Neisti að veiði

Rétt um það bil núna, þegar þessi grein kemur á síðuna er urriðinn hringinn í kringum landið að leggja grunninn að komandi kynslóð fiska sem við vonandi fáum að spreyta okkur við eftir nokkur ár. Við verðum helst vör við þetta þegar urriðinn gengur upp árnar og lækina, takast á um vænstu hrygnuna á ballinu. Víða er þetta slíkt sjónarspil að hver veiðimaður sem verður vitni að, lítur fiskinn örlítið öðrum augum þegar kemur að veiðinni. En það er sannanlega aðeins minnstur hluti þessa ferlis sem við getum orðið vitni að. Mest af þessu gerist í slíkri smæð að við sjáum akkúrat ekkert gerast.

Frá Öxará
Frá Öxará

Þegar hrygningin sjálf er um garð gengin er það aðeins náttúran og undirbúningur hrygnunnar sem ræður því hvernig til tekst. Í mölinni á hrygningarslóð leynast hundruð þúsunda frjóvgaðra eggja sem sannast sagna eru óskaplega viðkvæm fyrstu vikurnar. Óvarleg umferð manna á þessum slóðum getur orðið þúsundum að aldurtila, eitt fótspor getur hæglega drepið hundruð í einu skrefi. Á þessu skeiði er ekki um neina næringarupptöku að ræða hjá hrognunum, lífið snýst um súrefni og hreint vatn.

Hreint vatn er vatn sem ber aðeins hæfilegt magn snefilefna með sér. Gruggist vatn, jafnvel hundruðum metra ofan við hrygningarslóð, getur það haft ófyrirséðar afleiðingar yfir hrognin í mölinni í för með sér. Raunar er það fínasti framburðurinn sem getur haft afdrifaríkustu afleiðingarnar í för með sér. Landrof, mold og leir sem losna upp og berst að hrygningarslóð geta hæglega gert út af við heilan árgang af fiski áður en hann kemst á legg. Þetta á raunar við um allt tímabilið frá því hrogn hafa verið frjóvguð og þar til seiðin sleppa heimdraganum og fikra sig út í vatnið.

Það þarf ekki aðeins að gefa fiskinum frið til að hrygna, komandi kynslóð þarf líka frið og öryggi til að komast á legg og verða að þeim verðugu andstæðingum sem við viljum kynnast síðar meir. Göngum varlega um árnar og lækina okkar í vetur og fram á vorið, við viljum ekki slökkva þessa neista að stórkostlegri veiði áður en á þá reynir.

Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service
Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service

Fyrstu fyrst, eða….

Það getur kostað mig töluverða sjálfsstjórn að láta ekki vaða á fyrsta fiskinn sem ég kem auga á, hvort sem það er uppitaka, skvetta eða bara skuggi á botni. Þegar ég blaða í gegnum minningarbunkann minn, þá finn ég samt ekki eitt einasta tilfelli þar sem ég hef komið að vatni, séð fisk, kastað og fengið töku um leið. Þetta eitt ætti að kenna mér að taka mér meiri tíma þegar ég kem að vatninu. Þetta á ekki hvað síst við á vorin og snemma sumars þegar fiskurinn er ekki komin alveg í gang.

Ég las í vetur sem leið grein frá nágrönnum okkar í vestri, Kanadamönnum, þar sem vísindamenn höfðu kortlagt hvaða fiskur vaknar fyrst til lífsins á vorin, verður fyrst mest áberandi í vötnunum. Í stuttu máli, það eru stubbarnir sem skvetta sér mest og leita í það litla klak sem hefst snemma vors. Stóru drjólarnir halda sig mun lengur á botninum og fara sér rólegar, koma upp þegar sólin hefur yljað vatnið aðeins síðari hluta dags og eru þá gjarnan í síli rétt utan við og á grynningunum.

Fyrstir á fætur eru sem sagt stubbarnir sem geta ekki hamið sig, kíkja aðeins í sólina og láta öllum illum látum í þeirri flugu sem asnast til að klekjast snemma dags eða um hádegið. Fram að þeim tíma liggja þeir stærri og feitari aðeins lengur í bólinu og hafa auga með þeim litlu. Bíddu aðeins, þetta er nú bara ekkert ósvipað því hvernig ég hagaði mér um helgar hér um árið þegar guttarnir mínir ruku á fætur með látum áður en ég hafði einu sinni rænu til að opna annað augað.

Glaðbeittur fiskur
Glaðbeittur fiskur

Og sjá ……

Túpa
Túpa

Þar kemur ætið eða þannig sko. Augu fiska eru töluvert frábrugðin augum manna. Á meðan við þróuðumst í hálfgerða flatskjái þá eru augu fiska eins og gömlu túpusjónvörpin, kúpt sem henta mun betur til að sjá í vatni. Annars hafa fiskar álíka, ef ekki betri sjón heldur en við. Að vísu eru fiskar, vegna lögunar augnanna frekar nærsýnir og sjónsvið þeirra því töluvert styttra heldur en okkar, rétt um 15 metrar. Það er því ekkert bull þegar kastkennarinn okkar leggur ofuráherslu á nákvæm köst, við verðum að koma flugunni inn í sjónsvið fisksins ef hann á að sýna henni áhuga. Svo hefur staðsetning augnanna á hausnum töluverð áhrif á sjónsvið fisksins. Silungurinn er með augun nokkuð framvísandi og ofarlega á hausnum. Sjónsviðið er því best fram- og uppá við, síður til hliðanna. Raunar er því þannig farið að silungurinn er hvattur til athygli fyrst og fremst með þef-og bragðskyninu þar til bráðin er komin í árásarfæri, þá taka augun fyrst við.

Vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að fiskar gera greinarmun á rauðum, grænum, gulum og bláum litum. Aha, sem sagt þeir geta séð regnbogann í vatninu eða hvað? Jú, svona fræðilega séð gætu þeir það niður á 7-8 m dýpi. Þar fyrir neðan fara ákveðnir litir að síast út og litunum fækkar ört því neðar sem dregur og fiskurinn fer frekar að stóla á lögun og hegðun bráðarinnar heldur en útlit hennar.

Eins nærsýnn og með eins takmarkaða sjón og fiskurinn hefur er eins gott að hann blikki ekki augunum því þá gæti hann misst af bráðinni. Ég veit ekki alveg hve oft ég  hef tuggið þetta, en fiskar hafa ekki augnlok og geta því ekki blikkað augunum. Þess vegna er þeim alveg meinilla við skært sólarljós.

Fussum svei, mannaþefur….

sm_lyktÞó tröllkerlingar séu þefvísar, þá komast þær samt ekki í hálfkvisti við silunginn. Stórheilinn í fiskum sem er í kvörnum hans, vinnur fyrst og fremst með þefskynið, ekki ósjálfráðu hreyfingarnar eins og í okkur mönnunum. Það má því nærri geta hvort fiskurinn hafi gott lyktarskyn. Það er nokkuð misjafnt hve mikið fiskar stóla á þefskyn við fæðuöflun og vísindamenn greinir nokkuð á um vægi þef- og sjónskyns þegar kemur að fæðuleit laxfiska. Sumir halda því fram að sjónskyn ráði mestu í fæðuöflu en aðrir að þefskyn ráði meiru. Hið síðarnefnda er auðvitað sjokk fyrir þá sem því trúa og veiða á flugu en gæti skýrt hvers vegna maðka- og beituveiði gefur oft eins vel og raun ber vitni, það er jú meiri og væntanlega matarlegri lykt af maðki heldur en flugu. Öfgamenn í fluguhnýtingum, ef þeir eru þá til, hafa því lagt mikla áherslu á að vera ekkert með neitt í höndunum sem truflað getur lyktarskyn fisksins þegar þeir hnýta. Sumir ganga meira að segja svo langt að nota aldrei gerviefni við hnýtingar, aðeins náttúruleg hráefni. Hvað um það, lyktarskyn silungs getur náð hundruð metra í kyrrstæðu vatni og bætist straumur við þá margfaldast skynsviðið auðveldlega. Það er því e.t.v. engin tilviljun að laxfiskar sem ganga úr sjó nota mest lyktar- og bragðskyn til að rata upp í ánna ‚sína‘ þegar þeir hyggja á hrygningu.

Áttu heima í Bónus?

Fæðuleit
Fæðuleit

Asnaleg spurning, auðvitað á engin heima í Bónus. Meira að segja starfsmennirnir fara oftast heim til sín, nema þá helst rétt fyrir verslanahelgina sem sumir kalla jól. En hvað er ég eiginlega að fara með þessu bulli? Jú, ég er að velta fyrir mér stórum muni á mönnum og fiskum.

Búseta mannfólksins ræðst oft af fjölskylduhögum. Á barneignaraldri viljum við vera sem næst leikskólanum, svo grunnskólanum en færum okkur síðan aðeins til í hverfinu þegar börnin vaxa úr grasi og nándin við uppeldisstofnanirnar skiptir minna máli. Síðan hefur það orðið tilhneiging okkar að hópast saman á stofnunum fyrir heldriborgara þegar aldurinn færist yfir. En sama hver búsetan er, þá höfum við haldið í þann sið forfeðra okkar að draga fæðuna í náttstað okkar og neyta hennar þar, svona að mestu leiti.

Laxfiskar velja sér aftur á móti búsvæði á allt öðrum forsendum. Þeir búa sjaldnast nálægt leikskólanum, raunar stinga þeir ungviðið snemma af á lífsleiðinni og vitja þess aldrei aftur. Laxinn ferðast síðan langar leiðir frá fæðu til leikskóla, eru meira að segja sagðir ekki éta neitt á leið sinni á milli staða. Samt sem áður heldur hann til á ákveðnum stöðum í ánum. Hann velur straumharða staði á meðan frænka hans, bleikjan velur sér lygnustu staðina og urriðinn svamlar þarna einhvers staðar á milli. Nú er ég auðvitað að bera saman atferli laxfiska í ám og lækjum, ekki vötnum.

Einfalda myndin er þannig að laxinn velur sér strauminn og hreyfir sig afskaplega lítið, bleikja hreyfir sig mest og enn og aftur er Meðal-Jónin okkar, urriðinn. Fræðingar sem fylgjast með atferli laxfiska skipta þessum tíma gjarnan í tvo fasa; fæðuleit þegar hann bara bíður eftir því að geta étið og fæðunám þegar hann er að éta. Þegar hlutfall tegunda innan hvors fasa er skoðaður, þá hafa rannsóknir sýnt að 11,7% laxa hreyfa sig í fæðuleit, 12,7% urriða og 27,1% bleikju. Þegar fiskurinn er síðan komin í fæðuna þá hreyfa aðeins um 3,3% laxa sig, 8,8% urriða og 14,9% bleikju. Heimild: Fæðuatferli og búsvæðaval laxfiska í ám, Stefán Ó. Steingrímsson & Tyler D. Tunney, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólanum á Hólum.

En hvernig hjálpar þetta okkur við veiðarnar? Tja, þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör, ekki nema þá fyrir það eitt að ef við finnum ekki nákvæmlega staðinn þar sem fiskurinn er að éta (fæðunám) þá er helst að finna bleikjuna á flakki þegar hún er að leita (fæðuleit). Ef við finnum aftur á móti þeirra Bónus, þá er eins gott að við getum lagt fluguna nokkuð nákvæmlega fyrir fiskinn því hann hreyfir sig miklu minna í æti heldur en þegar hann leitar.

Ummæli

06.12.2013 – Valdimar SæmundssonVill þetta segja að laxinn sé að éta í ánum og sé þessvegna að hreyfa sig í fæðuleit?

Svar: Já, ekki get ég lesið annað út úr þessari rannsókn. Að vísu gæti rannsóknin tekið til fiska á s.k. ‘niðurgöngu’ tímabili þó þess sé ekki sérstaklega getið. Svo má alltaf velta því fyrir sér hve fjarskyldur Atlantshafslaxinn sé Kyrrahafslaxinum sbr. grein á Deneki frá því í fyrra sem má skoða hér. Hvað sem því líður, þá vitum við að lax bregst við agni í ám á Íslandi rétt eins og annars staðar í heiminum. Hvort það sé eingöngu af eðlislægri grimmd eða því að hann éti nú bara þrátt fyrir allt í ám einhvern hluta uppgöngu, læt ég ósagt. Það hafa sagt mér veiðimenn að lax éti örugglega ekkert á hrygningartímanum, meltingarfæri hans séu hreint ekki neitt, neitt á þessum tíma. Síðan hafa aðrir sagt mér, í hálfum hljóðum að þeir hafi nú fundið ýmislegt í maga laxa úr Íslenskum ám og í meira magni en svo að það hafi ‘slæðst’ upp í hann á leiðinni.

Skynjar hann titring?

Hávaðaseggur?
Titrari?

Það er engin vafi á því að fiskur skynjar titring og þrýstingsbreytingar miklu betur en við. Í roði fisksins á hliðum hans er rák sem hann notar til að skynja hreyfingu í vatninu og þrýstingsbreytingar. Svo næm er þessi hliðarrák fisksins að hún nemur hreyfingar annarra fiska og lífvera í allt að 100 m fjarlægð. Jamm, duglegustu kastarar eiga ekki einu sinni séns að felast ef þeir vaða ógætilega. Og svo megum við ekki vanmeta hvað bakkarnir geta borið mikinn titring með sér út í vatnið. Þótt okkur takist að felast á bak við stein svo hann sjái okkur nú örugglega ekki þá þurfum við ekki nema missa vatnsflöskuna í grjótið til að hann verði var við okkur. Ég tala nú ekki um ef menn fara í tiltekt á bakkanum eða hlaða vörður til að merkja góða veiðistaðinn.

En hvað með bátaumferð? Verður fiskurinn ekki var við bölvaðan hávaðan í utanborðsmótornum? Nei, í raun ekki, en hann verður örugglega var við lélegar legur, brotin skrúfublöð og allan annan titring sem utanborðsmótorinn getur haft í för með sér. Rafmagns utanborðsmótorar voru ekki fundnir upp vegna orkusparnaðar eða umhverfisverndar, þeir eru einfaldlega hljóðlátari heldur en bensínbullurnar.

Hvað heyrir hann?

sm_heyrnHeyrir hann vel? Heyrir hann í mér? Spurningar um heyrn fiska eru margar og ekki alltaf auðvelt að gera sér grein fyrir því hvað, hvernig og hversu vel hann heyrir. Fiskar hafa innra og ytra eyra rétt eins og við mennirnir. Þar sem eðlisþyngd fiskjar er ekki ósvipuð vatninu sem þeir lifa í, streyma hljóðbylgjur í gegnum hold þeirra án þess að dofna neitt að ráði þar til þær skella á beinagarðinum sem tekur við hljóðinu og  ber það til eyrnanna. Þeir sem eru svo óheppnir að hafa upplifað beinbrot kannast e.t.v. við þetta óhugnanlega hljóð sem nístir merg og bein og kemur að innan þegar bein brotnar. Ég hef meira að segja upplifað snöggan smell, nánast eins og byssuskot sem ég trúði varla að menn í kringum mig hefðu ekki heyrt þegar hásin hrökk í sundur í fætinum á mér á gervigrasi um árið. Ég hélt fyrst að ég hefði sprengt tuðruna þegar ég sparkaði í hana, svo mikill var hvellurinn. En, nei. Það var bara ég sem heyrði þennan hvell og enginn kannaðist við að hafa sprengt pappírspoka við eyrun á mér.

Beinagarður fiska flytur umhverfishljóð beina leið til haussins og þannig heyra þeir hljóð jafnvel betur innra með sér heldur en inn um ytri eyrun. Það er e.t.v. skýringin á því að silungurinn getur heyrt steinvölu skrapast í botni, já eða neglda vöðluskó í meira en km. fjarlægð. Nú kann einhver að segja að nú fari ég með fleipur, en ég hef þetta fyrir satt eftir að hafa lesið töluvert af greinum um heyrn fiska.

Aftur á móti heyrir fiskurinn sára lítið af þeim hljóðum sem berast ofan vatnsborðs. Okkur er því alveg óhætt að raula á meðan við veiðum, sleppum bara öllum upphrópunum og gleðilátum þegar hann tekur. Við eigum það nefnilega til að hoppa af kæti og það nemur annað skynfæri fisksins; hliðarrákin.

Ofar þýðir minna

Það er ekki átroðningi fjölskyldumeðlima á grúskinu mínu fyrir að fara á mínu heimili. Að vísu er ég giftur veiðifélaga mínum en hún er að mestu laus við allt grúskið sem ég sökkvi mér reglulega niður í. En, það vildi nú samt svo skemmtilega til um daginn að eldri sonur minn uppfræddi mig óumbeðinn um formúluna fyrir sjónsviði silungsins. Það kom mér skemmtilega á óvart að hann hafði verið að stúdera ljósbrot o.fl. í líffræði í skólanum og fannst þetta eiga fullt erindi við mig með mína dellu. Mér datt í hug hvort fleiri hefðu ekki gagn af þessari framsetningu stráksins þannig að ég kom henni á mynd og í orð sem hér fara á eftir. Það er auðvitað langt því frá að hér sé einhver nýr sannleikur á ferðinni og hefur oft sést á netinu og í bókum, en til að bæta um betur þá hef ég útbúið smá Excel reiknilíkan aðgengilegt hérna sem mönnum er velkomið að hlaða niður.

Sjónsvið silungsins
Sjónsvið silungsins

Skýringar:

  1. Ljós berst fiskinum inn um glugga í vatnsborðinu sem myndar 97° keilu.
  2. Sjónsvið fisksins ofan þessa glugga takmarkast mest af yfirborði vatnsins. Gárað yfirborð skerðir útsýnið verulega, regndropar sömuleiðis.
  3. Blindi punktur fisksins eftir vatnsbolnum nemur u.þ.b. 10° með fráviki allt að +10° sé yfirborð vatnsins óstöðugt.
  4. Allt utan við 97° gluggann sér fiskurinn í raun sem endurspeglun vatnsbolsins á því sem er undir yfirborðinu. Þetta er svæðið undir dökk-gráu geirunum.
  5. Allt innan vatnsbolsins og 15 m fjarlægðar sér fiskurinn bara þokkalega vel, utan þess sem leynist aftan við hann.

Ef við gefum okkur að fiskurinn sé á svamli við mörk efra fæðusvæðisins (50 sm dýpi) og u.þ.b. 10 m frá landi, þá fer hann létt með að greina hreyfingu okkar því hann sér allt sem er 166 sm og hærra á bakkanum. Ef fiskurinn færir sig aftur á móti ofar í vatnsbolinn, segjum 20 sm þá sér hann aðeins það sem er 172 sm á hæð eða hærra.

Ummæli

12.11.2013 – UrriðiHeyrði einu sinni að þetta væri ástæðan fyrir að krakkar grísast oft til að setja í stóra fiska, þeir eru hreinlega það litlir(<160 cm) að fiskarnir sjá þá ekki og eru ekki jafn varir um sig. Fyrir nokkrum árum varð ég vitni að 8 ára gutta taka 5 punda urriða beint fyrir framan mig svo ég útiloka ekki þessa kenningu :)

Einnig hefur mér gengið mun betur á viðkvæmum veiðistöðum eftir að ég byrjaði að nánast skríða á árbakkanum… skiptir engu máli þó ég líti kjánalega út, það sér mig hvort sem er enginn.

Loftþrýstingur

Loftvog
Loftvog

Loftþrýstingur hefur áhrif á allt líf á jörðinni. Við finnum fyrir því þegar lægð er að nálgast landið, við verðum þyngri á okkur, förum að geispa í tíma og ótíma. Þeir sem eru næmastir á loftþrýstingsbreytingar verða jafnvel uppstökkir og agressívir. Kannski er þetta einhver arfur frá því við lifðum í hafinu. Fiskar eru nefnilega þannig að þegar lægð er í kortunum, þá auka þeir allverulega við fæðuöflun og eru alls ekki eins varir um sig. Þetta getur við veiðimennirnir auðvitað nýtt okkur.

Þegar svo stormurinn nær hámarki er ekki bara erfitt að koma flugunni út með sómasamlegum hætti, heldur er fiskurinn þá lagstur fyrir og étur nánast ekkert. Þannig hagar hann sér oft allt þar til loftþrýstingur hefur stigið allverulega á ný. Þótt vatnið sé stillt og fallegt á meðan loftþrýstingur stígur, þá getur verið öllu erfiðara að fá fiskinn til að taka, það er nánast allt dautt þótt flugur og skordýr taki við sér nokkuð fljótlega eftir storminn, þá tekur fiskurinn sér nokkuð lengri tíma áður en hann fer aftur á stjá.

Urriðadans

Hún var ekki amaleg sýningin sem Þingvallaurriðarnir ásamt fóstra sínum, Jóhannesi Sturlaugssyni héldu í blíðunni í dag. Glæsilegir fiskar, spenntir áhorfendur á öllum aldri og alveg bráðskemmtilegar skýringar Jóhannesar gerðu daginn alveg einstakan. Takk fyrir okkur.

Einn glæsilegur á leið upp Öxará
Einn glæsilegur á leið upp Öxará
Og einn glæsilegur við lokamarkið
Einn glaður við endamarkið
Jóhannes Sturlaugsson og einn af stærri gerðinni
Jóhannes Sturlaugsson og einn af stærri gerðinni

Nú er fjör í bæ

Hrogn
Hrogn

Að hausti og snemma vetrar er fjör hjá urriðanum. Þetta tveimur vikum til mánuði áður en hann hrygnir stefnir hann á uppeldisstöðvar sínar, helst í straumvatni þar sem malabotninn getur fóstrað hrognin hans þar til þau klekjast og það sem meira er, meirihluti urriða hrygnir á nákvæmlega sama stað og þeir klöktust sjálfir. Þeir sem ekki hrygna á æskuslóðum sínum eru ekkert í verri málum því með því að breyta út af vananum tryggja þeir meiri blöndun erfðaefnis við aðra stofna/ættir og yfirleitt er viðkoma þessara fiska meiri en þeirra sem hrygna alltaf á sama stað.

Einn lykillinn að farsælli hrygningu er að nægt súrefnisstreymi sé um hrognin á meðan þau liggja grafin í mölinni. Þetta gengur fiskurinn úr skugga um áður en hann hrygnir með því að grafa smá geil og einfaldlega leggjast þar og mæla súrefnisflæðið með eigin tálknum. Sumir veiðimenn hafa nefnt þennan undirbúning silungsins svo að hann sé að pússa hrygningarstöðvarnar. Þetta háttarlag fer ekki framhjá neinum sem svipast um eftir því. En þetta rót fisksins með mölina á botninum á sér einnig aðrar skýringar. Með því að róta smásteinum og möl fram og til baka, hreinsar fiskurinn fíngerð steinefni, óæskilegar pöddur og sveppi úr botnsetinu. Allt þetta getur orðið hrognunum að fjörtjóni og dregið úr viðkomu. Að sama skapi getur skyndileg breyting á botnsetinu eftir hrygningu orðið allri hrygningu að fjörtjóni. Síðbúnar haustrigningar sem skola með sér leir og mold niður í farveginn geta því útrýmt heilum árgangi áður en hann kemst á legg með því einu að setjast í hrygningarstöðvarnar. Þetta á við um allt tímabilið frá hrygningu og fram undir vorið þegar hrognin klekjast.

En ekki hrygnir allur urriði í straumvatni. Séu aðstæður heppilegar, nálægur lækur, kaldavermsl eða uppsprettur á vatnsbotninum getur urriðinn einnig hrygnt í stöðuvatni. Skiptir þá jafn miklu fyrir hann eins og bleikjuna að sveiflur í vatnshæð séu í lágmarki frá hrygningu og þar til hrognin klekjast. Skyndilegt fall í vatnshæð getur orðið til þess að hrygningarstöðvar standa á þurru og þá er ekki að sökum að spyrja. Fyrir ekki alls löngu las ég að aukin þrýstingu í vatni samfara hækkuðu yfirborði getur einnig orðið hrognum að fjörtjóni fyrir svo utan það að með hækkandi vatnsborði er hætt við að straumur sem ber með sér súrefnisríkt vatn nái ekki lengur niður á það dýpi sem hrognin liggja á og þau kafna því áður en þau klekjast. Það er ekki að ósekju að stór hópur veiðimanna erlendis, sér í lagi í Norður Ameríku hefur skorið upp herör gegn miðlunarstíflum og tekist að fá fjölda þeirra rutt úr vegi og orðið þannig fiskistofnum til bjargar.

Bleikja – kyneinkenni

Eins og með urriðann getur verið nokkrum vandkvæðum bundið að kyngreina bleikjuna utan hrygningartímans. Helst stóla menn á almennt vaxtarlag bleikjunnar. Hængurinn er oftast heldur mjóslegnari heldur en hrygnan og allar línur í honum skarpari, þó ekki algilt.

Bleikja - hængur
Bleikja – hængur

Hrygnan er kviðmeiri heldur en hængurinn og allar línur í henni meira ávalar. Oft er þetta mest áberandi á tálknlokum hængsins sem eru nánast eins og > á meðan tálknlokur hrygnunnar eru ) Öll þessi einkenni verða skarpari því heldri sem fiskurinn er.

Bleykja - hrygna
Bleykja – hrygna

Eitt til viðbótar hafa menn notar við kyngreiningu og það er stærð haussins m.v. almennt vaxtarlag. Hafa menn þá haft til hliðsjónar að haus hængsins er hlutfallslega stærri heldur en hryggnunnar m.v. líkamsstærð almennt. Við þetta verður að setja þann fyrirvara að í ofsetnum vötnum verður haus hrygnunnar oft hlutfallslega stærri heldur en annars staðar eða öllu heldur; búkurinn nær ekki að halda í við vöxt haussins og hún því oft ranglega greind sem hængur sé ekki gætt að öðrum einkennum.

Arnarvatnsseiði

Það getur verið nógu skemmtilegt að grípa myndavélina þegar lífríkið bregður á leik. Það sannaði sig við Arnarvatn stóra nýlega þegar konan stjórnaði brúðuleikhúsi með Orange Nobbler í aðalhlutverki. Að vísu er þessi klippa ekki í einhverjum súper gæðum, tekin á venjulega vasamyndavél, Sony CyberShot í gegnum Polaroid veiðigleraugun mín.

Ef vel er að gáð má sjá að svo lengi sem flugan hreyfðist á svipuðum hraða og fiskurinn var hún í raun látin í friði, en um leið og einhver afbrigðileg hegðun skaut upp kollinum var látið til skarar skríða og ráðist á hana, stundum heldur óvægilega. Snemma breygist krókurinn og ráðdýrseðli urriðans er greinilega meðfætt og ekki virtist stærð flugunnar flækjast neitt mikið fyrir tittunum sem sumir náðu henni ekki nema til hálfs í lengd.

Og hvað má svo sem ráða af þessu? Jú, ef fullorðin fiskur hagar sér eitthvað í líkingu við ungviðið er kannski eins gott að draga Nobblerinn inn með rykkjum og skrykkjum.

Urriði – kyneinkenni

Utan hrygningartímans er ekki alltaf stórkostlegur munur á útliti urriða eftir kyni. Þeim veiðimönnum sem hugnast að veiða/sleppa veitist stundum nokkuð snúið að greina kyn fisksins, en þetta lærist með tímanum. Snemmsumars getur eitt aðaleinkenna hængsins, krókurinn verið svo flatur að hann er nánast horfinn svo ekki er unnt að stóla á hann við greiningu. Þá koma til tvenn önnur einkenni sem oftast er unnt að nota til aðgreiningar.

Urriði - hængur
Urriði – hængur

Gotraufaruggi hængsins er rúnnaður, svolítið eins og ) á meðan ugginn á hrygnunni er beinni, svolítið eins og /

Urriði - hrygna
Urriði – hrygna

Síðara einkennið sem leita má eftir er gotraufin sjálf. Á hrygnunni er gotraufin kringlótt ● en á urriðanum er hún þríhyrnt ▼

Atferli og hegðun

Á bekknum

Á umliðnum árum hefur mjög færst í vöxt að stöndug samtök stangveiðimanna og veiðifélög styrkja eða standa að alvöru rannsóknum á lífríki og þar með atferlishegðun fiska. Mér liggur við að segja að auðvitað eru þetta erlendir aðilar, hér heima hafa stangveiðifélögin víst ekki bolmagn til slíkrar peningaeyðslu. En, rannsóknir auka við þekkingu okkar og með þeim gætum við kortlagt brunnana áður en við dettum í þá. Sumt af þessum rannsóknum eru náttúrulega einskorðaðar við ákveðin vötn eða vatnasvæði erlendis en það má samt alltaf lesa einn og einn góðan punkt út úr þeim.

  • Sé þess einhver kostur að hreyfa sig sem minnst er það fyrsti kostur silungsins þegar kemur að fæðuöflun. Léleg fæða, jafnvel orkulítil sem er innan seilingar verður oftar fyrir valinu heldur en fæða sem útheimtir einhverja orkueyðslu.
  • Silungurinn er vel hæfur til þess að greina á milli raunverulegrar fæðu og þess sem er óætt með því einu að fylgjast með hreyfingu og atferli bráðarinnar. Hann rennur frekar á agn sem hreyfist líkt og raunveruleg bráð heldur en þá sem líkist henni en hreyfist ekki ‚eðlilega‘.
  • Sjónskyn silungs er ekki ósvipuð okkur mönnunum, nema þá helst snemma morguns og að kvöldi. Þá dofnar allt litaskin fisksins, hann verður næstum litblindur og því um að gera fyrir okkur að nota agn sem inniheldur hve skörpust skil ljósra og dökkra flata.
  • Óróleiki í vatni, þá helst í ám og lækjum truflar sjónsvið silungs verulega. Við bestu skilyrði sér fiskurinn u.þ.b. 20‘ (6 metra) frá sér þannig að hann greini þokkalega hvað er á ferðinni. Hann má aftur á móti ekki vera nema u.þ.b. 2‘ (60 sentímetrar) frá flugu #12 til að hann sjái hana þokkalega og geri atlögu að henni.

Mögulega getum við nýtt okkur eitthvað af þessu við hnýtingarborðið á komandi vetri.

Fiskur í hita

Nú í sumar reyndi ég aðeins að veita því athygli hvenær dags og þá sérstaklega með tilliti til hitastigs vatns, fiskurinn væri virkastur. Það er löngu þekkt að ljósaskiptin eru virkur tími til veiða, en hvað er það við ljósaskiptin sem kveikir í silunginum að fara á stjá? Eru það birtuskilyrðin eða er það e.t.v. ölítil en samt merkjanleg breyting á hitastigi vatnsins?

Urriði

Mæli maður hitastig vatnsins þegar ekkert er að gerast og svo þegar allt fer á fullt, þá er það mín tilfinning að urriðinn vilji helst vera á stjái þegar hitastigið hefur náð 10°C en dragi sig fljótlega í hlé þegar hitinn fer yfir 14°C. Þetta á alveg jafnt við um það hvort æti sé á yfirborðinu eða ekki, ef yfirborðshitinn fer yfir 14°C þá sekkur urriðinn. Ég hef sannreynt þetta einfaldlega með því að gefa því gaum hvenær uppitökur hætta að morgni eða um hádegi og prófað þá að þyngja flugurnar mínar og veiða dýpra. Oftar en ekki heldur veiðin áfram á sömu slóðum, bara aðeins neðar í vatnsbolnum þar sem hann hefur ekki hitnað eins mikið. Ég leyfi mér að draga þá ályktun af þessu að fiskurinn hörfar ekkert endilega strax út í vatnið þar sem er meira dýpi heldur byrji á því að leita neðar í vatnsbolinn. Auðvitað á þessi kenning aðeins við um þau vötn sem taka miklum breytingum, eru annað hvort grunn eða lituð. Lituð vötn sveiflast meira í hitastigi milli dags og nætur heldur en þau tæru. Sama á við um þau grunnu. Ofangreind hegðun virðist einnig eiga við bleikjuna, nema þá að kjörhitastig hennar er lægra, þ.e. 9 – 13°C. Hún virðist sökkva fyrr en urriðinn og hörfar síðan í framhaldi út í vatnið.

En er þetta yfir höfuð nokkuð vandamál hér á Íslandi? Hvar eru þessi vötn sem hitna svona á Íslandi? Jú, það kemur mönnum væntanlega á óvart hve vötn hitna hér almennt hratt og mikið yfir sumartímann. Áttu vatnshitamæli?  Leyfðu honum að dingla í vatninu á meðan þú veiðir og kíktu á hann annars lagið. Hver veit nema þú getir haldið áfram að veiða eftir að fiskurinn er hættur að taka á og við yfirborðið.

Silungur að vori

Urriði

Það liggur það orð á silunginum næstu vikurnar að hann sé alls ekki eins var um sig eins og þegar líða fer á sumarið, en það þýðir nú samt ekki að hann sé í einhverjum sjálfsmorðshugleiðingum. Við þurfum eftir sem áður að fara varlega að honum og umfram allt rólega. Lífríkið fer rólega af stað, mun rólegar heldur en við veiðimennirnir eftir veturlangan sult í veiði.

Eitt af því sem við þurfum að glíma við er þetta vandamál með línuna, tauminn og taumendann. Þetta vill allt stífna í köldu vatninu og skilja eftir sig rákir og slóða þar sem við viljum síst sjá þær. Því er ráð að finna til alla mjúku taumana og taumendana til að nota fyrst á vorin.

Í köldu vatninu heldur fiskurinn sig mjög neðarlega í vatninu, kannski þetta fet til tvö frá botninum og bíður þess að eitthvert æti syndi hjá. Það er ekki mikil fart á honum og því þurfum við að gíra okkur aðeins niður til að ofbjóða honum ekki. Hægur inndráttur með þokkalega þyngdum púpum og umfram allt, litlum. Það er ekki mikið um ofvaxnar lirfur á ferðinni svona snemma, það sem er á ferðinni er enn lítið og oft rautt eða svart. Það er sjaldnast ástæða til þess að taka öll fluguboxin með sér fyrstu dagana, fáar en vel valdar flugur sem líkja eftir lirfum í vetrarhýði ættu að duga og svo einn og einn Nobbler ef einhver seiði eða síli eru á stjái.

Tökurnar eru grannar þannig að stutt köst með strektri línu eru líklegri til að leiða nartið upp í fingurgómana á okkur heldur en löng köst og mögulegur slaki. Við getum leyft okkur að veiða stutt að vori því eins og ég nefndi í upphafi, þá er silungurinn ekki eins var um sig og hreyfir sig ekki fyrr en í fulla hnefana, hans fyrsta hugsun er enn orkusparnaður.

Kafað í hegðun silungsins X

Rekið skiptir mestu

Spyrðu leiðsögumanninn „Hvað eru þeir að éta?“ og hann svarar líklega „Dautt rek“. Ef flugurnar þínar eru dregnar áfram af línunni mun silungurinn ekki aðeins fúlsa við þeim heldur beinlínis synda burt. Við horfðum aftur og aftur á það þegar við veiddum púpur í gegnum lyngur og grynningar. Viljandi breyttum við rekinu þannig að stundum var flugan eins og hundur í bandi, togandi í tauminn eða í dautt rek þar sem púpan flaut eðlilega í vatninu. Við hefðum ekki getað samið betra handrit; silungurinn sneiddi hjá og synti frá óeðlilegu reki en var jafn skjótur til að gaumgæfa eðlilegt rek. Kastið sjálft nær ekki nema einum tíunda af mikilvægi góðs reks. Lærðu að vippa línunni og stjórna rekinu og hálf baráttan er unnin.

Kirk Deeter

Loka hnykkurinn, þetta var síðasti pósturinn sem ég vann upp úr greinum Kirk Deeter. Ég vona að gestir bloggsins hafi haft jafn mikla ánægju af þessum hnitmiðuðu greinum hans og ég hef haft. Ef svo ólíklega vildi til að Kirk leggði leið sína á bloggið, þá færi ég honum bestu þakkir fyrir leyfið að birta þessar greinar hans.

Ummæli:

19.02.2012 – Hilmar

Vel gert, Takk fyrir mig. Afar fróðlegt.

Kafað í hegðun silungsins IX

Silungurinn elskar tilbreytingu

Veiðistaðir þar sem umhverfið er breytilegt, mismunandi dýpi og breytilegur straumur eru líklegastir til að geyma flesta fiska. Við urðum varir við að fiskurinn var síður fælinn þar sem fæðan var áberandi, t.d. þar sem straumur var klofinn af stórum steini og því stutt í öruggt skjól. Mér tókst frekar að nálgast fiskinn á slíkum stöðum heldur en í lygnum og breiðum. Þú gerir sjálfum þér greiða með því að einblína meira á staði þar sem straumurinn og botninn eru breytilegir.

Kirk Deeter

Hér eru engin geimvísindi á ferðinni og þetta þekkja veiðimenn mæta vel. En, góð vísa verður aldrei of oft kveðin. Nokkrir punktar frá mér sem hafa bent á þetta eru t.d. Hvar er fiskurinn? auk fjölda greina í flokkinum Veiðitækni sem hægt er að skoða í heild sinni með því að smella hér.

Kafað í hegðun silungsins VIII

Þyngdin skiptir máli

Þyngdin skipti miklu máli þegar kemur að púpuveiðum, sérstaklega þegar þið ætlið að glepja fiskinn með flugum eins og Prince eða Copper John. Ef ákveðið klak er í gangi eða þegar massi af skordýrum skolast með vatninu einbeitir silungurinn sér að þessum skordýrum og étur eins og hann getur. Ef hann aftur á móti dólar bara í vatninu og étur eftir því sem til fellur verður þú beinlínis að hitta hann í hausinn.

Ég sá fiskinn sveigja rólega til sitthvorrar áttar, fáeinar tommur í einu, týnandi upp eitt og eitt skordýr í vatninu en hunsa algjörlega þau sem flutu á yfirborðinu. Í eitt skipti náðum við þyngdinni akkúrat í flugurnar, þær flutu í sama plani og fiskurinn hélt sig, sitt hvoru megin við skoltana á honum, og kræktu í hann.

Í öðru tilfelli notuðum við fjarstýrði myndavélarnar til að fylgjast með torfu 50 sm. urriða sem átu í lygnu undir fossi. Vegna þess að fiskarnir voru að éta skordýr sem risu með uppstreyminu stóðu þeir beinlínis kyrrir í vatninu í 45° halla, trýnið niður. Við yfirspekkuðum tauminn til þess að skjóta flugunum beint á botnin og lyftum þeim síðan rólega upp af botninum. Einn af þessum stóru urriðum hamraði beinlínis fluguna þegar hún reis.

Punkturinn er: Þú ættir að skipta þrisvar um þyngd áður en þú skiptir í aðra flugu.

Kirk Deeter