Hver þekkir ekki þá umræðu að veiðimenn þurfi ekkert endilega á þessum ógnar löngu köstum að halda? Sjálfur hef ég verið duglegur að letja menn til að þenja köstin, fiskurinn er yfirleitt alltaf nær en maður heldur. Lykillinn að langlínusamtalinu sem ég átti við sjálfan mig í vetur var einmitt þetta yfirleitt. Það eru alveg þau tilfelli þar sem löngu köstin kæmu sér vel vegna þess að fiskurinn er kannski ekkert eins nærri og maður vill meina.
Þegar maður hugsar um þá gömlu góðu, gullnu reglu að ná að veiða í 180°, skanna svæðið með kerfisbundnum köstum, þá takmarkast svæðið sem veiðimaðurinn nær að dekka við lengdina á köstunum, augljóslega.

Ef viðkomandi veiðimaður nær lengri köstum, þá er svæðið að sama skapi stærra og það þarf fleiri köst til að ná sama þéttleika í dekkun eins og með styttri köstum.

Þetta ætti að þýða að það séu töluvert meiri möguleiki á að hitta á fiskinn ef maður notar lengri og fleiri köst, að því gefnu að fiskurinn sé viðlátinn á annað borð.
En í hvaða tilfellum er fiskurinn ekki jafn nærri landi eins og í venjulegu kastfæri? Skiptum aðeins um sjónarhorn á skýringarmyndinni, setjum inn dýptarlínur og álitlegan fisk.

Veiðimaðurinn stendur þarna undir bakkanum, rétt fyrir framan hann dýpkar snarlega um 25 sm þannig að lengra kemst hann ekki. Fiskurinn hefur komið sér fyrir við kantinn og er þar í æti. Gefum okkur að veiðimaðurinn nái að öllu jöfnu að kasta á A, sem er vel að merkja utan sjónsviðs fisksins og á 50 sm grynnra vatni. Í svona tilfelli væri heppilegt að geta sett fluguna niður á B, leyfa henni að sökkva og draga að fiskinum.
Auðvitað er þessari skýringarmynd ofaukið því flestir gera sér grein fyrir svona kringumstæðum, þeim er einfaldlega lýst sem svo að fiskurinn sé utan kastfæris. Ástæðan fyrir þessari mynd er af persónulegum toga runninn. Ég man enn eftir þeim stóru, takið eftir þeir voru í fleirtölu, sem voru að voma þarna 50 sm utar en ég gat kastað og þó ég hefði náð þessum 50 sm, þá hefði ég þurft að ná öðrum 50 sm til að koma flugunni niður á þeirra dýpi. Þarna skildi einn metri á milli þess að ég náði þessum eina sem elti hornsílið sem synti í átt að flugunni minni og hinna sem héldu sig þarna úti. Þarna hefði ég vel geta þegið aukna færni í löngum köstum, en það þarf nú kannski ekki mikla æfingu til að ná einum metra lengra.
Senda ábendingu