Nei, ég er ekki nískur, ég fer bara vel með fé. Nema það sé sauðfé, það geri ég mér að góðu. Sú regla mín að vera sparsamur á hráefni í flugu hefur ekkert með ráðvendni eða nísku að gera. Mörg af mínum byrjenda mistökum í fluguhnýtingum einkenndust af ofgnótt hráefnis í flugurnar. Þetta voru klunnalega, frekar erfiðar flugur og ekki nándar nærri nógu þungar til að komast með góðu móti niður í vatnið.
Auðvitað sá ég þetta sjálfur, en þegar ég byrjaði síðan á nýrri flugu var alltaf eins og puttarnir mínir vildu hafa eitthvað meira umleikis heldur en það sem uppskriftin sagði til um. Það var næstum alveg saman hvort um var að ræða fjöður, dub, ull eða hár, alltaf var ég með of mikið í takinu.
Um leið og ég fór að bera kvikindin mín saman við fyrirmyndirnar, þ.e. þær lifandi í vatninu, þá sannfærðist ég um að flugurnar á myndunum á vefnum voru ekkert of mjóar. Skordýrin sem finnast í náttúrunni eru hreint ekki neinir boltar. Flestar pöddurnar voru beinlínis eins og þær væru að drepast úr hor miðað við flugurnar mínar, þannig að ég tók mig alvarlegu taki og setti allt mitt hnýtingarlið í hart aðhald. Reyndar ekki alveg allt, því ein fluga var sett á auka fæði og varð töluvert bústnari heldur en áður, Peacock.
Það var ekki aðeins að flestar flugurnar mínar yrðu mjóslegnari, þær fóru að sökkva hraðar, veiða betur og … endast betur. Minna hráefni, færri mistök og þær urðu einfaldlega haldbetri. Núna er það svo að um leið og það sækir á mig einhver vafi hvort ég sé með of mikið á milli fingranna, þá minnka ég skammtinn. Þetta er svipað því að salta lambakjöt, spara saltið í fyrstu, það er alltaf hægt að bæta við síðar.
Senda ábendingu