Flýtileiðir

Nýta, gefa, geyma?

Það er kunnara en frá því þurfi að segja að veiðimenn eru (flestir) græjufíklar. Reglan um æskilegan fjölda af hinu eða þessu er núverandi fjöldi + 1 og virðist eiga alveg glettilega vel við flesta. Nýjar græjur eru auðvitað betri, nákvæmari, öflugri og allt það sem veiðimenn telja upp sem réttlætir kaup á einhverju nýju. En þessi grein fjallar ekki um nýjungagirni veiðimanna og þá einna helst fluguhnýtara, heldur hvað hægt er að gera við gamla dótið og þá helst hnýtingarþvinguna.

Oftast er það svo að þegar hnýtarar kaupa sér nýja þvingu, þá er hún af annarri gerð, með annarri virkni eða einfaldlega úr betra hráefni heldur en sú gamla. Sú gamla fellur þá af vinsældalistanum og er aldrei tekin fram aftur. Án þess að upplýsa of mikið um fjölda þvinga sem ég á í mínum fórum, þá held ég að þær spanni ágætlega þróunarsögu hnýtara til nokkurra ára. Sú fyrsta var þvinga með kjálka með föstum halla og virkni hennar var einfaldlega sú að kjafturinn var annað hvort opinn eða lokaður. Kjálkinn er trúlega úr einhverju skriðdrekastáli frá Þýskalandi og enn þann dag í dag sér ekki á honum. Síðar kom svo ein sem var örlítið meiri um sig og ég gat (með sexkannt að vopni) breytt halla kjálkans eins og mig listi og kjaftinum gat ég snúið í 360° til að kíkja upp undir fluguna. Að vísu hoppaði flugan svolítið fyrir augunum á mér því snúningurinn var ekki það sem kallað er true rotation þ.e. eftir beinni línu, en þessa þvingu notaði ég í mjög mörg ár.

Eftir þó nokkrum tíma og einhverjum þvingum síðar eignaðist ég netta og mjög ódýra 360° true rotation þvingu sem ég nota enn þann dag í dag þegar ég bregð mér af bæ, jafnvel í veiðitúra. Með árunum hef ég gert smá breytingar á henni, skipt föstum skrúfum út fyrir bolta með vængjaró þannig að ég get auðveldlega fellt hana saman og breytt hæð og halla eftir þörfum.

Aðal tækið mitt í dag er ættað frá Ítalíu, lífstíðareign sem kostaði sitt, er ekki til sölu og verður ekki ánafnan neinum fyrr en að mér látnum og er því ekki til umfjöllunar í þessari grein.

Að staðaldri nota ég, rétt eins og flestir aðrir, aðeins eina þvingu í einu en það getur verið gott að smella upp einni eða tveimur þvingum til viðbótar, því þegar maður hnýtir nokkur eintök af sömu flugunni getur það hentað ágætlega að festa krók í 3 – 4 þvingur og forvinna hnýtingu jafn margra flugna í röð. Flugur eins og t.d. Dog Nobbler og Mýslu er ágætt að taka í bulki til undirbúnings, þ.e. að festa niður vaskakeðjuna og lakka/líma yfir. Þetta er undirbúningsvinna sem gerir ekki miklar kröfur til þvingunnar, það er nóg að hún haldi króki og það stendur yfirleitt á endum að þegar maður klárar síðasta krókinn, þá getur maður tekið þann fyrsta úr og endurtekið leikinn eða farið að hnýta fluguna til enda.

Önnur not fyrir gömlu þvinguna er einfaldlega að gefa hana einhverjum byrjanda í sportinu. Margir sem eru að byrja og vilja prófa að hnýta eigin flugur, veigra sér aðeins við því að fjárfesta í nauðsynlegum áhöldum, þ.á.m. þvingu. Vert er þó að geta þess að oft fylgir böggull skammrifi, því það vill stundum brenna við að gefnar þvingur eru orðnar svo slitnar að nýliðinn er í tómu basli með að festa krókinn í kjaftinum eða þvingan jagast öll til þegar hnýtt er. Slíkar græjur eru ekki sem best til þess fallnar að kynda undir áhuga á fluguhnýtingum og ætti bara að nota í varahluti.

Hvað sem þú gerir við gömlu þvinguna þína, komdu henni í einhver not frekar en láta hana liggja óhreyfða í einhverjum kassa.

Eitt svar við “Nýta, gefa, geyma?”

  1. Ívar Örn Hauksson Avatar

    Skemmtileg grein. Þegar minnst er á að nota 3-4 þvingur og forvinna fluguna ef hnýttar eru margar eins, þá rekur mig minni til Jón heitins Sigurðssonar. Hann hnýtti helling og seldi, en hann var með 40 þvingur þegar mest lét.

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com