Dubb

Maskaraburstar

Núna, þegar maður er farinn að kíkja á hnýtingarsettið, taka það fram og byrja jafnvel að hnýta fyrir næstu vertíð, þá finnst mér ágætt að kíkja yfir nokkra punkta og ábendingar. Ég laumaði hér einu sinni inn ábendingu um að útbúa sína eigin dub-bursta úr íspinnaspýtu og mis grófum sandpappír. Annað áhald sem hentar ágætlega við dub’ið er maskara bursti. Mér sýnist flestar konur eigi svona græju sem endurnýjast víst með hverjum maskara sem keyptur er. Það er einfalt mál að þrífa svona bursta og þá er hann alveg tilvalinn til að ýfa dubbið aðeins á flugunum. Setjið nú upp verðlista fyrir flugur konunnar; 1.stk maskarabursti, sýnishorn úr prjónakörfunni, sokkabuxur og í rauninni allt sem ykkur dettur í hug að nota við hnýtingar og liggur á yfirráðasvæði konunnar.

Hvaða þurrflugu?

Hvaða flugu er best að nota fyrst? Þetta eru trúarbrögð eins og svo margt annað í veiðinni. Black Gnat er afskaplega vinsæl, aðrir nota Griffith’s Gnat , enn aðrir Royal Wulff. Aðrir byrja ekki á neinni heldur standa eins og glópar á bakkanum og skima út á vatnið og bíða þess að sjá hvaða fluga sest á vatnið. Þegar hún er sest halda þeir áfram að skima, tekur hann? Ef svo skemmtilega vill til að silungurinn sé í því að taka flugu á yfirborðinu er oft ekki flókið mál að finna samstæðu í boxinu.

Það er útbreiddur misskilningur að dægurflugur (ætt Ephemeroptera) sé ekki til á Íslandi og því afskrifa menn oft þurrflugur sem tilheyra þessari ætt. Þetta er einfaldlega ekki satt og engin ástæða til að afskrifta því við eigum eitt kvikindi hér heima sem er afar áberandi og fjölgar hratt í náttúru okkar.

Sami misskilningur hefur komið upp varðandi steinfluguna (ætt Plecoptera) og er það miður að ábyrgir veiðivefir og þurrflugusnillingar skuli breiða þetta út í ræðu og riti. Ég vil benda mönnum á að leita sér upplýsinga um þessar tvær tegundir hjá þar til bærum sérfræðingum, eins og t.d. Náttúrufræðistofnun Íslands áður en þeir halda áfram útbreiðslu þessa misskilnings. Nægir að smella á ættarheiti þessara tegunda hér að ofan til að lesa sér til um efnið.

Önnur þeirra ætta sem er hve útbreiddust hér á landi er vorflugan (ætt Tricoptera) og finnst hún um allt land ásamt mýflugunni (af ætt Diptera). Það er því ekkert óeðlilegt að maður komi sér upp boxi með þessum gerðum þurrflugna, svona í einni eða annarri mynd til að byrja með.

Hvort maður sest nú niður og hnýtir þessi kvikindi er svo allt önnur spurning. Það hafa sagt mér snillingar að það borgi sig nánast ekki að birgja sig upp af hnýtingarefni fyrir þurrflugu nema þá að veiða mikið á slík dýr eða hnýta fyrir marga. Ætli það dugi fyrir mig að við erum tvö saman í þessu veseni, ég og frúin?

Royal Wulff

Griffith’s Gnat

Black Gnat

Ummæli

30.10.2012 – HilmarGlæsilegur pistill. Auðvitað hnýtirðu sjálfur, allt annað að veiða fisk á eigin flugur. Fínt að byrja að hnýta þessar: 

með meistara Davie McPhail.

Mbk, Hilmar

Svar: Já, þessar líta auðvitað ljómandi út og allt virðist þetta einfalt hjá Davie McPhail eins og venjulega. Algjör snillingur þessi maður. Kannski maður láti bara reyna á þetta í vetur.

Þurrflugur í vanda

Engin ‘fake’ fluga

Fyrir utan þessi einföldu vandamál varðandi þurrflugurnar eins og til dæmis að þær verða alltaf rennandi blautar hjá mér og drukkna eða mér bara tekst ekki að koma þeim út á vatnið þannig að þær líkjast alvöru flugu, þá gengur mér bara mjög vel að veiða á þurrflugu, eða ekki.

Í þau skipti sem mér hefur enst þolinmæðin til að veiða á þurrflugu hef ég kynnst nokkrum sérlunduðum silungum. Ég hef kynnst gæjum, þessum sem gægjast upp að yfirborðinu en leggja aldrei til atlögu við fluguna mína. Mér skilst á fróðum mönnum að þá hef ég verið að egna með rangri flugu. Ég? Nei, ekki veit ég hvaðan silungar og menn hafa fengið þá flugu í höfuðið.

Svo hef ég hitt þessa óhittnu sem koma upp í fluguna mína en það er eins og þeir hitti ekki á hana. Þeir súpa bara af yfirborðinu rétt handan hennar. Mér skilst á þessum sömu spekingum að það sé í raun ég sem klikki, ekki silungurinn. Þeir segja að ég sé of bráður á mér, reisi stöngina eitthvað of snemma þannig að flugan skauti úr færi fisksins. Bíddu, er fiskurinn ekki með sporð? Getur hann ekki borið sig almennilega eftir bráðinni?

Af ofangreindu gæti einhver ráðið að mér gangi bara alls ekkert að veiða á þurrflugu og þurfi aðeins að kynna mér málið betur. Ég ætla í það minnsta að skoða þetta eitthvað í vetur og leyfa ykkur að fylgjast með hérna á blogginu. Svo sjáum við til næsta sumar hvort ég hitti ekki einhverja viðmótsþýðari silunga sem skilja hvað ég er að meina þegar ég legg gómsæta þurrflugu fyrir þá.

Ummæli

25.10.2012 – Hilmar: Ha ha ha, góður pistill. Velkominn í þurrflugu dæmið. Svo áttu eftir að kynnast að veiða á þurrflugur í algjöru logni í stöðuvatni, þar sem taumurinn ákveður að sökkva alls ekki og er eins og kaðall tengdur í fluguna og allt vaðandi í uppítökum allt í kring. Það er mjög hressandi og virkar ekki alltaf að bera mold á tauminn.

Samt alveg hrikalega gaman þegar þeir taka þurrfluguna, fékk alveg nýtt kick út úr fluguveiðinni þegar ég fór að prófa mig áfram í þurrflugudæminu!

mbk ,Hilmar

Svar: Já, ég varð einmitt vitni af svona kikki sem frúin mín fékk í sumar, ítrekað. Eftir að hún gerði það gott fór ég að gefa þurrflugunum meiri gaum. Lesa, lesa, horfa, horfa… og kannski verður eitthvað úr þessu næsta sumar.

28.10.2012 – ÞórunnEitt mesta kikk sem ég hef fengið í fluguveiðinni var einmitt í blanka logni í Ölvesvatni í sumar, vökur út um allt og flugan mín bara alveg jafn girnileg og allar hinar. Fæ enn svona “flash back” og upplifi kikkið ítrekað þegar ég rifja upp einn flottann sem synti fyrir framan mig og þóttist ekki sjá fluguna mína, snarsnéri svo við, upp og tók ……baaaaaaara geðveikt.
En, ég fæ svo ekkert endilega kikk þegar ég hugsa um þessa sem ég missti í þessum aðstæðum! Maður þarf að vera alveg svakalega vakandi og með augun límd á flugunni, sem NB getur orsakað ofsastöru, og tilbúin að strekkja á réttu augnabliki. Missti nokkra einfaldlega við það að blikka augunum. Spurning hvort störustaurar fáist einhverstaðar?

Skiptum litum

Í lit eða svart/hvít?

Þegar minnst varir getur allt nart og allar tökur gufað upp eins og dögg fyrir sólu. Og það er einmitt hún sem er líklegust til að eiga sökina á þessari uppgufun, sem sagt sólin. Vegna þess að silungurinn sér aðeins 1/8 þeirra litatóna sem við sjáum þá getur verið ansi stutt á milli þess að hann sér agnið okkar, fluguna og þess að hún einfaldlega hverfur sjónum hans í grámósku vatnsins. Oftast gerist þetta þegar sólin hverfur á bak við ský eða annað þéttara á himninum. Nokkuð sem við skynjum aðeins sem örlitla breytingu á litatón getur verið frávik upp á heilan lit í vatninu fyrir silunginum. Við þessu er tvennt til ráða. Annað hvort tekur þú þér pásu og bíður þess að sólin brjótist framundan skýinu eða þú  skiptir um lit á agninu. Aðeins annað þessara ráða gefur þér von um fisk, þitt er valið.

Að komast á lappir

Kaufmann's Stone Fly

Það eru ekki aðeins púpur sem verða líflegri með gúmmílöppum, straumflugur eins og t.d. Nobbler, Damsel og Wooly Bugger öðlast nýtt líf í vatninu þegar skotið hefur verið undir þær löppum. Þegar ég prófaði mig áfram með gúmmílappirnar skaut fyrst upp í huga mér; Bölvað vesen er þetta, Hvort á ég að setja lappirnar á undan eða á eftir? Undir eða ofaná? Hvernig á ég að ná þeim jöfnum til allra átta?

Eftir að hafa böðlast í gegnum allskonar leiðbeiningar, skoðað ógrynni af myndböndum þá varð mín niðurstaða sú að hafa fjaðurtöngina (Hackle Plier) tiltæka ásamt nokkrum afskornum drykkjarstráum í mismunandi sverleika til að hemja lappirnar á meðan ég hnýtti þær niður og umfram allt, lappirnar síðast eða næstum því.

Smellið fyrir stærri mynd
Smellið fyrir stærri mynd

Annars hjálpaði Davie McPhail mér mest eins og svo oft áður með að ná einhverju viti í vinnubrögðin. Hér að neðan má líta hvernig hann fer að því að festa lappir á Gnasher Sedge Hog (u.þ.b. á hálfu elleftu mínútu). Í meðförum Davie er þetta ekkert mál en hjá mér varð þetta hrein kvöl og pína, en æfingin er sögð skapa meistarann.

Litur í vatni

Samsetning ljóss

Ef ekkert væri ljósið væri engin liturinn, einfalt ekki satt. Og þetta er einmitt það sem við veiðimennirnir gleymum oft þegar kemur að lit á flugu í vatni. Vatn virkar eins og ljóssía. Efst í vatninu eru fáir litir sem falla út en því neðar sem dregur í vatninu falla fleiri litir út og á botninum sitjum við eftir með gráa eða alveg svarta flugu.

En það er fleira sem hefur áhrif á lit flugna heldur en dýpið. Flest vötninin okkar eru annað hvort blá- eða grænleit og þessir litir hafa líka áhrif á það hvernig og á hvaða dýpi litur flugunnar breytist. Ef vatnið er aftur á móti gruggugt þá hverfa litirnir enn fyrr, mögulega verðu allt orðið svart á innan við 2m.

Áberandi rauð fluga getur verið orðin svört í augum silungsins á u.þ.b. 10m dýpi við bestu skilyrði, heldur sem sagt litnum töluvert djúpt. Hvít fluga hegðar sér aftur á móti nokkuð ólíkindalega þar sem hvítur er jú samsuða allra lita. Hún heldur hvítum lit allt niður á 2m ef vatnið er þokkalega tært en tekur síðan nokkuð örum og áberandi breytingum á næstu metrum og flakkar allt litrófið þar til hún endar í svört.

Öllum þessum litabreytingum getum við komist hjá, þ.e. ef við endilega viljum það, með því að nota flúrljómaðan lit í flugur. Fluorcent þráður heldur sínum upprunalega lit alveg niður í svartasta myrkur undirdjúpanna þar sem hann þarf mun minni birtu heldur en hefðbundin þráður. Höfum þetta í huga þegar við setjum brodd eða haus á púpurnar okkar.

Ummæli

Siggi KrÞetta er góð pæling, sérstaklega ef maður er að veiða í gígum eða frá báti með mikinn sökkhraða (línan, ekki báturinn . En spurning hvernig dýpið fer með flugurnar sem hafa mikla endurspeglun, svosem silfur og gull-litaðar flugur og eins allt þetta crystal og flash efni sem er í mörgum flugum. Ætli það haldi flugunum okkar áhugaverðari niður á meira dýpi en ella?

Byrjaðu á botninum

Flottur klassíker

Þær eru; ómótstæðilegar, smart, glæsilegar, þokkafullar og umfram allt augnayndi. Hverjar? Jú, klassísku straumflugurnar. Sjálfur fell ég oft og iðulega fyrir þeim þegar ég er á vafri um netið, get bara ekki hamið mig, sest niður og hnýti eins og tvær, þrjár, just for the fun of it. En, ég sit uppi með þessar flugur í boxinu mínu og finn sjaldnast praktísk not fyrir þær þegar í vatnið er komið.

Það er jú nokkuð útbreidd vitneskja að silungurinn leitar helst fæðu á botninum og þá oftast í líki lirfa, púpa eða kuðungs. Byrjaðu á botninum, þaðan liggja allar leiðir upp á við. Hnýttu púpur til veiða og láttu það eftir þér að hnýta litskrúðuga straumflugu, svona til að eiga.

Litur á flugu

Litbrigði Nobblera

Við þekkjum það ágætlega að velja okkur flugu fyrir silunginn eftir því sem hann er að éta hverju sinni. En stundum er líka ágætt að hafa það í huga mismunandi árstíðir eiga sér sína liti. Snemma vors og síðla hausts gefa dökkar, jafnvel svartar flugur betur en þær skæru sem frekar eru orðaðar við bjart veður og ekki síst gróskuna í vötnunum á sumrin.

Allt vill lagið hafa, en sama lagið getur alveg virkað allt árið um kring ef við eigum það í mismunandi litbrigðum. Pheasant Tail, Héraeyra og t.d. Nobbler í mismunandi litbrigðum geta komið okkur töluvert langt árið um kring. Kannski eigum við að hnýta færri afbrigði, en í fleiri litum?

Öryggið á oddinn

Smelltu fyrir stærri mynd

Nú er þessi tími ársins þegar fingurgómarnir verða allir útstungnir og skrámur og rispur hér og þar. Nei, ég er ekki að tala um tannaför fiska eftir að hafa losað fluguna úr þeim, heldur þá ónáttúru mína að flækja fingrunum í öngulinn þegar ég er t.d. að ganga frá hringvafinni fjöður á flugu. En, það er til einfalt ráð við þessu og það er að hafa við hendina ‘Tubing’ slöngu t.d. Ultra Lace 1mm, klippa smá bút af henni og þræða upp á öngulinn þegar kemur að hættulegasta augnablikinu. Setjum öryggið á oddinn, það getur sparað margt ergelsið.

Lakk á þræði

Smellið fyrir stærri mynd

Þegar maður glímir við flugu þar sem viðkvæmt dub, vængur eða kragi er mjög þétt upp við t.d. kúlu getur verið nokkuð snúið að koma lakki yfir lokahnútinn á flugunni án þess að klína lakki út um allt. Þegar þú lendir í svona aðstæðum næst, bíddu aðeins með að klippa á hnýtingarþráðinn. Það má vel leiða lakkið niður eftir þræðinum til að tryggja lokahnútinn og klippa á eftir. Einfalt ráð sem hefur gagnast mörgum.

Svampstandur

Smelltu fyrir stærri mynd

Að vera skipulagður, í það minnsta á hnýtingarborðinu getur sparað manni töluverðan tíma þegar kemur að hnýtingum. Þeir sem ekki eru svo heppnir að eiga sér fastan samastað til hnýtinga hafa oft verið í ákveðnum vandræðum með tæki sín og tól, en það er alltaf hægt að koma helstu verkfærum þannig fyrir að auðvelt sé að nálgast þau og taka saman að lokinni notkun. Svona svamp má finna í ýmsum pakkningum og einfalt er að líma hann á fjöl með trélími. Sjálfur límdi ég síðan smá búta úr hjólaslöngu undir fjölina til að hún yrði stöm á borðinu. Einfalt og handhægt, svo er bara að venja sig á að setja tólin í svampinn strax að lokinni notkun, þá er ekkert mál að taka saman eftir góða kvöldstund við hnýtingar.

Spenningur

Smelltu fyrir stærri mynd

Ein algengasta ástæða þess að menn slíta hnýtingarþráðinn er sú að þeir taka of mikið á honum eða spennan í keflishaldaranum er aðeins of mikil. Áður en þú ferð að reyna að spenna upp klemmuna á keflishaldaranum prófaðu að rjóða smá kertavaxi í götin á tvinnakeflinu. Það gerir oft kraftaverk og þráðurinn rennur mun betur. Sama ráð á við þegar ískrið í keflinu er að gera þig brjálaðan. Umfram allt, reyndu eitthvað annað en að eiga við keflishaldarann eða skipta yfir í sverari þráð.

Hornið mitt

Smellið fyrir stærri mynd

Nú eru flestir komnir í gang í hnýtingunum fyrir næstu vertíð. Sjálfur er ég alltaf að grípa í hnýtingarnar árið um kring, enda svo heppinn að geta haft hornið mitt alltaf klárt, en auðvitað í misjöfnu ástandi. Ég er ekki alveg sá duglegasti að taka til á borðinu þannig að ég notaði tækifærið um daginn og tók þessa mynd, kannski til að minna mig á að það þarf ekki alltaf að vera í rusli.

Margir gúrúar hafa bent á nauðsyn þess að hafa skipulag á hlutunum og sæmilega snyrtilegt á borðinu og ég get svo sem ekki verið annað en sammála þessu. Það er bara hægara sagt en gert.

Lakk

Smelltu fyrir stærri mynd

Það getur verið fínt að eiga mismunandi þykkt lakk, þunnt fyrir fyrstu lökkun og aðeins þykkara í endanlegan frágang. En það er kannski óþarfi að allt lakkið endi í þykka flokkinum bara vegna þess að súrefnið þykkir það með tímanum og þá sérstaklega þegar þú ert kominn niður fyrir miðja dós. Ágætt ráð til að minnka súrefnið í dósinni er að lauma einni eða tveimur glerkúlum í dósina. Kúlurnar getur þú fundið í dótakassanum hjá krökkunum eða tómu lakkbrúsunum í bílskúrnum, passaðu bara að þær séu út gleri, plast gerir ekkert annað en leysast upp og skemma lakkið.

Upphengja

Smelltu fyrir stærri mynd

Auðvitað á fluguhnýtarinn að hafa röð og reglu á hlutunum, það einfaldar verulega leitina að réttu verkfærunum. Eitt áhald þarf í það minnsta að vera alltaf á sínum stað og það eru skærin. Til að geta alltaf gengið að uppáhalds skærunum mínum þá er ég með smá segulstál á væsinum þar sem skærin eiga heima. Ég veit af þeim þarna, þarf ekki að sleppa augunum af flugunni og einfalt að skila þeim til baka. Bónusinn er síðan sá að þegar þau hafa hangið þarna í smá tíma eru þau sjálf orðin hæfilega mögnuð til að ég geti notað þau til að veiða einn og einn öngul upp úr boxinu fyrir næstu flugu.

Íspinnar

Smellið fyrir stærri mynd

Nú er lag að skreppa út í búð og slá tvær flugur í einu höggi; kaupa sér einhvern gómsætan íspinna og útbúa sér síðan þjöl / rasp til að framleiða og ýfa dub’ið í flugurnar. Það er óðs-manns æði að eiga öll litbrigði og grófleika dub’efnis fyrir fluguhnýtingarnar og því getur komið sér vel að geta kíkt í prjónakörfuna og næla sér í al-íslenska ull eða erlent gerfiefni. Með svona áhaldi, sem er útbúið úr íspinnaspýtu og álímdum sandpappír er tiltölulega einfalt að verða sér úti um öll möguleg afbrigði dub’efnis. Eins er frábært að hafa þetta við hendina þegar kemur að því að ýfa dub’ið aðeins þegar það er komið á fluguna. Mínir pinnar eru með sandpappír #120 öðru megin en #80 hinu megin, það er líka fínt að hafa það gróft.

Augað í pung

Þegar annað augað er dregið í pung hlýtur sjónin að skerðast um helming sem er slæmt mál ef maður er eineygður eins og öngull. Ekki draga það of lengi að hreinsa flugulakkið úr auganu ef þú hefur slysast til að lakka í það. Jafnvel besti úrsnarari nær ekki að hreinsa augað ef lakkið hefur náð að fullharðna og þeir geta skilið eftir örlitlar leifar lakks sem geta auðveldlega slitið eða marið taumaenda þegar síst skildi. Annar ókostur úrsnarar er að þeir eiga það til að særa haus flugunnar, jafnvel svo að hann raknar upp og þá eru dagar flugunnar taldir.

Einfalt ráð til að þrífa lakk úr auga er að þræða ‚ljótu‘ fjöðrina (hackle) sem finnst í öllum pakkningum í gegnum augað strax og hausinn hefur verið lakkaður.

Stanley

Þegar uppáhalds skrúfbútajárnið deyr, maður snýr það í sundur eða klýfur handfangið, er engin ástæða til að henda því í heilu lagi. Oftar en ekki er falinn fjársjóður fluguhnýtarans inni í þessum skrúfujárnum, örlítið segulstál fremst í járninu, stundum meira að segja fest á loftnetslíki. Að vera með svona áhald á hnýtingarborðinu getur oftar en ekki bjargað manni þegar öngull eða áhald dettur á gólfið í miðjum klíðum. Maður sleppir nú ekki svo glatt fingrum af flottustu flugu allra tíma til að fálma eftir fjaðurtöng niður á gólfi. Sjálfur útbjó ég mér svona telescopic segulstál úr skrúfujárni og smokraði bút af gúmmíslöngu upp á breiðari endann til að ná betra taki, snilldar verkfæri.

Að halda þræði

Það getur reynst erfiðara en ætla mætti að halda þræði í svona bloggi með minnst þrjú innlegg á viku. En það eru líka fleiri þræðir sem koma við sögu þegar kemur að flugum og fluguhnýtingum. Í upphafi notuðust menn við hnýtingarþráð úr silki og valið var ekki erfitt, fáir litir og sverleiki þeirra í algjöru lágmarki. Nú á dögum er úrval hnýtingarþráða orðið slíkt að hægt er að fara algjörlega út yfir öll velsæmismörk í vali, eða hvað?

Eins og eflaust fleiri hnýtarar þá hef ég reynt að halda tegundum í lágmarki, prófað nokkrar en reynt að einskorða mig við þær sem ég hef strax fundið mig í að nota. Tvær gerðir standa upp úr hjá mér; UNI og Danville. Stærsti munurinn á þessum tveimur merkjum er að UNI þráðurinn, þessi venjulegi er úr polyester á meðan að Danville er úr nylon. Og hvaða máli skipti það svo sem, kann einhver að spyrja. Mín reynsla er að Danville þráðurinn á það frekar til að særa fjaðrir við hnýtingu, þ.e. skera á meðan UNI er aðeins mýkri en á það frekar til að hnökra og rakna upp nema maður gæti þess vel að túpan í keflishaldaranum sé hrein og vel við haldið. Hér er ég aðeins að bera saman spunninn þráð frá þessum framleiðendum, ekki flatan þráð eins og raunar flestar gerðir Danville er. Þegar kemur að flötum þræði sem á, almennt talið, að leggjast betur en spunninn og bíður upp á það að kljúfa hann fyrir döbbið, þá hef ég bara ekki komist upp á lagið með hann, ekki frekar en GSP (gel spun polyethylene) þráð eða vaxborinn. Já, æfingin skapar meistarann, ég veit.

En hvað er ég með margar tegundir á borðinu hjá mér? Jú, eins fáar og ég kemst af með og þar spilar ekki inní nein nýska. Á borðinu hjá mér er ég með brúnan (camel), ryðrauðan (rust brown), svartan, tan, ólífugrænan (olive dun) og rauðan. Ég passa uppá að eiga þessa liti í 8/0 en tek það síður nærri mér ef 6/0 klárast. Já, ég vil helst að mælieiningin sé X/0 (naught scale) í stað denier, sem er auðvitað bara sérviska hjá mér sem kemur ekki að sök því ég held mig mikið til við ofangreindar tegundir. Því er nefnilega þannig farið að X/0 merking á milli framleiðenda er nokkuð mismunandi og því getur 8/0 þráður frá UNI verið af allt öðrum sverleika heldur en þráður frá Gudebrod eða Wisp frá Gordon Griffith‘s. Þessu til viðbótar luma ég síðan auðvitað á nokkrum gerðum floss og einu og einu kefli af gerfisilki sem ágætt getur verið að grípa í þegar mig vantar áberandi lit eða blæbrigði í fluguna.

Með rauða kúlu……

Alma Rún

Og ekki bara á maganum; kragar, broddar og hausar úr fluorescent eða neon efnum hafa verið að ryðja sér til rúms í fluguhnýtingum og þá sér í lagi eftir að Frakkar, Pólverjar og Tékkar urðu meira áberandi en áður. Við Íslendingar eigum líka okkar verðugu fulltrúa í þessum hópi. Peacock með sínum upprunalega neon kraga og Alma Rún með appelsínugula hausnum eru einmitt flugur sem eru lýsandi fyrir Hot Spot flugur.

Uppruna þessara flugna má rekja til stóru vatnanna í norðurhéruðum Englands og Skotlands þar sem menn byrjuðu á því að bæta áberandi þráðum í stél straumflugna í þeirri von að gera þær meira áberandi í augum silungsins. Til að byrja með reyndu menn nokkra mismunandi liti en þegar á reyndi nutu þeir appelsínugulu og rauðu mestra vinsælda hjá silunginum, kannski vegna þess að þessir fluorescent litir halda upprunalega lit sínum alveg sama hvort þá beri í beint sólarljós, rökkur ljósaskiptanna eða tunglsljós á meðan búk- og vængefni taka litaskiptum í mismunandi birtu.

Hot Spot PT

En hvort á að velja; brodd eða kraga? Kannski eru það bara kenjar sem ég hef tekið upp eftir mér reyndari mönnum en mitt val er nokkuð einfalt, litlar púpur fá kraga eða haus úr áberandi lit, t.d. Alma Rún og Peacock í stærðum 12-16. Stærri og bústnari flugur fá brodd. Umfram allt, ég set aldrei áberandi lit á báða enda, hvað þá á miðjuna líka. Síðan má alltaf athuga að nota fluorescent kúluhausa sem hafa verið að stinga upp kollinum í verslunum hin síðari ár. Lítill broddur á hefðbundna flugu s.s. Pheasant Tail gefur vel þar sem urriðinn er hættur að taka undir stöðugu og miklu áreiti hefðbundinna flugna.

Hot Spot Héri

En broddurinn má ekki vera of stór, lítill og áberandi kveikir meiri forvitni en stór og groddaralegur, fiskurinn byrjar að taka aftur.

Áberandi thorax úr fluorescent dub kveikir ekkert síður í silunginum, sígildar flugur eins og Héraeyrað og Pheasant Tail ganga í endurnýjun lífdaga séu þær hóflega skreyttar með áberandi litum og ekki úr vegi að eiga þær original og Hot Spot.