Mér hefur stundum fundist eins og flugulínur hafi sjálfstæðan vilja. Það er jú gott að leyfa stöng og línu að njóta sín, vinna saman og vera ekkert að ofgera þessu viðkvæma ástarsambandi handar og tvíeykisins, en stundum er hegðun línunnar eitthvað sem mér finnst vera óásættanlegt. Eitt af því sem ég leyfi mér að láta fara í taugarnar á mér, er þegar hún snýr upp á sig þegar ég sleppi henni í framkastinu.
Eftir nokkur köst, falsköst eða hrein og klár köst, þá er eins og hún snúi sig upp úr vatninu við fætur mér, velti sér út í gegnum neðstu lykkju á stönginni og jafnvel alla leið út um topplykkjuna. Nú er ég ekki að tala um eitthvað krulluband eða sveigju í framlagningu línunnar, öllu heldur einhvern stífleiki í línunni sem fær hana til að fara út úr topplykkjunni í boga eða á ská m.v. kaststefnu. Þetta er ekkert bundið við það að ég standi úti í vatni, þetta kemur alveg eins fyrir þegar ég stend með báða fætur á þurru landi, þannig að vatnið er ekki vandamálið.

Við getum hugsað okkur línuna eins og listflugvél sem flýgur í beinni línu en tekur svo hliðarveltu, eina eða fleiri. Nákvæmlega þetta getur línan gert ef hún hefur undið upp á sig, sem er reyndar eðlilegur fylgifiskur fluguveiðinnar. Til að ráð bót á þessu er einfaldast að sleppa línunni alveg þegar hún rennur fram í neðstu lykkju eða leyfa henni að leika lausri á milli þumals og vísifingurs og renna þar í gegn í stað þess að halda við hana á milli tveggja fingra. Smávægilegur núningur fingra við línuna þegar veiðimaður lengir í eða leyfir línunni að fljóta fram úr topplykkjunni getur orðið til þess að línan sveigi aðeins út frá beinni línu. Þetta er aðeins smávægilegur annmarki sem auðvelt er að forðast með því að halda minna eða ekkert við hana þegar hún rennur inn í neðstu lykkju.
Senda ábendingu