Fyrstu fyrst, eða….

Það getur kostað mig töluverða sjálfsstjórn að láta ekki vaða á fyrsta fiskinn sem ég kem auga á, hvort sem það er uppitaka, skvetta eða bara skuggi á botni. Þegar ég blaða í gegnum minningarbunkann minn, þá finn ég samt ekki eitt einasta tilfelli þar sem ég hef komið að vatni, séð fisk, kastað og fengið töku um leið. Þetta eitt ætti að kenna mér að taka mér meiri tíma þegar ég kem að vatninu. Þetta á ekki hvað síst við á vorin og snemma sumars þegar fiskurinn er ekki komin alveg í gang.

Ég las í vetur sem leið grein frá nágrönnum okkar í vestri, Kanadamönnum, þar sem vísindamenn höfðu kortlagt hvaða fiskur vaknar fyrst til lífsins á vorin, verður fyrst mest áberandi í vötnunum. Í stuttu máli, það eru stubbarnir sem skvetta sér mest og leita í það litla klak sem hefst snemma vors. Stóru drjólarnir halda sig mun lengur á botninum og fara sér rólegar, koma upp þegar sólin hefur yljað vatnið aðeins síðari hluta dags og eru þá gjarnan í síli rétt utan við og á grynningunum.

Fyrstir á fætur eru sem sagt stubbarnir sem geta ekki hamið sig, kíkja aðeins í sólina og láta öllum illum látum í þeirri flugu sem asnast til að klekjast snemma dags eða um hádegið. Fram að þeim tíma liggja þeir stærri og feitari aðeins lengur í bólinu og hafa auga með þeim litlu. Bíddu aðeins, þetta er nú bara ekkert ósvipað því hvernig ég hagaði mér um helgar hér um árið þegar guttarnir mínir ruku á fætur með látum áður en ég hafði einu sinni rænu til að opna annað augað.

Glaðbeittur fiskur
Glaðbeittur fiskur

Og sjá ……

Túpa
Túpa

Þar kemur ætið eða þannig sko. Augu fiska eru töluvert frábrugðin augum manna. Á meðan við þróuðumst í hálfgerða flatskjái þá eru augu fiska eins og gömlu túpusjónvörpin, kúpt sem henta mun betur til að sjá í vatni. Annars hafa fiskar álíka, ef ekki betri sjón heldur en við. Að vísu eru fiskar, vegna lögunar augnanna frekar nærsýnir og sjónsvið þeirra því töluvert styttra heldur en okkar, rétt um 15 metrar. Það er því ekkert bull þegar kastkennarinn okkar leggur ofuráherslu á nákvæm köst, við verðum að koma flugunni inn í sjónsvið fisksins ef hann á að sýna henni áhuga. Svo hefur staðsetning augnanna á hausnum töluverð áhrif á sjónsvið fisksins. Silungurinn er með augun nokkuð framvísandi og ofarlega á hausnum. Sjónsviðið er því best fram- og uppá við, síður til hliðanna. Raunar er því þannig farið að silungurinn er hvattur til athygli fyrst og fremst með þef-og bragðskyninu þar til bráðin er komin í árásarfæri, þá taka augun fyrst við.

Vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að fiskar gera greinarmun á rauðum, grænum, gulum og bláum litum. Aha, sem sagt þeir geta séð regnbogann í vatninu eða hvað? Jú, svona fræðilega séð gætu þeir það niður á 7-8 m dýpi. Þar fyrir neðan fara ákveðnir litir að síast út og litunum fækkar ört því neðar sem dregur og fiskurinn fer frekar að stóla á lögun og hegðun bráðarinnar heldur en útlit hennar.

Eins nærsýnn og með eins takmarkaða sjón og fiskurinn hefur er eins gott að hann blikki ekki augunum því þá gæti hann misst af bráðinni. Ég veit ekki alveg hve oft ég  hef tuggið þetta, en fiskar hafa ekki augnlok og geta því ekki blikkað augunum. Þess vegna er þeim alveg meinilla við skært sólarljós.

Fussum svei, mannaþefur….

sm_lyktÞó tröllkerlingar séu þefvísar, þá komast þær samt ekki í hálfkvisti við silunginn. Stórheilinn í fiskum sem er í kvörnum hans, vinnur fyrst og fremst með þefskynið, ekki ósjálfráðu hreyfingarnar eins og í okkur mönnunum. Það má því nærri geta hvort fiskurinn hafi gott lyktarskyn. Það er nokkuð misjafnt hve mikið fiskar stóla á þefskyn við fæðuöflun og vísindamenn greinir nokkuð á um vægi þef- og sjónskyns þegar kemur að fæðuleit laxfiska. Sumir halda því fram að sjónskyn ráði mestu í fæðuöflu en aðrir að þefskyn ráði meiru. Hið síðarnefnda er auðvitað sjokk fyrir þá sem því trúa og veiða á flugu en gæti skýrt hvers vegna maðka- og beituveiði gefur oft eins vel og raun ber vitni, það er jú meiri og væntanlega matarlegri lykt af maðki heldur en flugu. Öfgamenn í fluguhnýtingum, ef þeir eru þá til, hafa því lagt mikla áherslu á að vera ekkert með neitt í höndunum sem truflað getur lyktarskyn fisksins þegar þeir hnýta. Sumir ganga meira að segja svo langt að nota aldrei gerviefni við hnýtingar, aðeins náttúruleg hráefni. Hvað um það, lyktarskyn silungs getur náð hundruð metra í kyrrstæðu vatni og bætist straumur við þá margfaldast skynsviðið auðveldlega. Það er því e.t.v. engin tilviljun að laxfiskar sem ganga úr sjó nota mest lyktar- og bragðskyn til að rata upp í ánna ‚sína‘ þegar þeir hyggja á hrygningu.

Áttu heima í Bónus?

Fæðuleit
Fæðuleit

Asnaleg spurning, auðvitað á engin heima í Bónus. Meira að segja starfsmennirnir fara oftast heim til sín, nema þá helst rétt fyrir verslanahelgina sem sumir kalla jól. En hvað er ég eiginlega að fara með þessu bulli? Jú, ég er að velta fyrir mér stórum muni á mönnum og fiskum.

Búseta mannfólksins ræðst oft af fjölskylduhögum. Á barneignaraldri viljum við vera sem næst leikskólanum, svo grunnskólanum en færum okkur síðan aðeins til í hverfinu þegar börnin vaxa úr grasi og nándin við uppeldisstofnanirnar skiptir minna máli. Síðan hefur það orðið tilhneiging okkar að hópast saman á stofnunum fyrir heldriborgara þegar aldurinn færist yfir. En sama hver búsetan er, þá höfum við haldið í þann sið forfeðra okkar að draga fæðuna í náttstað okkar og neyta hennar þar, svona að mestu leiti.

Laxfiskar velja sér aftur á móti búsvæði á allt öðrum forsendum. Þeir búa sjaldnast nálægt leikskólanum, raunar stinga þeir ungviðið snemma af á lífsleiðinni og vitja þess aldrei aftur. Laxinn ferðast síðan langar leiðir frá fæðu til leikskóla, eru meira að segja sagðir ekki éta neitt á leið sinni á milli staða. Samt sem áður heldur hann til á ákveðnum stöðum í ánum. Hann velur straumharða staði á meðan frænka hans, bleikjan velur sér lygnustu staðina og urriðinn svamlar þarna einhvers staðar á milli. Nú er ég auðvitað að bera saman atferli laxfiska í ám og lækjum, ekki vötnum.

Einfalda myndin er þannig að laxinn velur sér strauminn og hreyfir sig afskaplega lítið, bleikja hreyfir sig mest og enn og aftur er Meðal-Jónin okkar, urriðinn. Fræðingar sem fylgjast með atferli laxfiska skipta þessum tíma gjarnan í tvo fasa; fæðuleit þegar hann bara bíður eftir því að geta étið og fæðunám þegar hann er að éta. Þegar hlutfall tegunda innan hvors fasa er skoðaður, þá hafa rannsóknir sýnt að 11,7% laxa hreyfa sig í fæðuleit, 12,7% urriða og 27,1% bleikju. Þegar fiskurinn er síðan komin í fæðuna þá hreyfa aðeins um 3,3% laxa sig, 8,8% urriða og 14,9% bleikju. Heimild: Fæðuatferli og búsvæðaval laxfiska í ám, Stefán Ó. Steingrímsson & Tyler D. Tunney, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólanum á Hólum.

En hvernig hjálpar þetta okkur við veiðarnar? Tja, þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör, ekki nema þá fyrir það eitt að ef við finnum ekki nákvæmlega staðinn þar sem fiskurinn er að éta (fæðunám) þá er helst að finna bleikjuna á flakki þegar hún er að leita (fæðuleit). Ef við finnum aftur á móti þeirra Bónus, þá er eins gott að við getum lagt fluguna nokkuð nákvæmlega fyrir fiskinn því hann hreyfir sig miklu minna í æti heldur en þegar hann leitar.

Ummæli

06.12.2013 – Valdimar SæmundssonVill þetta segja að laxinn sé að éta í ánum og sé þessvegna að hreyfa sig í fæðuleit?

Svar: Já, ekki get ég lesið annað út úr þessari rannsókn. Að vísu gæti rannsóknin tekið til fiska á s.k. ‘niðurgöngu’ tímabili þó þess sé ekki sérstaklega getið. Svo má alltaf velta því fyrir sér hve fjarskyldur Atlantshafslaxinn sé Kyrrahafslaxinum sbr. grein á Deneki frá því í fyrra sem má skoða hér. Hvað sem því líður, þá vitum við að lax bregst við agni í ám á Íslandi rétt eins og annars staðar í heiminum. Hvort það sé eingöngu af eðlislægri grimmd eða því að hann éti nú bara þrátt fyrir allt í ám einhvern hluta uppgöngu, læt ég ósagt. Það hafa sagt mér veiðimenn að lax éti örugglega ekkert á hrygningartímanum, meltingarfæri hans séu hreint ekki neitt, neitt á þessum tíma. Síðan hafa aðrir sagt mér, í hálfum hljóðum að þeir hafi nú fundið ýmislegt í maga laxa úr Íslenskum ám og í meira magni en svo að það hafi ‘slæðst’ upp í hann á leiðinni.

Skynjar hann titring?

Hávaðaseggur?
Titrari?

Það er engin vafi á því að fiskur skynjar titring og þrýstingsbreytingar miklu betur en við. Í roði fisksins á hliðum hans er rák sem hann notar til að skynja hreyfingu í vatninu og þrýstingsbreytingar. Svo næm er þessi hliðarrák fisksins að hún nemur hreyfingar annarra fiska og lífvera í allt að 100 m fjarlægð. Jamm, duglegustu kastarar eiga ekki einu sinni séns að felast ef þeir vaða ógætilega. Og svo megum við ekki vanmeta hvað bakkarnir geta borið mikinn titring með sér út í vatnið. Þótt okkur takist að felast á bak við stein svo hann sjái okkur nú örugglega ekki þá þurfum við ekki nema missa vatnsflöskuna í grjótið til að hann verði var við okkur. Ég tala nú ekki um ef menn fara í tiltekt á bakkanum eða hlaða vörður til að merkja góða veiðistaðinn.

En hvað með bátaumferð? Verður fiskurinn ekki var við bölvaðan hávaðan í utanborðsmótornum? Nei, í raun ekki, en hann verður örugglega var við lélegar legur, brotin skrúfublöð og allan annan titring sem utanborðsmótorinn getur haft í för með sér. Rafmagns utanborðsmótorar voru ekki fundnir upp vegna orkusparnaðar eða umhverfisverndar, þeir eru einfaldlega hljóðlátari heldur en bensínbullurnar.