Það er varla til sú veiðisíða sem ekki smellir reglulega inn ráðum við hinu og þessu sem er að hrjá veiðimenn. Ég freistast alltaf af þessum frábæru ráðum, samsinni þeim og hugsa með mér að nýta mér þetta ráð, seinna. Nei, ég er ekki haldinn frestunaráráttu, þessi ráð koma stundum bara á svo einkennilegum árstíma að maður nær bara ekki að nýta þau strax og þegar til á að taka, þá eru þau gleymd.
Nú eru flestir búnir að teygja aðeins úr línunum sínum, sumir búnir að taka fisk, aðrir ekki. Sjálfur hef ég verið í rólegri kantinum, en ég vitja veiðislóða í nágrenninu reglulega og virði fyrir mér veiðimenn sem eru miklu duglegri en ég. Kvöld eitt í síðustu viku brá ég mér upp að Elliðavatni þar sem nokkrir reyndu sig og svolítið á stangirnar. Það kann að bera vott um sjálfbirgingshátt að bregðast við eins og ég gerði, en ég gat bara ekki orða bundist og notaði orð eins og skelfing er þetta lélegur kastari. Einhver kunningja minna kann að segja að nú hafi ég kastað steini úr glerhúsi, en þetta var ekki illa meint, mér einfaldlega ofbauð sá fjöldi falskasta sem hann notaði til að koma línunni út.

Stöng veiðimannsins var bersýnilega ekki að hlaðast, mögulega vegna þess að lengd línunnar var aðeins of mikil; byrja smátt, lengja lítið var sagt við mig um árið. Þegar það bar ekki árangur var mér skipað að læra tvítog, hraða línunni í fram- og afturkastinu, ná meiri hleðslu og lengja þannig meira í línunni í hverju kasti. Það er vandrataður veiðivegurinn.
Eins falleg og falsköst góðs kastara geta verið, þá eru yfirleitt 2/3 þeirra óþarfi og gera lítið annað en tefja fyrir því að flugan lendi á vatninu, þar sem henni er jú ætlað að veiða fisk. Réttar tímasetningar í tvítogi, snerpa þess og lengd togsins fækka falsköstum verulega. Ef falsköstinn eru of mörg, þá væri e.t.v. ráð að leita ráðlegginga hjá kastkennara áður en sumarið smellur inn fyrir alvöru, það er svo miklu skemmtilegra að veiða þegar köstin skila sér og eru ekki of mörg.
Senda ábendingu