Flýtileiðir

Létt og leikandi

Meira um léttar flugur! Já, ég er svolítið með þetta á heilanum þessi misserin og ekki skánar ástandið þegar kunningi æsir mann upp í að skrifa um léttar flugur í straumvatni. Það sem hann hafði í huga voru ekki léttar straumflugur, hvað þá votflugur því hann hefur enga trú á svoleiðis furðuskepnum eins og hann kallar þær. Nei, hann var með léttari púpur í huga vegna þess að nýlega lét ég þess getið að ég skildi vel að veiðimenn vildu þyngri púpur í straumvatni. Þessi kunningi minn veiði ekkert, hvorki á flugu né nokkuð annað. Að vísu er ég ekki að segja alveg satt, hann veiðir oft og iðulega, en þá aðeins með einhver grisjuháf í hönd til að fanga skordýr, þess vegna kalla ég hann ekki veiðimann (hér skortir glettni í ritað mál, því ég meina þetta hreint ekki).

Hann spurði mig sem sagt út í þetta dauðarek (e: dead drift) hvað það væri eiginlega sem veiðimenn sæktust eftir með þessu. Ég reyndi, af nánast fullkominni vanþekkingu, að skýra það út fyrir þessum kunningja mínum að markmiðið væri að láta ekki straum í vatni ná tökum á línunni, taumnum eða flugunni þannig að agnið ræki ekki óeðlilega hratt. Trúið mér, oft hef ég séð stór augu þegar ég læt eitthvað út úr mér, en þau augu sem mættu mér þegar ég lét þetta út úr mér voru með þeim stærri sem ég hef séð. Hvers vegna? spurði hann og ég reyndi að umorða skýringar mínar en var stoppaður í miðri setningu. Ég skil alveg, en hvers vegna? Nú var komið að mér að reka upp stór augu og ég spurði hvað hann eiginlega meinti, þetta væri auðvitað gert til að fiskurinn gæti ekki spottað að flugan væri ekki náttúrulega fæða og léti glepjast af henni.

-Aha, og hvað segir þér að náttúruleg fæða ferðist ekki undan straumi, jafnvel með meiri hraða en straumurinn? sagði hann og glotti. Ég þóttist alveg kannast við að á einhverjum tímapunkti losar skordýr tökin á botninum og leitar upp á yfirborðið, en gat það verið að það ferðist hraðar en straumurinn? Það stóð ekki á svarinu; Pottþétt, því þegar paddan leitar upp, þá annað hvort tekur hún frumstæð sundtök eða notar gasbólu undir skel eða aftan við haus til að létta sig. Allt sem er á hreyfingu í straum, með lægri eðlismassa en vatnið og meiri þéttni, það ferðast hraðar en straumurinn. Hann bætti að vísu við sá tími sem skordýrið losar tökin og svamlar um í vatninu, getur í besta falli talist augnablik í lífi þess, en ef veiðimenn vilja endilega líkja eftir hreyfanleika pöddunnar, þá ættu þeir líka að vera viðbúnir því að litla, hreyfingarlausa paddan á botninum taki á sprett í vatninu. Ef hún nær ekki upp að yfirborðinu í fyrstu atrennu, þá helmingast strax líkurnar á að henni takist það í annarri tilraun og hvert fer hún þá? Jú, með straumnum, kannski ekki nema hálf í kafi en að öllum líkindum undir yfirborðinu; Léttari púpur.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com