Sá grunur hefur alveg laumast að mér að lesendur séu búnir að fá meira en nóg af greinum sem gefa til kynna að ég sé rosalega smámunasamur. Endalausar smápillur um einhverjar leiðréttingar á hinu og þessu sem enginn nennir lengur að lesa. Ef einhver heldur virkilega að ég taki allt það upp sem hér er skrifað, þá er það mikill misskilningur. Aha, þú ert einn af þeim sem þykist allt vita, en gerir ekkert af því sjálfur, var sagt við mig um daginn. Ég hló við, það var nefnilega ein áberandi villa í þessari setningu, ég veit ekki allt og reyni ekki einu sinni að halda því fram. Stundum finnst mér eins og því meira sem ég kynni mér, því meira á ég ólært, en mér finnst gott að koma því í texta sem mér er bent á eða ég læri. Hér á eftir ætla ég að taka smá snúning á ábendingu sem gaukað var að mér í vor.

Þannig að maður leiki sér aðeins með líkamsparta, þá hefur það lengi verið minn akkilesarhæll að brjóta úlnliðinn í bakkastinu. Eins og svo oft áður var mér bent á þetta og sagt að stinga stönginni niður í ermina á jakkanum mínum, þó ekki væri nema til þess að finna muninn í kastinu. Jú, jú, ég kannaðist alveg við að kastið batnaði og hélt áfram að tylla stönginni í ermina þannig að ég fengi frið út kastæfinguna. En nei, kemur ekki þessi gaur aftur og spyr mig hvar ég hafi lært að stoppa tvisvar í bakkastinu. Ha, þarna var komið eitthvað alveg nýtt til sögunnar sem ég vissi ekki um, stoppa tvisvar? Já, þú stoppar í bakkastinu en eftir augnablik færir þú stöngina aðeins aftar. Ég fylgdist með sjálfum mér og viti menn. Jafnvel þótt ég hefði spennt stöngina inn í ermina á jakkanum mínum og þannig ráðið bót á þessum með úlnliðinn, þá kom þarna örlítil hreyfing eftir hreint aftara-stopp þar sem ég leyfði stönginni að leka aðeins aftar.
Ég snéri mig næstum úr hálsliðnum, horfði bara á línuna í bakkastinu og þá sá ég línuna ferðast í þokkalega beinni línu, en svo kom þessi örlitla hreyfing og línan féll eins og steinn. Þetta var ekki erfitt að lagfæra, bara taka sér tak og hætta þessum ósið og bakköstin urðu miklu betri.
Það er gott að eiga einhvern að sem getur bent manni á svona bull, sérstaklega þegar maður veit bara alls ekki af því.