Fyrirsögn þessarar greinar gæti verið heitið á uppskrift að gómsætum fiskrétti. Hugsið ykkur bara; ferskur silungur, innbakaður í einhverjum gourmet jurtum á grillinu eða í fiskiklemmu yfir varðeldi. En, nei. Þetta er ekki uppskrift, þetta er grein þar sem mig langar að leitast við að leiðrétta algengan misskilning eða samslátt á tegunda sem borin hefur verið undir mig í nokkur skipti.
Byrjum bara á grundvallar útskýringu; birnir eru spendýr sem lifa á landi. Nær allar tegundir bjarna leggjast annað hvort í híði eða dvala yfir köldustu mánuði ársins. Það er töluverður munur á að leggjast í dvala eða leggjast í híði, sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.

Silungur er fiskur sem lifir í vatni og leggst hvorki í híði né í dvala. Jafnvel yfir köldustu mánuði ársins þegar hitastig vatns fer alveg niður að frostmarki, þá eru þeir með fullri meðvitund, ef það má þá segja það um fiska. Þeir hægja verulega á allri líkamsstarfsemi, en þeir hætta ekki að borða og þeir hreyfa sig meðvitað eftir æti, leita þess og neyta.
Fiskar eru með kalt blóð og þegar líkamshiti þeirra fellur til samræmis við vatnshita, þá hægist sjálfkrafa á framleiðslu meltingarensíma og þar með meltingu þannig að þeim er í raun nauðugur sá kostur að spara orku. Raunar benda rannsóknir til þess að melting urriða stöðvast við hitastig 2.9 til 3.6°C og bleikju 0.0 til 3.3°C. Sömu rannsóknir leiddu í ljós að bæði urriði og bleikja lifa af þótt vatnshiti fari alveg niður að frostmarki og báðar tegundir geta þrauka töluverðan tíma án virkrar meltingar. Að vísi mjókka fiskarnir verulega undir þessum kringumstæðum, þeir eru jú ekki í dvala eða híði og ganga því á orkuforða sinn á meðan melting liggur niðri eða er í lágmarki.
Rannsóknar heimild: Journal of Fish Biology (2010), J.M. Elliott and J.A. Elliott
Senda ábendingu