Litur á flugum

Mér er sagt að gamlir hundar verða stundum gráhærðir. Ég veit ekki hvort þetta átti að vera skot á mig eða hvort það er eitthvað til í þessu, en þessi ummæli voru höfð uppi þegar litskrúðugar flugur bárust í tal og ég lét það út úr mér að það væri nú takmarkað hvað fiskar gera mikinn greinamun á litaafbrigðum. Eins og umræðurnar þroskuðust, þá var ég ekkert að tefla fram mínum efasemdum um ákveðna liti umfram aðra.

Sumir hnýtarar hafa sterkar skoðanir á lit flugna, jafnvel litatón hráefnis í ákveðinni flugu. Þeir sem hafa sterkustu skoðanir á þessu skiptast reyndar oft í tvær fylkingar; þá sem vilja meina að fiskurinn vilji ekkert annað en ákveðinn lit í flugu og svo þá sem segja að þennan lit hafði höfundur flugunnar í henni upprunalega og því skal fylgja, amen.

Burtséð frá hreintrúarstefnu hnýtara, þá vitum við að ákveðnir litir og litasamsetningar höfða betur til fiska heldur en aðrir, sérstaklega ef litaskil eða öllu heldur birtuskil (e: contrast) eru skörp. Ákveðnir litir hafa fengið það orðsspor að ganga sérstaklega vel í silung, t.d. rauður og þá sérstaklega á móti svörtum. Þetta kann að hljóma svolítið á skjön við kenninguna um birtuskil, en þá kemur einmitt að því sem augað ekki sér.

Við sjáum rauðan lit, já eins og við sjáum hann, en laxfiskar sjá hann í nokkuð öðru ljósi. Litir sem eru með lengri bylgjulengd eru skærari í þeirra augum en okkar og því má álykta að laxfiskar laðast frekar að þeim en öðrum.

Myndin sýnir aðeins eina af ótal niðurstöðum rannsókna á ljósdrægni vatns og er ekki algild

Rauður er sá liturinn sem hefur lengsta bylgjulengd og hann er því skærastur lita sem laxfiskar sjá. Það er þó einn galli á gjöf Njaðar, því lengri sem bylgjulengd litar er, því fljótari er hann að hverfa þegar niður í vatnið er komið, eins og myndin hér að ofan gefur vísbendingu um. Vatn virkar eins og ljóssía og síur eiga auðveldast með að grípa fyrirferðamikla hluti og langar bylgjur eru fyrirferðarmeiri en þær stuttu. Eins kjánalegt og það virðist, þá er rétt að árétta það að þó litur hverfi þá verður flugan ekki gegnsæ, hún hverfur ekki, hún verður bara svört.

En hvað með þá liti sem eru á hinum enda litrófsins, blár, fjólublár og útfjólublár (UV)? Sjá laxfiskar þessa liti þá bara í einhverri móðu? Nei, hreint ekki. Svo lengi sem fiskurinn er ekki orðinn 5 til 7 ára, þá sér hann þessa liti alveg þokkalega skýrt. Af hverju ég nefni sérstaklega aldur fiskar á sér einfalda skýringu, með árunum daprast hæfileiki fiska til að greina UV ljós og þegar hæfileikinn hverfur alveg, þá sjá þeir UV liti með alveg sama hætti og liti sem eru með lengri bylgjulengd. En, sem sagt, litir með styttri bylgjulengd eiga auðveldara með að ná niður í vatnið, sjást á meira dýpi af því þeir smjúga auðveldar í gegnum ljóssíu vatnsins.

Það var alveg ástæða fyrir því að forgangsljós lögreglu og sjúkraflutninga var á sínum tíma breytt úr rauðum í blá. Bláa ljósið sést lengra að og á auðveldara með að smjúga í gegnum rigningu og dimmviðri heldur en það rauða.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com