Að ruglast í talningunni

Það kemur reglulega fyrir að maður ruglast í talningunni, sérstaklega þegar maður er að hnýta eitthvað lítið kvikindi og allt í einu eru komnir mun fleiri fætur eða fálmara á púpuna heldur en fyrirmyndin segir til um. Sumar sexfætlur eru orðnar að áttfætlum eða þaðan af meiru, hafa tekið á sig mynd margfætlu. Ég hef alltaf látið mér fátt um þennan rugling finnast, enda kunna fiskar ekki að telja síðast þegar ég vissi. Sumar flugur eru einfaldlega þannig að fleiri fætur gera þær bara girnilegri, held ég.

Ekki bara sex færur á þessari
Ekki bara sex fætur á þessari

Aðrar flugur þurfa einfaldlega á mun fleiri fótum að halda heldur en líffræðileg fyrirmynd þeirra segir til um. Tökum sem dæmi þurrflugur. Síðast þegar ég vissi eru flestar flugur með sex fætur en þær einfaldlega fljóta ekki ef við veljum aðeins sex fanir og hnýtum á frambúkinn sem lappir. Stundum verður við einfaldlega að láta fyrirmyndina lönd og leið og hnýta fluguna úr því efni sem höfum til umráða og reyna að líkja meira eftir heildarútliti heldur en smáatriðum. Þær eru nú samt fallegar, þessar veiðiflugur sem maður sér og bíður ósjálfrátt eftir því að þær hreyfist, labbi af stað eða taki sig á loft.

Geymdu minningarnar

Það verður enginn óbarinn biskup og það á við um mig eins og flesta aðra. Fyrstu flugurnar mínar voru ekki merkilegar, beinlínis öll mistök sem hægt var að gera í hnýtingum hrönnuðust upp hjá mér í fyrstu. Þær voru nokkrar sem lentu undir hnífnum og ég skar allt af þeim til að endurnýta krókinn. Fljótlega gerði ég þó verðsamanburð á krókum og lærdómi sem reyndist lærdóminum í vil og ég hætti að skera ljótu flugurnar mínar niður.

Minningakort
Minningakort

Í staðin setti ég smá svamp á pappaspjald og festi upp á vegg við hliðina á þvingunni minni þar sem ég safnaði þeim flugum sem aldrei áttu að koma fyrir fiska augu. Í einhverju bjartsýniskasti útbjó ég aðeins eitt svona spjald til að byrja með. Fljótlega bættust reyndar nokkur önnur spjöld við, en þeim tilfellum fer nú fækkandi sem ég hengi flugu á þessi spjöld. Samt sem áður kíki ég reglulega á spjöldin mín, hristi hausinn svolítið og hugsa með mér; þvílíkt samansafn af ruslflugum. Eftir situr að ég á þarna nokkur víti til varnaðar og hef innan seilingar, það er aldrei að vita nema maður læri eitthvað af þessum mistökum ef maður kíkir annað slagið á þau.

Lokaður og niðursveigður

Nú fer ég alveg að hvíla lesendur af grúskinu mínu um vængi á votflugum, bara einn í viðbót. Þegar ég renndi í gegnum boxið mitt voru nokkrar svona flugur inni á milli; niðursveigður, lokaður vængur og það kæmi mér ekkert á óvart að svona vængir leynist í mörgum boxum veiðimanna.

Lokaður vængur, niðursveigður endi
Lokaður vængur, niðursveigður endi

Enn og aftur vitna ég í Don Bastian og grein hans frá 2010 í Hatches Magazine. Þar segir Don frá ástríðu Dave Hughes fyrir þessum flugum. Það eitt, að hann hnýti sínar votflugur svona er mér næg ástæða til að halda áfram að nota mínar. Ein af mínum uppáhalds bókum, þ.e. það sem ég hef komist yfir af efni úr henni, er Essential Trout Flies sem hefur komið út í nokkrum upplögum frá árinu 2000 og nú síðast sem rafbók fyrir Kindle.

Hið appelsínugula sumar

Fyrstu fiskarnir í vor sem leið tóku nokkuð hefðbundnar flugur sem virka í köldu vatni. Mjósleginn Mobuto og mjónur með rauðu ívafi voru greinilega eitthvað sem líktust því æti sem var á ferðinni. Þetta ætti svo sem ekkert að koma á óvart, það eru ekkert endilega fullvaxta flugur sem boðið er upp á snemma vors. Á sama tíma voru Black Pennell og Teal and Black að gefa öðrum veiðimönnum fisk og svo auðvitað heimalningurinn í Selvoginum, Peacock.

Örmagna UV Nobbler eftir sumarið og Peacock #16
Örmagna UV Nobbler eftir sumarið og Peacock #16

Þegar fjör fór að færast í fiskinn, bæði urriða og bleikju, var eins og hálfgert kapphlaup hæfist á milli Peacock með orange skotti og stutts orange Nobblers. Og viti menn, þar sem þessum tveimur tókst að stimpla sig fljótlega inn, þá voru þær alltaf framarlega í boxinu í sumar og þar með oftast á meðal fyrsta vals það sem eftir lifði sumars. Þær flugur sem oftast eru reyndar enda vitaskuld með því að verða þær veiðnustu, svo einfalt er það. Þannig trúlega varð þetta eiginlega sumar hins stutta orange Nobblers.

Ekki dró úr áhuga fisksins á Nobbler eftir að ég brá út af vananum og hnýtti nokkra úr UV Straggle frá Veniard í stað hefðbundins undirlags og hringvafs. Þá varð þessi fluga einfaldlega bráðdrepandi, bæði í urriða og bleikju. Vel að merkja, umræddur Nobbler er stuttur, afskaplega stuttur og lítill. Ég að tala um að hnýta hann á stuttan púpukrók #12 eða #14, stundum #10 ef ég hef ekki trú á þeim sérlega litlu.

Baksýnisspegill

Yfirleitt er það nú þannig að þegar maður hnýtir flugur, þá snýr sama hlið hennar að manni 90% tímans. Engu að síður er nauðsynlegt að horfa á fluguna frá fleiri sjónarhornum, sjá hvernig skeggið lítur út neðan frá, vængurinn að ofan og skoða sitt lítið af öðru. Ég hef meira að segja verið að temja mér að skoða fluguna að aftan, jafnvel kíkja uppundir hana, en það er önnur saga.

Stækkunarspegill á kantinum
Stækkunarspegill á kantinum

Þeir sem eiga hnýtingarþvingu sem hægt er að snúa á alla kanta (rotating vise) ættu því að nýta sér tólið til fullnustu og snúa flugunni á alla kanta til að skoða áferðina, þó ekki væri nema til að dást að henni. Þeir sem eru ekki svo vel settir að eiga svona hnýtingarþvingu verða að losa fluguna úr þvingunni eða það sem er mun einfaldara, vera með snyrtispegil við höndina og bregða honum á bak við fluguna, undir hana og aftanvið. Þá þurfa þeir ekki að losa fluguna ef svo ólíklega vildi til að eitthvað þurfi að lagfæra. Það er ekki verra ef spegillinn er tvöfaldur, þ.e. venjulegur öðru megin og með stækkun hinu megin, þá sér maður öll smáatriðin betur.

Opinn og niðursveigður

Enn held ég áfram grúskinu um vængi votflugna. Í síðustu viku nefndi ég rök Don Bastian fyrir opnum, uppsveigðum væng og að ég hefði fundið nokkrar slíkar í boxinu mínu. En ég fann fleiri tegundir. Með hliðsjón af ráðleggingum góðs vinar míns um niðursveigðan væng fyrir vatnaveiði, þá voru flestar þeirra þannig hnýttar og það sem meira er, vængurinn var yfirleitt örlítið opinn.

Opinn vængur, niðursveigður endi
Opinn vængur, niðursveigður endi

Að þessu leiti fellur smekkur okkar félaganna greinilega vel að uppáhalds flugum J. Edson Leonard, enn eins votfluguspekingsins. Eftir hann liggja nokkrar frábærar bækur og blaðagreinar um flugur, hnýtingar og fluguveiði. Ef einhver hrasar um eina slíka, endilega nælið ykkur í hana og skoðið, þið verðið ekki sviknir.

Opinn og hæfilega uppsveigður

Í síðustu viku smellti ég hér inn greinarkorni um lokaðan, uppsveigðan væng votflugu. Það er ekkert leyndarmál að ég hef horft töluvert til flugna Don Bastian þegar kemur að votflugum. Hann hefur haldið því fram að mismunandi vængir votflugu væru mögulega meira fyrir veiðimanninn heldur en silunginn. Á sama tíma tekur hann fram að helst vilji hann veiða votflugu þar sem vængurinn sé hæfilega uppsveigður og vængirnir örlítið aðskildir.

Opinn vængur, uppsveigður endi
Opinn vængur, uppsveigður endi

Don færir rök fyrir því að hæfilega opinn vængur færi flugunni meiri stöðugleika, en á sama tíma líf þegar hann leggst saman og opnast, allt eftir því hvort flugan sé dregin inn eða í pásu. Jú, ég held að ég kaupi þessi rök en síðan er það allt önnur saga hvort þetta skiptir fiskinn einhverju máli.

Þegar ég fór í gegnum votfluguboxið mitt, þá voru mína ýmist með vænginn lokaðan eða opinn og það sem meira var og það sem meira er; ýmist með uppsveigðan væng eða niðursveigðan.

Þrjár tegundir eða fjórar?

Þurrflugur, púpur og straumflugur. Þarf þetta að vera eitthvað flóknara? Mér hefur verið tíðrætt um þá upplifun mína frá fyrstu dögum fluguveiðinnar þegar ég vafraði um netið og skoðaði allar straumflugurnar, t.d. frá Ray Bergman og stórbrotnar klassískar laxaflugur eins og þessar. Svo kíkti maður á allar flottu þurrflugurnar og púpurnar.

Þrjár tegundir flugna, ekki satt? Nei, ég vil gjarnan halda mig við fjórflokkunina. Eins og ég upplifði í Skotlandi s.l. haust þegar ég heimsótti Edinburgh Angling Center, þá er fjórði flokkurinn enn við góða heilsu þótt hann hafi farið hallloka fyrir púpuástríðu vestrænna veiðimanna hin síðari ár, votflugurnar lifa, meira að segja þokkalega góði lífi ennþá.

Hluti flugubarsins í Edinburgh Angling Centre
Hluti flugubarsins í Edinburgh Angling Centre

Ef eitthvað er að marka umfjöllun og úrval þurrflugna í þessari stærstu veiðiverslun Bretlandseyja, þá eru þær vinsælastar allra flugna sem eru á boðstólum. Næstar á eftir þeim koma klassískar votflugur og þeim er haldið vel aðskildum frá öllum púpunum sem eru þar á boðstólum. Held reyndar að ég hafi aldrei séð annað eins úrval og fjölda af púpum í einni verslun. Fæstar tegundir voru af straumflugum og hreint og beint engar gamlar klassískar laxaflugur eins og maður glápti úr sér glyrnurnar yfir hér um árið. Ég geri mér reyndar þokkalega grein fyrir að þær séu meira til hátíðarbrigða hjá hnýturum heldur en til daglegs brúks.

Eigum við síðan eitthvað að ræða úrval hnýtingarefnis í þessari stórverslun? Nei, það tekur því ekki. Íslenskar veiðiverslanir hafa hreint ekkert að skammast sín fyrir þegar kemur að úrvali hnýtingarefnis.

Vetrarverk

Um þessar mundir eru þeir forföllnu að hnýta eins og enginn sé morgundagurinn. En hvað verður svo um allar þessar flugur, það er að segja áður en þær fara í vatn? Fyrir einhverjum árum síðan var ég spurður, í fullri alvöru held ég, hvað ég gerði eiginlega við allar þessar flugur sem ég hnýtti, kannski 10 stk. af þeirri sömu. Ég þarf nú ekki að týna nema 5 og þá er ég lens, ég hnýti nefnilega fyrir tvo veiðimenn.

Eins þjál og meðfærileg og litlu fluguboxin geta verið, meira að segja suma þeirra á fleiri en tveimur hæðum, þá yrði fjöldi þeirra óviðráðanlegur ef ég ætlaði að koma öllum mínum flugum fyrir í þeim. Þess í stað flokka ég flugurnar gróflega niður í geymsluboxin mín og er með 2-3 minni box í vestinu sem ég fylli reglulega á eða skiptu um þemu í eftir því sem sumrinu vindur fram.

fos_flugubox_all
Fluguboxin

Hvaða reglu sem veiðimenn hafa á boxunum sínum ætti að vera undir hverjum og einum komið. Hver um sig verður að finna hentugustu aðferðina þannig að nokkuð víst sé að hann finni ákveðna flugu þegar eftir henni er sóst. Umfram allt mæli ég með því að flokka flugurnar, ekki hafa allt í belg og biðu. Mín flokkun er ekki flókin; púpur, votflugur, þurrflugur og straumflugur. Það segir væntanlega sína sögu að ég er með tvö púpubox sem er skipt eftir þemalitum púpa. Vestisboxin eru aftur á móti þrjú; púpur, vot- og straumflugur og þurrflugur. Hvað þarf maður meira?

Lokaður og uppsveigður

Í fyrravetur hnýtti ég nokkrar tegundir votflugna, svona til þess að eiga í boxinu ef mér sýndist sem svo að nota þær s.l. sumar. Það fór nú reyndar þannig að flestar þeirra fóru undir í einhvern tíma og nokkrar þeirra færðu mér fisk. Þegar ég mætti á eitt hnýtingarkvöldið í mínu veiðifélagi, fékk ég ábendingu frá góðum vini mínum þess efnis að ef ég hnýtti vænginn uppsveigðan, þá kæmi hún mér síður að notum í vatnaveiðinni. Uppsveigður vængur væri heppilegri í straumvatni heldur en kyrru.

Lokaður vængur, uppsveigður endi
Lokaður vængur, uppsveigður endi

Ég hafði reyndar heyrt þetta áður og tengdi þetta helst við það hvort vængurinn væri hástæður á flugunni, þ.e. hvort hann vísaði meira upp heldur en lægi með önglinum. Þegar ég fór á stúfana og las mér til um þetta, þá kom náttúrulega í ljós að fluguspekingar eru alls ekki á eitt sáttir þegar kemur að væng á hefðbundinni votflugu. Þegar ég skoðaði teikningar Edgar Burk frá því um miðja síðustu öld, þá voru allar flugurnar hans með uppsveigðan, lokaðan væng. Flestar flugur Ray Bergman frá þessum árum voru hnýttar á sama hátt. Kannski var þetta tískan á þessum tíma. Hvað um það, ég er alveg sáttur við að nota hástæðan væng í straumvatni og lágstæðan væng í vatnaveiðinni eins og félagi minn benti mér á.

Ljótar flugur eru ekki verri

Eflaust hafa einhverjir lenti í því að þurfa að kaupa sér flugu og komist síðan að því að hún veiddi ekkert og entist svo í þokkabót ekki neitt heldur. Ég hóf reyndar tiltölulega snemma að hnýta mínar flugur sjálfur, þannig að ég get ekki kennt neinum um þegar þær veiða ekkert og endast skemur en það tekur að hnýta þær á tauminn. En hvað er það eiginlega sem skilur góðu flugurnar frá hinum?

Ending flugu er auðvitað eitthvað sem menn vilja að sé þokkaleg, ekki síst þegar þeir hafa gefið 200 – 400 kr. fyrir stykkið. En ending og ending er ekki það sama. Af mínum athugunum að dæma, þá fer urriðinn verr með flugu heldur en bleikjan, en helst er það nú veiðimaðurinn sjálfur sem fer verst með fluguna. Ég hef verið með sömu fluguna á taumi og veitt 40 bleikjur í beit á hana, svo lengi sem ég athuga reglulega ástand taums og hnúta. Ef ég aftur á móti læt undir höfuð leggjast að athuga með hnútinn reglulega, þá er því nú þannig farið með mig og mín sígandi bakköst að ég næ ekki marktækri niðurstöðu í talninguna áður en ég verð að hnýta nýja flugu á í staðinn fyrir þá sem slapp af fyrir aftan mig eða skaust fram úr tauminum í framkastinu.

Síðan hefur það komið fyrir að ég egni fyrir urriða með svipaðri flugu, þ.e. sömu tegund og fyrir bleikjuna, eins hnýtta og úr sama hráefni, en aðeins náð að taka fjóra urriða á hana áður en hún er komin í tætlur og ekki fiski bjóðandi. Hér set ég varnagla, það hefur einnig komið fyrir að hef verið að veiða flugu svo lengi að hún er öll komin í tætlur, eiginlega ekkert eftir af henni annað en krókurinn, einhverjar efnisdruslur og spottar hingað og þangað út í loftið. Á slíka flugu hef ég tekið fjölda fiska þrátt fyrir bágborið ástand hennar, kannski einmitt vegna þess. Veiðni flugu snýst ekki síst um það hverju hún líkist og þrátt fyrir að fluga sé slétt og felld í hnýtingarþvingunni okkar, þá getur hún afmyndast verulega þegar í vatn er komin.

Þegar ég skoða flugur í veiðiverslunum, hvort heldur í rekka eða í vafra á netinu, þá horfi ég helst á hlutföll flugunnar. Ef flugu er ætlað að líkja eftir einhverju vængjuðu kvikindi, þá verða vængirnir að vera sem næst í réttri lengd m.v. búk og sverleika. Veiðiflugan er e.t.v. fallegri eins og hnýtarinn lagði hana frá sér, en það er alls ekki víst að fiskurinn sé á sama máli. Ergo; flugan er falleg en ekki góð. Ég hef enn þá trú á silunginum að hann leiti eftir sköpulagi skortdýra, ekki því úr hvaða hráefni eftirlíkingin er hnýtt eða hún líti vel út í augum okkar mannskepnunnar.

fos_blackghostinarow_big

Svo eru þessar flugur sem við hnýtum í fullkomlega óraunverulegum hlutföllum. Sem dæmi um slíkar flugur er t.d. Dog Nobbler eða Damsel. Þegar við erum sáttir og losum þær úr hnýtingarþvingunni, þá eru þetta bossamiklar flugur með ofgnótt marabou í skottinu, sundurnagaða vaskakeðju á hausnum og glitofinn, loðinn búk, jafnvel í einhverjum afkáralegum bleikum lit sem er eiginlega ekki til í skordýraflórunni. Ef þú, lesandi góður, hefur ekki prófað að dýfa slíkri flugu í vatn, draga hana fram og til baka í eldhúsvaskinum, þá er tími til kominn. Marabou bossinn verður eiginlega ekki að neinu, næstum beint strik aftan af flugunni, búkurinn verður alls ekki eins loðinn og efni standa til og allt glysið hverfur inn á milli fjaðranna. Og ef vel tekst til, þá er vaskakeðjan eins og augu hornsílis eða seiðis. Allt þetta óraunhæfa er horfið og í staðinn er kominn lítill fiskur sem getur hoppað og skoppað fyrir fram svangan silunginn, engt hann til töku.

En hvað með frágang flugunnar? Ég hef alveg heyrt að menn segja flugu ljóta þegar þeim ofbýður magn og áferð lakks. Sjálfur hef ég í einhvern tíma sagt eitthvað á þessa leið, en getur ljót fluga samt ekki verið góð? Það eru væntanlega meiri líkur á að viðkomandi fluga endist þokkalega ef hún er augljóslega vel lökkuð. Falleg fluga og góð eru alls ekki það sama. Það eru líka til þær flugur sem mér finnast einfaldlega mjög ljótar að sköpulagi. Þetta eru meira að segja vinsælar flugur meðal silungsveiðimanna, ég nefni enginn nöfn, hvorki á flugum né veiðimönnum, sem ég set næstum aldrei undir. Það er eins og einhver pjattrófa togi í höndina á mér í hvert skipti sem hún nálgast ákveðnar flugur í boxinu mínu og færir hana í átt að einhverri sem mér finnst fallegri. Einmitt, ég stend sjálfan mig að því að velja fallega flugu umfram góða. Verst hvað hvað silungurinn er oft alls ekki á sama máli og ég.

Öðruvísi flugur

Vatnabjöllur hér á landi eru ekki margar, mér skilst að hér finnist aðeins 6 tegundir. Þekktust er væntanlega brunnklukkan, þá fjallaklukkan og svo vatnaklukkan. Almennt er ekki talið að bjöllur skipi stórar sess í fæðu silungsins og því kom mér nokkuð á óvart að sjá í fluguboxi veiðimanns nokkrar haganlega hnýttar bjöllur. Allar voru þær hnýttar úr ljósu, brúnu og svörtu frauði, með og án fálmara/lappa.

Mér láðist að spyrja þennan ágæta veiðimann hvort hann hefði í nokkurn tíma veitt á þessar flugur og þá sérstaklega vegna þess að þær voru greinilega hannaðar með það fyrir augum að fljóta á yfirborðinu frekar en sökkva.

Myndir fengnar að láni frá Fullingmill – fullingmill.co.uk
Myndir fengnar að láni frá Fullingmill – fullingmill.co.uk

Eftir því sem ég ég kemst næst, þá halda klukkur sig helst á og við botn kyrrstæðra vatna, nema þá e.t.v. vatnaklukkan sem getur fundist í straumlitlum lækjum og smærri ám. Að vísu taka klukkur sig stundum til, synda upp að yfirborðinu, stinga afturendanum örlítið upp úr og draga loft inn undir skjöldinn. Þær snúa reyndar snarlega til botns aftur og halda sig þar eða svamla um neðarlega í vatnsbolnum. E.t.v. ætti maður að prófa nokkrar svona og eiga tiltækar ef maður verður var við mikla bjölluumferð næsta sumar. Sjáum til þegar ég verð búinn að hnýta allar hinar sem eru á listanum.

Einfalt í einfaldleika sínum

Ein af mörgum greinum sem ég las fyrripart vetrar fjallaði um gildi einfaldra flugna. Þar fór Ný-Sjálendingurinn Bob Wyatt mörgum orðum um gildi þess að einfalda málin þegar átt er við styggan fisk, einhvern styggasta fisk sem þekkist í heiminum sagði hann, Ný-Sjálenska urriðann. Já, það er margt líkt með okkur, sitt hvoru megin á jörðinni. Styggustu urriðar veraldar finnast greinilega á báðum stöðum.

Í þessari grein var farið mörgum orðum um einfaldar flugur og margar nefndar til sögunnar. Meðal þeirra var Killer Bug, Frank Sawyer, flugan sem hefur svolítið fallið í skugga systur sinnar, Pheasant Tail. Svo langt gekk greinarhöfundur í skrifum sínum að hann fullyrti að hverjum veiðimanni ætti að nægja að eiga þessa flugu og aðeins hana eina. Það eru raunar mörg ár síðan ég hnýtti Killer Bug síðast og það eru enn nokkur eintök af henni í geymsluboxinu mínu. Hvers vegna? Jú, trúlega vegna þess að ég hef sjaldan haft rænu á að setja hana undir. Ég er trúlega mikið glysgjarnari heldur en urriðinn, vel frekar einhverja í lit eða með áberandi broddi úr boxinu og læt eintökin af Killer Bug því í friði.

fos_killer_bug

Ég viðurkenni það fúslega að stundum ætti maður að prófa sömu flugu, bara í annarri stærð áður en maður sleppir sér lausum í boxinu. Hversu oft hefur maður ekki staðið sig að því að vera með einfalda flugu í höndunum sem ekkert gefur og í stað þess að skipta niður í stærð eða lögun, þá æðir maður áfram og velur einhverja í allt öðrum lit og gengur ekkert betur. Þegar svo veiðibækurnar eru bornar saman í lok dags, kemur í ljós að veiðifélaginn hefur einmitt verið með sömu fluguna í höndunum, bara örlítið minni, og veitt á hana eins og enginn væri morgundagurinn.

En aftur að Bob Wyatt. Hann, ásamt stórum hópi veiðimanna á Nýja Sjálandi, vinna markvisst að því að kenna öðrum veiðimönnum að nota fáar tegundir flugna í nokkrum stærðum og leggja meira upp úr formi þeirra og lögun heldur en beinlínis útliti. Nota t.d. Killer Bug þegar þeir vilja líkja eftir skordýri á púpustigi, Pheasant Tail á næsta þroskastigi og svo Griffith‘s Gnat fyrir fullvaxta flugu. Kannski maður ætti að útbúa sér box einfaldleikans fyrir næsta sumar? Bara þrjár tegundir flugna í stærðum frá #10 og niður í #18.

Bakgrunnur hnýtinga

Mér hættir til að verða svolítið þreyttur í augunum þegar ég hef setið lengi við hnýtingar. Ég hnýti að vísu mest í gegnum stækkunargler með ljósi, en það er alltaf eitthvað á bak við fluguna sem er að flækjast inn í sjónsviðið. Einfalt ráð við þessu er að festa stífan pappír á stand eða klemma hann við hilluna á bak við þvinguna.

Ljós bakgrunnur
Ljós bakgrunnur

Best er að nota ljósan pastelbakgrunn sem endurkastar ekki birtunni í augun á manni. Það er ekki úr vegi að verða sér úti um nokkra fleiri liti, t.d. ljósbláan eða grænan, jafnvel  ljósgráan og skipta annars slagið um bakgrunn, það hvílir augun og stundum er betra að sjá hvítu fjaðrirnar ef bakgrunnurinn er ekki mjög ljós. Svo má alltaf nota þennan hlutlausa bakgrunn þegar taka skal myndir af meistarastykkjunum. Það er fátt meira ergilegt við góðar flugumyndir heldur en sjá allt mögulegt en þó ekkert í bakgrunni flugnanna, bara eitthvað sem dregur athyglina frá henni.

Taktu afrit

Nú hljóma ég eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni, en í yfir 25 ár vann ég mest í tölvubransanum og lagði þar endalaust áherslu á að menn tækju afrit af vinnunni sinni. Að vísu er þetta svipað hjá mér eins og hjá bifvélavirkjanum sem ekur alltaf um á druslum og trésmiðnum sem á heima í hálfkláraða húsinu, ég tók ekki alltaf afrit sjálfur.

Afritunargeymsla
Afritunarbúnaður

En að taka afrit af flugu sem maður hnýtir fyrir sumarið getur alltaf komið sér vel. Ekki setja endilega allar flugurnar sem þú hnýtir í fluguboxið sem þú ferð með í veiði. Það getur komið sér vel að eiga afrit af nýrri flugu til að kíkja aðeins á hana næsta vetur ef allar klárast yfir sumarið. Sjálfur hef ég lent í því að veiðifélagi minn gerði góða veiði á ákveðna flugu og þegar hnýtingarlisti næsta vetrar var settur saman, þá gat ég ómögulega fundið mynd eða uppskrift af flugunni sem frúnna vantaði og líst var; hún var svona brún, með vír og haus. Þá hefði nú verið gott að eiga eins og eitt stykki í afritunarboxinu til að bera undir frúnna.

Árleg leit að flugu

Það er næstum árlegt að ég reyni að finna not fyrir allar fjaðrirnar af hringfasananum sem ég keypti fyrir mörgum árum síðan. Fjaðrirnar af þessum ham hafa vissulega komið mér að ýmsum notum í gegnum árin, en þeir sem þekkja til geta vottað að einn svona hamur af hringfasana samanstendur af ansi mörgum fjöðrum og enn hefur mér ekki tekist að nýta nema brot af þeim.

Fasanafjaðrir
Fasanafjaðrir

Á ferð minni í Veiðivötn sumarið 2016 fyllti ég örlítið á reynslubrunninn með því að veiða í vötnum sem ég hafði ekki prófað áður. Þeirra á meðal var Arnarpollur, sem eftir sumarið er orðinn eitt af mínum uppáhalds. Fallegt umhverfi og mikilúðlegir urriðar sem leynast þar í dýpinu. Sú fluga sem gaf mér jómfrúarfiskinn í vatninu var úr smiðju Stefáns Hjaltested. Mikill Nobbler, brúnn og eins og Stefáns er von og vísa, haganlega hnýttur. Án þess að slá því endanlega föstu, þá held ég að þetta hafi verið fyrsti brúni Dog Nobblerinn sem ég hef veitt á um ævina og það var enginn smá fiskur sem lét glepjast af honum. Sá brúni hefur verið mér hugleikinn alla tíð síðan, bæði Nobblerinn og urriðinn, og þegar ég rakst á mynd af flugu sem Nýsjálendingar nota töluvert í urriða, þá sá ég heilmikil not fyrir töluvert af fjöðrum hringfasanans gamalkunna.

fos_mrssimpson_big
Mrs. Simpson

Við fyrstu sýn virðist ekki mikið mál að hnýta slatta af fasanafjöðrum á öngul, en þessi fluga leynir töluvert á sér og það tók mig nokkrar tilraunir að ná henni þokkalegri. Ein útgáfa hennar verður örugglega með keiluhaus. Og hvar ætla ég henni fyrst í vatn? Jú, Arnarpollur í Veiðivötnum fær heiðurinn ef að líkum lætur. Uppskriftin og saga flugunnar kemur svo hér inn á síðunni á næstunni.

Vangaveltur um hnýtingar

Það líður nú ekki langur tími frá því veiðitímabilinu lýkur þangað til hugurinn leitar á veiðislóðir aftur. Þetta árið held ég að það hafi tekið innan við hálfan mánuð frá því ég fór síðasta að veiða, að ég fór að hugsa til næsta sumars. Auðvitað er þetta bara brjálæði, en ég hef þó þessa vefsíðu til að fleyta mér yfir köldustu mánuðina og ylja mér við endurminningar liðins sumars.

Á næstu dögum fer maður að taka til á hnýtingarborðinu, setja saman einhver gáfulegan lista til að hnýta eftir og ráðast á eitthvað af hnýtingarefninu sem maður hefur sankað að sér í haust og það sem af er vetrar. Ég er reyndar fyrir löngu farinn að leiða hugann að flugum og þá skaut upp í kollinn á mér hversu mikið viðhorf mitt til fluguhnýtingar hefur breyst frá því ég steig fyrstu skrefin í hnýtingum. Þegar ég byrjaði að hnýta, snérust fyrstu flugurnar um að koma þræðinum á öngulinn án þess að slíta hann í tíma og ótíma, festa einhverjar fjaðrir niður í væng, vefja eða skeggja þær eftir því sem maður treysti sér til og fela síðan fluguna fyrir allra augum. Reyndar á ég ennþá einhverjar af þessum einstaklega ljótu, illahnýttu flugum. Einhver kann að segja að mér hafi lítið farið fram, en ég er alltaf að verða sáttari.

fos_adstada

Síðar tók við það lengsta tímabil sem hefur varað í mínum hnýtingum. Tímabil hinna ítarlegu leiðbeininga sem fylgt var út í ystu æsar og hvergi brugðið frá uppskriftinni. Ég vil reyndar meina að þetta tímabil hafi verið mér holt og ég lært mikið af því. Með tíð og tíma hef ég sannfærst um að flugur verða eiginlega að fylgja ákveðnum reglum til að ganga í augun á silunginum. Vængur á vorflugu á sér sinn rétta stað, skegg þarf að vera rétt vaxið niður og skott má ekki vera úr hófi langt. Eitthvað svipað má segja um púpur, þær þurfa að eiga sér haus, miðju og hala (ef það á við) í þokkalegum hlutföllum. Allar þessar óskráðu reglur hefur maður lært af því að fylgja uppskriftum þekktra flugna í gegnum tíðina og það síast inn hvað gengur og hvað gengur ekki í hnýtingum.

Nú leitar hugurinn aftur til þess að setja mark mitt á flugurnar, hnýta örlítið frábrugðið uppskriftinni í efnisvali eða áherslum, gera flugurnar svolítið að mínum í stað þess sem höfundarnir hugsuðu sér nákvæmlega í upphafi. Ég er ekki að tala um að mínar útfærslur veiði endilega betur en þær upprunalegu, þær eru bara aðeins meira mínar. Samhliða hefur hugurinn leitað á ókunnar slóðir og sífellt oftar hef ég leitað í smiðju lítt þekktra hnýtara eða þá gleymdra flugna og gefið þeim nýtt líf í boxinu mínu. Nú kann einhver að segja að það þurfi ekki sífellt að finna upp nýjar flugur, þær hafi þegar komið fram sem veiða og það er mikið til í því. En þá færi nú fyrst að hilla undir leiðindi við hnýtingarnar ef maður hnýtti aðeins Pheasant Tail og Peacock.

Er tími hreinskilni liðinn?

Það er langt því frá að þær flugur sem spretta af minni hnýtingarþvingu séu einhver listaverk en þær eru alls ekki þær verstu sem hafa sést, þó ég segi sjálfur frá. Ég fylgist með mörgum hnýturum á veraldarvefnum og í tímaritum og smátt og smátt hefur maður tekið ástfóstri við handbragð nokkurra þeirra, ekki endilega hvaða flugur þeir hnýta, heldur hvernig þeir hnýta. Þetta eru snillingar í sínu fagi, nákvæmir í vinnubrögðum og hreinn unaður að horfa á afrakstur þeirra. Þessum hnýturum hrósar maður, spyr þá ráða um aðferð eða handbragð og þeir svara yfirleitt uppbyggilega eins og sönnum heiðursmönnum og konum er lagið.

Mér hefur líka þótt áhugavert að fylgjast með nokkrum hnýturum sem ég hef talið vera byrjendur. Sumir þeirra eru duglegir að pósta myndum af flugunum sínum, aðrir eitthvað feimnari eða á ég að segja; þeir veigra sér við að sýna verkin sín. Ég skil sumar þessara hnýtara mæta vel því sumar athugsemdir (komment) sem settar eru við myndirnar eru heldur óvægnar. Reyndar bíður mér svo í grun að einhverjar þeirra séu meira settar fram í gríni heldur en alvöru, en stundum er erfitt fyrir ókunnugan að gera sér grein fyrir glensinu á milli vina.

Eitthvað mjög rangt við þessa
Eitthvað mjög rangt við þessa

Ég varð eitt sinn vitni að því að hnýtari setti mynd af flugu á spjallsíðu og fékk einstaklega alúðleg viðbrögð við henni. Reyndir hnýtarar gáfu honum ágæt ráð um breytingar sem hann gæti gert, hlutföll eitthvað einkennileg, hausinn heldur stór, vængur allt of stuttur o.s.frv. Eftir þrjár ábendingar kom heldur snubbótt svar frá unga hnýtaranum; Mér finnst hún fín svona!. Æ, þarna brást einhverjum bogalistinn í ábendingum, hugsaði ég og renndi yfir það sem skrifað hafði verið. Ég fann að vísu ekkert særandi eða dónalegt, allt uppbyggilegar athugasemdir sem ég sjálfur hefði þegið þegar ég var að byrja að hnýta. Engu að síður lét ungi hnýtarinn ekki við þetta svar sitja, heldur fjarlægði fluguna af spjallsvæðinu og hefur ekki átt innlegg þar síðan.

Ófögur fluga eftir höfundinn

Ég veit aftur á móti að þessi fyrrum ungi hnýtari er enn iðinn við kolann. Hann hnýtir mikið, veigrar sér ekkert við að hnýta heilu seríurnar af þekktum silunga- og laxaflugum, en því miður eru margar þeirra ennþá heldur óásjálegar. Auðvitað skiptir mestu að hann sé sáttur við sínar flugur, en hefði hann ekki nema tekið örlítið mark á ábendingunum, þá væru flugurnar hans í dag örugglega snöggtum fallegri á að líta. Mikið vildi ég að ég hefði fengið þær ráðleggingar sem honum voru boðnar hér um árið, þá væri ég ekki með hálfan vegginn í horninu mínu fullan af ljótum flugum. Ég vona að tími hreinskilni og vinsamlegra athugasemda sé ekki liðinn, það væri synd ef reyndari hnýtarar hættu að leiðbeina þeim ungu og óreyndu. Og að sama skapi, þá hvet ég byrjendur til að taka fagnandi ábendingum sem þeim eru boðnar, það getur verið erfitt að kyngja þeim til að byrja með, en það borgað sig margfalt þegar fram líða stundir.

Augað upp eða niður

Ekki alls fyrir löngu átti ég gæðastund með nokkrum hnýturum úti í bæ þar sem við spjölluðum um allt milli himins og jarðar, innan flugufræðinnar þó. Mér finnst alltaf jafn gaman að eiga svona stundir og eins og gerist, þá teygðist á umræðuefninu í allar áttir og ýmislegt ber á góma. Meðal þess sem kom upp í þessari heimsókn minni var spurningin um það hvers vegna sumir önglar væru með augað uppsveigt og aðrir með það niðursveigt, já eða beint af augum.

Ég vona að ég hafi komið þessu þokkalega frá mér og þegar heim kom, þá tékkaði ég til vonar og vara í mínu efni hvort ég hefði ekki farið með rétt mál. Það er reyndar erfitt að segja að einhver rétt skýring sé á þessum mun króka. Sumir spekingar vilja meina að það sé í raun enginn munur á þessum önglum, þetta snúist miklu meira um smekk og venjur veiðimanna heldur en einhverjar rökréttar skýringar. Sjálfur hallast ég nú frekar að skýringum eðlisfræðinnar sem segja mér að þegar taumurinn togar í krók með uppsveigt auga, þá færist þyngdarpunktur flugunnar framar og aftari hluti flugunnar lyftist meira heldur en sá fremri, þ.e. flugan heldur sér því næst 180° í vatninu þótt hún rísi aðeins í vatnsbolnum. Sem sagt; slíkar flugur synda lárétt í vatninu. Nú veit ég ekkert hvort laxmenn séu viljandi að sækjast eftir þessu, en þær flugur sem kallaðar hafa verið laxaflugur eru yfirleitt hnýttar á króka með uppsveigt auga. En þarna getur svo sem einhver hefð verið að kallast á við eðlisfræðina.

fos_ongulaugu

Þegar flugur eru hnýttar á króka með niðursveigt auga, snýst dæmið aftur á móti við. Þyngdarpunktur flugunnar færist aftar, hausinn rís meira heldur en skottið og því stefna þessar flugur meira í áttina upp að yfirborðinu, á móti afli taumsins.

En hvað þá með króka sem horfa beint af augum? Jú, átak taumsins kemur beint á krókinn og þyngdarpunkturinn færist næstum ekkert til, þær fljóta í láréttu plani og því hafa margir valið þessa króka í þurrfluguhnýtingar.

Nafnavenjur

Rétt eins og fleiri veiðimenn er ég farinn að leiða hugann að hnýtingum í vetur. Þessa dagana kemur það reyndar sífellt oftar fyrir að ég setjist niður við hnýtingarþvinguna og setji í eins og eina eða tvær flugur, ekkert endilega til að eiga, oftar til þess að prófa einhverja aðferð eða þá heila flugu sem ég hnýt um við lestur veiðitímarita. Í framhjá hlaupi má geta þess að töluverður fjöldi veiðitímarita er aðgengilegur hér á síðunni undir Vefrit og oft er að finna nýjar flugur inni á milli þekktari flugna í þessum tímaritum.

Ég hef verið að skoða svolítið s.k. soft hackle flugur upp á síðkastið. Þetta eru eiginlega flugurnar sem hófu þetta allt saman, ekki hjá mér heldur fluguveiði í árdaga þannig að þær eiga sér afskaplega langa sögu. Það eru nokkuð skiptar skoðanir á því hvort soft hackle flugur séu sérstakur flokkur eða bara tegund af votflugum. Sjálfur hallast ég að því síðar nefnda, einfaldlega vegna þess að það er oftar en ekki erfitt að gera greinarmun á hefðbundinni votflugu og soft hackle flugu.

Skemmtilegt staðreynd um soft hackle flugur er venjan sem skapast hefur um nafnagiftir þeirra. Nöfn þeirra eru yfirleitt samsett úr tegundarheiti fjaðrarinnar sem notuð er og litarins á búknum. Partridge and Green til dæmis er einfaldlega akurhæna og grænn búkur. Mér til mikillar ánægju voru menn ekkert endilega að velta sér upp úr því hvaða hráefni var notað í þessar flugur, ef hringvafið var úr akurhænu og búkurinn var grænn, þá var þetta Partridge and Green, ef búkurinn var appelsínugulur þá var þetta Partridge and Orange. Þess má geta að margar af upprunalegu soft hackle flugunum hafa gengið í endurnýjun lífdaga sem hefðbundnar votflugur með væng, skotti og skeggi.

Composit - Mynd fengin að láni af www.classicflytying.com/
Composit Soft Hackle – Mynd fengin að láni af http://www.classicflytying.com

Eins og sjá má af myndum þá eru þessar flugur einstaklega sparneytnar á hnýtingarefni og ákaflega einfaldar í útliti. Þetta telur Sylvester Nemes, höfundur The Soft Hackle Fly Addict einmitt vera mesta kost þessara flugna. Ekkert prjál, einfaldar í hnýtingu og ákaflega veiðnar, að hans sögn. Sjálfur hef ég ekki mikla reynslu af flugum sem þessum, það sem ég kemst næst reynslu af þeim eru þær votflugur sem ég hef hnýtt og notað sem hnýttar eru með hringvafi úr hænufjöður. Dettur mér þá fyrst í hug nokkrar Pheasant Tail sem ég hnýtti um árið og nota enn mikið. Að vísu skemmir það formúluna algjörlega að þær eru með kúluhaus og kannski full mikið af hráefnum í þeim. Búkurinn er of sver og allt of mikið í hann sett þannig að þær gætu talist til soft hackle flugna. Strangtrúarmenn í þessum fræðum vilja meina að búkurinn eigi að vera afskaplega grannur, vafningar ekki fleiri en þrír hringir og að hámarki þrjár tegundir hráefnis í honum.

Pheasant Tail með mjúkum kraga
Pheasant Tail með mjúkum kraga

Upphaflega voru algengustu fjaðrirnar sem notaðar voru í soft hackle flugur einmitt algengar, þ.e. þær sem féllu til þegar menn voru á fuglaveiðum og þá helst af akurhænu, hrossagauk, skógarhænu, fasana eða skógarsnípu. Það er næsta víst að maður yrði litinn hornauga ef maður mætti með hnakka af hrossagauk á hnýtingarkvöld í vetur.