Örlítið meiri léttleiki

Það hefur eitthvað borið á vangaveltum hér um léttleika flugna og ég er ekki alveg hættur enn. Í flestum færslum um léttari flugur hef ég verið að velta mér upp úr straumflugum, en hvað með púpurnar? Er ekki einmitt kostur við púpur að hafa þær þungar? Koma þeim niður sem fyrst, þyngja þær með tungsten kúlum í yfirstærð þannig að þær sökkva eins og steinn?

Í mínum huga er svarið hreint og klárt þegar veitt er í straumi. Ég hef alveg reynt það sjálfur að tökum fjölgar þegar flugan kemst hratt og örugglega niður að fiski, einfaldlega vegna þess að allt þarf að gerast hraðar þegar veitt er í straumi heldur en vatnaveiði. Alhæfing? Já, alveg örugglega að einhverju marki, en til einföldunar óska ég eftir því að við höldum okkur við þessa alhæfingu og getum þannig haldið áfram og komist að því ætlaði upphaflega að koma á framfæri.

Veiði í tiltölulega kyrrstæðu vatni er einfaldlega allt önnur en veiði í straumvatni. Ég hef alltaf (reynt að) nálgast vatnaveiði í rólegheitum, hún er mín leið til að vinda ofan af mér og njóta þess að vera í veiði. Hér má ég til með að skjóta því inn sem skotið var á mig eitt sinn; Vatnaveiði er bara fyrir letingja, bæði þá sem eru fastir á bakkanum og þá sem halda á stöng. Mér fannst þetta fyndið, þetta var þannig sagt að ég gat ómögulega tekið þetta nærri mér. Það sem einn kallar leti, það finnst öðrum að njóta og þegar maður nýtur einhvers, þá liggur ekkert endilega mikið og nú er ég alveg að nálgast efnið.

Ef það liggur ekkert á að koma flugunni niður, þá finnst mér allt mæla með því að nota létta púpu. Rétt eins og léttari straumflugur, þá hreyfa léttari púpur sig eðlilegar í vatni heldur en þungar og það hlýtur að teljast ótvíræður kostur. Það er víst svo að hlutfallslega fá skordýr sem slugast þetta á botninum, eru silaleg og þung á sér, miðað við þau skordýr sem svamla um í rólegheitunum (letingjar?) eða kippast líflega til í vatninu. Þá má reyndar alveg benda á kosti þess að beita votflugu í stað púpu þegar ætið svamlar um, en það er önnur saga.

Nú ætla ég ekki vera með einhverja aldursfordóma, en það eru helst yngri veiðimenn sem hafa ekki hugmynd um hvernig léttar púpur líta út. Það er stór hópur veiðimanna sem þekkir aðeins púpur með kúluhaus, jafnvel tungsten kúlu og ýmsum brögðum beitt til að bregða þyngingu undir búkinn. Svo vita náttúrulega allir að mjóar púpur sökkva betur en þær bústnu.

Til að eignast léttari púpu er einfaldast að sleppa einhverju og bæta jafnvel einhverju öðru við þannig að kvikindið þurfi að hafa eitthvað fyrir því að sökkva. Það má t.d. sleppa kúlunni eða nota léttari kúlu, þetta segir sig eiginlega sjálft. Svo má sleppa því að vírvefja búkinn á nokkrum vel þekktum púpum eins og t.d. Pheasant Tail og nota bara þráð í staðinn. Púpan léttist trúlega um einhver 30 – 40% við að sleppa koparnum og mig grunar fastlega að hún verði enn líflegri í vatni fyrir bragðið.

Svo má ekki gleyma því að mjög margar púpur sem við þyngjum í drep í dag voru ekkert svona þungar þegar höfundar þeirra settu þær fyrst saman. Prófaðu að nota léttari púpur og ég er sannfærðum um að ef þú kemst upp á lagið með að veiða þær líflega, þá hættir þú að hugsa um letingja kommentið hér að framan. Það er virkilega líflegt að veiða léttar púpur.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com