Bleikja á rápi

Á ferðum mínum síðasta sumar vestur í Hraunsfjörðinn á Snæfellsnesi, vöknuðu hjá mér nokkrar spurningar sem hafa ekki látið mig í friði það sem af er vetrar. Janúar er ágætur mánuður til að eyða í svona grúsk og því leitaði ég mér nokkurra upplýsinga, greina og rannsóknarniðurstaðna til að svala forvitni minni.

Sem inngang að þessari grein er ef til vill rétt að taka það fram að þekkt eru tvenn lífsform bleikju; sú sem elur allan sinn aldur í ferskvatni (staðbundin bleikja) og svo sú sem elst upp í ferskvatni en leitar síðan til sjávar (sjóreiður). Síðar nefnda formið, þ.e. sjóreið er að finna á öllu svæðinu kringum norðurskaut jarðar, nokkuð misjafnt hve langt til suðurs og ráða sjávarstraumar þar væntanlega mestu. Nokkrar vísbendingar eru um að útbreiðslusvæði bleikjunnar hafi verið að dragast saman hin síðari ár í kjölfar aukinnar hlýnunar sjávar á norðurhveli jarðar.

Rannsóknir eru nokkuð misvísandi um aldur bleikjunnar þegar hún leggur í sína fyrstu sjógöngu. Sumar rannsóknir segja að hún sé á bilinu 2 – 6 ára, aðrar 1 – 9 ára. Rannsóknum ber þó saman um að bleikjan fer ekkert sérstaklega langt frá ferskvatnsbóli sínu og í einhverjum tilfellum getur hún verið á töluverðu rápi á milli ferskvatns og sjávar yfir sumartímann, ræður þar mestu seltustig vatnsins. Þar sem því háttar þannig til að sjór gengur inn í ós og blandast ferskvatni er ekki óalgengt að sjóreiður fylgi sjávarföllum.

Þar sem sjóreiður finnst er ætíð staðbundin stofn bleikju sem aldrei gengur til sjávar og parast þessir stofnar óhindrað. Afkvæmi þessarar pörunar geta tekið upp hegðun hvort heldur sjóreiðar eða staðbundinnar bleikju og ekki víst hvað ræður mismunandi atferli einstaklinganna.

Fyrir veiðimenn er væntanlega áhugaverðast að vita að svo langt sem seltu gætir í ós eða lóni er von á sjóreið þegar fellur að, rétt eins og ég hef orðið vitni að í Hraunsfirðinum. Því innar í fjörðinn sem dró var meiri von á staðbundum fiski þótt sjóreiður gæfi sig töluvert inneftir firðinum.

Úr Hraunsfirði
Úr Hraunsfirði

Hvenær gerist bleikja ránfiskur?

Hversu margir hafa ekki heyrt sögur af stórum ránbleikjum í Þingvallavatni sem eigra þar um djúpin og ráðast á meðbræður sína af stofni bleikju? Lengi vel hvarflaði það að mér að þessar sögur væru hindurvitni ein, fiskurinn hefði vaxið meira í augum veiðimanna heldur en í vatninu sjálfu. En svo er nú víst ekki, þær finnast þarna þó ég sjálfur hafi aldrei náð einni einustu þeirra.

Það er aftur á móti þekkt að bleikja, rétt eins og urriði, leggist í afrán á eigin stofni og taki upp á því að stækka langt umfram meðbræður sína. Helst gerist þetta í þeim vötnum þar sem því háttar þannig til að ofsetningar gæti, stofninn stækkar umfram það sem framleiðni vatnsins annar og fæðuskorts fer að gæta. Þá skera ákveðnir einstaklingar sig úr, leggjast í afrán og stækka verulega umfram það sem fjöldin gerir.

Þar með er þó ekki sagt að þessi fiskur verði að ránbleikju. Hér er um venjulega bleikju að ræða sem bregður út af vananum, dregur sig til hlés og leitar á nýjar slóðir í vatninu þar sem hún getur dulist og sótt sér æti upp á grunnslóð þar sem 3-4 ára fiskur heldur gjarnan til. Nú set ég allan fyrirvara við þetta en ég hef hvergi séð niðurstöður rannsókna sem sína fram á annað en þessi ránhegðun bleikju sé bundin við einstaklinga sem bregða á það ráð að stunda afrán sér til framfærslu. Hin eiginlega ránbleikja, sú sem finnst á Þingvöllum, er aftur á móti afbrigði bleikju sem hefur þróast til þessa háttalags og sérhæft sig til þess.

Sílableikja eða afræningi?
Sílableikja eða afræningi?

Í þeim vötnum sem þannig háttar til að fjöldi bleikja leggst í afrán, má oft veiða 3 – 5 ára fisk sem er mun vænni en gengur og gerist í bleikjuvötnum. Þetta markast af því að ránfiskurinn heldur fjölda einstaklinga í skefjum, stundar náttúrulega grisjun og gefur þannig annarri bleikju sem lifir á skordýrum og kuðungum, jafnvel murtu sem lifir á svifi, meira svigrúm til að stækka. Færri fiskar, meira æti fyrir þá sem eftir eru.

Grisjun grunnra bleikjuvatna

Víða hafa nytjar veiðivatna dregist mjög saman síðustu áratugi. Netaveiði hefur víða lagst af og því er hætt við að mörg vötn, sérstaklega grunn bleikjuvötn verða þá ofsetin á skömmum tíma. Ekki er einhlítt hvernig best sé staðið að grisjun bleikju, margt spilar þar inn í.

Heilbrigður stofn bleikju er samsettur úr fjölda einstaklinga á mismunandi aldri, stærð, kyni og kynþroska. Bregði verulega út frá eðlilegri samsetningu er framtíð stofnsins stefnt í hættu. Í ofsetnum vötnum má oft greina nokkur atriði sem segja til um ástand stofnsins. Eitt af því sem fyrst er tekið eftir er samþjöppun einstaklinga af ákveðinni stærð. Svo virðist sem fiskur nái aðeins tiltekinni stærð, hættir að vaxa og verður þá kynþroska eins og bleikju er háttur. Vegna harðnandi samkeppni um fæðu og afráns eldri fiska, fækkar ókynþroska fiski hratt undir þessum kringumstæðum. Með öðrum orðum, við sjáum nokkra einsleitni í þeim fiski sem veiðist í vatninu.

Nokkuð örugg vísbending um að vatn sé ofsetið er að þeir fiskar sem veiðast eru smáir en kynþroska, nokkuð höfuðstórir, ljósir á hold og tilfelli sýkinga af sníkjudýrum nokkuð hátt. Þetta verður vatn sem almennt eru nefnd ‚ónýtt‘ og hér þarf að bregðast við með þeim hætti að grisja verulega í hópi kynþroska fiska. Varast ber að grisja stærri fisk, þess sem mögulega hefur breytt um lifnaðarhætti og gerst ránfiskur í eigin stofni. Sá fiskur hjálpar til við grisjun og honum ætti að hlífa.

Löðmundarvatn
Löðmundarvatn

Sé veitt vel umfram ársframleiðslu vatnsins af kynþroska fiski, aukast lífslíkur þeirra sem yngri eru, þeir verða stærri, heilbrigðari og verða kynþroska síðar á lífsleiðinni. Með þessu móti má fækka einstaklingum, ná upp vexti og byggja heilbrigðari stofn. Umfang slíkra aðgerða er auðvitað háð fjölda kynþroska einstaklinga í vatninu, en sé það viðmið notað að grisja um tveggja ára nýliðun kynþroska fisks, má gera ráð fyrir að verkið taki 3-4 ár. Þetta kann að hljóma óyfirstíganlegt og víða hafa menn gefist upp á grisjun áður en árangur hennar hefur komið í ljós. Þrjóti menn ekki örendið má vænta þess að uppskera næstu ára verði að vísu færri fiskar en áður, en stærri, holdmeiri og nýtanlegri.

Helstu heimildir: Áhrif veiða á silungastofna og nýting veiðivatna, Tumi Tómasson, Veiðimálastofnun, 1985.

Einelti

Eins og margir aðrir hóf ég mína veiðimennsku með maðk undir floti. Um leið og ósinn hafði rutt sig af ís var hugað af græjunum. Nú brestur minni mitt aðeins, en mér finnst eins og fyrsta röltið vestur að Ölfusá hafi yfirleitt verið upp úr mánaðarmótum apríl-maí. Nú er ég samt ekki alveg viss, finnst það ekki alveg passa við þann fisk sem engt var fyrir. Eitt sinn þegar ég var á þessu ferðalagi mínu gekk ég fram á reyndan veiðimann af Bakkanum þar sem hann hafði lagt flot og maðk rétt utan við skurð sem féll út í ósinn. Þarna háttar því þannig til að ósinn er stilltur og nokkuð gruggugur af framburði úr skurðunum, utar þar sem straums gætti var vatnið tært. Á þessum slóðum gat maður séð glitta í fiskinn þar sem hann úðaði í sig ætinu sem skurðurinn bar með sér.

Ég man enn eftir undrun minni á veiðiaðferð þessa manns því hann lagði agnið nokkuð nálægt skurðinum og lét svo reka út að vatnaskilunum. Sjálfur hafði ég alltaf vanist því að leggja flotið miðja vegu frá bakka og að skilum, draga síðan rólega í land. Auðvitað var hans veiðiaðferð mun gáfulegri heldur en mín. Með tíð og tíma hefur skilningur minn á háttarlagi fisks aukist eitthvað og nú þykist ég gera mér grein fyrir því að það borgar sig ekki að lesa yfir hausamótunum á fiskinum eða leggja hann í einelti. Þess í stað les ég vatnið örlítið lengur og reyni af fremsta megni að kasta ekki yfir fiskinn. Flugurnar sem maður dembir út í vatnið og dregur í gegnum borðstofu fisksins gera lítið annað en stökkva honum á flótta. Mér skilst að fiskinum sé bara ekkert um að vera lagður í einelti af einhverjum smápöddum eða sílum sem ráðast beint að honum, hvað þá koma honum að óvörum aftanfrá. Betra sé að leggja fluguna inn að sjónsviði hans, dilla henni nokkrum sinnum og leyfa fiskinum að taka af skarið. Ef hann hefur áhuga, þá lætur hann sig hafa það að synda á eftir henni.

Einelti, tvíelti, þríelti
Einelti, tvíelti, þríelti

Á hádegi veiðinnar

Hádegi vatnaveiðinnar á ársvísu er væntanlega júlí. Þá er skordýraflóran í mestu stuði og fiskurinn étur eins og hann getur. Hádegi dagsins er aftur á móti sagt vera á milli kl.12 – 13 og þá vill nú stundum vera heldur lítið um að vera í veiðinni, eða hvað? Ég hef aldrei alveg skilið hvers vegna veiðimenn taka sér eða eru skyldaðir til að taka hádegishlé í veiði. Raunar væri réttara að kalla þetta nón-hlé í ýmsum ám því víða er hlé gert frá 14 – 16. En hvað um það, ég ætlaði ekki að skeggræða þetta út frá siðum og venjum manna, heldur atferli fiska.

Það er ekki víða sem því háttar þannig til að allur flötur vatns hitni það mikið að fiskurinn hægi svo stórkostlega á sér að öll veiði detti niður um hádegið. Jú, á ákveðnum tímapunkti kemur slaki í veiðina eftir að mesti æsingur morgunsins hefur gengið yfir og áður en rökkurveiðin hefst. En sjaldnast verður allt dautt og vel má finna staði í og við vötnin þar sem fiskurinn tekur enn af áfergju. Erlendis leita veiðimenn að fiski í skugga trjáa en hér heima verðum við víst frekar að leita að klettum eða stórum steinum sem skýla honum aðeins fyrir sólinni. Innstreymi í vatn er líka alltaf gjöfult, ekki síður á hádegið en í annan tíma. Á þessum stöðum má, þegar vel stendur á, sjá nokkurn fjölda fiska í hnapp.

Innstreymi
Innstreymi

Í þeim vötnum sem hitna eitthvað að ráði yfir hádaginn, þá er um að gera að koma agninu djúpt. Vatnið er kaldara á dýpi heldur en á grynningum og þangað gæti fiskurinn leitað, svona rétt á meðan hitastigið er óbærilegt fyrir hann. Uppsprettur og lindir í vötnum geta svo auðvitað svalað fiskinum á heitum dögum, rétt eins og þau ylja honum yfir köldustu mánuðina.

Neisti að veiði

Rétt um það bil núna, þegar þessi grein kemur á síðuna er urriðinn hringinn í kringum landið að leggja grunninn að komandi kynslóð fiska sem við vonandi fáum að spreyta okkur við eftir nokkur ár. Við verðum helst vör við þetta þegar urriðinn gengur upp árnar og lækina, takast á um vænstu hrygnuna á ballinu. Víða er þetta slíkt sjónarspil að hver veiðimaður sem verður vitni að, lítur fiskinn örlítið öðrum augum þegar kemur að veiðinni. En það er sannanlega aðeins minnstur hluti þessa ferlis sem við getum orðið vitni að. Mest af þessu gerist í slíkri smæð að við sjáum akkúrat ekkert gerast.

Frá Öxará
Frá Öxará

Þegar hrygningin sjálf er um garð gengin er það aðeins náttúran og undirbúningur hrygnunnar sem ræður því hvernig til tekst. Í mölinni á hrygningarslóð leynast hundruð þúsunda frjóvgaðra eggja sem sannast sagna eru óskaplega viðkvæm fyrstu vikurnar. Óvarleg umferð manna á þessum slóðum getur orðið þúsundum að aldurtila, eitt fótspor getur hæglega drepið hundruð í einu skrefi. Á þessu skeiði er ekki um neina næringarupptöku að ræða hjá hrognunum, lífið snýst um súrefni og hreint vatn.

Hreint vatn er vatn sem ber aðeins hæfilegt magn snefilefna með sér. Gruggist vatn, jafnvel hundruðum metra ofan við hrygningarslóð, getur það haft ófyrirséðar afleiðingar yfir hrognin í mölinni í för með sér. Raunar er það fínasti framburðurinn sem getur haft afdrifaríkustu afleiðingarnar í för með sér. Landrof, mold og leir sem losna upp og berst að hrygningarslóð geta hæglega gert út af við heilan árgang af fiski áður en hann kemst á legg. Þetta á raunar við um allt tímabilið frá því hrogn hafa verið frjóvguð og þar til seiðin sleppa heimdraganum og fikra sig út í vatnið.

Það þarf ekki aðeins að gefa fiskinum frið til að hrygna, komandi kynslóð þarf líka frið og öryggi til að komast á legg og verða að þeim verðugu andstæðingum sem við viljum kynnast síðar meir. Göngum varlega um árnar og lækina okkar í vetur og fram á vorið, við viljum ekki slökkva þessa neista að stórkostlegri veiði áður en á þá reynir.

Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service
Mynd: U. S. Fish and Wildlife Service