Kafað í hegðun silungsins VII

Tökuvari er ekki það sama og tökuvari

Frá mínu sjónarhorni í vatninu virðast tökuvarar sem gerðir eru úr garni ekki fæla fiskinn eins mikið eins og þeir sem gerðir eru úr plasti eða eru gegnheilir. Mér sýndist fiskar heldur hrelldir eftir að gegnheill tökuvari lenti á vatninu. Ég veit ekki hvers vegna, kannski er það vegna smellsins sem heyrist þegar hann lendir. Vissulega litu gegnheilu tökuvararnir framandi út þegar þeir flutu framhjá á yfirborðinu. Garn-tökuvari leysir bæði vandamálin. Hann fellur hljóðlaust á vatnið og frá mínu sjónarhorni séð virtist hann samlagast vatninu betur. Hann virtist ‚náttúrulegri‘, ekki eins og ‚mannanna verk‘. Mismunandi litir virtust ekki skipta fiskinn neinu máli.

Kirk Deeter

Hér get ég samsvarað mig nokkuð vel með Kirk Deeter. Sumir tökuvarar minna meira á flotholt fyrir beituveiði heldur en tökuvara og engin furða að fiskurinn taki við sér (neikvætt) þegar sumt af þessu lendir á vatninu.

Kafað í hegðun silungsins VI

Skrautflugur virka

Ég veiði alltaf með tvær flugur á taum í púpuveiði. Fyrri (efri) flugan er skrautfluga, sem dæmi San Juan ormurinn eða Copper John. Síðan hnýti ég 30 til 45 sm. taumenda í hana og þar á endann minni flugu, góðgæti á botninn. Svona er byrjunarsettið mitt í straumvatni, stundum einnig í stöðuvatni. Í mjög hægur og tæru vatni nota ég tvær litlar flugur.

Kenningin er að fyrri flugan grípi athygli fisksins sem athugar málið þá betur og rekur þá augun í þá síðari og hremmir hana. Hljómar svolítið langsótt, en ég varð vitni að þessu. Ég staðsetti mig á botninum um það bil 4 fet fyrir neðan og örlítið til hliðar við stóran regnboga. Mardick kastaði og ég fylgdist með fiskinum þar sem flugan greip athygli hans, hann snéri sér við og synti framhjá mér eins og til að undirstrika „Bíddu, ég kem að vörmu, þarf bara að tékka aðeins á þessu“. Hann fylgdi þeim eftir (lítilli steinflugulirfu og litlum rauðleitum Copper John) en ákvað greinilega að gefa þeim líf og snéri til baka á nákvæmlega sama stað og hann lagði upp frá. Í næsta kasti flutu flugurnar rétt framhjá mér, fiskurinn tók á rás á eftir þeim og hvarf mér sjónum. Skömmu síðar kom hann til baka á staðinn sinn. Eftir þriðja kastið setti fiskurinn aftur kúrsinn á eftir flugunum, en í þetta skiptið kom hann ekki aftur. Ég fór upp á yfirborðið og sá Mardick og Bartkowski með regnbogann í netinu. Hann hafði hremmt neðri fluguna, fangaður af forvitninni.

Kirk Deeter

Ummæli

Ónafngreindur – 15.janúar 2012

Svona af því að þú ert að fjalla um tvær flugur á sama taum þá sendi ég VoV sumarið 2010 smá sögu sem kom meðal annars inn á þetta svið:

“Ég fór um daginn tvo daga í röð og fyrri daginn var ég með Peacock á beinum öngli og Pheasant tail á bognum öngli(ég er með tvær flugur á taumnum) og tóku allir fiskarnir Peacockinn. Daginn eftir var ég með Peacock á bognum öngli en Pheasant tail á beinum, þann daginn tóku allir fiskarnir Pheasant tail púpuna. Merkilegt hvað svona smáatriði geta skipt miklum sköpum.”

Þetta var í urriðavatni og í öllum veiðiferðum mínum það sumar veiddi ég mun betur á flugur á beinum öngli heldur en grubber öngli. Skipti þá litlu máli hvort beini öngullinn væri sá efri eða neðri.

Hérna er öll fréttin: http://www.votnogveidi.is/aftheying/veidisagan/nr/3439, þarna sést reyndar hvað maður veit lítið, ég efaðist um að það væru stærri fiskar en 50 cm í ánni en núna í sumar fékk ég þónokkra milli 50 og 60 cm og missti enn fleiri! Annaðhvort hef ég skánað sem veiðimaður eða fiskurinn stækkaði rosalega hratt milli ára

Frábær síða hjá þér, ein af sárafáum veiðisíðum með einhverju lífi yfir veturinn!

Kafað í hegðun silungsins V

Straumurinn setur stærðina

Þegar fiskurinn einblínir á ákveðið skordýr reynir þú að finna þá flugu sem passar best við stærð þess, lit og svo framvegis. Þetta eru engin geimvísindi. En þegar tækifærissinnaður silungur er annars vegar, þá ættirðu að nota stærri flugu í hröðu vatni.

Hér er sönnun þessa sem við öfluðum í Shawnee ánni í Colorado. Efst í flúðunum var mikill hraði í vatninu þar sem það þrengdi sér í rennu, en fyrir neðan kyrrðist það verulega í breiðu.

Í hraða vatninu horfðum við á það í myndavél þegar Hyatt krækti í nokkra með #12 San Juan ormi og #14 Prince nymph. Fiskurinn kom auga á þessar flugur en hafði skemmri tíma til að gaumgæfa þær í hröðu vatninu og gerði því hvatvísari árás á þær. Fyrir neðan í ánni, þar sem vatnið var lygnara voru stóru flugurnar ekki að veiða. Við urðum að fara niður í #20 með RS2 til að fá töku (sem var ekki einu sinni sannfærandi, við vorum í vandræðum með að staðsetja myndavélina án þess að hræða silunginn). Meiri straumur leyfir þér að komast upp með stærri flugur því stundum týnast þessar litlu títlur einfaldlega í strauminum.

Kirk Deeter

Fyrir þá sem áhuga hafa á að kynnast betur greinum og umfjöllun Kirk Deeter skal bent á að netið geymir ógrynni greina eftir hann, meðal annars vefsíða Field & Stream.

Kafað í hegðun silungsins IV

Grannir taumar eru ekki ‘möst’

Ég mun aldrei nota 6X eða grennri taum oftar. Í það minnsta ekki í straumvatni og alveg örugglega ekki í púpuveiði. Ég horfði á fisk renna jafnt á stórar flugur í sverum taum eins og litlu flugurnar í grönnum taum. Sjálfur sá ég 6X tauminn alveg eins augljóst og 3X. Allt í góðu, ég er ekki fiskur (aðeins blaðamaður sem þykist vera einn þeirra), en ég held að þetta skipti silunginn meira máli. Þetta reyndist í það minnsta tilfellið þegar áinn bar línuna, segjum eitt fet á sekúndu. Þú getur alveg nýtt kosti þess að vera með sterkari taum.

Kirk Deeter

Og enn heldur Kirk Deeter áfram og tók hér fyrir tauma og hvernig þeir koma fiskinum fyrir sjónir. Hér skilur kannski aðeins meira á milli vatnaveiði og veiði í ám, því þar sem vatn er kyrrt og tært er fiskurinn væntanlega taumstyggari heldur en í rennandi vatni.

Kafað í hegðun silungsins III

Syndandi silungur ‘rúlar’

Þú getur aukið líkurnar á veiði með því að eltast við rétta fiskinn. Hvað er ég að fara? Segjum sem svo að þú hefur komið auga að þrjá fiska. Tveir af þeim eru eins og límdir við botninn, hreyfast sára lítið á meðan sá þriðji eins og dormar í miðjum vatnsbolnum, sveiflar sporðinum til hliðanna, auðvitað étandi. Þetta er sá sem þú ætti að eltast við.

Eitt sinn var Mardick að kasta á hóp fiska, en aðeins einn þeirra var staðsettur þar sem ætið var að finna. Í staðinn fyrir að reyna endalaust við fiskana á botninum, létti hann fluguna þannig að hún flyti í miðjum vatnsbolnum. Auðvitað hremmdi fiskurinn fluguna í fyrsta kasti. Þetta gerðist aðeins fáein fet, beint fyrir framan mig.

Allt of margir veiðimenn gera þau mistök að eltast við stóra fiskinn. Ef sá stóri hefur sökkt sér niður, ertu að eyða tilvöldu tækifæri. Taktu þann sem er örugglega að éta, þú getur alltaf aukið við þyngdina síðar og pirrað sjálfan þig út yfir öll mörk með því að eltast við stóru fiskana á botninum.

Kirk Deeter

Kafað í hegðun silungsins II

Þú missir af fjölda fiska

Einn besti leiðsögumaður í Colorado, Jeremy Hyatt prófaði púpuveiði með tökuvara. Ég sá hvar fiskurinn sogaði púpuna upp í sig og spítti henni aftur út úr sér eins og sólblómafræi. Hyatt sá aldrei hreyfingu á tökuvaranum, hvað þá að hann fyndi tökuna sjálfa. Hið fullkomna ‚dauða rek‘ þar sem púpan flýtur í vatninu án nokkurra áhrifa frá línu eða taum varð til þess að fleiri fiskar tóku en mistökum fjölgaði vegna slakans á línunni. Jafnvel bestu veiðimenn missa af meira en helmingi allra taka.

Upp á grínið fékk ég félaga minn, Antony Bartkowski til að kasta alveg skv. bókinni, vippa eftir kúnstarinnar reglum, en telja síðan aðeins upp að þremur og reisa þá stöngina eins og hann hefði fengið töku. Og viti menn, hann veiddi nokkra urriða með þessum hætti. Næst prófuðum við afbrigði af evrópskri púpuveiði. Veiðimaðurinn notar mikið þyngdar púpur, kastar beint upp í strauminn og beinlínis dregur fluguna niður ánna. Ég sá færri tökur, en veiddum fiskum fjölgaði.

Hvor er þá betri; brúnn eða bleikur? Góð málamiðlun væri að geta notað dautt rek, en með meiri tilfinningu fyrir ör-tökunum sem venjulega fara framhjá okkur.

Kirk Deeter

Kirk Deeter er ekki aðeins ritstjóri Field & Stream heldur og prýðilegur rithöfundur. Ein mest umtala handbók veiðimanna hin síðari ár The Little Red Book of Fly Fishing sem hann skrifaði í samvinnu við Charlie Meyers hefur vermt toppinn á öllum helstu vinsældalistum veiðimanna frá því hún kom út á síðasta ári, skildulesning veiðimanna.

Kafað í hegðun silungsins I

Einhver besta grein sem ég hef rekist á um hegðun silungs undir áreiti veiðimanns birtist í tímaritinu Field & Stream árið 2007. Höfundur greinarinnar, ritstjórinn Kirk Deeter ásamt félögum sínum tók sig til og kannaði í eins mikilli nálægð og unnt var, hvernig silungurinn hagar sér í vatninu á meðan við stöndum á bakkanum og reynum að fanga hann á flugurnar okkar. Svo frábærar fundust mér þessar greinar að ég setti mig í samband við Kirk og fékk leyfi hans til að þýða greinina og birta hér á blogginu hjá mér. Afraksturinn birtist hér og svo næstu 9 vikur.

„Ég er 6 feta árásargjarn urriði, lúri við botninn í South Platter ánni í Colorado. Vatnið er frábært, ekki of mikið og ekki of lítið, 9°C og silfurtært. Ég held kyrru fyrir með hinum silungunum og fylgist með pöddunum fljóta hjá. Eina þeirra rekur framhjá rétt við hausinn á mér. Ég sný mér til að virða hana betur fyrir mér og….. húkkaður. Ég syndi upp að yfirborðinu og hræki út úr mér agninu. „Fjárinn Bruce, þú kræktir í mig aftur.“ Ég er að kanna hvernig silungurinn hagar sér og hvað hann gerir undir yfirborði árinnar. Og besta leiðin til að komast að þessu er, held ég, að taka á mig líki fisksins þannig að ég tók fram köfunargræjurnar og stökk útí. Þetta er það sem ég lærði:“

Falsköst rústa veiðinni

Mér tókst að renna mér út í strauminn án þess að styggja einn einasta silung. Þér létu sig loftbólurnar engu skipta, svo fremi ég hreyfði mig rólega. En um leið og Tom Romano ljósmyndari færði myndavélabómuna, jafnvel hægt og rólega yfir vatnsfletinum, þá hörfuðu fiskarnir í angist. Á einum tímapunkti bar skugga á vatnsflötinn og ég horfði á fiskana sökkva sér niður á milli steinanna á botninum. Þegar ég kom upp á yfirborðið spurði ég hvað hefði komið fyrir og strákarnir sögðu mér að bláhegri hefði flogið yfir ánna.

Þessu til áréttingar fylgdist ég með félaga mínum, Bruce Mardick taka nokkur falsköst yfir fiskinum. Þegar hann slæmdi línunni fram og til baka, beinlínis trylltust silungarnir og földu sig undir gagnstæðum bakka árinnar. Eftir að hafa leyft fiskinum að jafna sig, byrjaði hann aftur en nú með færri falsköstum, jafnvel veltiköstum sem ekki virtust fæla fiskinn. Niðurstaða: þú færð séns á einu, kannski tveimur falsköstum áður en fiskurinn verður var við þig. Reyndu að halda köstunum aftan við eða til hliðar við fiskinn, leyfðu aðeins síðasta falskastinu að beinast að fiskinum sjálfum.

Kirk Deeter

Þess má síðan geta að þeir félagar, Kirk Deeter og Tom Romano ritstýra einnig veftímaritinu Angling Trade þar sem finna má ýmsar ágætis greinar, alveg þess vert að gerast áskrifandi, ókeypis.

Sjóbleikja

Sjóbleikjan er frábrugðin vatnableikjunum að því leiti að hún dvelur öll sumur eftir að seiðastigum sleppir í sjó. Beikjan gengur í sjó í apríl eða maí og dvelur þar allt sumarið. Þegar sumri hallar og fram á haust gengur fiskurinn aftur í árnar þar sem hann hryggnir í september og október. Klakið á sér stað snemma vors, frá mars og út maí. Rannsóknir hafa sýnt að ókynþroska fiskur gengur síðar upp í ár heldur en sá kynþroska. Þannig má segja að ókynþroska fiskur dvelji að jafnaði lengur í sjó heldur en sá kynþroska. Þar á móti kemur að kynþroska fiskur gengur fyrr til sjávar heldur en seiðin sem eru að fara í fyrsta skiptið. Búsvæði sjóbleikju er helst fyrir norðan og austan land, einna helst þar sem sjóbirtingur er ekki.

Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com

Urriði

Almennt skiptist urriðastofninn á Íslandi í tvennt; staðbundin urriði og sjóbirtingur. Staðbundin urriði er gulleitur/brúnn á lit, meðan sjóbirtingur er silfurgljáandi og hvítur á kvið.

Vatnaurriði Ísaldarurriðinn er sá urriði sem að stofninum til tók sér bólfestu í Íslenskum ám og vötnum við lok síðustu ísaldar fyrir u.þ.b. 12.000 árum. Sjógenginn urriði (sjóbirtingur) lokaðist inni í vötnum á núverandi hálendi Íslands, m.a. vegna landris og annarra jarðfræðilegra breytinga. Þetta er m.a. skýringin á því af hverju Þingvallaurriðinn og Veiðivatnaurriðinn eru eins skyldir og raun ber vitni. Útbreiðsla Ísaldarurriðans hefur þó raskast nokkuð með tilkomu seyðasleppinga í ýmiss vötn utan þeirra upprunalegu. Í lang flestum tilfellum gengur urriðinn upp í ár og læki þar sem hann hryggnir í september og október. Hrognin klekjast síðan með vorinu, frá byrjun mars og fram í lok maí. Auðvitað eru þessar tímasetningar misjafnar eftir legu vatna. Seiðin ganga síðan niður í vatnið eftir 2 – 4 ár í straumi. Kynþroska verður fiskurinn 3 – 4 ára.

Sjóbirtingur Svo virðist vera sem gönguhegðun sjóbirtings taki á sig form hjá 2 – 5 ára gömlum fiskum. Hryggning og klak sjóbirtings á sér stað á svipuðum tíma og hjá vatnaurriðanum. Fiskurinn heldur kyrru fyrir í ám og lækjum fyrstu árinn að jafnaði örlítið lengur en vatnaurriðinn. Fiskurinn dvelur 4 – 5 mánuði í sjónum áður en hann snýr aftur til vetursetu í ferskvatni, yfirleitt í ágúst – september. Þessari gögnuhegðun heldur hann þaðan í frá allt sitt líf.

Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com

Murta

Murta finnst víða á Íslandi. Murtan, líkt og sílableikjam er rennilegur fiskur með fremur oddmjótt trýni og er neðri skolturinn jafn langur eða styttri en sá efri. Ekki er óalgengt að menn taki murtu í misgripum fyrir smávaxna sílableikju og stimpli hana sem eitthvert kóð og sleppi. Meðal nokkurra þekktra murtuvatna á Íslandi eru; Þingvallavatn, Vesturhópsvatn, Skorradalsvatn og Langavatn. Stærð murtu er mjög mismunandi, allt frá 12 til 30 sm. og verður hún kynþroska 4 – 6 ára. Hryggna murtunnar breytir lítið um lit á hryggningartímanum, en hængurinn dökknar töluvert. Hryggning á sér stað síðari hluta september og fram í miðjan október, nokkuð mismunandi eftir landshlutum.

Murta úr Þingvallavatni
Murta úr Þingvallavatni

Sílableikja

Sílableikjan er silfruð með ljósum doppum. Hún heldur sig mest á botninum, frekar djúpt og þá helst innan um botngróður á 10 – 30 m dýpi. Þrátt fyrir þetta má almennt vænta sílableikju á nánast öllum búsvæðum bleikju. Sílableikjan dökknar mikið á höfði, hliðum og baki á hryggningartímanum og líkt og kuðungableikjan, roðnar hún á kviði. Fiskurinn verður kynþroska 6 – 10 ára og hryggning stendur yfir allt frá september og fram í nóvember.

Sílableikja – Náttúrufræðistofa Kópavogs – natkop.is

Kuðungableikja

Kuðungableikjan er með dökkt bak og silfraðar hliðar. Á hryggningartímanum roðnar kviður bleikjunnar all verulega og getur orðið dökk appelsínugulur. Þrátt fyrir nafnið lifir kuðungableikjan ekki aðeins á kuðungi, heldur leggur sér einnig til munns mý, hornsíli og ýmiss botnlæg dýr. Kynþroska verður fiskurinn 6 – 10 ára og er þá á bilinu 25 – 50 sm að lengd. Bleikjur, ólíkt öðrum laxfiskum, hryggna að öllu jöfnu í vatni, ekki ám eða lækjum. Hafi hryggning átt sér stað í straumvatni, ganga seyðinn strax í næsta vatn um leið og þau klekjast. Hryggning á sér að öllu jöfnu stað í júlí – ágúst. Klaktími er nokkuð misjafn, alveg frá því í janúar og fram í júli, allt eftir hitastigi, stærð eggja og umhverfisaðstæðum hverju sinni.

Kuðungableikja

Dvergbleikja

Dvergbleikja er smæst þeirrar bleikju sem finnast á Íslandi. Kynþroska verður fiskurinn 2 – 4 ára og er á bilinu 7 – 24 sm að lengd. Hryggningartími dvergbleikju er mjög mismunandi eftir landshlutum, ág.- sept. fyrir norðan land, mánuði síðar sunnanlands. Dvergbleikja heldur sig á grynningum eða efri hluta botnsins og lifir mest á kuðungum. Hún er sá stofn bleikju sem virðist vera bundin í útliti seyðis um allan aldur; er kubbsleg í vexti, dökkleit, oft brún og hliðarnar alsettar gulleitum depplum.

Dvergbleikja

Regnbogasilungur

Regnbogasilungur lat: Oncorhynchus mykiss á sér ekki náttúruleg heimkynni á Íslandi en var fluttur hingað til eldis um miðja síðustu öld. Eitthvað er um að regnbogasilungi sé/hafi verið sleppt í vötn á Íslandi en hann á afar erfitt með að koma seyðum á legg þar sem hann, ólíkt öðrum silungi í Evrópu, hryggnir að vori en ekki hausti.

Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com