrði getum við fundið allt að 20.000 einstaklinga á hverjum fermetra. Já, fiskurinn þarf ekki að leita langt yfir skammt að sínum prótein skammti. Að vísu þarf marga einstaklinga í góðan skammt, en þarna getum við blandað okkur í málið og lagt til áberandi heimasmíðar.

Við vatnshita undir 2°C þekkjum við mýlirfurnar sem þessa litlu rauðu sprota sem standa upp á endann í vatninu, Blóðormur, og silungurinn sogar þær upp af botninum. Þegar vatnshitinn hækkar í 5 – 10°C fer mýið að klekjast, losar sig og syndir upp að yfirborðinu, Buzzer. Þegar nær yfirborðinu dregur hefur púpan safnað súrefni í bólu undir búkinn sem hjálpar henni að komast upp að yfirborðinu (Chromie). Þegar þessi gállinn grípur fluguna, margfaldast umferð silungsins á þessum slóðum og allt þetta æti virðist glepja eftirtekt hans þannig að við eigum stundum auðveldara að nálgast hann heldur en ella.

Fæðuárið

Nú þegar halla fer í haustið og veiðiferðunum fer að fækka, þá tekur maður upp á undarlegustu hlutum til að viðhalda sóttinni sem hefur herjað á mann í allt sumar. Eitt af því er að lesa ótrúlegustu greinar um það sem maður hefði átt að vita áður en lagt var af stað síðasta vor, t.d. hvað er fiskurinn að éta á hverjum tíma árs. Eftir að ég las í gegnum nokkrar greinar þá stóð eftirfarandi upp úr; Mig vantar teikningu af ‘fæðuári’ silungsins. Ég settist því niður og setti saman þessa mynd og nokkra punkta um nokkrar fæðutegundir og framboð þeirra eftir árstíðum.

Þetta er alls ekki tæmandi listi yfir það sem silungurinn étur árið um kring, en gefur nokkuð góða mynd af framboðinu á hverjum tíma ársins.

Bitmý Á Íslandi finnast sex tegundir bitmýs. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að flugurnar eru smágerðar, svartar og frambolurinn kreppist eilítið upp fyrir afturbolinn. Púpurnar líkjast flugunni meira heldur en lirfan sem eru töluvert stærri en fullvaxin fluga, allt að 1 sm. Lirfan er lík ormi, með haus og röð króka aftur eftir bolnum. Myndbreyting lirfunnar á sér stað í nokkurs konar kramarhúsi sem hún byggir sér. Lirfurnar festa sig við botnin, oft í þéttum klösum og standa upp á endann.

Rykmý Á Íslandi hafa fundist yfir 80 tegundir rykmýs. Flugurnar eru næstum eins mismunandi að stærð, lögun og lit eins og tegundirnar eru margar. Karlflugurnar gera orðið allt að 1.5 sm að lengd, kvennflugurnar yfirleitt nokkuð minni. Líftími flugnanna sjálfra er frekar stuttur, aðeins nokkrir dagar þegar best lætur. Lirfa rykmýs nefnist blóðormur.

Vorflugan Á Íslandi hafa fundist 11 tegundir vorflugu. Þær eru náskildar fiðrildum og er oft ruglað saman við þau. Fullorðin vorfluga er frekar stórt skordýr með mjúkan búk, oftast gulleit eða grábrún. Sem lirfur lifa þær í vatni og byggja utan um sig hýði úr plöntuleifum eða sandi. Lirfurnar eru allt frá því um 1 til 2 sm að lengd, bera sex fætur og greinilegt höfuð. Klak vorflugunnar er nokkuð mismunandi eftir tegundum, alveg frá því í mars og fram í október og má því búast við einhverri tegund á sveimi allt sumarið.

Brunnklukka Fjórar tegundir af brunnklukkuætt finnast á Íslandi. Allar eiga þær það sameiginlegt að teljast til rándýra, bæði sem lirfur og sem klukkur. Brunnklukkan er mjög algeng um allt land og finnst í flestum vötnum, þó ekki ám og straumhörðum lækjum. Lirfa brunnklukkunnar nefnist vatnsköttur og finnast helst í júlí og ágúst. Fullvaxta klukkur finnast allt árið um kring.  Skoðanir eru mjög á reyki um það hve stóran sess klukkur skipa í fæðu fiska, en tæplega er hann þó stór þar sem viðkoma klukkna er ekki mikil í Íslenskum vötnum.

Vatnaklukka Aðeins ein tegund vatnaklukku hefur fundist um allt Ísland, séu Vestfirðirnir undanskildir. Fullorðin vatnaklukka lifir í lækjum, vötnum og tjörnum. Bæði lirfan og fullorðin klukkan lifa fyrst og fremst á gróðri. Fullorðin hefur vatnaklukkan fundist frá miðjum apríl og vel fram í ágúst.  Flest bendir til að varp eigi sér stað upp úr miðju sumri, júli og ágúst. Það sama á við um vatnaklukkuna og brunnklukkuna, ekki er vitað með vissu hve stóran sess hún skipar í fæðu silungs á Íslandi.

Hornsíli er lítill fiskur, oftast 4 til 8 sm að lengd. Hann er straumlínulagaður og er sverastur um miðjan bol. Hornsílið er algengt í ferskvatni á Íslandi og í sjó við strendur. Litur hornsíla er nokkuð breytilegur, alveg frá silfruðum yfir í blágræn, dökkna verulega á hryggningartímanum og hængarnir verða allt að því rauðir. Hryggning á sér stað að vori, í maí og júní. Hornsílið er eini fiskurinn á og við Íslands sem gerir sér hreiður til hryggningar. Þar sem hornsílið er nánast ránfiskur í eggjum annarra fiska, má segja að þar hitti skrattinn ömmu sína þegar urriðanum og sílableikjunni bregður fyrir og gera sér hornsílin að góðu.

Vatnabobbar finnst nánast í öllum vötnum á Íslandi, í óteljandi stærðum og afbrigðum. Oftast eru skeljar bobbanna frá því að vera gulhvítar yfir í það að vera móbrúnar. Ekki er óalgengt að skeljarnar taki til sín lit úr umhverfinu, svo sem rauðleitan blæ úr mýrarrauða. Stærð vatnabobba er allt frá 5 mm og upp í 25 mm. Útbreiðsla vatnabobba innan einstaka vatn getur verið mjög mismunandi. Eitt vatn getur boðið upp á kjör aðstæður fyrir vatnabobba á miklu dýpi á meðan önnur virðast snauð af bobba nema í flæðarmálinu. Fræðingar virðast ekki vera á eitt sáttir um ástæður þessa þannig að væntanlega er best að skoða sig vel um við hvert vatn og velta varlega við einstaka steinum og skima eftir þeim.

Skötuormur er stærsta krabbadýr sem lifir í ferskvatni á Íslandi, getur orðið allt að 5 sm að lengd. Algengastur á hálendinu (Veiðivötn) en finnst þó víðar.