10 bestu listarnir yfir 10 bestu …

Ég veit ekki hvort allir þekkja hugtakið dálkasentímetrar úr heimi blaðamanna en það er það pláss sem fylla þarf á blaðsíðu í tímariti eða dagblaði þannig að úr verði samfella. Oft vilja ónýttir dálkasentímetrar safnast saman á síðustu blaðsíðum tímarita eða blaða og þá er gott að eiga nokkrar minna mikilvægar greinar, myndir eða auglýsingar til að grípa í.

Hjá þeim sem halda úti veiðibloggi eða fréttasíðum verður þrettándinn stundum þunnur þegar líða fer að lokum tímabils og ónýttir dálkasentímetrar fara að dúkka upp. Þetta er ekki eins áberandi á vefjum eins og á pappír, en þegar aðilar hafa skuldbundið sig til birta ákveðin fjölda greina á viku eða mánuði en hafa úr litlu að moða, þá sér maður uppfyllingaefnið koma fyrir.

Þegar ég renndi yfir ólesnar greinar í lok sumars, þá datt ég um nokkrar sem voru augljóslega uppfyllingarefni í lok veiðitímabils hérna megin á hnettinum eða í upphafi tímabils hinu megin á kúlunni. Toppurinn á þessu uppfyllingarefni sem ég rakst á var listi yfir 10 bestu listana yfir 10 bestu listana … um eitt og annað.

Ein útgáfa vakti sérstaka athygli mína því hún innihélt lista yfir samtals nærri 100 bestu flugurnar í urriða að hausti. Listarnir áttu allir ættir að rekja vestan Atlantshafs þannig að ég átti von á að finna sömu fluguna á nokkrum listum og renndi því í gegnum þessa lista til að finna hina einu sönnu bestu flugu. Mér til furðu reyndust sömu flugurnar teljandi á fingrum annarrar handar. Ein og ein tískufluga skaut upp kollinum á nokkrum listum og klassískar, þrautreyndar og þekktar flugur komu líka fyrir á fleiri en einum lista, en flest fluguheiti voru einstök og gáfu til kynna sérstaka flugu.

Þarna datt ég til að byrja með í gryfju afbrigða sem hinir og þessir aðilar gáfu ný nöfn án þess að vísa til fyrirmyndarinnar. Fjálgleg heiti eða vísan til nafns hnýtara voru afar algengar, en þegar betur var að gáð, þá voru afbrigðin oft aðeins lítillega frábrugðin áberandi fyrirmynd. Flestar þessara fyrirmynda voru oftar en ekki þekktar flugur með góðu og gildu nafni, sem hefði að ósekju mátt tilgreina. Ég var svo sem ekkert að láta þetta fara í taugarnar á mér, en eftir á að hyggja, þá þóttu mér þessar nafnabreytingar óþarfur dónaskapur við fyrirmyndina og höfund hennar.

Á móti kemur að sumum hnýturum er ekkert um það gefið að afbrigði flugna þeirra sé teflt fram með vísan til fyrirmyndarinnar og vilja lítið sem ekkert af þessum afbrigðum vita. Það getur því verið tvíbent að setja sig í dómarasætið um nafnagiftir flugna og mögulega á maður ekkert að vera skipta sér af eða agnúast út í öll þessi heiti flugna sem í raun eru beinir afkomendur flugu eins og Damsel sem áttu ótrúlega marga afkomendur á þessum listum. Það sem yfirferð þessara lista vakti þó helst hjá mér var uggur yfir því hve margir veiðimenn og hnýtarar mundu mögulega rjúka upp til handa og fóta, kaupa sér efni og hnýta flugur sem væru nákvæmlega eins og einhverjar þessara nærri 100 bestu flugna, jafnvel þótt þeir eigi nú þegar í boxum sínum flugur sem væru 99% eins en hétu einhverjum öðrum eða þá upprunalegum heitum. Ætla nú samt að viðurkenna að ég tók niður nokkrar flugur (afbrigði) sem ég mun trúlega hnýta í vetur, bara svona til vonar og vara ef þær verða nú einfaldlega miklu betri en þær sem ég á þegar í boxunum mínum.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com