Bilanagreining

Eitt sinn ljómaði mælaborðið á bílnum mínum skærrauðu aðvörunarljósi framan í mig þegar ég startaði bílnum. Hann fór í gang og ég komst á honum á verkstæðið, hann sem sagt komst áfram og gerði eiginlega sitt gagn en gangurinn var ekki sérstaklega þíður, eiginlega hundleiðinlegur og ekkert skemmtilegt að keyra bílinn. Um leið og tölvan las af bílnum kom í ljós hvað angraði hann, einni stillingu breytt og hann komst í samt lag. Stundum vildi ég óska þess að það væri hægt að bilanagreina fluguköstin mín svona auðveldlega.

Ágæt stutt lína, afleit lengri lína
Ágæt stutt lína, afleit lengri lína

Líkt og flestir fluguveiðimenn byrjaði ég á einföldu framkasti, bætti svo togi við til að lengja köstin örlítið og svo tvítogi til að ná enn lengra. Það var ekki fyrr en eftir að hafa legið yfir nokkrum tímaritsgreinum að ég gerði mér fyllilega ljóst að lykillinn í öllu þessu var að ná þrengri línuboga. Með því að fylgjast með línuboganum sem myndaðist við tvítogið sé ég að því þrengri línuboga sem ég náði, því meira togaði línan í vinstri hendina sem ég notaði til að halda við. Jamm, þetta virkaði greinilega ágætlega. Svo hætti ég að fylgjast með línuboganum og einbeitti mér að því að lengja í línunni. Þá gerðist bara ekkert og ég stóð eftir og vissi ekki mitt rjúkandi ráð

Það var síðan eftir ábendingu góðs vinar míns og kastkennara að ég komst að því hvað var að. Hraðinn og lengdin á tvítoginu mínu virkaði mjög vel í hæga, stutta kastinu sem ég notaði á meðan ég æfði mig. Þegar til átti að taka og meiri lína lá undir eða öllu heldur úti, þá vantaði töluvert upp á hraðann í tvítoginu og togið var allt of langt hjá mér. Um leið og ég herti á toginu og hafði það aldrei lengra en sem nemum 12“ (þvermál pizzukassa) þá fóru tvítogin mín að virka fyrir lengri línu, línuboginn þrengdist aftur, lína fór að ferðast hraðar og allt féll í ljúfa löð.

Gott falskast og svo …

Oft á ég við ákveðið frávik í fluguköstum að glíma. Ég tek upp línuna, vinn hana þokkalega upp í fyrsta bakkast, finn aftara stoppið, hröðunina fram að fremra stoppi og endurtek leikinn. Allt leikur í lyndi þar til kemur að því ég ætla að leggja fluguna fram. Þá grípur stundum um sig einhver einhver tryllingur, ég set allt of mikið afl í framkastið, þen stöngina úr hófi og gleymi algjörlega hvar fremra stoppið var í annars ágætum falsköstunum.

Jöfn hröðun, gott falskast
Jöfn hröðun, efni í gott kast

Þetta er djöfull að draga og verður undantekningar lítið til þess að ég næ ekki að leggja alla þá línu fram sem ég þó réð við í falsköstunum, að við tölum ekki um nákvæmninna sem rýkur út í veður og vind. Auðvitað veit ég betur, ég á ekkert að auka aflið í síðasta kastinu, ég á nota sömu jöfnu hröðunina og sama fremra stopp og ég gerði áður og leyfa línunni að fljóta eðlilega fram í síðasta kasti.

Samkvæmisdans

Hér um árið fór ég í nokkra tíma í samkvæmisdönsum. Nú veit ég ekki hversu vel veiðimenn, konur og karlar, eru að sér í samkvæmisdönsum, en stundum hef ég séð fluguveiðimenn sem halda mjög góðum takti, bara ekki endilega þeim heppilegasta fyrir fluguveiði. Það er t.d. beinlínis stressandi að sjá veiðimann kasta flugu í sama takti og notaður er í Quick Step. Þokkafullur salsa á heldur ekkert endilega mikið erindi í fluguveiði.

fos_kast_vals
Góður taktur

Ef einhver samkvæmisdans á erindi í fluguveiði, þá er það væntanlega walz, helst Vínarvals. Hægar, þokkafullar hreyfingar í jöfnum og stöðugum takti, átakslausar hreyfingar sem skila flugunni úr aftara stoppi (1), yfir í jafna hröðun (2), fram í fremra stopp (3), endurtakist eftir þörfum. Ef þú ert að missa þig í Quick Step, hugsaðu þá 1, 2, 3 í jöfnum og fallegum walzi við flugustöngina. Þá heldur þú ákveðnum tímasetningum, ferð þér ekkert of geyst og köstin verða fallegri og þar með lengri.

Vinaband

Stundum kemur upp smá ósætti á milli mín og flugustanganna minna. Við virðumst bara ekki eiga endilega mikla samleið. Það sem stangirnar eru ekki þenkjandi lífverur, þá er víst helst við mig sjálfan að sakast. Dagsformið er misjafnt og ég næ stundum bara hreint ekki að viðhalda góðu sambandi á milli mín og stanganna.
Það sem ég er að vísa hér til er að úlnliðurinn hjá mér verður oftar en ekki of laus, ég næ ekki að læsa honum nægjanlega þannig að bakköstin hjá mér falla niður, aftara stoppið er alls ekki nógu gott og þar með köstin mín öll úr lagi.

fos_kast_vinaband
Vinabandið mitt

Um daginn rakst ég á skemmtileg not fyrir aðgangsbönd sem maður fær stundum þegar maður fer á ráðstefnur og tónleika. Það leyndust í það minnsta nokkur svona í skúffu hér á heimilinu og nú er bara að prófa að taka eitt svona með sér á kastæfingu og sjá hvernig mér tekst að hemja úlnliðinn í bakkastinu. Ef vel gengur, þá hafði ég hugsað mér að kalla þetta vinaband, það sem styrkir samband mitt við flugustangirnar.

Yfir gagnstæða öxl

Þegar vindurinn stendur á kasthöndina er hætt við að flugan fari að ferðast óþægilega nærri höfði manns. Þá getur maður snúið sér við, fært stöngina í skjól og látið bakkastið um að færa hana út á vatnið. Þegar ég sá slíkar aðfarir fyrst, fannst mér þetta ljótt kast og vildi lengi vel ekkert með það hafa, en þetta er eins og hvert annað flugukast, það þarf aðeins að leggja smá vinnu og æfingu í það og þá getur orðið nokkuð ágætt kast úr þessu.

fos_kast_vindur_right1
Vindur frá hægri

Önnur lausn á þessu vandamáli er að halla stönginni á gagnstæða öxl, færa þannig feril línunnar og þar með flugunnar hlé megin við líkamann. Auðvitað er ekkert sérstakt logn hlé megin við veiðimanninn, en flugan er þá í það minnsta ekkert að flækjast í höfðinu á manni á meðan hún færist fram og til baka í falsköstunum. Til að byrja með gerði ég þau mistök í þessu kasti að reisa kasthöndina ekki nægjanlega hátt og því mislukkuðust fleiri köst hjá mér heldur en tókust. Fljótlega komst ég þó upp á lagi með þetta og beitt þessu kasti nú reglulega í okkar alþekkta Íslenska logni.

Á ská og skjön

Að vera á ská og skjön við vindinn, fá hann beint á kasthöndina og gera ekkert í málinu kemur manni bara í koll, bókstaflega. Það er að vísu lítið sem veiðimenn geta gert þegar vindátt breytist í miðju kasti og feykir línunni í fangið á þeim eða andlit, en þegar vindurinn er nokkuð stöðugur á kasthöndina, þá getur veiðimaðurinn hallað toppi stangarinnar yfir á hina öxlina eða þá snúið baki í kastáttina og látið bakkastið um að bera fluguna út á vatnið.

Þegar framangreind veðurskilyrði koma fyrir og veiðimaðurinn vill kom flugunni á nokkuð afmarkað svæði, þá getur málið vandast. Gefum okkur að veiðimaðurinn sé meðalmaður á hæð og noti 9 feta stöng. Í hefðbundnu framkasti þar sem stangartoppurinn stöðvast kl.11 (á kastklukkunni) þá má gera ráð fyrir að flugan hætti í framskriði í 3 metra hæð yfir vatninu, þá fær vindurinn öll spil upp í hendurnar og getur fært fluguna til hliðar í fallinu eins og honum sýnist. Það segir sig sjálft að í þokkalegum hliðarvindi er næstum öruggt að flugan lendir ekki þar sem veiðimaðurinn ætlaðist til.

Snúa baki í vindinn, kasta með yfirborðinu

Eina ráðið við þessu er að lækka línubogann í loftinu, annað hvort með því að stoppa neðar í framkastinu eða breyta alveg til og snúa stönginni um 90° í hendinni (snúa hlið fluguhjólsins upp) og kasta beinlínis á hlið þannig að línan ferðist fram og til baka sem næst yfirborði vatnsins. Kosturinn við þessa aðferð er að línan getur skotist út á vatnið hvort heldur til vinstri eða hægri, þ.e. línuna má leggja fram hvort heldur í bak- eða framkastinu því bæði köstin ættu að vera jafngild með þessari aðgerð.

Fram og til baka

Þar kom að því, loksins grein á þessari síðu sem er ekki aðeins ætluð þeim sem hafa brennandi áhuga á fluguveiði. Það hljóta að vera ákveðin tímamót fyrir hvern einasta fluguveiðimann þegar hann fær spurninguna; Hvers vegna eruð þið að þessu, fram og til baka áður en þið kastið út?  Ég varð virkilega upp með mér þegar ég fékk þessa spurningu, loksins einhver sem kom auga á grundvallaratriðið innan um allt þetta nördalega sem maður hefur látið frá sér.

fos_vm_hlidarvatn
Við Hlíðarvatn í Selvogi

Fram og til baka er náttúrulega bara einu sinni, en svo er þetta endurtekið, aftur og aftur og aftur. Eiginlega oftar en nokkur maður nennir að telja. Hvert er eiginlega markmiðið með þessu? Jú, í stuttu máli þá snýst þetta um:

  • Stundum gera menn þetta til að lengja í köstunum. Sjáðu til, flugan hefur enga þyngt og því þurfum við að sveifla línunni fram og til baka, lengja svolítið í henni í hverju kasti, alveg þangað til við teljum okkur ekki ráða lengur við línuna og leggjum hana niður. Neðanmál fyrir flugunörda: Lærðu tvítogið almennilega þannig að þú þurfir ekki að falskasta svona oft.
  • Stundum langar okkur að setja fluguna niður á ákveðinn stað og þá þurfum við að sveifla línunni fram og til baka. Við erum eiginlega að máta hvar flugan lendir, færum hana aðeins til eða lengjum örlítið í til að ná á ákveðinn stað. Neðanmál fyrir flugunörda: Æfðu nákvæmnina umfram lengdarköst þannig að þú þurfir ekki að falskasta svona oft.
  • Stundum erum við að þurrka fluguna áður en við leggjum hana út á vatnið, það er nú svo einfalt. Neðanmál fyrir flugunördana: Ekkert við þessu að gera, nema þá bera eitthvert undraefni á þurrfluguna sem hryndir frá sér vatninu þannig að við þurfum ekki að falskasta svona oft.

Þegar ég var búinn að skýra þetta út, kom spurning nr.2, En af hverju? Góð spurning sem aðeins er eitt gott svar við; Þetta er svo rosalega skemmtilegt.

Listaverk

Listar eru í uppáhaldi hjá mér. Helst vildi ég hafa lista yfir allt sem ég hef gert og á eftir að gera. Þegar daglegum yfirlestri greina af veiðilistanum mínum er lokið, innlenda fréttalistanum stungið undir stól og pólitíska listanum hent í ruslafötuna, þá kemur alveg fyrir að ég gúgla einhverja samsetningu úr top tips, fishing, todo list og þá er nú nokkrum klukkustundum reddað.

fos_bleikjutaka
Þegar vel gengur

Margir af þessum dásamlegum listum sem maður hrasar um á internetinu eru óttalega mikil vitleysa, en það kemur iðulega fyrir að maður rekst á eitthvað sem síast inn og eitt og eitt atriði hangir eftir í langtímaminninu. Ég tók það til dæmis sem mjög ákveðna vísbendingu um daginn þegar ég hrasaði í hundraðasta skiptið um lista yfir algengustu villur í flugukasti. Aha, eru æðri máttarvöld eitthvað að senda mér skilaboð? Meðal þess sem var á nokkrum þessara lista voru atriði eins og:

  • Skortur á samfellu í bakkastinu. Algeng villa hjá veiðimönnum að byrja bakkastið eðlilega, hinkra samt aðeins við á einhverjum tímapunkti og halda svo áfram í eðlilegu bakkasti. Það tók mig smá tíma að melta þetta og skilja. Jú, þetta kemur stundum fyrir þegar stöngin hjá mér er alveg að nálgast 12 á kastklukkunni, þá hægist á kastinu en svo gef ég aftur í 12:15 og alveg til kl.13.
  • Tilfinnanlegur skortur á aftara stoppi. Óþarfi að ræða þetta eitthvað frekar.
  • Úlnliðurinn opnast út í bakkastinu. Já, einmitt, úlnliðurinn. Hann er veikur hjá mér en ég hafði kannski ekki gefið því gaum að hann brotnar ekki aðeins aftur á bak, heldur sveigist hann líka út á við í bakkastinu, toppur stangarinnar fylgir þá ekki lengur beinum ferli, hann verður ávalur.
  • Framhandleggurinn ofvirkur í kasti. Já, þótt þessi partur á milli handar og upphandleggs heiti fram-eitthvað, þá á hann ekkert að vera með í framkastinu. Það er upphandleggurinn sem á að sjá um kastið. Sérlega slæmt þegar framhandleggurinn vísar orðið beint fram í enda kastsins og úlnliðurinn kominn í keng til að halda stangartoppinum upp úr vatninu.
  • Engin pása á milli fram- og bakkasts. Ætli ég verði ekki að taka þetta örlítið til mín, hef stundum heyrt í kúski á bak við mig með svipu.

Ef þú hefur fundið eitt eða fleiri atriði á þessum lista sem átt gætu við þig þá er það gott, annars verður þetta þá bara minn listi sem ég ræðst á núna í vor og lagfæri.

Naflaskoðun

Hver og einn fluguveiðimaður ætti að setja sér eigin viðmið um hve langt hann vill ganga í að fínpússa kaststílinn sinn, þetta er í það minnsta mín skoðun. Ég hef margoft bent á að það sé hverjum manni holt að leita sér aðstoðar og álits kastkennara ef köstin eru í tómu tjóni eða ef óeðlilegrar þreytu verður vart við veiðar. Ef einhver verður þreyttur á því að veiða, þá er eitthvað að sem þarf að laga.

Mannfólkið er misjafnlega gert og sumir veigra sér við að fá beint álit annarra á kastinu. Ég bý reyndar svo vel að veiðifélagi minn setur reglulega ofaní við mig ef köstin hjá mér fara út yfir öll velsæmismörk ásamt því að ég er í félagsskap þar sem allt, og þá meina ég allt, er látið fjúka sem menn koma auga á hjá félögunum. Þar sem ég er viðkvæm sál og vildi undirbúa mig fyrir kastæfingar í vor með félögunum, tók ég mig til, stillti myndavélinni minni á þrífót og tók nokkur skot af sjálfum mér að framan og á hlið að kasta. Nú veit ég hvar skóinn kreppir, hvað þarf að laga og get svarað félögunum fullum hálsi þegar þeir skjóta á mig.

Brotinn úlnliður
Brotinn úlnliður

Kveikjan að þessari hugmynd minni voru nokkrar klippur sem ég tók s.l. sumar með myndvélina klemmda á bringuna. Mér til hryllings brá kasthendinni reglulega fyrir þar sem úlnliðurinn brotnaði í bakkastinu og handleggurinn dinglaði út og suður í framkastinu. Ekki furða að maður varð þreyttur eftir nokkra klukkutíma í veiði og línuferillinn var ekki beinn.

Flugu á hvers manns disk

Þeim fer fækkandi hárunum á höfði mér, en þau eru enn það mörg að ekki er hægt að telja öll þau ör sem ég varð mér úti um sem snáði. Flest þeirra fékk ég áður en ég náði fullu valdi á hamri sem mér áskotnaðist. Með æfingunni urðu síðan hamarshöggin nákvæmari, naglarnir urðu fyrir flestum höggunum og hausinn fékk frið.

Svipað var þessu farið með fluguköstin mín, það var ekki fyrr en með nokkurri æfingu að hausinn á mér fékk frið fyrir flugunum, en enn má bæta nákvæmnina. Mín upplifun af kastæfingum er raunar því marki brennd að yfirleitt taka menn til við að þenja flugustöngina til að ná ekki síðri lengdarköstum heldur en næsti maður. Þar er ég sjálfur enginn undantekning sem er miður því ég ætti frekar að einbeita mér að nákvæmi í fluguköstum heldur en lengd þeirra. Í vor ætla ég að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar ég fer og hitti veiðifélagana og tek nokkur köst.

fos_pract_one
Uppstilling fyrir æfingu

Ég ætla að taka með mér 3-4 frisbee diska á kastæfingu og stilla þeim upp á víxl í ákveðnum fjarlægðum. Ágætt að byrja á 7, 10, 12 og 15 metrum. Æfa mig síðan í að hitta diskana með flugunni, einn af öðrum með hefðbundu yfirhandarkasti. Byrja á þeim sem er næstur mér og fikra mig smátt og smátt áfram þar til ég næ þeim sem er fjærst.

Þessa æfingu má þyngja og útfæra eins og hvern listir. T.d. setja sér þá reglu að eftir að hafa hitt ákveðinn disk, breyta þá til og takmarka kastið við upptöku + eitt falskast + hitta eða skipta um kast eftir að hafa náð öllum diskunum, nota undirhandarkast eða snúa baki í diskana og hitta þá í bakkastinu.

Kraftakarlar í roki

Það kemur almennri skynsemi lítið við, meira í átt við ósjálfráða hegðun, að ef eitthvað stendur fast, þá beitir maður meira afli til að losa það. Fastur skrúfbolti kallar á meira á átak eða WD40 og ómælda biðlund. Eftir sem áður verður maður að gæta þess að snúa ekki boltann í sundur, beita ekki of miklu afli.

Það sama á við þegar maður kastar flugulínu upp í vindinn. Ef maður eykur aflið of mikið, leggur of mikið í kastið, þá er eins víst að stöngin spennist of hratt og niðurstaðan verði endalausir hnútar, vindhnútar. Það eina sem er í stöðunni er að minnka aflið, einbeita sér að sléttu og felldu kasti, lausu við alla kraftastæla og leggja þeim mun meiri einbeitingu á tvítogið, auka hraða línunnar umfram aflið í kastinu. Aukin línuhraða og þrengri línuboga umfram aflið.

Ekkert rok, aðeins blíða
Ekkert rok, aðeins blíða

Þetta var örugglega það sem við veiðifélagarnir gleymdum ítrekað s.l. sumar þegar vindurinn tók af okkur öll völd og neyddi okkur til að veiða í þveröfuga átt miðað við það sem við hefðum kosið. Í það minnsta voru strengirnir í handleggjum og öxlum að drepa okkur bæði dagana á eftir.

Morgunkossar

Ég er svolítill veikur fyrir rómantískum gamanmyndum, tek þær gjarnan framyfir hasarmyndir eftir langa vinnuviku og nýt þess að glápa og glotta yfir þeim á meðan ég tæmi hugann. Eitt er það samt sem ég skil ekki í þessum myndum og það er þegar ástfangna parið vaknar að morgni með hárið óaðfinnanlegt, hún með varalitinn ennþá á sínum stað og ekki vottur af krumpu á gæjanum, og svo kyssast þau. Hvað er eiginlega að mér, ég vakna yfirleitt sem ein allsherjar andfúl krumpa þannig að mér dettur ekki til hugar að leggja það á konuna að kyssa hana svona í morgunsárið. Svo veit ég líka að hún mundi frekar kjósa svona kossa eins og sjá má í morgunstillunum á vötnunum þegar silungurinn er að pikka eina og eina flugu af yfirborðinu. En hvað er þetta eiginlega sem fiskurinn er að éta?

fos_frostastadavatn_vokur2

Þessar örfínu uppitökur að morgni eru yfirleitt kallaðar kiss upp á enska tungu eða nebbing sem er eiginlega réttara, því það er rétt aðeins snjáldrið á fiskinum sem kemur upp að yfirborðinu. Ég hef reynt við svona morgunkossa með þurrflugum í ætt við þær flugur sem ég sá í lofti. Það voru væntanlega fyrstu og stærstu mistökin sem ég gat gert. Ég horfði á toppflugu, rykmý eða aðrar ágengar flugur og valdi mér þurrflugu í samræmi; Black Gnat, Adams eða Blue Quill. Allt vel hærðar, vængjaðar þurrflugur sem sátu fallega á vatninu og nutu akkúrat engrar athygli silungsins. Það var svo ekki alls fyrir löngu að ég rakst á skýringuna í erlendu tímariti. Í mörgum tilfellum er fiskurinn bara alls ekkert á höttunum eftir fullvaxta flugu, hann er að pikka upp óþroska einstaklinga sem hafa orðið eftir í yfirborðinu þegar klakið var um garð gengið. Mér hefði verið nær að velja flugu eins og Bibio Hopper með topp, einhverja sem hangir hálf niður úr vatnsfilmunni og leikur sig alveg steindauða eða örmagna. Svona hef ég nú alveg misskilið þessa morgunkossa í gegnum tíðina.

Þetta situr allt í hausnum

Stundum velti ég því fyrir mér hvenær komi að því að ég nái fullorðinsaldri þegar kemur að flugukasti. Smátt og smátt og með nokkrum flugum (sem aldrei koma fyrir nokkurs manns sjónir) tókst mér að komast upp á lagið með hnýtingar. Ég er ekki neinn afburða hnýtari, en ég reyni og mér tekst yfirleitt að fylla á boxin fyrir sumarið. Ég var reyndar spurður að því um daginn hvort ég ætti ekki orðið einhverjar þúsundir flugna, ég væri alltaf að hnýta eitthvað. Stutta svarið er; kannski. Ég veit ekki hvað ég á margar flugur, sumum týni ég og sumar lifa einfaldlega ekki sumarið, trúlega vegna þess að þær eru ekki nægjanlega vel hnýttar.

Ég hef líka með tíð og tíma náð að þroska með mér áhuga á lífríkinu, hvenær hvaða pöddur eru á ferli, hvernig þær haga sér og líta út, þannig að ég er þokkalega nálægt því að velja rétta flugu miðað við aðstæður. Ég hef aftur má móti aldrei náð alveg að setja mig í spor fisksins sem tekur grimmt einn daginn, ákveðnar flugur á ákveðnu dýpi með ákveðnum inndrætti, en svo næsta dag vill hann eitthvað allt annað með allt öðrum hætti. Kannski verður mér það aldrei gefið að setja mig í spor fisksins, ég verð þá bara að spila þann part eftir eyranu hverju sinni.

Flugustangir
Flugustangir

En aftur að flugukastinu. Kastið er framkvæmt með tæki sem heitir flugustöng; prik sem sveigist og bognar, hleðst og afhleðst og eftir henni rennur lína sem ber fluguna mína fyrir fiskinn. Sumar stangir eru mjúkar, hlaðast frá toppi og niður að handfangi. Aðrar eru millistífar og hlaðast niður að miðju og svo eru kústsköft sem bogna rétt aðeins í toppinn og flengja línunni út, langt út. Til að ná einhverju samspili í þetta þarf maður að hreyfa kasthendina með ákveðnum hætti sem ekki ofbíður stönginni og línunni, passa upp á að línan hreyfist eftir ákveðnum ferli, fram og til baka eða út og til hliðar. Þarna finnst mér ég alltaf vera hálfgerður unglingur, ekki náð fullum þroska. Þegar ég vanda mig, þá á ég það til að ofhugsa kastið. Þegar ég gleymi mér þá hugsa ég ekki neitt og kasta bara eins og mér sýnist. Og vitiði hvað? Ég er bara nokkuð sáttur við þá leið.

Að finna sjálfan sig í fluguveiðinni er hið besta mál, eða eins og Mike Heritage sagði; Ef allar þessar reglur í flugukasti væru nauðsynlegar, þá væru aðeins 10-20 manns sem stunduðu fluguveiði í heiminum. Þetta er allt í hausnum á þér og meðan hann er rétt fyrir ofan búkinn og þú notar hann ómeðvitað, þá ertu í góðum málum. Hann klikkir síðan út með að hvetja veiðimenn til að slaka á, njóta þess að veiða og rembast ekkert of mikið við flugukast skv. einhverjum reglum, þetta er allt þarna inni og það síast fram þegar þess er þörf. Ég er mjög sáttur við Mike, sem er vel að merkja FFF flugukastkennari frá Bretlandi. Reyndar nefnir Mike líka þann kost að sækja sér af og til smá leiðbeiningar frá kastkennara þannig að hægt sé að viðhalda heilbrigðri heilastarfsemi. Ég viðurkenni að hann hefur töluvert til síns máls.

Slakar línur

Sumar flugulínur virðast eiga erfitt með að segja skilið við fortíðina. Þetta á við nýjar línur og gamlar sem hefur verið spólað út af veiðihjólunum yfir á geymsluspólur. Þessar fortíðarlínur eiga það sameiginlegt að vilja endilega liggja á fluguhjólinu nákvæmlega eins og þær lágu á geymsluspólunum. Þetta orsakar auðvitað tómar flækjur og vesen og ekki skánar það þegar þær lenda síðan úti í vatni. Þær hrökkva til baka, rúlla sig upp eins broddgöltur og mynda einhvers konar skrúfu í vatninu.

Sultu slakar línur
Sultu-slakar línur

En það er til nokkuð einfalt ráð við þessu. Prófaðu að vinda ofan af geymsluhjólinu niður í eldhúsvask sem hefur verið fylltur af ilvolgu vatni, um það bil 37°C og leyfðu línunni að liggja þar í nokkra stund áður en þú spólar henni inn á veiðihjólið. Í svona notalegu baði gleyma flugulínur yfirleitt alveg hvernig þær lágu á geymsluspólunni og spólast beinar og stilltar inn á veiðihjólið að baði loknu. Ekki sakar að nýta tilefnið og spólast línunni inn í gegnum gleraugnaklút sem haldið er þéttings fast utan um hana. Þá er hún hrein og fín, tilbúinn í slaginn.

Að rífa hann upp

Það hefur lengi verið talað um að rífa upp fisk þegar mikið er um að vera, handagangur í öskjunni. Að sama skapi hefur mönnum stundum tekist að særa upp fisk þegar lítið hefur verið að gerast og aðeins einn og einn fiskur hleypur á snærið. Það var kannski einhver spéhræðsla í mér en þegar ég hóf mína fluguveiði, þá dró ég mig gjarnan nokkuð afsíðis og reyndi að framkalla þessi fallegu markvissu köst sem ég hafði séð í myndböndum á internetinu. Þannig varð það að ég blandaði ekki miklu geði við aðra fluguveiðimenn til að byrja með, var svolítið að pukrast einn með þetta.

Ég gleymi seint þeirri undran minni þegar ég síðar varð fyrst vitni að því þegar veiðimenn í grennd við mig beinlínis rifu línu og taum upp úr vatninu, löngu áður en hilla fór undir fluguna. Bíddu nú salla rólegur, hvað er þetta? Ég hafði vanið sjálfan mig á að draga fluguna inn, næstum að topplykkju og lyfta stönginni rólega upp, raska yfirborði vatnsins sem minnst. Reyndar hafði ég ofar en ekki einmitt fengið fisk þegar ég lyfti stönginni eftir síðasta inndrátt, en það er önnur saga. Ekki varð undrun mín minni þegar ég sá þessa veiðimenn leggja fluguna strax út í næsta kasti, rífa línu og taum umsvifalaust upp úr vatninu, beint í bakkastið og leggja fluguna enn og aftur út. Jæja, hef ég bara alltaf verið að gera þetta vitlaust?

Þeir koma líka á í rólegheitum
Þeir koma líka á í rólegheitum

Ákveðnar kastaðferðir beinlínis þurfa á mjög mikilli hleðslu stangarinnar að halda, helst sem fyrst og þá hafa menn þann hátt á að flýta fyrir með því að reisa stöngina löngu áður en farið er að hilla undir taum eða flugu, nýta vatnið sem mótstöðu og ná þannig meiri hleðslu á skemmri tíma. Flest þessara kasta eiga uppruna sinn að rekja til breiðra og mikilla áa þar sem straumur flytur fluguna langt úr færi við fiskinn og því lítil hætta á að fæla hann með aðförum sem þessum.

Ég hef nokkrum sinnum orðið vitni að því að menn noti þessa tækni til að ‚ná lengra‘ í vatnaveiði, en mér er til efs að þeir nái fleiri fiskum með þessum hætti heldur en þeir veiðimenn sem reyna að raska yfirborði vatnsins sem minnst, dragi línu og taum þannig upp að flugan haldi áfram að veiða alveg inn að efstu lykkju. Ég ætla í það minnsta að halda áfram að trúa því að fiskur leiti inn að bakka vatnanna sé hann á annað borð í ætisleit, elti fæðuna alveg upp í grjót ef því er að skipta. Og svo held ég að honum sé ekkert vel við einhvern buslugang, tauma og flugur sem taka upp á því að æða áfram og upp úr vatninu og koma síðan aftur augnabliki síðar og skella með látum á yfirborðinu.

Færri falsköst

Eitt er víst, ég hef lesið þessa fyrirsögn mun oftar heldur en ég man eftir þessu þegar ég er að veiða. Það þýðir bara eitt; ég nota of mörg falsköst. Í þau fáu skipti sem ég man eftir þessu, þá slaka ég á og kasta markvissar, kannski örlítið styttra en áður en samt ekki, því með markvissari og yfirvegaðri köstum er miklu minna mál að einbeita sér að tví-togi, bæði í fram- og bakkasti.

Þótt þeir séu til sem kannast ekki við þreytu í veiðinni, þá er það nú svo að eftir langan dag og mörg falsköst fer þreytan aðeins að setja mark sitt á framsetningu flugunnar. Þetta skiptir ekki litlu máli þegar klukkan er ekki á veiðimönnum og þeir geta notið útiverunnar og veiðinnar eins lengi og hugur og hönd girnast. Ég er einn þeirra sem hef ótakmarkaða ánægju af því að veiða og veiði gjarnan langa daga. Ef ég hef ekki einhvern hemil á falsköstunum geta síðkvöldin orðið heldur fálmkennd í framsetningu og oftar en ekki óvíst hvar flugan lendir þegar mér tekst loksins að slæma henni út.

Fallegt kast á fallegum degi
Fallegt kast á fallegum degi

Á sama tíma og mér tekst miður til við framsetningu flugunnar vill það einnig gerast að títtnefndir vindhnútar geri vart við sig, meira að segja í blanka logni í ljósaskiptunum eða öllu heldur einmitt þá. Þegar dagur er að kveldi komin og kasthöndin búin að vera á fullu í falsköstum allan daginn, þá tapast ákveðin einbeiting sem verður jú alltaf að vera til staðar. Mistökum fjölgar, línan slæst niður í bakkastinu, fremra stoppið kemur allt of seint og vindhnútar hlaðast á tauminn.

Einhvern tímann las ég pistil þekkts kastkennara sem sagði einfaldlega að það væri ljótur siður að temja sér mörg falsköst. Lærðu bara að kasta eins og maður, færri falsköst, betra tví-tog og þá nærðu kasti á fiskinn þar sem hann er, ekki þar sem hann var fyrir tveimur köstum síðan. Það er einmitt þegar ég er í návígi við fiskinn að ég man eftir þessu, vanda mig betur við togið og þá er eins gott að ég sé ekki orðinn svo þreyttur eftir öll falsköstin að allt fari í tóma vitleysu hjá mér. Óþreyttur maður nær betri einbeitingu heldur en þreyttur.

Að halla undir flatt

Það hefur ekkert farið framhjá þeim sem séð hafa að ég er enginn kastsnillingur, en mér er svo sem ekki alls varnað heldur, held ég. Síðast þegar ég leitaði mér aðstoðar og fékk slatta af skömmum var mér bent á að kasta undir flatt, þ.e. kasta fram og til baka með stöngina í láréttu plani. Galdurinn við þessa æfingu er sá að horfi maður ofan á línubogann sem myndast í fram- og afturkastinu gerir maður sér betri grein fyrir því hvenær og hvernig kasthjólið myndast. Þegar maður hefur náð tökum á þessu kasti; lárétt, fram og til baka, þá má færa sig og kastið upp á skaftið þangað til maður er farinn að kasta nokkuð ‚eðlilega‘ með stöngina í lóðrétta. Til að auka enn meira á færnina má færa úr láréttu kasti frá hægri hlið, upp og yfir á þá vinstri þar til stöngin er aftur í láréttu plani.

Ef eitthvað hefur hjálpað mér að ná stjórn á stærð kasthjólsins, þá er það þessi æfing. En fyrr átti ég á dauða mínum von heldur en notað þetta kast í veiði. Jú, ég hef svo sem fært stöngina í lárétt plan til að ná undir vind en í sumar fannst mér ég endilega þurfa að ná kasti meðfram bakkanum mér á hægri hönd. Vandamálið var bara að ég eini staðurinn sem ég gat tyllt niður fæti á var smá bleðli á milli hárra steina sem gengu alveg fram í vatnið.

Lágrétt kast til hægri
Lárétt kast til hægri

Undir þessum kringumstæðum kom sér vel að geta laumað stangarendanum út fyrir steinana og kastað með landi þangað sem ég taldi fiskinn vera. Það var að vísu enginn fiskur þarna þegar til kom, en ég var samt sem áður nokkuð sáttur við kastið og ekki síst að hafa munað eftir æfingunni.

Full af kátínu

Kátína
Kátína

Því hefur svo sem brugðið við að kaststíl veiðimanna sé lýst með orðum eins og ‚hann veifaði prikinu þarna fram og til baka, upp og niður‘. Í rituðu máli er óskaplega erfitt að gera sér grein fyrir hljómfalli orða og því auðvelt að yfirsjást galsi eða góðlátlegt grín í orðum sem þessum. Sjálfur hef ég notað öfgafullar lýsingar á eigin kaststíl og ekki legið á því að lýsa aðferðum mínum sem einhverju káfi út í loftið með flugustönginni. En, viti menn, það er alveg til í dæminu að veiða fluguna eins og maður viti bara ekkert hvernig eigi að halda á stönginni. Þetta snýst nánast um að hrista fluguna fram af toppinum og láta hana skoppa í loftinu, skittering upp á enska tungu. Aðferðin er helst notuð þegar menn veiða undan vindi eða léttri golu og felst í því að veiðimaðurinn heldur stönginni, aldrei þessu vant, töluvert hátt á lofti, nánast beint upp í loftið og leyfir flugunni að dansa til og frá í vindinum. Annars lagið er slakað á stönginni þannig að flugan sest á yfirborðið, rétt tyllir niður fótunum en tekur sig síða upp aftur og byrjar að flögra rétt við yfirborðið á ný. Auðvitað hafa menn hér í huga athafnir ýmissa flugna þegar þær verpa í yfirborð vatna eða eru ný klaktar og flögra heldur máttvana af stað eftir að hafa þurrkað vængina á yfirborðinu. Ætli ég gæti ekki betur að mér í framtíðinni þegar ég útmála eigin aulaskap, einhver gæti tekið upp á því að halda að ég sé einhver kátínu snillingur.

Án leiðbeinanda

Hvernig ætli það sé að byrja á fluguveiði án þess að eiga sér leiðbeinanda eða það sem kallað er mentor upp á enska tungu? Eins og málum er háttað í dag, þá er það í sjálfu sér ekkert mikið mál. Næstu setningu má ekki taka sem sjálfbirgishátt: Ég er sjálflærður í fluguveiði, hef ekki notið þess munaðar að eiga mér mentor, en ég held að ég sé alveg þokkalega vel að mér og þetta hefur tekist alveg bærilega hingað til. Ef eitthvað má út á mig og mína veiðimennsku setja þá er æfingaleysi um að kenna. Ég er alveg eins latur við að æfa mig eins og hver annar.

Það er af sem áður var að einn kennir öðrum, maður á mann. Framboð efnis á netinu, í bókum og á mynddiskum er slíkt í dag að menn geta nánast aflað sér allra upplýsinga með einu eða öllu framan greindra. Auðvitað hefði ég getað stytt mér ýmsa þrautargöngu í sportinu með því að finna ‚réttu‘ bókina fyrr eða horfa á ‚réttu‘ myndina oftar. Sumt verður þó aldrei af mannlegum samskiptum tekið. T.d. þegar kemur að því að greina villurnar í kastinu og fá leiðbeiningar við að lagfæra þær. Aðspurður sagði Stefán Hjaltested um daginn að flugukastkennsla fælist í ‚stöðugum skömmum‘ og þessar skammir geta ekki átt sér stað í gegnum netið eða á bók.

Hættan við að það að vera sjálflærður er sú að maður taki upp einhverja vitleysu og festist í henni og þá er eins gott að finna svona gaura eins og Stefán eða Börk Smára og Himma FFF flugukastkennara. Þú getur fundið þá alla hér á síðunni undir Tenglar / Kastkennsla. Eins og Tom Rosenbauer nefnir í The Orvis Guide To Beginning Fly Fishing þá er góður leiðbeinandi gulls ígildi og hann er örugglega ekki sá sem heldur áfram að vera kurteisin uppmáluð eftir að þú hefur mælt þér mót við hann og hrósar öllu sem þú gerir. Má ég þá frekar biðja um gráglettnar athugasemdir í stað þess að borga einhverjum gaur fyrir að ljúga að mér um frammistöðuna. Það er hægt að byggja upp sjálfstraust nemanda án þess að ljúga að honum. Ég geri mér alveg ljóst að ég á langt í land með að vera einhver listamaður í fluguköstum. Svo er það allt annað mál hvort maður vill endilega verða þessi listamaður, hvort þokkalega snyrtileg köst séu ekki nóg ásamt úthaldi til að veiða samfleytt í 8 klst. án þess að verða verulega þreyttur eða skaða sjálfan sig til frambúðar.

Veiðitæknina er hægt að lesa um, horfa á myndbönd og prófa sig áfram með. Samt er hætt við að eitthvað vanti alltaf aðeins uppá. Ég get ekki stoppað DVD diskinn og spurt Kirk Dieter að einhverju sem mér datt í hug einmitt á tilteknu augnablikinu. Ég gæti að vísu smellt skilaboðum á hann í gegnum Facebook, en það er algjörlega óvíst hvort svarið sé nákvæmlega við spurningunni sem brann á mér einmitt á því augnabliki. Góður mentor er líka gulls ígildi, hann getur sagt þér til undir hinum ýmsu kringumstæðum, á einmitt rétta augnablikinu og oftar en ekki með vísdóm sem gengið hefur í arf frá einum mentor til annars.

Bakföll

Þegar flugan tekur bakföll í framkastinu þá er eitthvað að. Nú er ég ekki að vísa til þess að hún taki bakföll af hlátri, heldur þessi leiðindi þegar flugan dettur niður á tauminn sjálfan í stað þess að leggjast fram og út á vatnið.

Þessi hegðun kemur oftast í kjölfarið þess að þú hefur skipt um flugu, valið þér flugu sem er örlítið þyngri eða ekki eins straumlínulöguð og sú fyrri (aukin loftmótstaða). Það fyrsta sem vert er að athuga er hvort þú getir ekki stytt taumaendann um eins og eitt fet eða skipta honum út fyrir einu X-i sverari. Stundum þarf raunar að gera hvoru tveggja. Málið snýst einfaldlega um það að krafturinn í kastinu nær ekki fram í fluguna, nær ekki að flytja hana út á vatnið. Of langur taumur eða úr of grönnu efni er oftast skýringin á þessu. Sverari og/eða styttri taumur flytur meiri orku úr línunni og fram í fluguna.

Fluga í bakfalli
Fluga í bakfalli

Ummæli

26.12.2013 – Stefán B Hjaltested: Nr 1. Undirstaða er ákveðið gott bakkast nr 2 . Að réttur úlnliðshnikkur komi á hárnákvæmum stað,kl.10,30 -11,00 með ákveðnu stopp. Ég nota oft snöggann þrýsting með þumalfingri á korkinn í stað þess að nota hnikkinn. Með jólakastkveðju, Stefán B Hjaltested.

Stefán