Loftþrýstingur

Loftvog
Loftvog

Loftþrýstingur hefur áhrif á allt líf á jörðinni. Við finnum fyrir því þegar lægð er að nálgast landið, við verðum þyngri á okkur, förum að geispa í tíma og ótíma. Þeir sem eru næmastir á loftþrýstingsbreytingar verða jafnvel uppstökkir og agressívir. Kannski er þetta einhver arfur frá því við lifðum í hafinu. Fiskar eru nefnilega þannig að þegar lægð er í kortunum, þá auka þeir allverulega við fæðuöflun og eru alls ekki eins varir um sig. Þetta getur við veiðimennirnir auðvitað nýtt okkur.

Þegar svo stormurinn nær hámarki er ekki bara erfitt að koma flugunni út með sómasamlegum hætti, heldur er fiskurinn þá lagstur fyrir og étur nánast ekkert. Þannig hagar hann sér oft allt þar til loftþrýstingur hefur stigið allverulega á ný. Þótt vatnið sé stillt og fallegt á meðan loftþrýstingur stígur, þá getur verið öllu erfiðara að fá fiskinn til að taka, það er nánast allt dautt þótt flugur og skordýr taki við sér nokkuð fljótlega eftir storminn, þá tekur fiskurinn sér nokkuð lengri tíma áður en hann fer aftur á stjá.

Urriðadans

Hún var ekki amaleg sýningin sem Þingvallaurriðarnir ásamt fóstra sínum, Jóhannesi Sturlaugssyni héldu í blíðunni í dag. Glæsilegir fiskar, spenntir áhorfendur á öllum aldri og alveg bráðskemmtilegar skýringar Jóhannesar gerðu daginn alveg einstakan. Takk fyrir okkur.

Einn glæsilegur á leið upp Öxará
Einn glæsilegur á leið upp Öxará
Og einn glæsilegur við lokamarkið
Einn glaður við endamarkið
Jóhannes Sturlaugsson og einn af stærri gerðinni
Jóhannes Sturlaugsson og einn af stærri gerðinni

Nú er fjör í bæ

Hrogn
Hrogn

Að hausti og snemma vetrar er fjör hjá urriðanum. Þetta tveimur vikum til mánuði áður en hann hrygnir stefnir hann á uppeldisstöðvar sínar, helst í straumvatni þar sem malabotninn getur fóstrað hrognin hans þar til þau klekjast og það sem meira er, meirihluti urriða hrygnir á nákvæmlega sama stað og þeir klöktust sjálfir. Þeir sem ekki hrygna á æskuslóðum sínum eru ekkert í verri málum því með því að breyta út af vananum tryggja þeir meiri blöndun erfðaefnis við aðra stofna/ættir og yfirleitt er viðkoma þessara fiska meiri en þeirra sem hrygna alltaf á sama stað.

Einn lykillinn að farsælli hrygningu er að nægt súrefnisstreymi sé um hrognin á meðan þau liggja grafin í mölinni. Þetta gengur fiskurinn úr skugga um áður en hann hrygnir með því að grafa smá geil og einfaldlega leggjast þar og mæla súrefnisflæðið með eigin tálknum. Sumir veiðimenn hafa nefnt þennan undirbúning silungsins svo að hann sé að pússa hrygningarstöðvarnar. Þetta háttarlag fer ekki framhjá neinum sem svipast um eftir því. En þetta rót fisksins með mölina á botninum á sér einnig aðrar skýringar. Með því að róta smásteinum og möl fram og til baka, hreinsar fiskurinn fíngerð steinefni, óæskilegar pöddur og sveppi úr botnsetinu. Allt þetta getur orðið hrognunum að fjörtjóni og dregið úr viðkomu. Að sama skapi getur skyndileg breyting á botnsetinu eftir hrygningu orðið allri hrygningu að fjörtjóni. Síðbúnar haustrigningar sem skola með sér leir og mold niður í farveginn geta því útrýmt heilum árgangi áður en hann kemst á legg með því einu að setjast í hrygningarstöðvarnar. Þetta á við um allt tímabilið frá hrygningu og fram undir vorið þegar hrognin klekjast.

En ekki hrygnir allur urriði í straumvatni. Séu aðstæður heppilegar, nálægur lækur, kaldavermsl eða uppsprettur á vatnsbotninum getur urriðinn einnig hrygnt í stöðuvatni. Skiptir þá jafn miklu fyrir hann eins og bleikjuna að sveiflur í vatnshæð séu í lágmarki frá hrygningu og þar til hrognin klekjast. Skyndilegt fall í vatnshæð getur orðið til þess að hrygningarstöðvar standa á þurru og þá er ekki að sökum að spyrja. Fyrir ekki alls löngu las ég að aukin þrýstingu í vatni samfara hækkuðu yfirborði getur einnig orðið hrognum að fjörtjóni fyrir svo utan það að með hækkandi vatnsborði er hætt við að straumur sem ber með sér súrefnisríkt vatn nái ekki lengur niður á það dýpi sem hrognin liggja á og þau kafna því áður en þau klekjast. Það er ekki að ósekju að stór hópur veiðimanna erlendis, sér í lagi í Norður Ameríku hefur skorið upp herör gegn miðlunarstíflum og tekist að fá fjölda þeirra rutt úr vegi og orðið þannig fiskistofnum til bjargar.

Bleikja – kyneinkenni

Eins og með urriðann getur verið nokkrum vandkvæðum bundið að kyngreina bleikjuna utan hrygningartímans. Helst stóla menn á almennt vaxtarlag bleikjunnar. Hængurinn er oftast heldur mjóslegnari heldur en hrygnan og allar línur í honum skarpari, þó ekki algilt.

Bleikja - hængur
Bleikja – hængur

Hrygnan er kviðmeiri heldur en hængurinn og allar línur í henni meira ávalar. Oft er þetta mest áberandi á tálknlokum hængsins sem eru nánast eins og > á meðan tálknlokur hrygnunnar eru ) Öll þessi einkenni verða skarpari því heldri sem fiskurinn er.

Bleykja - hrygna
Bleykja – hrygna

Eitt til viðbótar hafa menn notar við kyngreiningu og það er stærð haussins m.v. almennt vaxtarlag. Hafa menn þá haft til hliðsjónar að haus hængsins er hlutfallslega stærri heldur en hryggnunnar m.v. líkamsstærð almennt. Við þetta verður að setja þann fyrirvara að í ofsetnum vötnum verður haus hrygnunnar oft hlutfallslega stærri heldur en annars staðar eða öllu heldur; búkurinn nær ekki að halda í við vöxt haussins og hún því oft ranglega greind sem hængur sé ekki gætt að öðrum einkennum.

Arnarvatnsseiði

Það getur verið nógu skemmtilegt að grípa myndavélina þegar lífríkið bregður á leik. Það sannaði sig við Arnarvatn stóra nýlega þegar konan stjórnaði brúðuleikhúsi með Orange Nobbler í aðalhlutverki. Að vísu er þessi klippa ekki í einhverjum súper gæðum, tekin á venjulega vasamyndavél, Sony CyberShot í gegnum Polaroid veiðigleraugun mín.

Ef vel er að gáð má sjá að svo lengi sem flugan hreyfðist á svipuðum hraða og fiskurinn var hún í raun látin í friði, en um leið og einhver afbrigðileg hegðun skaut upp kollinum var látið til skarar skríða og ráðist á hana, stundum heldur óvægilega. Snemma breygist krókurinn og ráðdýrseðli urriðans er greinilega meðfætt og ekki virtist stærð flugunnar flækjast neitt mikið fyrir tittunum sem sumir náðu henni ekki nema til hálfs í lengd.

Og hvað má svo sem ráða af þessu? Jú, ef fullorðin fiskur hagar sér eitthvað í líkingu við ungviðið er kannski eins gott að draga Nobblerinn inn með rykkjum og skrykkjum.

Urriði – kyneinkenni

Utan hrygningartímans er ekki alltaf stórkostlegur munur á útliti urriða eftir kyni. Þeim veiðimönnum sem hugnast að veiða/sleppa veitist stundum nokkuð snúið að greina kyn fisksins, en þetta lærist með tímanum. Snemmsumars getur eitt aðaleinkenna hængsins, krókurinn verið svo flatur að hann er nánast horfinn svo ekki er unnt að stóla á hann við greiningu. Þá koma til tvenn önnur einkenni sem oftast er unnt að nota til aðgreiningar.

Urriði - hængur
Urriði – hængur

Gotraufaruggi hængsins er rúnnaður, svolítið eins og ) á meðan ugginn á hrygnunni er beinni, svolítið eins og /

Urriði - hrygna
Urriði – hrygna

Síðara einkennið sem leita má eftir er gotraufin sjálf. Á hrygnunni er gotraufin kringlótt ● en á urriðanum er hún þríhyrnt ▼

Atferli og hegðun

Á bekknum

Á umliðnum árum hefur mjög færst í vöxt að stöndug samtök stangveiðimanna og veiðifélög styrkja eða standa að alvöru rannsóknum á lífríki og þar með atferlishegðun fiska. Mér liggur við að segja að auðvitað eru þetta erlendir aðilar, hér heima hafa stangveiðifélögin víst ekki bolmagn til slíkrar peningaeyðslu. En, rannsóknir auka við þekkingu okkar og með þeim gætum við kortlagt brunnana áður en við dettum í þá. Sumt af þessum rannsóknum eru náttúrulega einskorðaðar við ákveðin vötn eða vatnasvæði erlendis en það má samt alltaf lesa einn og einn góðan punkt út úr þeim.

  • Sé þess einhver kostur að hreyfa sig sem minnst er það fyrsti kostur silungsins þegar kemur að fæðuöflun. Léleg fæða, jafnvel orkulítil sem er innan seilingar verður oftar fyrir valinu heldur en fæða sem útheimtir einhverja orkueyðslu.
  • Silungurinn er vel hæfur til þess að greina á milli raunverulegrar fæðu og þess sem er óætt með því einu að fylgjast með hreyfingu og atferli bráðarinnar. Hann rennur frekar á agn sem hreyfist líkt og raunveruleg bráð heldur en þá sem líkist henni en hreyfist ekki ‚eðlilega‘.
  • Sjónskyn silungs er ekki ósvipuð okkur mönnunum, nema þá helst snemma morguns og að kvöldi. Þá dofnar allt litaskin fisksins, hann verður næstum litblindur og því um að gera fyrir okkur að nota agn sem inniheldur hve skörpust skil ljósra og dökkra flata.
  • Óróleiki í vatni, þá helst í ám og lækjum truflar sjónsvið silungs verulega. Við bestu skilyrði sér fiskurinn u.þ.b. 20‘ (6 metra) frá sér þannig að hann greini þokkalega hvað er á ferðinni. Hann má aftur á móti ekki vera nema u.þ.b. 2‘ (60 sentímetrar) frá flugu #12 til að hann sjái hana þokkalega og geri atlögu að henni.

Mögulega getum við nýtt okkur eitthvað af þessu við hnýtingarborðið á komandi vetri.

Fiskur í hita

Nú í sumar reyndi ég aðeins að veita því athygli hvenær dags og þá sérstaklega með tilliti til hitastigs vatns, fiskurinn væri virkastur. Það er löngu þekkt að ljósaskiptin eru virkur tími til veiða, en hvað er það við ljósaskiptin sem kveikir í silunginum að fara á stjá? Eru það birtuskilyrðin eða er það e.t.v. ölítil en samt merkjanleg breyting á hitastigi vatnsins?

Urriði

Mæli maður hitastig vatnsins þegar ekkert er að gerast og svo þegar allt fer á fullt, þá er það mín tilfinning að urriðinn vilji helst vera á stjái þegar hitastigið hefur náð 10°C en dragi sig fljótlega í hlé þegar hitinn fer yfir 14°C. Þetta á alveg jafnt við um það hvort æti sé á yfirborðinu eða ekki, ef yfirborðshitinn fer yfir 14°C þá sekkur urriðinn. Ég hef sannreynt þetta einfaldlega með því að gefa því gaum hvenær uppitökur hætta að morgni eða um hádegi og prófað þá að þyngja flugurnar mínar og veiða dýpra. Oftar en ekki heldur veiðin áfram á sömu slóðum, bara aðeins neðar í vatnsbolnum þar sem hann hefur ekki hitnað eins mikið. Ég leyfi mér að draga þá ályktun af þessu að fiskurinn hörfar ekkert endilega strax út í vatnið þar sem er meira dýpi heldur byrji á því að leita neðar í vatnsbolinn. Auðvitað á þessi kenning aðeins við um þau vötn sem taka miklum breytingum, eru annað hvort grunn eða lituð. Lituð vötn sveiflast meira í hitastigi milli dags og nætur heldur en þau tæru. Sama á við um þau grunnu. Ofangreind hegðun virðist einnig eiga við bleikjuna, nema þá að kjörhitastig hennar er lægra, þ.e. 9 – 13°C. Hún virðist sökkva fyrr en urriðinn og hörfar síðan í framhaldi út í vatnið.

En er þetta yfir höfuð nokkuð vandamál hér á Íslandi? Hvar eru þessi vötn sem hitna svona á Íslandi? Jú, það kemur mönnum væntanlega á óvart hve vötn hitna hér almennt hratt og mikið yfir sumartímann. Áttu vatnshitamæli?  Leyfðu honum að dingla í vatninu á meðan þú veiðir og kíktu á hann annars lagið. Hver veit nema þú getir haldið áfram að veiða eftir að fiskurinn er hættur að taka á og við yfirborðið.

Silungur að vori

Urriði

Það liggur það orð á silunginum næstu vikurnar að hann sé alls ekki eins var um sig eins og þegar líða fer á sumarið, en það þýðir nú samt ekki að hann sé í einhverjum sjálfsmorðshugleiðingum. Við þurfum eftir sem áður að fara varlega að honum og umfram allt rólega. Lífríkið fer rólega af stað, mun rólegar heldur en við veiðimennirnir eftir veturlangan sult í veiði.

Eitt af því sem við þurfum að glíma við er þetta vandamál með línuna, tauminn og taumendann. Þetta vill allt stífna í köldu vatninu og skilja eftir sig rákir og slóða þar sem við viljum síst sjá þær. Því er ráð að finna til alla mjúku taumana og taumendana til að nota fyrst á vorin.

Í köldu vatninu heldur fiskurinn sig mjög neðarlega í vatninu, kannski þetta fet til tvö frá botninum og bíður þess að eitthvert æti syndi hjá. Það er ekki mikil fart á honum og því þurfum við að gíra okkur aðeins niður til að ofbjóða honum ekki. Hægur inndráttur með þokkalega þyngdum púpum og umfram allt, litlum. Það er ekki mikið um ofvaxnar lirfur á ferðinni svona snemma, það sem er á ferðinni er enn lítið og oft rautt eða svart. Það er sjaldnast ástæða til þess að taka öll fluguboxin með sér fyrstu dagana, fáar en vel valdar flugur sem líkja eftir lirfum í vetrarhýði ættu að duga og svo einn og einn Nobbler ef einhver seiði eða síli eru á stjái.

Tökurnar eru grannar þannig að stutt köst með strektri línu eru líklegri til að leiða nartið upp í fingurgómana á okkur heldur en löng köst og mögulegur slaki. Við getum leyft okkur að veiða stutt að vori því eins og ég nefndi í upphafi, þá er silungurinn ekki eins var um sig og hreyfir sig ekki fyrr en í fulla hnefana, hans fyrsta hugsun er enn orkusparnaður.

Kafað í hegðun silungsins X

Rekið skiptir mestu

Spyrðu leiðsögumanninn „Hvað eru þeir að éta?“ og hann svarar líklega „Dautt rek“. Ef flugurnar þínar eru dregnar áfram af línunni mun silungurinn ekki aðeins fúlsa við þeim heldur beinlínis synda burt. Við horfðum aftur og aftur á það þegar við veiddum púpur í gegnum lyngur og grynningar. Viljandi breyttum við rekinu þannig að stundum var flugan eins og hundur í bandi, togandi í tauminn eða í dautt rek þar sem púpan flaut eðlilega í vatninu. Við hefðum ekki getað samið betra handrit; silungurinn sneiddi hjá og synti frá óeðlilegu reki en var jafn skjótur til að gaumgæfa eðlilegt rek. Kastið sjálft nær ekki nema einum tíunda af mikilvægi góðs reks. Lærðu að vippa línunni og stjórna rekinu og hálf baráttan er unnin.

Kirk Deeter

Loka hnykkurinn, þetta var síðasti pósturinn sem ég vann upp úr greinum Kirk Deeter. Ég vona að gestir bloggsins hafi haft jafn mikla ánægju af þessum hnitmiðuðu greinum hans og ég hef haft. Ef svo ólíklega vildi til að Kirk leggði leið sína á bloggið, þá færi ég honum bestu þakkir fyrir leyfið að birta þessar greinar hans.

Ummæli:

19.02.2012 – Hilmar

Vel gert, Takk fyrir mig. Afar fróðlegt.

Kafað í hegðun silungsins IX

Silungurinn elskar tilbreytingu

Veiðistaðir þar sem umhverfið er breytilegt, mismunandi dýpi og breytilegur straumur eru líklegastir til að geyma flesta fiska. Við urðum varir við að fiskurinn var síður fælinn þar sem fæðan var áberandi, t.d. þar sem straumur var klofinn af stórum steini og því stutt í öruggt skjól. Mér tókst frekar að nálgast fiskinn á slíkum stöðum heldur en í lygnum og breiðum. Þú gerir sjálfum þér greiða með því að einblína meira á staði þar sem straumurinn og botninn eru breytilegir.

Kirk Deeter

Hér eru engin geimvísindi á ferðinni og þetta þekkja veiðimenn mæta vel. En, góð vísa verður aldrei of oft kveðin. Nokkrir punktar frá mér sem hafa bent á þetta eru t.d. Hvar er fiskurinn? auk fjölda greina í flokkinum Veiðitækni sem hægt er að skoða í heild sinni með því að smella hér.

Kafað í hegðun silungsins VIII

Þyngdin skiptir máli

Þyngdin skipti miklu máli þegar kemur að púpuveiðum, sérstaklega þegar þið ætlið að glepja fiskinn með flugum eins og Prince eða Copper John. Ef ákveðið klak er í gangi eða þegar massi af skordýrum skolast með vatninu einbeitir silungurinn sér að þessum skordýrum og étur eins og hann getur. Ef hann aftur á móti dólar bara í vatninu og étur eftir því sem til fellur verður þú beinlínis að hitta hann í hausinn.

Ég sá fiskinn sveigja rólega til sitthvorrar áttar, fáeinar tommur í einu, týnandi upp eitt og eitt skordýr í vatninu en hunsa algjörlega þau sem flutu á yfirborðinu. Í eitt skipti náðum við þyngdinni akkúrat í flugurnar, þær flutu í sama plani og fiskurinn hélt sig, sitt hvoru megin við skoltana á honum, og kræktu í hann.

Í öðru tilfelli notuðum við fjarstýrði myndavélarnar til að fylgjast með torfu 50 sm. urriða sem átu í lygnu undir fossi. Vegna þess að fiskarnir voru að éta skordýr sem risu með uppstreyminu stóðu þeir beinlínis kyrrir í vatninu í 45° halla, trýnið niður. Við yfirspekkuðum tauminn til þess að skjóta flugunum beint á botnin og lyftum þeim síðan rólega upp af botninum. Einn af þessum stóru urriðum hamraði beinlínis fluguna þegar hún reis.

Punkturinn er: Þú ættir að skipta þrisvar um þyngd áður en þú skiptir í aðra flugu.

Kirk Deeter

Kafað í hegðun silungsins VII

Tökuvari er ekki það sama og tökuvari

Frá mínu sjónarhorni í vatninu virðast tökuvarar sem gerðir eru úr garni ekki fæla fiskinn eins mikið eins og þeir sem gerðir eru úr plasti eða eru gegnheilir. Mér sýndist fiskar heldur hrelldir eftir að gegnheill tökuvari lenti á vatninu. Ég veit ekki hvers vegna, kannski er það vegna smellsins sem heyrist þegar hann lendir. Vissulega litu gegnheilu tökuvararnir framandi út þegar þeir flutu framhjá á yfirborðinu. Garn-tökuvari leysir bæði vandamálin. Hann fellur hljóðlaust á vatnið og frá mínu sjónarhorni séð virtist hann samlagast vatninu betur. Hann virtist ‚náttúrulegri‘, ekki eins og ‚mannanna verk‘. Mismunandi litir virtust ekki skipta fiskinn neinu máli.

Kirk Deeter

Hér get ég samsvarað mig nokkuð vel með Kirk Deeter. Sumir tökuvarar minna meira á flotholt fyrir beituveiði heldur en tökuvara og engin furða að fiskurinn taki við sér (neikvætt) þegar sumt af þessu lendir á vatninu.

Kafað í hegðun silungsins VI

Skrautflugur virka

Ég veiði alltaf með tvær flugur á taum í púpuveiði. Fyrri (efri) flugan er skrautfluga, sem dæmi San Juan ormurinn eða Copper John. Síðan hnýti ég 30 til 45 sm. taumenda í hana og þar á endann minni flugu, góðgæti á botninn. Svona er byrjunarsettið mitt í straumvatni, stundum einnig í stöðuvatni. Í mjög hægur og tæru vatni nota ég tvær litlar flugur.

Kenningin er að fyrri flugan grípi athygli fisksins sem athugar málið þá betur og rekur þá augun í þá síðari og hremmir hana. Hljómar svolítið langsótt, en ég varð vitni að þessu. Ég staðsetti mig á botninum um það bil 4 fet fyrir neðan og örlítið til hliðar við stóran regnboga. Mardick kastaði og ég fylgdist með fiskinum þar sem flugan greip athygli hans, hann snéri sér við og synti framhjá mér eins og til að undirstrika „Bíddu, ég kem að vörmu, þarf bara að tékka aðeins á þessu“. Hann fylgdi þeim eftir (lítilli steinflugulirfu og litlum rauðleitum Copper John) en ákvað greinilega að gefa þeim líf og snéri til baka á nákvæmlega sama stað og hann lagði upp frá. Í næsta kasti flutu flugurnar rétt framhjá mér, fiskurinn tók á rás á eftir þeim og hvarf mér sjónum. Skömmu síðar kom hann til baka á staðinn sinn. Eftir þriðja kastið setti fiskurinn aftur kúrsinn á eftir flugunum, en í þetta skiptið kom hann ekki aftur. Ég fór upp á yfirborðið og sá Mardick og Bartkowski með regnbogann í netinu. Hann hafði hremmt neðri fluguna, fangaður af forvitninni.

Kirk Deeter

Ummæli

Ónafngreindur – 15.janúar 2012

Svona af því að þú ert að fjalla um tvær flugur á sama taum þá sendi ég VoV sumarið 2010 smá sögu sem kom meðal annars inn á þetta svið:

“Ég fór um daginn tvo daga í röð og fyrri daginn var ég með Peacock á beinum öngli og Pheasant tail á bognum öngli(ég er með tvær flugur á taumnum) og tóku allir fiskarnir Peacockinn. Daginn eftir var ég með Peacock á bognum öngli en Pheasant tail á beinum, þann daginn tóku allir fiskarnir Pheasant tail púpuna. Merkilegt hvað svona smáatriði geta skipt miklum sköpum.”

Þetta var í urriðavatni og í öllum veiðiferðum mínum það sumar veiddi ég mun betur á flugur á beinum öngli heldur en grubber öngli. Skipti þá litlu máli hvort beini öngullinn væri sá efri eða neðri.

Hérna er öll fréttin: http://www.votnogveidi.is/aftheying/veidisagan/nr/3439, þarna sést reyndar hvað maður veit lítið, ég efaðist um að það væru stærri fiskar en 50 cm í ánni en núna í sumar fékk ég þónokkra milli 50 og 60 cm og missti enn fleiri! Annaðhvort hef ég skánað sem veiðimaður eða fiskurinn stækkaði rosalega hratt milli ára

Frábær síða hjá þér, ein af sárafáum veiðisíðum með einhverju lífi yfir veturinn!

Sjóbleikja

Sjóbleikjan er frábrugðin vatnableikjunum að því leiti að hún dvelur öll sumur eftir að seiðastigum sleppir í sjó. Beikjan gengur í sjó í apríl eða maí og dvelur þar allt sumarið. Þegar sumri hallar og fram á haust gengur fiskurinn aftur í árnar þar sem hann hryggnir í september og október. Klakið á sér stað snemma vors, frá mars og út maí. Rannsóknir hafa sýnt að ókynþroska fiskur gengur síðar upp í ár heldur en sá kynþroska. Þannig má segja að ókynþroska fiskur dvelji að jafnaði lengur í sjó heldur en sá kynþroska. Þar á móti kemur að kynþroska fiskur gengur fyrr til sjávar heldur en seiðin sem eru að fara í fyrsta skiptið. Búsvæði sjóbleikju er helst fyrir norðan og austan land, einna helst þar sem sjóbirtingur er ekki.

Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com

Urriði

Almennt skiptist urriðastofninn á Íslandi í tvennt; staðbundin urriði og sjóbirtingur. Staðbundin urriði er gulleitur/brúnn á lit, meðan sjóbirtingur er silfurgljáandi og hvítur á kvið.

Vatnaurriði Ísaldarurriðinn er sá urriði sem að stofninum til tók sér bólfestu í Íslenskum ám og vötnum við lok síðustu ísaldar fyrir u.þ.b. 12.000 árum. Sjógenginn urriði (sjóbirtingur) lokaðist inni í vötnum á núverandi hálendi Íslands, m.a. vegna landris og annarra jarðfræðilegra breytinga. Þetta er m.a. skýringin á því af hverju Þingvallaurriðinn og Veiðivatnaurriðinn eru eins skyldir og raun ber vitni. Útbreiðsla Ísaldarurriðans hefur þó raskast nokkuð með tilkomu seyðasleppinga í ýmiss vötn utan þeirra upprunalegu. Í lang flestum tilfellum gengur urriðinn upp í ár og læki þar sem hann hryggnir í september og október. Hrognin klekjast síðan með vorinu, frá byrjun mars og fram í lok maí. Auðvitað eru þessar tímasetningar misjafnar eftir legu vatna. Seiðin ganga síðan niður í vatnið eftir 2 – 4 ár í straumi. Kynþroska verður fiskurinn 3 – 4 ára.

Sjóbirtingur Svo virðist vera sem gönguhegðun sjóbirtings taki á sig form hjá 2 – 5 ára gömlum fiskum. Hryggning og klak sjóbirtings á sér stað á svipuðum tíma og hjá vatnaurriðanum. Fiskurinn heldur kyrru fyrir í ám og lækjum fyrstu árinn að jafnaði örlítið lengur en vatnaurriðinn. Fiskurinn dvelur 4 – 5 mánuði í sjónum áður en hann snýr aftur til vetursetu í ferskvatni, yfirleitt í ágúst – september. Þessari gögnuhegðun heldur hann þaðan í frá allt sitt líf.

Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com

Murta

Murta finnst víða á Íslandi. Murtan, líkt og sílableikjam er rennilegur fiskur með fremur oddmjótt trýni og er neðri skolturinn jafn langur eða styttri en sá efri. Ekki er óalgengt að menn taki murtu í misgripum fyrir smávaxna sílableikju og stimpli hana sem eitthvert kóð og sleppi. Meðal nokkurra þekktra murtuvatna á Íslandi eru; Þingvallavatn, Vesturhópsvatn, Skorradalsvatn og Langavatn. Stærð murtu er mjög mismunandi, allt frá 12 til 30 sm. og verður hún kynþroska 4 – 6 ára. Hryggna murtunnar breytir lítið um lit á hryggningartímanum, en hængurinn dökknar töluvert. Hryggning á sér stað síðari hluta september og fram í miðjan október, nokkuð mismunandi eftir landshlutum.

Murta úr Þingvallavatni
Murta úr Þingvallavatni

Sílableikja

Sílableikjan er silfruð með ljósum doppum. Hún heldur sig mest á botninum, frekar djúpt og þá helst innan um botngróður á 10 – 30 m dýpi. Þrátt fyrir þetta má almennt vænta sílableikju á nánast öllum búsvæðum bleikju. Sílableikjan dökknar mikið á höfði, hliðum og baki á hryggningartímanum og líkt og kuðungableikjan, roðnar hún á kviði. Fiskurinn verður kynþroska 6 – 10 ára og hryggning stendur yfir allt frá september og fram í nóvember.

Sílableikja – Náttúrufræðistofa Kópavogs – natkop.is

Kuðungableikja

Kuðungableikjan er með dökkt bak og silfraðar hliðar. Á hryggningartímanum roðnar kviður bleikjunnar all verulega og getur orðið dökk appelsínugulur. Þrátt fyrir nafnið lifir kuðungableikjan ekki aðeins á kuðungi, heldur leggur sér einnig til munns mý, hornsíli og ýmiss botnlæg dýr. Kynþroska verður fiskurinn 6 – 10 ára og er þá á bilinu 25 – 50 sm að lengd. Bleikjur, ólíkt öðrum laxfiskum, hryggna að öllu jöfnu í vatni, ekki ám eða lækjum. Hafi hryggning átt sér stað í straumvatni, ganga seyðinn strax í næsta vatn um leið og þau klekjast. Hryggning á sér að öllu jöfnu stað í júlí – ágúst. Klaktími er nokkuð misjafn, alveg frá því í janúar og fram í júli, allt eftir hitastigi, stærð eggja og umhverfisaðstæðum hverju sinni.

Kuðungableikja

Dvergbleikja

Dvergbleikja er smæst þeirrar bleikju sem finnast á Íslandi. Kynþroska verður fiskurinn 2 – 4 ára og er á bilinu 7 – 24 sm að lengd. Hryggningartími dvergbleikju er mjög mismunandi eftir landshlutum, ág.- sept. fyrir norðan land, mánuði síðar sunnanlands. Dvergbleikja heldur sig á grynningum eða efri hluta botnsins og lifir mest á kuðungum. Hún er sá stofn bleikju sem virðist vera bundin í útliti seyðis um allan aldur; er kubbsleg í vexti, dökkleit, oft brún og hliðarnar alsettar gulleitum depplum.

Dvergbleikja