Enn held ég áfram að kíkja yfir vandamála punkta síðustu ára, það virðist vera af nógu að taka, eða þá ég hafi gleymt að merkja við að ég hafi þegar skrifað eitthvað upp úr þessu pári mínu. Ef einhvern rámar í eldri grein um rassskelli, þá er eins líklegt að ég hafi gleymt að merkja við DONE um þetta vandamál. Ég get þá alltaf skýlt mér á bak við það að góð vísa er aldrei of oft kveðin.
Rassskellur í flugukasti er trúlega eitthvað sem allir fluguveiðimenn hafa upplifað, einu sinni eða miklu oftar. Það sem ég á við hérna er þessi leiðinlega höggbylgja sem kemur stundum í flugulínuna, gjarnan í bakkastinu, þegar lagt er af stað í framkastið.

Ég hef nýlega minnst á það að hefja framkastið aðeins áður en línan hefur rétt alveg úr sér og það er einmitt lækningin við þessum rassskellum sem línan getur tekið upp á ef framkastið er hafið of snemma, línubugurinn of víður eða afar illa formaður, t.d. ef stangartoppurinn hefur verið að teikna einhverjar krúsídúllur í loftinu frá fremstu stöðu og aftur í þá öftustu. Ekki gleyma því að línan ferðast í sama plani og eftir sömu slóð og stangartoppurinn fetar á leið sinni í kastinu og ef sú slóð er ráfandi út og suður, þá fer línan hana líka og línubugurinn misheppnast. Reynið að halda beinni línu eða jöfnum ávölum feril (belgíska kastið) og byrjið framkastið örlítið áður en línan hefur rétt úr sér.
Senda ábendingu