Flýtileiðir

Skrykkkrókar

Það verður seint um mig sagt að ég sé nýjungagjarn maður eða eins og einhver sagði, ég er bara mjög lengi að fatta suma hluti. Eitt af því sem tók mig töluverðan tíma að tengja við eru skrykkkrókar (e: jig hooks). Auðvitað er ég að leika mér aðeins með heitið á þessum krókum og væntanlega þarf ég að nota enskt heiti þeirra þegar ég spyr eftir þeim í verslunum hér heima en mér finnst skrykkkrókur skemmtileg þýðing á þessu orði.

90° skrykkkrókur

Þessir krókar eru langt því frá einhver nýjung á markaðnum og hafa verið fáanlegir eins lengi og elstu menn muna, sem er að vísu afskaplega teygjanlegt og einstaklingsbundið. Einkenni þessara króka er að rétt neðan við augað er leggurinn beygður þannig að augað vísar að broddinum. Mér skilst að fyrstu útfærslur þessara króka hafi verið beygðir um 90° og voru upprunalega notaðir við fiskveiðar á grunnsævi þar sem hætt var við að krókar festust í botni. Það var síðan löngu síðar sem menn fóru að nota skrykkkróka með ásteyptum kúlum í vatnaveiði. Elstu tilfelli þess að menn hafi notað þessa króka í flugur fann ég frá því upp úr 1965 í Tékklandi og fljótlega bárust þessir krókar til annarra landa og frá því um 1980 má sjá ýmsar flugur sem hnýttar voru á skrykkkróka. Hvort það er tilviljun eða tilfellið, þá eru elstu myndir sem ég hef komist yfir af flugum á þessum krókum af púpum. Miðað við uppruna þessara flugna, þ.e. Tékkland, þá er reyndar ekki ólíklegt að menn hafi fyrst notað þá í púpur enda Tékkar snillingar í þyngdum púpum. Hvenær menn fóru síðan að nýta þessa króka í straumflugur, treysti ég mér ekki að fullyrða, en upp úr 1970 kynnti Bandaríkjamaðurinn George Glazener straumflugu sem hann kallaði Spinster sem hnýtt var á skrykkkrók. Raunar var sú fluga mjög í ætt við spón þar sem hann hafði fest spónaspjald á legginn þar sem hann bognaði undir auganu. Sagan segir að hann hafi fengið nokkuð bágt fyrir þessa flugu sína í upphafi, en hún hefur haldið velli og er nú talin ein af betri flugum í Striped Bass í Bandaríkjunum.

Nokkra pólskar á skrykkkrók

Hin síðari ári hafa menn vissulega hnýtt ýmsar straumflugur á skrykkkróka, en algengast sýnist mér að menn hnýti púpur á þessa króka enda verður sköpulag flugunnar þannig að hún festist síður í botni. Þar sem taumaendinn festist niður á krókinn leggst hún frekar á bakið í vatninu og því er flugunum síður hætt við að krækjast í botn.

45° og 60° skrykkkrókar

Nú á tímum má fá þessa króka með mismunandi krappri beygju, algengast þó 45°, 60° og svo upprunalegu 90°. Eins og nærri má geta þá getur það verið töluvert snúið að koma hefðbundinni kúlu upp að auganu á þessum krókum. Til að byrja með notuðu menn fíngerðar þjalir eða sagarblöð og surfu örlitla rauf í þær aftanverðar til að auðvelda þeim leiðina yfir beygjuna. Nú á tímum má kaupa kúlurnar tilbúnar frá framleiðendum með þessari rauf og væntanlega hefur útbreiðsla þessara flugna tekið kipp þegar þessar kúlur komu fyrst fram.

Kúlur fyrir skrykkkróka

Sjálfur hef ég lítið sem ekkert hnýtt af flugum sem þessum, en þess í stað hef ég fiktað við að sverfa rauf í kúlur til að geta fært þyngdarpunkt flugnanna upp fyrir legginn þannig að þær leggist frekar á bakið þegar á botninn er komið. Ég er nú ekkert endilega viss um að þessar tilraunir mínar hafi fækkað festum hjá mér, ég finn í það minnsta engar þeirra lengur í mínum boxum. Ég þarf kannski að endurnýja birgðirnar eða þá hnýta nokkrar skrykkflugur til að eiga fyrir sumarið?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com