Litlar flugur, litlir fiskar?

Flugur sem notaðar eru í stóra fiska, eins og lax eru yfirleitt nokkru stærri heldur en þær sem við notum í silunginn. Undantekningar? Já, stórir ísaldarurriðar virðast vera hrifnari af stórum flugum. En hvort kom á undan, stór fluga og stór fiskur, eða stór fiskur og stór fluga? Rétt svar er; hvorugt. Það var nefnilega lítill fiskur sem kom fyrstur, svo stækkaði hann með því að éta lirfur, flugur og síli. Þegar hann var orðinn svo stór að minni fæða var honum ekki nóg, þá réðst hann á stærri fisk, dvergbleikju, murtu og seiði stærri bleikju. Þá tók vöxtur urriðanns kipp og veiðimenn þurftu færa sig upp um flugustærð. Ástæðan er óskaplega einföld, það er affærarsælast að bjóða fiskinum eitthvað sem hann ásælist, ekki smárétti þegar stórsteikur eru á boðstólum.

Blóðormur
Blóðormur

En það eru nú samt til stórir fiskar sem sem éta smágerða fæðu og braggast bara nokkuð vel. Því megum við ekki gleyma að hnýta litlar flugur þessa dagana. Trúlega er mýið einhver smágerðasta fæða silungs sem við getum líkt eftir. Til að byrja með eru lirfur mýflugunnar af svipaðri stærð og krókur #18 og niður í #22, rauðar og hreyfa sig ekkert sérstaklega mikið á botninum. En, ekki gleyma því að þegar fiskur rótast í blóðormi á botninum, þá nær hann ekki að éta nema örlítinn hluta af því sem losnar af steinunum. Restin flýtur burt og getur verið á sveimi í vatninu innan um annað líf sem ekki er botnfast. Sem sagt; það má alveg draga Blóðorminn, hann þarf ekkert að liggja sem dauður á botninum. Og blóðormur þarf ekkert endilega að vera þyngdur, léttur Blóðormur sem leyft er að reka getur líka gefið fisk. Litlar flugur, litlir fiskar? Já, en ekki bara.

Þyngdir Blóðormar
Þyngdir Blóðormar

Ummæli

26.02.2015 – Sigurður Kr.: Áður en ég fór í fyrsta skipti upp í veiðivötn kom ég við í veiðibúð og bað um flugur sem virkuðu þar. Þegar afgreiðslumaðurinn lét mig fá Black ghost #2 með keiluhaus varð mér á orði að mig vantaði sko flugur, ekki rotara. „Stórir fiskar, stórar flugur“ var þá svarið sem ég fékk.Ég hef reyndar ekki enn kastað fyrrnefndum Black ghost en ég fékk fleiri flugur þarna í svipaðri stærð og fékk á þær fiska uppfrá. Þegar ég var úti í BNA fyrir nokkrum árum álpaðist ég inn í í stóra veiðibúð og kíkti á flugrnar hjá þeim. Þar var meðal annars hægt að fá svokallað „trophy trout collection“ og þar voru á ferð stórir og feitir streamerar. Greinilegt að kaninn trúir líka á „stórir fiskar, stórar flugur“. Svona streamerkall eins og ég stóðst ekki mátið og keypti náttúrulega einn svona pakka. Hef reyndar ekki fengið neinn trophy fisk á þetta en það er aldrei að vita.

Eftir varp

Elk Hair Caddis
Elk Hair Caddis

Væntanlega er það í yfirgnæfandi tilfellum sem menn veiða vorfluguna sem púpu eða lirfu, þ.e. þegar hún er á botninum eða við það að brjótast upp úr vatninu. Þá erum við með Peacock eða einhverja þeirra ótal Caddis eftirlíkinga á taumi sem má finna í flugnaúrvalinu, má þar nefna húsnæðislausar vorflugur og Hérann.

Á eftir púpu og lirfuveiðum eru alltaf einhverjir sem spreyta sig á að líkja eftir vorflugunni þennan stutta tíma sem hún situr á vatninu eftir að hafa brotið sér leið upp á yfirborðið. Þetta er tiltölulega stuttur tími, því vorflugan er kröftugt kvikindi sem staldrar ekki lengi við á yfirborðinu eftir að hafa tekið á sig mynd flugunnar. Þó ekki sé alveg komið að því að vorflugurnar fari að verpa næstu kynslóð, þá er vert að geta þess að fullorðin flugan er hlutfallslega miklu meira áberandi og staldrar lengur við þegar hún verpir heldur en þegar hún brýst upp á yfirborðið. Eftir mökun, snýr flugan aftur út á vatnið til að verpa og er nokkuð áberandi á yfirborðinu á meðan að á því stendur og fiskurinn oft nokkuð agressífur í flugunni.

Fljótlega eftir varpið deyr flugan og það er eins og hún hverfi þá sjónum veiðimanna, en ekki fisksins. Það getur verið erfitt fyrir okkur að greina fluguna þegar hún flýtur á vatninu, en fiskurinn sér hana tiltölulega vel og oft eru það stærri fiskarnir sem týna þær í sig af yfirborðinu. Verðum við varir við uppitökur að loknu varpi flugunnar, þá væri e.t.v. ekki úr vegi að bregða Elk Hair Caddis undir og sjá hvort við náum ekki einhverjum stórum, svöngum fiski.

Útsýnið yfir lækinn

Tweed
Tweed

Þær eru næstum ljóðrænar, lýsingarnar af yfirvegaða veiðimanninum sem nálgast lækinn hægum, varfærnum skrefum rétt áður en hann tyllir sér niður í öruggri fjarlægð og gjóir augum eftir vatnsborðinu. Ef við bætum nú tweed jakka, hnébuxum og sixpensara við, þá er komin mynd úr handbók hins heiðarlega veiðimanns frá fyrrihluta 20. aldar. Þetta er einhver elsti veiðimaður sögunnar, hann er nefnilega enn í fullu fjöri rúmlega 100 árum síðar. Að vísu er hann komin í önnur föt en háttarlagið er enn það sama. Hann er að skima eftir ummerkjum fiskjar í læknum. Fyrstu merkin eru auðvitað uppitökur. Ef engar uppitökur er að sjá, þá má alltaf skima eftir skordýrum; tegund, stærð og háttalagi, því þau eru fæða fisksins.

Þegar veiðimaðurinn hefur náð að kortleggja lækinn hvað varðar lífið og gróður þá er stór partur eftir; straumurinn. Eins og nærri má geta er straumurinn ekki eins um allan læk og ekki er allur straumur fiskinum þóknanlegur. Annars erum við svolítið heft að því leiti til að við sjáum bara yfirborðið. Það sem getur virkað sem ólgandi straumur í okkar augum er hreint og beint stöðuvatn þar sem fiskurinn liggur. Svo má ekki gleyma þeim stöðum þar sem straumurinn á yfirborðinu verður að engu eða þar sem ekkert verður að straum. Dýpið í læknum hefur mikil áhrif á það hversu hratt vatnið rennur eins og nærri má geta. Sama má segja um breidd lækjarins. Allur fiskur vill súrefni og umfram allt fæðu án þess að þurfa að djöflast of mikið til að ná henni.

Gömul vísa verður aldrei of oft kveðin, skimaðu eftir því sem ekki að sjá við fyrstu sýn. Fæðan berst með strauminum og stundum er meira að segja hægt að veiða andstreymis undan straumi. Ha? Jú, þar sem straumurinn fer fyrir nes eða tá, snýst straumurinn stundum við og þar safnast oft fiskur saman í æti sem hefur þjappast saman.

Ummæli

12.01.2014 – Veiði-Eiður:  Góður pistill Kristján!  Það sem stendur hvað mest upp úr frá s.l sumri er þegar ég fór í litla bleikjuá á norðurlandi. Var búinn að skima eftir veiðilegum stað en fann engan. Stoppaði svo við litla “breiðu” sem var nú ekki beint veiðileg. En úti í henni miðri var spegill, svona einskonar “læna”. Ég starði lengi á hana og ákvað að lokum að prófa að kasta andstreymis og viti menn, 26 gleyptu púpuna áður en ég fékk nóg. Það var merkilegt að ef ég kastaði til hliðar við spegilinn þá gerðist ekkert, en ef ég hitti akkúrat í hann þá var nánast alltaf fiskur á.

Svar: Já, þeir lifa lengi í minningunni þessir staðir og augnablik þegar maður hittir akkúrat á. Stundum eru það aðeins örfáar tommur sem skilja að veiðistaðina og ‘dauðahafið’.

Skolað

Þegar ekkert er að gerast á hinum enda línunnar verður maður að taka sig saman í andlitinu og leita skýringa. Ein nærtækasta ástæða gæftaleysis er röng fluga. Þá er ekkert annað að gera en skima eftir því sem er náttúrulega á ferli, já eða ekki lengur á ferli.

Skolað fæði
Skolað fæði

Í flæðarmálinu leynast ýmsar vísbendingar um það sem fiskurinn er að éta í það og það skiptið. Myndina hér að ofan tók í við veiðivatn hér í sumar, skömmu eftir að þokkalegur stormur hafði gengið yfir. Fersk fæða lá þar í hrönnum eftir að hafa skolað á land. Frá vinstri; þrjár tegundir snigla, vatnarækja og seiði. Til að gefa smá vísbendingu um stærð, þá var seiðið rétt um 3 sm að lengd.

En étur silungurinn þetta allt? Í þessu tilfelli er uppistaða fiskjar í þessu vatni bleikja. Ég hef svo sem ekki rekist á snigla í bleikju hingað til en þar með er ekki sagt að hún éti þá ekki. Þeir eru lindýr og leysast því mjög hratt upp í meltingarvegi fisksins. Ég hef það fyrir satt að Tékkar noti ákveðnar púpur vegna þess að þær líkjast svo mikið ákveðnum sniglum sem falla af bökkum lækja í vatnið. Því miður tókst mér ekki að finna mynd af umræddri púpu, en hún var alls ekki ósvipuð fyrstu tveimur sniglunum.

Ég treysti mér ekki til að greina rækjuna á myndinni en fundarstaður hennar (vatnið) liggur að sjó og því ekki útilokað að rækjur slæðist inn í vatnið á stórstreymi. Þarna hefði geta komið sér vel að eiga appelsínugula marfló eins og margir nota í Hraunsfirðinum.

Þó ég hafi hér aðeins smá sýnishorn þess sem ég fann í flæðarmálinu, þá var umfang snigla og seiða mjög mikið og greinilega ekki fæðuskortur á þessum slóðum.

Nýr matseðill

Með hækkandi meðalhita á Íslandi eykst fjölbreytileiki skordýra í náttúrunni. Sum þessara skordýra eru innflutt en aðrir eru innflytjendur upp á eigin spýtur. Það sem ég á við með þessu er að sum skordýr eru beinlínis fluttar inn í gámum af grænmeti, ávöxtum og svo því sem mörgum hrís hugur við; jarðvegi. Það er nefnilega fluttur inn töluverður massi af jarðvegi, já og sveppamassa sem í geta leynst egg og lirfur skordýra. Sum þessara skordýra eru ekki beint æskileg, hafa jafnvel valdið stórum skaða erlendis og við værum betur laus við. Má þar t.d. nefna Spánarsnigilinn sem hefur breytt úr sér nánast um allt land, garðeigendum til hryllingar. Innflytjendurnir eru aftur þeir sem berast hingað með vindum frá nálægum löndum og ekkert við því að gera. En ekki eru öll skordýr til ama. Sum þessara skordýra lenda á matseðli silungsins og því ættu þau einnig að lenda á gátlista okkar veiðimannanna. Enn sem komið er hefur stór innrás silungafæðu ekki birst hér á Íslandi, en þess getur vart verið langt að bíða ef fram fer sem horfir og við ættum að vera á tánum og vakandi fyrir nýjungum í fluguhnýtingum. Meðal áhugaverðra nýbúa á Íslandi er t.d. smávaxið fiðrildi, Birkikemba sem verðu lítið stærra en 5 mm að lengd og svo frændi hennar Birkifetinn sem getur orðið þrisvar sinnum stærri eða allt að 1,5 sm. Í sumar sem leið varð ég vitni að því þegar Birkifeti flæktist undan vindi út á Hlíðarvatn í Selvogi, bleikjunni eflaust til bragðbætis við allt mýið. Ég efast um að margir veiðimenn hér á landi eigi eftirlíkingu af Birkifeta í þurrfluguboxinu sínu.

Birkifeti
Birkifeti

Áhugavert efni um nýjar tegundir á Íslandi má finna á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Ætið: Galdralöpp

Galdralöpp

Galdralöpp eða Galdraflugan er nokkuð útbreidd um landið norðan- og vestanvert. Flugan er stærst þriggja flugna af hármýsætt sem finnast á Íslandi. Lengd hennar er um 1 sm. og vænglengd rétt þar um bil sú sama. Hinar tvær flugurnar af hármýsætt sem finnast á Íslandi eru; Þerrifluga (Þerrilöpp) og Sóttarfluga (Sóttarlöpp) sem eru öllu minni og útbreiddari sunnanlands og austan. Veiðimenn taka oft feil á þessum tegundum, enda mjög áþekkar.

Galdraflugan er auðþekkt af rauðum fótunum sem hanga niður af henni á flugi og hefur útlit hennar skotið mörgum ungliðanum skelk í bringu þó hún sé í raun meinlítil mönnum þá mánuði sumars sem hún er á ferli, þ.e. frá júní og fram í september. Lirfur flugunnar finnast ekki í vötnum eins og t.d. rykmýs eða bitmýs. Þess í stað lifa þær í rökum jarðvegi, jafnvel innan um rotnandi jurtaleifar og oft þá í töluverðu magni á afmörkuðu svæði.

Alþekkt er að sveiflur í stofninum séu nokkrar, e.t.v. ekki á milli ára en vel merkjanlegar yfir lengri tíma. Þegar þetta er ritað (2012) virðist sem stofninn hér á landi sé í góðri uppsveiflu og oft krökkt af flugunni á vötnum norðan heiða og á Vestfjörðum.

Black Zulu

Bibio – Hopper

Black Gnat

Ummæli

24.11.2012 – Hilmar: Hér er Þurrfluguútgáfan:

mbk, Hilmar

Svar: Já, einmitt. Nú varstu aðeins á undan mér, er með færslu á döfinni þann 27. einmitt með þessari 🙂

25.11.2012 – Hilmar: Obbosí, afsakið það. Þér er alveg frjálst að ritskoða / eyða ummælum frá mér, svo ég sé nú ekki að eyðileggja fyrir þér heilu pistlana eða færslur.

mbk, Hilmar

Svar: Ekki hafa neinar áhyggjur, mér er miklu meira í mun að menn láti álit sitt í ljósi, komi með leiðréttingar og láti aðeins í sér heyra. Ef einhver rekur augun í sama eða svipað efni og ég hef gert, þá er það bara staðfesting fyrir mig á því að ég sé ekki þessi ‘Palli’ sem var einn í heiminum að grúska á flugubloggum 🙂