Það eru nokkur ár síðan FOS.IS lagði í raun af annan helming nafnsins (sköksögur) og hefur síðan þá haldið sig við að nota aðeins FOS. Enn eru þeir til sem muna eftir skröksögunum og beita þeim stundum í samtölum sínum við mig. Oftast er þetta í almennu spjalli, en það kemur þó fyrir að í miðju erindi heyrist í einhverjum; Nei, nú skrökvar hann og þá á maður stundum erfitt með sig.
Eitt af því sem vakti svona viðbrögð var skýring mín á því af hverju fiskurinn hættir algjörlega að taka 10 mín. fyrir miðnætti á ákveðnum veiðistað. Ég svaraði því einfaldlega til að trúlega væri fiskurinn farinn að sofa á þessum tíma, hann hefði vit á því að vera ekkert að gaufast þetta langt fram eftir. Ég held að nánast enginn sem til mín heyrði hafi trúað mér, en mér var í raun full alvara.

Það virðist vera útbreiddur misskilningur að fiskar sofi ekki, en þeir gera það nú samt. Að vísu er ekkert víst að þeir fari að sofa á ákveðnum tíma sólarhrings en oftast er það þó í einhvern tíma á nóttunni. Svefnástand fiska er misjafnt eftir tegundum, en flestir þeirra hægja á líkamsstarfseminni á meðan þeir hvílast en halda þó fullri meðvitund og eru á varðbergi. Leiða má að því líkum að urriðinn leiti út fyrir erilsamasta svæði vatnsins, þ.e. rétt út fyrir gróðurmörk og komi sér þar fyrir við botninn og taki smá blund. Hann kemst upp með að liggja nokkuð óvarinn við botninn því sú ógn sem að honum steðjar kemur ofan frá, en finni hann stóran stein eða gjótu, þá nýtir hann sér slíkt til skjóls.
Smávaxnari bleikjuafbrigði, murta og dvergbleikja eru í aðeins annarri aðstöðu. Þær þurfa að leita skjóls því þær eiga sér náttúrulega óvini í vatninu og þá getur verið heppilegt að koma sér fyrir í gjótum, á milli steina eða jafnvel inni í gróðri á meðan þeir blunda.
Og svona rétt aðeins til að koma í veg fyrir misskilning; silungar loka ekki augunum þegar þeir sofa, ástæðan er einfaldlega sú að þeir eru ekki með augnlok.
Senda ábendingu