Urriða- og laxaseiði eru oft samkeppnisaðilar um æti í vistkerfum sem þessar tvær tegundir laxfiska deila. Skyndileg fjölgun af annarri tegundinni getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir afkomu hinnar tegundarinnar. Hér að neðan gefur að líta lífsferil urriða sem elst upp í lokuðu vistkerfi, stöðuvatni, og tekur ekki upp sjógönguhegðun.
Algengast er að urriði hrygni í ám eða lækjum, en við heppileg skilyrði getur hann hrygnt í stöðuvötnum. Oftast er hrygningartímabil urriðans frá því í byrjun september og fram undir lok október. Dæmi eru þó til um að urriði hrygni alveg fram í janúar.
Hrogn urriðans klekjast út í mars og fram í maí, allt eftir hitastigi vatnsins. Kviðpokaseiði urriðans hafa skamma viðdvöl í hrygningarmölinni, aðeins tvo mánuði að jafnaði og halda þá út í vatnsbolinn, stöðuvatn eða straumvatn. Smærri seiðinn halda þó til í lygnara vatni að jafnaði, en með auknum vexti eykst fæðuþörfin og seiðin færa sig út í straumþyngra vatn eða út í stöðuvötn þar sem fæðuframboð er meira.
Almennt verður urriðinn kynþroska á fimm til sjö árum, en fjölmörg dæmi eru um afar seinþroska urriða sem verða ekki kynþroska fyrr en sjö til átta ára.
Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980.
Hin síðari ár hafa ýmsar rannsóknir farið fram á lífsferli heimskautableikjunnar. Þessi sérstaki stofn lifir aðeins á norðurhveli jarðar og er sú ferskvatnstegund sem hefur nyrsta útbreiðslu. Síðustu áratugi hefur áberandi breyting orðið á vistkerfi norðurhvels jarðar og sterkar vísbendingar eru um að bleikjan sé sífellt að færa sig norðar og norðar á hvelið eftir því hvernig hlýnun jarðar vindur fram. Fyrstu sterku vísbendingarnar um þessar breytingar má merkja í atferli sjóbleikju. Hér gefur að líta lífsferill bleikju sem elst upp í ferskvatni en tekur upp flökkueðli sjóbleikju um tíma eða öll sín fullorðinsár.
Frumbernska sjóbleikjunnar er í engu frábrugðin þeirrar staðbundnu þar til göngumunstur gerir var við sig hjá hluta stofnsins. Eins og áður hefur verið getið, þá getur bleikja sem á staðbundna foreldra tekið upp á því að ganga til sjávar hvenær sem er á lífsleiðinni, svo fremi hún hafi vöxt og tækifæri til sjógöngu. Það eru fyrst og fremst líkamlegir burðir bleikjunnar sem ráða því hvenær á lífsleiðinni hún gengur fyrst til sjávar.
Frá náttúrunnar hendi er bleikjan þó undir það sett að geta aðeins lifað í nokkrar vikur í senn í fullsöltum sjó, yfirleitt fjórar til sex vikur, að hámarki átta vikur. Það vekur þó athygli að þessi eiginleiki hverfur ekki hjá bleikjunni þótt kynslóðir ákveðins stofns hafi eingöngu alið aldur sinn í ferskvatni. Opnist leið til sjávar úr einöngruðu lífkerfi getur bleikjan, líffræðilega séð, tekið upp á því að ganga til sjávar og það sem meira er, hún gerir það.
Sjógönguhegðun bleikju er ekki bundinn við kynþroska fisk, geldfiskur gengur einnig til sjávar, en almennt hefur bleikjan ekki sjógöngu fyrr en hún nær 18 – 26 sm lengd. Kynþroska fiskur gengur til sjávar um leið og fyrstu ísa leysir og geldfiskurinn fylgir fast á eftir. Að sama skapi hverfur kynþroska fiskur fyrst til uppruna síns til þess að hrygna, geldfiskurinn nokkru síðar. Dæmi eru raunar um ákveðin vatnasvæði þar sem mjög óljós skil eru á milli sjávar og ferskvatns og þar virðist bleikjan vera á sífelldu rápi á milli svæða, að öllum líkindum lætur hún æti stjórna för. Yfirleitt heldur sjóreiður sig í innan við 50 km fjarlægð frá heimahögunum, en einhver dæmi eru um tvö eða fjórfalda þá vegalengd sem hún fer í sjó. Að vori étur bleikjan helst rauðátu (krabbadýr sem er 2 -3 sm að lengd) en þegar líður á sumarið fækkar rauðátu og þá færir bleikjan sig yfir í önnur krabbadýr, marflær og aðra hryggleysingja, jafnvel smáfisk (síli). Vöxtur bleikju í sjó er mjög hraður eða um 70% á hverju sumri, mestur hjá geldfiski og getur numið 6 – 10 sm. Hratt dregur úr vaxtarhraða bleikju við kynþroska og er hann þá ekki nema 0,5 – 6 sm.
Sjóganga bleikjunnar er nokkuð regluleg eftir að hún hefst, en kynþroska fiskur á það þó til að sleppa stöku ári úr og halda sig eingöngu í ferskvatni það árið. Flækingar sjóbleikju eru þekktir og eru það geldfiskar sem ganga ekki endilega upp í heimaá sína úr sjó, en þegar kynþroska er náð þá ganga þær nær undantekningalaust aftur upp í sína heimahaga og hrygna þar.
Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980.
Lífsferill bleikju og urriða getur verið öllu flóknari heldur en laxa. Rannsóknir hafa sýnt að erfðafræðilegir þættir virðast ekki ráða því hvort afkvæmi bleikju verði staðbundin eða ganga í sjó. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt fram á að bleikja getur verið staðbundinn langt fram eftir aldri, en þegar ákveðinni stærð er náð, þá tekur hún upp á því að ganga til sjávar í nokkurn tíma, gerir jafnvel hlé á gönguhegðun í einhvern tíma en tekur hana upp aftur síðar. Hér gefur að líta lífsferil bleikju sem elst upp í lokuðu vistkerfi (vatni) og er því staðbundinn allt sitt líf.
Lífsferill staðbundinnar bleikjur er í meginatriðum afskaplega einfaldur. Staðbundinn bleikja hrygnir að öllu jöfnu í stöðuvatni en getur einnig valið sér lygnari ár og læki ef því er að skipta. Bleikjan hrygnir yfirleitt á bilinu september og fram í desember, afar misjafnt þó eftir stofnum og það eru jafnvel til dæmi um stofna sem hrygna í janúar og febrúar. Aðlögunarhæfni bleikjunnar er orðlögð og dæmi eru um að hún hrygni á allt að 100 m dýpi. Hrogn bleikjunnar eru á bilinu 3 – 5 mm, fjöldi þeirra afar misjafn en að jafnaði hrygnir stærri fiskur stærri hrognum. Hrognin klekjast yfirleitt á bilinu mars – maí og kviðpokaseiðin dvelja í einn mánuði í mölinni og fæða þeirra er aðallega smádýrasvif og smálirfur vatnaskordýra. Stærð kviðpokaseiða er u.þ.b. 1,5 en þegar þessu stigi lýkur færa seiðin sig út í vatnsbolinn og halda sig til að byrja með í botnlagi vatnsins en færa sig síðan upp og dreifa sér og byrja að éta stærri fæðu, s.s. krabbadýr, snigla, og lirfur og púpur stærri skordýra.
Það er afar misjafnt eftir búsvæðum hvenær bleikjan verður kynþroska. Dæmi eru um að bleikja verði kynþroska tveggja ára þar sem samkeppni er mikil um fæðu og er það sterk vísbenind offjölgun einstaklinga í lokuðu lífkerfi. Þá er kynþroska fiskurinn smár og virðist ekki ná að stækka mikið eftir að kynþroska er náð, sem er raunar almenna reglan um bleikju.
Fæða bleikjunnar er afar fjölbreytt, en þar til hún nær 100 gr er uppistaða fæðunnar aðallega hryggleysingjar, en hún getur gerst afræningi annarra fiska, jafnvel eigin stofns þegar hún hefur náð 100 gr. Þess ber þó að geta að vöxtur og atferli bleikjunnar er afar mismunandi eftir stofnum, hitastigi vatns og vitaskuld fæðuframboði.
Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980 og Eldisbóndinn, Háskólinn á Hólum o.fl. útgáfuár ókunnugt.
Lífsferill laxfiska á Íslandi er í nokkrum atriðum frábrugðinn á milli tegunda og þá ekki síst hjá þeim hluta laxfiska sem ganga í sjó einhvern hluta æfi sinnar. Hér gefur að líta nokkur atriði varðandi lífsferil laxa.
Laxinn tekur út mestan vöxt sinn meðan hann dvelur í sjó. Fyrstu árin sem laxinn dvelst í ferskvatni nær hann að verða 20 – 40 gr að þyngd og stækkar frá því að vera 2,5 sm kviðpokaseiði upp í að verða 12 – 15 sm gönguseiði. Það er á þessum árum að laxinn er hve viðkvæmastur fyrir afráni, s.s. fugla og minks. Afrán annarra laxfiska, bleikju og urriða, hefur einnig verið talið nokkurt, en það er ekki sannað svo óyggjandi sé.
Kviðpokaseiði nærast á eigin forða, en um leið og forðinn klárast verða þau að leita sér næringar í smávöxnum skordýralirfum og eru þá kominn í samkeppni við ungviði annarra laxfiska, helst urriða.
Þegar laxinn dvelur í sjó, yfirleitt eitt til fjögur ár, margfaldar hann þyngd sína og talið er að hann nái á fyrsta ári sínu í sjó um að verða 2,5 kg. Það er því augljóst að hann þarf töluverða fæðu meðan hann dvelur í sjónum og er þar af leiðandi afar háður ástandi sjávar og lífríkisins í honum.
Þegar laxinn hefur náð hrygningaraldri gengur hann aftur í uppeldisá sína á tímabilinu maí og fram í október, fyrst sunnan- og vestanlands, síðan norðan og austan. Þeir laxar sem ná að lifa hrygninguna af dvelja veturinn í ánni en ganga síðan aftur til sjávar og dvelja þar í eitt eða tvö ár áður en þeir ganga aftur í árnar til hrygningar.
Athugið að allar tölur um stærð og vöxt eru afar mismunandi eftir ám og árferði, en þær gefa nokkra mynd af þeim breytingum sem laxinn tekur á lífsleiðinni.
Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980.
Veður hefur töluverð áhrif á allar skepnur, bein og óbein. Þegar það er rigningarsuddi og vindur, kalsi eins og það heitir, þá hefur það áhrif á veiðimenn ekkert síður en fiska og í einfeldni minni þá á ég það til að heimfæra mína upplifun beint á fiskinn; Æ, hann er ekkert að hreyfa sig í þessu roki eða Hann er ekkert á ferðinni í þessum kulda.
Stærsti munurinn á okkur, þ.e. mannskepnunni og fiskunum, er að við erum með heitt blóð en þeir kalt þannig að við bregðumst að öllu jöfnu fyrr við sveiflum í hita heldur en þeir. Og viðbragðið okkar er allt annað en þeirra, við höfum þann möguleika að fækka fötum í hita eða klæða okkur betur í kulda en þau úrræði hefur fiskurinn ekki. Ef hitastigið í vatninu verður eitthvað of hátt, þá leitar hann í kaldara vatn. Ef hitastigið í vatninu er of lágt, þá leitar hann í heitara vatn eða hægir á líkamsstarfseminni ef það finnst ekki. Kjörhitastig bleikju er nokkuð lægra heldur en urriða, 5 -12°C á móti 10 – 18°C hjá urriðanum. Ekki rugla þessum tölum saman við það hitastig eða öllu heldur þann lága hita sem þarf til að fiskurinn dragi verulega úr líkamsstarfsemi sinni og leggist í dvala. Eins má ekki gleyma því að kjörhitastig, þ.e. hvenær bleikja er hve virkust er afar mismunandi eftir stofnum hennar þannig að þessar tölur eru ekki heilagar.
Loftþrýsting þekkja fiskar ágætlega án þess að hafa endilega útbúið sér einhver hugtök yfir mismunandi þrýsting eins og við mennirnir. Hæð yfir Grænalandi og lægð við Færeyja er eitthvað sem maður tók inn með móðurmjólkinni og fagnaði því lengra í burti sem lægðin færði sig, svo lengi sem hæð var í grennd. Í stuttu máli þá er hæð einfaldlega svæði með hærri loftþrýsting heldur umhverfið og hérna megin á kúlunni blæs vindurinn um þær réttsælis Lægð er aftur á móti svæði með lægri loftþrýsting heldur en svæðið umhverfis og vindur gengur rangsælis um þær. Lægðum fylgir gjarnan óstöðugt veður, hvassir vindar, skýjað og úrkoma. Hæðir bera með sér stöðugra veður og oft heiðríkju. En hvað hefur þetta með fiskinn að gera?
Breytingar á loftþrýstingi hefur meiri áhrif á fiska með tiltölulega stóran sundmaga heldur lítinn. Laxfiskar (urriði, bleikja og lax) eru einmitt þannig og það sem meira er, þeir eru með lokað kerfi sundmaga. Fiskar leitast við að halda jafnvægi eðlisþyngdar, þ.e. þyngd vs. ummál. Ef þrýstingur lækkar, þá þenst gasið í sundmaganum út og eðlisþyngd hans minnkar. Fiskurinn bregst yfirleitt við þessu með því að eyða orku í að færa sig niður á meira dýpi, ummál sundmagans minnkar og eðlisþyngdin réttist af. Það tekur smá tíma fyrir fiskinn að færa gas úr sundmaganum yfir í blóðrásina en þegar það hefur gerst, þá getur hann fært sig til í vatnsbolnum að vild. Eftir stendur að orkan sem hann notaði í að færa sig niður í vatnsbolinn er glötuð og eðlileg viðbrögð fiskins eru að afla sér fæðu, vinna upp tapið. Meðal annars þess vegna er oft töluverður hasar í fiski eftir að loftþrýstingur hefur lækkað skyndilega og fiskurinn hefur jafnað sig og hann leitar þá gjarnan upp í vatnsbolinn, eltir það sem lægðarvindurinn nær að draga saman og róta upp.
Trúlega hressileg lægð
Ef loftþrýstingur hækkar skyndilega, þá dregst sundamaginn saman, ummál fisksins minnkar og þar með eykst eðlisþyngd hans og hann í raun sekkur á meira dýpi án þess að hafa nokkuð fyrir því. Fiskurinn tapar engri orku við þetta og getur fært gasið úr blóðrásinni yfir í sundmagann í rólegheitunum ef honum sýnist svo og fært sig áreynslulaust aftur upp að yfirborðinu. Ef svo ber undir, þá virðist fiskurinn yfir höfuð vera heldur rólegri í háum loftþrýstingin. Í mörgum tilfellum hefur fiskurinn ekki einu sinni fyrir því að færa sig upp að yfirborðinu, með hæðinni kemur jú oft heiðskýrt veður og sól sem hann hefur engan áhuga á, leggst því við botn og hreyfir sig lítið sem ekkert.
Óumdeilanleg hæð yfir landinu
Vitaskuld er ekki öll veðurfarssagan sögð með þessum orðum, en í grunninn snýst þetta um að halda eðlisþyngd í breytilegum loftþrýstingi. Hvað breyttur loftþrýstingur hefur í för með sér hvað varðar fæðu, er allt annað mál. Þegar fæðan fer á stjá þegar vatnið hefur hitnað í heiðríkjunni eða súrefnisinnihaldið aukist skyndilega í lægðarrigningunni, þá hefur fiskurinn þegar náð jafnvægi og þarf ekkert að fórna miklu til að geta farið á stjá. Fylgjumst vel með fallandi loftþrýstingi, hann getur verið ávísun á fjör.
Það er löngu sannað að mannskepnan er ekki með fullum fimm. Ég vona að þetta sé ennþá viðurkenndur og þekktur frasi í íslensku máli þótt hann sé ættaður úr dönsku, ef ekki þá bara skjús mí.
Ég veit ekki hvers vegna í ósköpunum ég fór að velta mér upp úr greinum sem fjalla um rannsóknir á sársaukaskyni og tilfinningagreind fiska. Já, þið heyrðuð rétt; tilfinningagreind fiska. Ætli kveikjan að þessu grufli mínu hafi ekki verið einhver umræða um veiða og sleppa, veiða og meiða, agnahald eða ekki.
Ég er nú ekki svo skyni skroppinn að ég hafi ekki álit á framangreindu, en ég er nú einu sinni þannig gerður að ég virðist vera hálfgerður frummaður í þessu öllu. Alla mína ævi hef ég meira eða minna verið að hamast við að tileinka með aukið umburðalyndi gagnvart mismunandi skoðunum manna og lífsviðhorfum. Á sama tíma og mér hefur orðið eitthvað ágengt í þessu, þá hef ég í auknu mæli tekið eftir ágengni og forsjárhyggju þeirra sem aðhyllast aðra skoðun en ég sjálfur geri. Eitt sinn las ég grein eftir einn af þessum pirrings púkum sem láta ýmislegt fara í taugarnar á sér. Hún var eitthvað á þá leið að ef maður segði ekki STOPP við sölumanninn í upphafi, þá reyndi hann að selja þér ömmu sína, jafnvel þó þú eigir þegar tvær sem flestum þykir nú nóg.
Í gegnum tíðina hef ég heldur hallast að því að sleppa því að veiða fiska sem eiga undir högg að sækja heldur en veiða þá og sleppa. Hér á Íslandi erum við svo dásamlega sett að það er enginn skortur á veiðistöðum þar sem fiskistofnar eru í góðu standi og umfram allt sjálfbærir. Það er ekki þar með sagt að ég snerti ekki á því að veiða og sleppa, en ég viðurkenni það fúslega að ég geri það yfirleitt með hálfum huga.
Nei, ég held ekki að fiskar séu með tilfinningagreind en þeir eru með eðlishvöt og hana ekki litla. Eðlishvöt fiska hefur ekki orðið fyrir áhrifum af skoðunum annarra og er því ómenguð og snýst fyrst og fremst um að éta til að stækka og ná því að viðhalda stofninum. Mitt einfalda álit er að ef einhverjar mannanna gjörðir hafa orðið til þess að stefna fiskistofni í hættu, þá ættum við að reyna að leiðrétta þær gjörðir og láta fiskinn í friði á meðan hann réttir úr kútnum.
Með þessu er ég ekki að segja að ég sé á móti sportveiðimönnum sem veiða og sleppa nær öllum fiski sem þeir setja í. Þetta er val hvers og eins og ég virði það val, en á sama tíma frábið ég mér að vera stimplaður sem annars flokks veiðimaður ef ég tek mér í soðið úr fiskistofni sem vel getur séð af nokkrum einstaklingum. Ég á enn eftir að öðlast þá visku að vita fyrir víst hvenær ég hef svo rétt fyrir mér að ég geti lagt öðrum lífsreglurnar út frá eigin skoðun, kannski kemur það ef ég borða meiri fisk. Á meðan verð ég víst að vera einn af þeim sem er ekki alveg með fullum fimm.