Veður hefur töluverð áhrif á allar skepnur, bein og óbein. Þegar það er rigningarsuddi og vindur, kalsi eins og það heitir, þá hefur það áhrif á veiðimenn ekkert síður en fiska og í einfeldni minni þá á ég það til að heimfæra mína upplifun beint á fiskinn; Æ, hann er ekkert að hreyfa sig í þessu roki eða Hann er ekkert á ferðinni í þessum kulda.
Stærsti munurinn á okkur, þ.e. mannskepnunni og fiskunum, er að við erum með heitt blóð en þeir kalt þannig að við bregðumst að öllu jöfnu fyrr við sveiflum í hita heldur en þeir. Og viðbragðið okkar er allt annað en þeirra, við höfum þann möguleika að fækka fötum í hita eða klæða okkur betur í kulda en þau úrræði hefur fiskurinn ekki. Ef hitastigið í vatninu verður eitthvað of hátt, þá leitar hann í kaldara vatn. Ef hitastigið í vatninu er of lágt, þá leitar hann í heitara vatn eða hægir á líkamsstarfseminni ef það finnst ekki. Kjörhitastig bleikju er nokkuð lægra heldur en urriða, 5 -12°C á móti 10 – 18°C hjá urriðanum. Ekki rugla þessum tölum saman við það hitastig eða öllu heldur þann lága hita sem þarf til að fiskurinn dragi verulega úr líkamsstarfsemi sinni og leggist í dvala. Eins má ekki gleyma því að kjörhitastig, þ.e. hvenær bleikja er hve virkust er afar mismunandi eftir stofnum hennar þannig að þessar tölur eru ekki heilagar.
Loftþrýsting þekkja fiskar ágætlega án þess að hafa endilega útbúið sér einhver hugtök yfir mismunandi þrýsting eins og við mennirnir. Hæð yfir Grænalandi og lægð við Færeyja er eitthvað sem maður tók inn með móðurmjólkinni og fagnaði því lengra í burti sem lægðin færði sig, svo lengi sem hæð var í grennd. Í stuttu máli þá er hæð einfaldlega svæði með hærri loftþrýsting heldur umhverfið og hérna megin á kúlunni blæs vindurinn um þær réttsælis Lægð er aftur á móti svæði með lægri loftþrýsting heldur en svæðið umhverfis og vindur gengur rangsælis
um þær. Lægðum fylgir gjarnan óstöðugt veður, hvassir vindar, skýjað og úrkoma. Hæðir bera með sér stöðugra veður og oft heiðríkju. En hvað hefur þetta með fiskinn að gera?
Breytingar á loftþrýstingi hefur meiri áhrif á fiska með tiltölulega stóran sundmaga heldur lítinn. Laxfiskar (urriði, bleikja og lax) eru einmitt þannig og það sem meira er, þeir eru með lokað kerfi sundmaga. Fiskar leitast við að halda jafnvægi eðlisþyngdar, þ.e. þyngd vs. ummál. Ef þrýstingur lækkar, þá þenst gasið í sundmaganum út og eðlisþyngd hans minnkar. Fiskurinn bregst yfirleitt við þessu með því að eyða orku í að færa sig niður á meira dýpi, ummál sundmagans minnkar og eðlisþyngdin réttist af. Það tekur smá tíma fyrir fiskinn að færa gas úr sundmaganum yfir í blóðrásina en þegar það hefur gerst, þá getur hann fært sig til í vatnsbolnum að vild. Eftir stendur að orkan sem hann notaði í að færa sig niður í vatnsbolinn er glötuð og eðlileg viðbrögð fiskins eru að afla sér fæðu, vinna upp tapið. Meðal annars þess vegna er oft töluverður hasar í fiski eftir að loftþrýstingur hefur lækkað skyndilega og fiskurinn hefur jafnað sig og hann leitar þá gjarnan upp í vatnsbolinn, eltir það sem lægðarvindurinn nær að draga saman og róta upp.

Ef loftþrýstingur hækkar skyndilega, þá dregst sundamaginn saman, ummál fisksins minnkar og þar með eykst eðlisþyngd hans og hann í raun sekkur á meira dýpi án þess að hafa nokkuð fyrir því. Fiskurinn tapar engri orku við þetta og getur fært gasið úr blóðrásinni yfir í sundmagann í rólegheitunum ef honum sýnist svo og fært sig áreynslulaust aftur upp að yfirborðinu. Ef svo ber undir, þá virðist fiskurinn yfir höfuð vera heldur rólegri í háum loftþrýstingin. Í mörgum tilfellum hefur fiskurinn ekki einu sinni fyrir því að færa sig upp að yfirborðinu, með hæðinni kemur jú oft heiðskýrt veður og sól sem hann hefur engan áhuga á, leggst því við botn og hreyfir sig lítið sem ekkert.

Vitaskuld er ekki öll veðurfarssagan sögð með þessum orðum, en í grunninn snýst þetta um að halda eðlisþyngd í breytilegum loftþrýstingi. Hvað breyttur loftþrýstingur hefur í för með sér hvað varðar fæðu, er allt annað mál. Þegar fæðan fer á stjá þegar vatnið hefur hitnað í heiðríkjunni eða súrefnisinnihaldið aukist skyndilega í lægðarrigningunni, þá hefur fiskurinn þegar náð jafnvægi og þarf ekkert að fórna miklu til að geta farið á stjá. Fylgjumst vel með fallandi loftþrýstingi, hann getur verið ávísun á fjör.
Senda ábendingu