Vendipunktur

Vending
Vending

Í sumar sem leið var ég töluvert að böðlast með flugurnar mínar í straumi. Ég hef ekkert farið leynt með það að oftast var ég einn, alveg aleinn, ekki einu sinni fiskur á svipuðum slóðum. Aðallega vegna þess að ég fór ekki nógu varlega. En, ég notaði hvert tækifæri sem gafst til að prófa tæknina sem greinarnar og allar klippurnar höfðu hamrað á. Eitt af því sem ég átti að ná tökum á var að venda línunni til að lágmarka dragið. Ég ætla rétt að vona að menn hafi skilið þetta, en þetta snýst sem sagt um að menda línunni. Hvað um það, ég prófaði mig áfram, lítið í einu, upp eða niður alveg eftir því hvort straumurinn hafði meiri áhrif á línuna eða fluguna. E.t.v. hef ég horft of mikið á vendingar manna í straumhörðum ám, því fljótlega varð ég var við að öflugar vendingar voru dragbítur á framsetningu púpunnar við botninn. Allt of oft lyfti ég flugunni upp af botninum í þessum tilraunum mínum þannig að hún tók að líkjast skopparabolta meira en skordýri. Það var ekki fyrr en ég létti og mýkti hreyfingarnar, oftar og minna í einu, að flugan hélt sig þar sem ég vildi hafa hana. En svo var það þetta með vendipunktinn. Það tók mig töluverðan tíma að finna hvenær ég ætti að venda þannig að flugan yrði ekki fyrir dragi. Ætli besta tímasetningin hafi ekki verið svipuð eins og þegar maður eldar fisk; venda rétt áður en maður heldur að rétti tíminn sé kominn. Frekar fyrr en síðar.

Láttu kyrrt liggja

Hauspoki
Hauspoki

Ég hef orðið vitni að því þegar kast mislukkast, oftast hjá sjálfum mér en líka hjá öðrum. Mér er það ekkert launungamál að stundum finn ég blóðið spretta fram í kinnarnar þegar kastið klúðrast algjörlega, sérstaklega þegar ég hef grun um áhorfendur á staðnum. Og hvað geri ég þá? Jú, ég reyni bara að gera gott úr þessu öllu saman, bölva hressilega eða tek fram fyrir hendurnar á áhorfendunum og hlæ hæðnislega að sjálfum mér. Ég gæti auðvitað smellt á mig hauspoka af skömm, en þannig er ég nú bara ekki. Það er ekkert óeðlilegt við það að klúðra kasti, en það er algjör óþarfi að bregðast við í einhverju ofboði og draga alla línuna inn og byrja upp á nýtt eins og maður eigi lífið að leysa. Það er ekki til það lélegt kast að það batni við að raska yfirborðinu meira en orðið er með því að böðlast á línunni. Láttu kyrrt liggja, náðu pirringinum úr kasthendinni og leyfði þurrflugunni að fljóta rólega frá fiskinum eða dragðu púpuna inn eins og um besta kast lífs þíns hafi verið að ræða. Fyrir utan það að ég hef oft orðið fyrir því að mislukkað kast hefur einmitt fært fluguna fyrir fiskinn sem ég sá aldrei, þá er aldrei að vita nema fiskurinn sem þú sást færi sig einmitt úr stað eftir mislukkað kast og komi þá auga á fluguna þína. Með því að rífa þurrfluguna af yfirborðinu eða rykkja púpunni af stað, þá eru miklu meiri líkur á að fiskurinn fari einmitt í hina áttina heldur en að hann haldi sig bara á sama stað. Annars sagði góður maður við mig ekki alls fyrir löngu að 9 af hverjum 10 fiskum víkja sér undan flugunni þegar þér tekst akkúrat að láta hana lenda þar sem hann liggur.

Plomp, skvass, skvass

Einhver óskiljanlegasta fyrirsögn sem hægt er að hugsa sér, en það sem ég er að reyna að koma á framfæri er hljóðmyndin sem silungurinn heyrir þegar skordýrið dettur alveg óvart í vatnið, bröltir síðan aðeins um áður en það annað hvort nær sér aftur á land eða einfaldlega drukknar. Silungur verður að vísu var við hljóð með öðrum hætti en við, hann skynjar hljóðið með ‚hljóðrákinni‘ sem liggur með síðu hans. En þetta litla ‚plomp‘ getur vakið forvitni hans, viðbragð sem er ósjálfrátt og hann rennur á agnið. Það er kúnst, en ekki ómögulegt, að líkja eftir þessu ‚plompi‘. Þegar kemur að því að leggja fluguna, oftast einhverja púpu, fyrir fiskinn með þessu ‚plompi‘ er ekki verra að kunna skil á Tuck Cast, kannski eins og Carl McNeil framkvæmir það: (verður því miður að spilast á YouTube)

Þurrflugukastið

Létt og lipurt

Númer eitt, númer tvö og númer þrjú; það er stutt. Vegna þess að veiðimaðurinn þarf að geta haft augun á flugunni má kastið auðvitað ekki vera lengra en svo að flugan hverfi bara ekki eitthvert út í buskann. Þú verður að halda augnsambandi við fluguna.

Til að ná léttu og mjúku kasti þá er um að gera að nota léttar græjur, lína og stöng #3 er mjög gott og línur alveg upp í #7 sleppa ágætlega ef þær eru nógu mjúkar og falla létt. Auðvitað veiða menn þurrflugu aðeins með flotlínu og sleppa öllum skothausum og því um líku sem raskar yfirborði vatnsins óhjákvæmilega meira en hefðbundin flotlína.

Létt og lipurt, stutt og hnitmiðað eru lykilatriðin í þurrfluguveiðinni og því ekki út vegi fyrir böðla eins og mig að æfa stuttu og markvissu köstin í vetur, vera klár næsta vor þegar fyrsta klakið á sér stað.

Litið um öxl

Litið um öxl

Nei, nei, þú þarft ekkert að líta til með línunni“ var sagt við mig í sumar þegar ég var að vinna í kaststílnum mínum. Ég er þrjóskari en andsk… þegar því er að skipta og vil meina að viðkomandi hafi talið mig betri kastara heldur en ég er. Auðvitað veit ég og nýti mér það í 90% tilvika að ég get fundið það í þumlinum hvenær línan hefur rétt úr sér að baki mér og óhætt er að hefja framkastið. En, þegar ég hita upp eða æfi mig á flötinni hef ég, og mun trúlega halda áfram að líta aðeins um öxl í bakkastinu. Ég fer ekkert dult með þetta enda augljóst hverjum sem vill sjá. Hitt hef ég aftur á móti farið svolítið leynt með að ég tel mig áfram í framkastinu og ég tel mig til baka í bakkastinu. Það tekur; 1, 2, 3 fyrir línuna að rétta úr sér í framkastinu og það tekur hana 3, 2, 1, 0 að rétta úr sér í bakkastinu vegna þess að ég hef lengt aðeins í henni þegar kemur að bakkastinu. Lengri lína = lengri tími.

Öllu ofangreindu hætti ég síðan að pæla í þegar ég er komin með flugu á tauminn því þá er ég farinn að veiða, þá fær þumallinn að ráða og segja mér til um tímasetningar.

Ummæli

4.9.2012 Börkur Smári: Að líta um öxl í bakkastinu gerir ekkert nema gott, því bæði tímaseturðu framkastið betur og ósjálfrátt verður bakkastið betra því þú sérð hvernig það lítur út. Það eina sem við verðum að passa okkur á er að vinda ekki upp á líkamann í leiðinni. Þá tekur stangartoppurinn góðan sveig til hliðar og línan mun líklega lenda í sveig á vatninu í næsta framkasti.

Persónulega byrja ég alltaf að kasta og lít til baka í bakkastinu þangað til ég er kominn með góðan takt í köstin.

ps. svo er alltaf gott að vita hvað er fyrir aftan mann þegar maður er að veiða ;)

9.12.2012 – Stefán Hjaltested (af Facebook): Litið um öxl. Ef kastarinn stendur rétt að kastinu og hallinn er réttur frá þér átt þú ekki að þurfa að horfa á eftir línunni í bakkastinu Það er ljótt að venja sig á að gera það nema um verulegt lengdarkast er að ræða. Ekki horfir þú á bensín fótinn er þú gefur inn á bílnum? kv. Stefán

12.12.2012 – Börkur Smári – FlugukastEn þú lítur aftur fyrir þig þegar þú bakkar bílnum ekki satt Stefán :) ?

Léttari lína í vindi

Línubogi

Þetta hljómar náttúrulega sem algjör fjarstæða í eyrum veiðimanna, en sýnið mér smá þolinmæði. Segjum sem svo að ég sé að veiða með miðlungs hraðri stöng #7 og hefðbundna WF7 línu þegar vindurinn tekur að blása beint í trýnið á mér. Til að byrja með reyni ég að þrengja kasthjólið til að koma línunni betur upp í vindinn, segjum að það þrengist úr 40 sm. niður í 30 sm. Enn eykur í vindinn og ég man eftir línu #6 sem ég er með í töskunni. Ef ég set nú þessa línu á stöngina (#7) þá reynir minna á hana og 2/3 hennar svigna minna heldur en með línu #7, ekki satt?  Fyrst mér tókst að minnka kasthjólið um 10 sm. með línu #7 ætti ég að geta þrengt hjólið enn meira með léttari línu og skotið henni þannig betur upp í vindinn.  Þessu til viðbótar ætti ég að geta valdið lengri undirspekkaðri línu í falsköstunum m.v. línu sem er á pari við stöngina, það þarf jú meira af línu #6 til að fylla þyngdarmörk kasthæfni minnar heldur en af línu #7.

Og ef þú heldur virkilega að ég hafi úthugsað þetta upp á eigin spítur, þá hefur þú allt of mikla trú á mér. Hann heitir Lefty Kreh sem setti þetta fyrstur fram. Kannski ég prófi þetta bara sjálfur í næsta roki?

Upphaf að löngu kasti

Upptaka

Upptaka línunnar hefur mikið að segja þegar við leggjum af stað í langt kast. Nú kann einhver að segja að þetta sé nú bara enn eitt bullið, skröksagan. En, ef við viljum ekki styggja fiskinn með óþarfa falsköstum þá ættum við að huga að lengd línunnar sem við tökum upp við upphaf kastsins. Stutt lína kallar á fleiri falsköst með lengingum til að ná löngu kasti, alveg sama hversu góðir kastarar við erum. Þetta er augljóst því við þurfum á þyngd línunnar að halda til að koma henni lengra út, löng lína = meiri þyngd.

Ef við bætum nú mótstöðu vatnsins við þá gefur það auga leið að við þurfum ekki eins mörg falsköst til að ná lengd í kastið. Því lengri lína sem liggur í vatninu þegar við tökum upp, því betur hlöðum við stöngina í upptöku og eigum þannig inni afl sem nýtist í fyrsta framkast og við þurfum alls ekki eins mörg falsköst til að ná út til þeirra stóru.

Þetta leiðir svo hugann að því hvar við stöndum í og við vatnið þegar við tökum upp. Ég ætla að velta vöngum yfir því í næsta pósti.

Hvort gripið?

Hvort gripið?

Á meðan sumir veiðimenn og kastkennarar mæla með Þumal ofaná, þá mæla aðrir með V-gripinu. Hér ræður ekki aðeins smekkur manna. Nokkrir aðrir þættir koma hér við sögu. Kaststíll manna er misjafn þó við byggjum allir á sömu reglunni; hlaða stöngina og stoppa ákveðið í fram og aftur kastinu. Sumum hentar betur að halda um stöngina líkt og tennisspaða, V-gripið. Kannski eru það helst þeir sem finnst þeir þurfa að nota langan kastferil, jafnvel víðan og ávalan sem kjósa V-gripið. Öðrum hentar betur að notast við þumalinn ofaná því þeir kjósa stuttan kastferil, snöggar og ákveðnar hreyfingar, beina línu fram og aftur, mjög ákveðin stopp. Mér hefur virst þeir sem tekst að halda olnboganum þétt að síðunni kjósa frekar þumalinn ofaná.

En það eru fleiri þættir sem hafa áhrif á val manna á gripi. Þegar við þenjum okkur og viljum ná lengri köstum er oft tilhneiging til að úlnliðurinn ‚brotni‘ í bakkastinu ef við notum þumalinn ofaná. Þá getur verið hentugra að skipta yfir í V-gripið, það brotnar síður í löngum kastferli og lengri stoppum á meðan við bíðum eftir að lína réttir úr sér.

Svo er það auðvitað stærð og þyngd stangar sem hefur áhrif á val manna, mér hefur virst að meira segja hörðustu þumlarnir leiti til hliðar á þungri stöng og verði að V-gripi. Létt stöng, stutt köst, kalla aftur á móti á þumalinn.

Ummæli

15.05.2012 Siggi Kr. – Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér ekki grein fyrir hversu gríðarlega mikilvægt gripið er í fluguköstum fyrr en ég las þessa grein: http://www.sexyloops.com/articles/gripsandholds.shtml og fór að fara eftir því sem í henni stendur varðandi hvaða grip henta hvaða græjum, sérstaklega varðandi stærð/þyngd stangar og hvernig handfangið er í laginu og hvernig mismunandi grip geta orsakað villur í köstunum hjá manni. Mæli með því að allir flugukastarar lesi þetta. Þar sem ég nota bæði stangir með full og half-Wells handfangi skipti ég gjarnan á milli gripa og svo ruglar maður þessu stundum öllu saman og allt fer í klessu :)

Átta

Upphaf áttunnar

Menn beita mörgum mismunandi aðferðum við inndrátt, fingrasetningin er alls ekki sú sama hjá öllum. Við hægan, stöðugan inndrátt hafa sumir náð þeirri leikni að þurfa aldrei að endurnýja gripið með vinstri hendinni og ná þannig að halda jöfnum, hægum inndrætti allt til upptöku. Helsta aðferðin við þetta er að velta línunni í vinstri hendi á milli þumals og vísifingurs ásamt því að snúa hendinni sitt á hvað. Á ensku hefur þessi aðferð verið kölluð The figure of eight sem ég leyfi mér hér að kalla áttuna.

Flestir sem komast upp á lagið með þessa aðferð fella u.þ.b. þriðja, fjórða hvern snúning úr lófanum þannig að þessi aðferð getur verið ákveðin ókostur ef línan liggur lengi í sandi, óhreinkast.

This slideshow requires JavaScript.

Þessi venjulegi inndráttur

Smellið fyrir stærri mynd

Venjulegur inndráttur, þ.e. hvernig við höldum við línuna, veljum okkur tak og drögum hana inn, byrjar yfirleitt á því að við klemmum línuna við stöngina, dæmigert með vísifingri. Síðan tökum við þétt um línuna með vinstri hendinni, þétt við stöngina, léttum á vísifingri stangar handar og drögum línuna inn. Þegar æskilegum inndrætti er náð, tryggjum við línuna aftur með vísifingri og færum hægri hendi aftur að stönginni.

Það er svo undir hverjum komið hvort hann fellir línuna, þ.e. lætur hana falla lausa í vatnið eða á bakkann eða hringar hana í annarri hvorri hendi eftir inndrátt. Sjálfur vel ég mér mismunandi aðferð til að stjórna inndreginni línu, oftast hringa ég hana í vinstri hendinni, sjaldnar í þeirri hægri. Þetta á sérstaklega við ef ég veiði frá bakka því fátt er meira pirrandi en kasta línu sem legið hefur í sandi og drullu og safnað þannig á sig óhreinindum sem draga verulega úr línuhraða í kasti.

Ef ég er nú svo lukkulegur að fiskur tekur hjá mér, þá er ég alveg vís með að sleppa allri línu sem ég hef hringað upp því ég vil hafa öll tök og haldir á að stjórna viðureigninni, geta gripið inn í með þeirri vinstri á meðan sú hægri reisir stöngina, stemmir hjólið og heldur spennunni á línunni.

Þungar flugur og línur

Oval Cast

Það getur kostað töluverða æfingu að ná tökum á þungri línu og/eða þungum flugum. Ég eins og margir aðrir hef gengið í gegnum tilraunir með flotlínu og sökktaum sem alltaf hafa viljað flækjast fyrir mér, endalausir vindhnútar og máttlausar framsetningar. Síðar eignaðist ég hægsökkvandi framþunga línu og eitthvað réttist þá úr málum.

Án þess að vita nákvæmlega hvernig og hvers vegna, tók ég síðar upp á því að breyta bakkastinu hjá mér þannig að ég notaði undirhönd frá upptöku eða framkasti í ávölum boga út til hliðar aftur í öftustu stöðu. Þegar ég náði svo tökum að að skeyta hefðbundnu framkasti við þessar tilraunir mínar fóru þungu flugurnar að komast út án þess að vera fastar í perlufesti vindhnúta.

Auðvitað var ég ekki að finna upp neitt nýtt eða byltingarkennt, ég var einfaldlega að læra the hard way að kasta með belgískri aðferð, Belgian Cast eða Oval Cast. Auðvitað hefði ég getað sparað mér allar þessar tilraunir með því að leita til kastkennara, en svona er maður nú einu sinni gerður, þarf alltaf að fara erfiðu leiðina að hlutunum.

Þessi kaststíll nýtist vel við þungar flugur eða þegar við erum með fleiri en eina flugu á taumi. Í bakkkastinu myndum við víðan boga sem hjálpar til að halda flugunum aðskildum þannig að þær flækjast síður. Þrátt fyrir að hamrað sé á þröngu kasthjóli til að ná markvissari köstum þá verðum við að taka til greina að með þungum flugum eða fleiri hefur nýr öflugur kraftur bæst við línuferilinn, þyngdaraflið. Efri línan, þ.e. sú sem flytur fluguna fellur hraðar en ella og því þrengist kasthjólið ósjálfrátt þegar á kastið líður. Kastið sem byrjar í víðum bug með stóru kasthjóli endar þannig í þröngu og mjög hröðu kasthjóli þegar kastið hefur náð fremstu eða öftustu stöðu.

Hnappurinn á stönginni

Þumal-hnappurinn

Sumt er svo sjálfsagt þegar maður hefur komið auga á það að ósjálfrátt færist roði í kinnarnar, aulahrollur niður bakið. Í einhverju letikastinu um daginn tók ég mig til og horfði á Dynamics of Fly Casting með Joan Wulff.

Í myndinni fer hún mjög ákveðið yfir öll undirstöðuatriði flugukasta, meðal annars þá bráð sniðugu hugmynd að ímynda sér hnapp á stönginni sem maður ýtir mjög ákveðið á með þumlinum í framkastinu, rétt aðeins til að skerpa á hröðuninni. Þeir voru ófáir pennarnir og reglustikurnar sem fengu að kenna á tilraunum næstu dagana og nú fær stöngin að kenna á æfingunum. Ég er ekki frá því að eitthvað hafi breyst í köstunum, til batnaðar.

Ummæli

13.04.2012 – Eiður Kristjánsson – Prófaði þetta í Vífó í morgun. Kom bara nokkuð vel út :)

Svar: Já, merkilegt hvað svona lítið atriði getur bætt við kastið. Ég þarf aðeins að vinna í kaststílnum þegar ég er með nýju Switch-línuna mína, það er eins og hún kalli á aðeins meiri ákveðni heldur en ég hef tamið mér hingað til. Annars er ég ekkert nema öfundin út í þig að komast í vatnið núna, ekkert útlit fyrir veiði hjá mér um helgina.

Bestu kveðjur,
Kristján

Eisi til bakaUss, það er hrikalegt. Spáin er frábær, mætti reyndar alveg vera heitara. Vífó var gullfallegt í morgun. Smá gára á vatninu og aðstæður hinar bestar. Það var fluga í loftinu en ég sá ekki einn einasta fisk. Ekki sporð.

Ég fór 1.apríl og nældi mér þá í tvær bleikjur og einn urriða. Er búinn að fara nokkrum sinnum síðan þá en ekki orðið var við neitt líf.

Svo er það Varmáin á morgun. Er frekar svartsýnn þar sem fréttirnar úr ánni eru ekki beint upplífgandi. En ánægjan við að standa á bakkanum með stöngina í hendinni, rýnandi í umhverfið, fluguboxin og lífríkið, er engri lík. Eins og þú veist vel :)

#5 Í beinni línu

Til þess að geta framkallað þröngt kasthjól verður stangartoppurinn að ferðast í beinni línu. Ferill sem fellur í miðjunni kallar fram vindhnúta. Við höfum farið í gegnum þetta í grundvallarreglu #3. En það er önnur bein lína sem ferillinn okkar ætti að fylgja, sá sem við gætum komið auga á ef við værum staðsett fyrir ofan stöngina og horfum niður á kastið. Náum við að halda ferlinum í bæði láréttu og lóðréttu plani, uppskerum við þröngt kasthjól, þröngan línuboga og við eigum mun meiri séns á móti vindi. En það er annar kostur við þröngan línuboga, það er mun auðveldara að stjórna framsetningu flugunnar undir þröngum línuboga heldur en víðum. Víður línubogi er líka ávísun á að við missum línuna niður í fram- eða bakkastinu og við förum að glíma við sama vandann og við lýstum í grundvallarreglu #2.

Og svona hljóðar síðasta af grundvallarreglum Gammel feðganna eftir að ég hef stytt og sagt með mínum orðum nokkrar af þeim greinum sem skrifaðar hafa verið um The Essentials of Fly Casting. Klippurnar sem ég hef látið fylgja þessum greinum eru úr myndinni Casts that Catch Fish frá On the Fly Production þar sem Carl McNeil fer á kostum í frábærum sýnidæmum.

#4 Krafturinn í kastinu

Sé tekið mið af eðlisfræðinni þá þurfum við kraft til að hlaða stöngina okkar afli til að skjóta línunni okkar út. Línan fer sára lítið sé ekkert aflið í stönginni. Í þessari grundvallarreglu #4 hafa þeir Gammel feðgar tekið saman nokkur atriði sem við ættum að hafa í huga þegar við leggjum aukin kraft í kastið.

Jöfn og áreynslulaus hröðun stangarinnar er það sem hleður hana. Toppur hennar ætti að vera á mestum hraða, hafa náð mestri hröðun þegar við stöðvum hana. Of mikill kraftur, of snemma beygir stöngina of mikið þannig að toppur hennar fer niður fyrir lárétt plan í miðju kastinu og við hættum að kasta og förum að hnýta vindhnúta í staðinn. Línan fylgir nefnilega alltaf sama ferli og stangartoppurinn. Lykilatriðið í réttri hröðun stangarinnar er að hún þarf að eiga sér stað jafnt og þétt og án áreynslu. RrrrrróóóóÓ-lega, sagði kastarinn og lagði áherslu á síðasta ó-ið´, stoppaði og lagði stöngina niður í ‚-lega‘.

#3 Breytilegur kastferill

Og enn tökum við fyrir eitt af grundvallaratriðum Bill Gammel. Þetta atriði fjallar um feril stangarinnar í gegnum kastið og þörfina á að við getum breytt honum og aðlagað þegar lengist í línunni.

Þegar við stefnum á tiltölulega stutt kast, t.d. 12‘ notum við stutta færslu stangarinnar frá fremstu yfir í öftustu stöðu. Lengri köst gera kröfu um lengri og hægari færslu stangarinnar. Að þessu sögðu erum við búin að ramma inn enn eina regluna sem gott er að hafa í huga; Stutt lína, stutt færsla. Löng lína, löng færsla. En það er fleira sem við verðum að hafa í huga þegar við glímum við mismunandi línulengd. Með stuttri línu og stuttri færslu hreyfist stangartoppurinn fram og aftur nánast alltaf í sömu hæð og kasthjólið okkar verður þar af leiðandi þröngt. Þegar línan lengist lengjum við í ferlinum og ef við viljum ekki lenda í vandræðum með of stórt kasthjól verðum við að gæta þess vandlega að ferill stangartoppsins verði ekki ávalur, þ.e. munurinn á neðstu og efstu stöðu hans verði ekki of mikill. Það sem hjálpar okkur við að halda ferlinum beinum er auðvitað aukin þyngd línunnar sem við erum að meðhöndla. Lengri lína, aukin þyngd, sem ásamt auknu afli sem við leggjum í kastið sveigir stöngina betur, hleður hana meira og við getum nýtt okkur þetta til að halda stangartoppinum í beinni línu í gegnum ferilinn.

Með einfaldri samlagninu á reglu #2 og #3 fáum við út; Stutt lína, stutt færsla, stutt bið. Löng lína, löng færsla, löng bið.

Ummæli

Siggi Kr : Ég á þessa mynd (Casts that catch fish) og get alveg sagt að þetta er að mínu mati með betri myndum sem útskýra köst og kasttækni. Mæli með því að ef þið hafið einhver tök á að nálgast hana að þið gerið það jafnvet þó þið séuð reyndir kastarar.

#2 Tímasetning

Annað grundvallaratriði þeirra Gammel feðga snýr að tímasetningu í kastferlinum okkar. Og eins og áður þá fylgir klippa með Carl McNeil með greininni þar sem hann rekur málið í smáatriðum.

Tímasetning er vandamál sem flestir veiðimenn glíma oft og iðulega við. Þegar við við skiptum á milli bak- og framkasts verðum við að hinkra örlítið við á meðan línan réttir úr sér áður en við leggjum af stað í framkastið. Ef við hinkrum of lengi myndast slaki á línunni og við sláum flugunni niður í vatnið eða jörðina að baki okkar. Ótímabær hröðun í framkastið verður aftur á móti til þess að enda línunnar er þröngvað í stefnubreytingu áður en hann hefur rétt úr sér og við heyrum þennan óþægilega svipusmell sem flest okkar könnumst við. Fræðilega séð er líka möguleiki að framkalla svipusmell í lok framkastsins, en staðreyndin er aftur á móti sú að það gerist sára sjaldan. Ástæðan er einföld; við fylgjumst betur með því í framkastinu að línan nái að rétta úr sér áður en við leggjum af stað í bakkastið; Ergo, tímasetningin okkar er betri í framkastinu. Ef við látum það nú eftir okkur að fylgjast eins vel með línunni í bakkastinu eins og við gerum í framkastinu, þá má bæta tímasetninguna þar til mikilla muna. Allt byggist þetta á ákveðinni þolinmæði, smá bið eftir því að línan nái að rétta úr sér. Þessi bið er í réttu hlutfalli við lengd þeirrar línu sem við erum að vinna með hverju sinni. Stutt lína, stutt bið. Löng lína, löng bið.

#1 Útilokaðu slaka

Fá verk hafi haft jafn mikil áhrif og vakið jafn mikla hrifningu kastsérfræðinga og veiðimanna síðustu árin eins og The Essentials of Fly Casting eftir þá feðga Jay og Bill Gammel. Margir hafa gripið þetta efni og lagt út frá því, jafnt í riti sem og á mynd og má þar nefna fjölda greina á midcurrent.com, sexyloops.com og síðast en ekki síst FFF Federation of Fly Fishers. Hér á eftir ætla ég að setja fram mínar hugleiðingar og skilning á þessum grundvallaratriðum Gammel feðga.

Alveg sama hvort við erum byrjendur eða lengra komin, jafnvel ævafornir veiðimenn, þá er slakinn á línunni oftar en ekki að flækjast fyrir okkur. Sé línan ekki strekkt í upphafi kasts fer mikill kraftur og fyrirhöfn í að ná hleðslu í stöngina, nokkuð sem má forðast með því að byrja með strekkta línu. Skipuleggðu kastið alveg frá upphafi, losaðu þig við allan slaka með því að draga línuna inn eða nota  t.d. eitt veltikast til að leggja hana vel út áður en þú tekur hana upp í nýtt kast. Ef þú notar upptökuna til að rétta úr línunni þá sóar þú afli sem annars væri betur varið í að hlaða stöngina fyrir næsta kast. Það er ekki ráð að beita meira afli í upptöku til að losna við slaka. Ótímabær hröðun á línu getur kallað fram nokkurs konar höggbylgju sem færist niður eftir stönginni, stöðvast í úlnliðnum á þér og leitar síðan aftur upp eftir stönginni í aftara stoppi og eyðileggur það. Okkur hefnist alltaf fyrir ótímabæra hröðun.

Haustvindar

Það er nú raunar ekki aðeins á haustin sem ‚haustvindarnir‘ blása, þannig að þessi punktur á víst líka við um aðrar árstíðir. En sama á hvaða árstíma vindurinn blæs, þá eigum við fluguveiðimennirnir nokkur ráð til að sigrast á honum:

  1. Auka hraða línunnar – Einfaldasta ráðið er að nota tví-tog (double haul) til að auka hraða línunnar því þannig náum við að skera vindinn betur. Ef þú ert í vandræðum með tví-togið þá er smá ábending hérna en svo er auðvitað alltaf hægt að hóa í vanan veiðimann eða kennara og biðja hann um að fara yfir grunninn með þér.
  2. Straumlínulagaðri flugur – Með því að nota straumlínulagaðri flugur þurfum við ekki að eiga eins mikið við loftmótstöðu og því er almennt auðveldara að koma þeim út heldur en bústnum, belgmiklum flugum.
  3. Þrengri línubogi – Þrengri línubogi gefur undir öllum kringumstæðum fyrirheit um betra/fallegra kast, sérstaklega þegar vð eigum við vind. Þrengri línubogi næst með æfingu, æfingu, æfingu og leiðsögn.
  4. Við yfirborðið –Því nær yfirborðinu sem þér tekst að kasta, því minni vindur er á ferðinni, bókstaflega. Færðu kasthornið aðeins fram á við til að ná ferlinum niður eða kastaðu undir hönd. Það er ekki öllum gefið að kasta undir hönd en það eins og annað kemur með æfingunni.
  5. Þyngri lína / taumur – Það gefur nokkuð augaleið að þyngri lína á auðveldara með að kljúfa loftmótstöðuna og því eðlilegt að menn noti þyngri línu á móti vindi. Annað ráð er að nota sömu þyng og ‚venjulega‘ en skipta yfir í hálfsökkvandi eða hraðsökkvandi línu, þær eiga auðveldara með að kljúfa vindinn heldur en hefðbundin flotlína. Fyrir þá sem ná tökum á sökkendum þá gera þeir sama gagn.
  6. Öfugt kast – Prófaðu að snúa þér undan vindi (upp að bakkanum), byggðu kastið upp eins og venjulega en láttu síðan bakkastið um að flytja línuna út á vatnið. Merkilegt nokk, þetta virkar hjá þeim sem komast upp á lagið með þetta.

Kastkennarinn

Ég hef áður nefnt ágæti þess fyrir byrjendur og lengra komna að leita til kastkennara, þó ekki væri nema til þess að fríska upp á stílinn eða leiðrétta villur sem slæðst hafa inn yfir sumarið. Haustið er tæplega sá tími sem maður hugar mest um þetta, og þó. Ég einsetti mér síðla vetrar sem leið og langt fram eftir vori að taka nokkra tíma hjá góðum kastkennara til að lagfæra ýmislegt sem ég veit að hefur ekki verið í lagi hjá mér, en nú er komið haust og ekkert varð úr þessu hjá mér. Eftir langt vor kom loksins sumar og ég kom mér aldrei til kennara. En hvað er góður kastkennari?

Sumir kastkennarar kenna þér að klemma Mogga undir handlegg, kasta naumt og hnitmiðað á meðan aðrir kenna þér að stíga fram og aftur, láta allan líkamann fylgja kastinu, kraftakast. Ég hef fengið ‚krasskúrs‘ hjá aðila sem gefur sig út fyrir að vera kastkennari, en mér dytti aldrei í hug að fara til hans á heilt námskeið. Ég harðneita því að kaststíllinn minn sé svo lélegur að það þurfi að sturta honum algjörlega niður og ég þurfi að taka upp kraftastíl sem gerir þá kröfu að ég sé dansandi skrykkdans við stöngina frá því ég tek upp og kem línunni aftur út, sem lengst. Frá fyrstu stundu hef ég hrifist af því hvernig ‚old fasion‘ enskir veiðimenn ná að leggja línuna fram í fáum, mjúkum og að því er virðist áreynslulausum köstum með nákvæmni upp á tommu, það er stíll sem mig langar að ná. Og þá komum við kannski að því hvað góður kastkennari er.

FFF (Federation of Fly Fishers) hefur unnið að því hörðum höndum að staðla kastkennslu og að því er mér virðist; skerpa á þeim skilningi að við erum öll mismunandi gerð og höfum mismunandi þarfir, jafnvel löngun til að læra mismunandi stíl. Ég játa að ég hrífst nokkuð af þessu og því hvernig þeir nálgast viðgangsefnið; ekkert eitt er rétt og ekkert er svo meitlað í stein að ekki megi breyta því. Ég vil fara til kastkennara sem getur leiðbeint mér í þá átt sem ég vil fara, ekki þá sem hann vill. Að þessu leiti er ég svo heppinn, eins og allir aðrir veiðimenn á Íslandi að við eigum núna tvo vottaða FFF flugukastkennara; Hilmar Jónsson og Börk Smára Kristinsson auk manna eins og Stefán Hjaltested sem hafa áratuga reynslu af kennslu og kunna að umbera mismunandi óskir nemenda sinna. Næsta vor ætla ég ekki bara að huga að þessu, heldur láta verða að því að fara til kennara.

Fluguna í ruslið

Að velja flugu, leggja hana fram og koma henni langt út eru allt gild atriði sem við viljum hafa í huga þegar við veiðum. Eitt atriði til viðbótar sem vill þó oft gleymast er; koma flugunni á réttan stað. Það geta verið margar ástæður fyrir því að við viljum koma flugunni okkar á einhvern ákveðinn stað. Kannski leynist fiskurinn við stein, kannski liggur hann þétt við gróðurfláka eða undir bakkanum þannig að við verðum að gæta vel að framsetningunni svo við eigum ekki á hættu að tapa flugunni, styggja fiskinn og þá missa af honum. Þá getur ruslakarfan komið að góðum notum. Prófaðu að fara út á grasflötina með ruslafötuna eða nýttu ferðina þegar þú ferð út með ruslið og gríptu stöngina með þér. Að stilla fötunni upp, merkja sér 4, 6, 8 & 10 metra fjarlægð frá henni, taka nokkur lauflétt köst þangað til að þú nærð því að láta fluguna detta niður í fötuna geta sparað þér mikið angur í veiðinni og gert hana enn meira spennandi en ella. Mundu bara að ofgera ekki æfingunum, oftar og stutt í einu er betra en lengi og sjaldan.