Ég hef áður sagt frá aðdáun minni á himbrimanum, þessum fisknasta fugli okkar. Í sumar sem leið hitti ég fyrir mann sem var hreint ekki á sama máli og ég. Himbriminn er eins og hvalurinn, étur og étur frá okkur fiskinn sagði hann eða eitthvað á þá leið. Síðan nefndi hann tölu yfir þau kíló sem einn himbrimi getur látið ofan í sig af silungi á einum degi, margfaldaði það svo með 365 og fékk út svimandi fjölda kílóa sem einn himmi getur látið ofan í sig. Því miður man ég ekki þessar tölur, en ég viðurkenni að mér brá við þær.

Þrátt fyrir þetta er ég ennþá mikill aðdáandi himbrimans og raunar allra annarra fugla sem veiða í vötnum landsins. Mér hefur alltaf þótt það góðs viti að fugl sé á vatni, helst í æti og nái hverjum fiskinum á fætur öðrum. Það kemur oft og iðulega fyrir að ég er ekki að veiða þar sem fiskurinn heldur sig og þá er ekki mikið annað að gera en skima í kringum sig á meðan flugan er dregin inn á milli kasta. Kemur þá fyrir að maður rekur augun í fugl; kríu, máf, himbrima eða lóm. Fylgist maður með atferli fuglsins, má gjarnan sjá hvar hann sækir æti og þá kemur auðvitað til greina að færa sig um set og nálgast staðinn sem fugli veiðir á eða setja sig niður í gönguleið fisksins sjái maður fuglinn færa sig eftir ákveðnu mistri eða slóð. Sé hann aftur á móti bara að lóna fram og til baka án þess að vera nokkru sinni með fiski í goggi, þá er hann væntanlega í sömu ördeyðunni og maður sjálfur. Svona getur fuglinn gefið manni vísbendingar eða verið manni huggun í gæftaleysinu.
Meira að segja litlu vaðfuglarnir geta hjálpað okkur að velja rétta flugu. Skyggnist maður eftir þeim við vatnsbakkann er eins víst að maður geti skoðað hvað þeir eru kroppa upp undan steinum, í gróðrinum eða bara í flæðarmálinu. Þá er lag að skipta um flugu, það sem er við bakkann er oft einnig á sveimi úti í vatninu, meira að segja skemur frá bakkanum en okkur grunar.