Hver kannast ekki við þegar sólin er lágt á lofti og maður keyrir á móti henni? Ekkert sérstaklega þægilegt og ósjálfrátt pírir maður augun, fálmar eftir skyggninu, setur það niður og sólgleraugun upp. Þegar þið lendið í þessu næst og þurfið að stoppa á rauðu ljósi, prófið að skyggnast um og takið eftir því að eiginlega allir litir hverfa á milli ykkar og sólarinnar. Dökkir skuggar og form segja okkur miklu meira hvað er á ferðinni heldur en litir.
Kannski er ég alveg úti á túni með þessar pælingar, en þegar fiskurinn horfir á eftir mýpúpunni stíga upp á yfirborðið og umbreytast í fullvaxna flugu, þá ímynda ég mér hann svolítið svipað sjálfum mér á móti sól. Stærsti munurinn er sá að ég get pírt augun, hann ekki. Þessar pælingar mínar urðu til þess að ég skoðaði svolítið litaflóru þurrflugna og viti menn; það eru til þurrflugur sem veiða heil ósköp án þess að eiga sér nokkra fyrirmynd í lífríkinu.

Hefur einhver sér svona skordýr á Elliðavatni? Nei, vonandi ekki því þá hefur eitthvað stórkostlegt farið úrskeiðis í frárennslismálum í Kópavogi. Formið er nokkuð þekkt meðal skordýra, en litirnir eru eiginlega alveg út úr kú. Getur verið að fiskurinn sé bara að spá í formið og þess vegna veiðir Royal Coachman? Mér er sagt að grænn Coachman veiði ekkert síður en rauður og þá velti ég fyrir mér hvort al-svartur Coachman veiði og þá er ég að meina alveg svartur en hnýttur í Coachman-útlínum.
Kannski eru allir þessi litir á flugum meira fyrir veiðimanninn heldur en fiskinn, hver veit. Mér dettur aftur á móti ekki í hug að mælast til þess að menn hætti að hnýta Royal Coachman, Royal Wulff eða aðrar litskrúðugar þurrflugur. Eiginlega þvert á móti, hnýtið nú eins margar þurrflugur og mögulegt er og notið þær eins oft og ykkur sýnist næsta sumar.

Senda ábendingu