Eftir nokkur skipti af góðum dögum við hnýtingarþvinguna er ýmislegt sem fellur til af afklippum, hálfnýttu hráefni og fleiru. Það eru mörg ár síðan ég kom mér upp ruslafötu við hnýtingarborðið og sú góða fata hefur gengið í gegnum einhverja endurnýjun (stækkun) á þeim árum sem liðið hafa síðan. Það var svo fljótlega að ég tók upp á því að hafa box á borðinu hjá mér fyrir það sem ég mögulega gæti notað síðar.
Ekki alls fyrir löngu rakst ég á einhverjar pappaöskjur undir borðinu mínu og viti menn, þetta voru þessi box sem ég hef alltaf ætlað að mögulega nota síðar. Það hljóp í mig einhver kergja og ég ákvað að hnýta upp úr þessum boxum, bætti aðeins við þráð og krók eftir því sem passaði.

Upphaflega ráðgerði ég að hnýta þekktar flugur, þ.e. einhverjar með nafni og eftir uppskrift, en fljótlega varð ljóst að ég yrði annað hvort að laumast í nýtt efni eða bregða verulega út frá uppskriftinni, þannig að ég hnýtti bara eitthvað.
Það verður að viðurkennast að þær flugur sem ég hnýtti úr þessum afgöngum voru ekkert ósvipaðar þeim sem ég er vísvitandi hnýtti úr nýju hráefni með það eitt fyrir augum að fá útrás fyrir nýjungagirnina eða sköpunargáfuna. Hver um sig verður bara að dæma hvernig tókst til hjá mér, en það leynist ýmislegt nothæft í ruslinu og kannski rétt að kíkja oftar í það.
Senda ábendingu