Er virkilega svona erfitt að losna við vindhnúta eða eru þeir óhjákvæmilegur fylgifiskur fluguveiðinnar? Eitt sinn sagði góður maður við mig; Þeir sem fá ekki vindhnút stöku sinnum, eru ekki að veiða. Svo mörg voru þau orð og viðkomandi dró annað augað í pung þegar við heyrðum einn halda því fram að hann fengi aldrei vindhnút á taum.

Ég hef margoft tilgreint ástæðu þess að vindhnútar verða til og óþarfi að fara mörgum orðum um það enn og aftur; taumurinn (eða fluglínan sjálf) fellur niður fyrir neðri bug línunnar í kastinu. Hingað til hef ég heyrt á bilinu 4 – 6 ástæður þessa, en svo lærir lengi sem lifir því nú hefur heldur betur bætt í. Nýlega rak ég augun í að Ed Jaworowski gróf upp eina 15 ástæður þess að taumurinn getur tekið upp á þessum skolla. Í sannleika sagt, þá fannst mér nú 4 – 6 ástæður alveg nóg til að moða úr, hvað þá 15, þannig að mér var huggun harmi gegn að Ed dró aðeins úr og nefndi einmitt 4 atriði sem líklegust eru til þess að valda þessu;
- ótímabær hraðaaukning í kastinu
- olboginn losnar upp í kastinu
- ferill stangartopps verður íhvolfur í kastinu
- ótímabær stefnubreyting línunnar (of seint, of snemma)
Mér varð töluvert rórra þegar ég sá þessar fjórar algengustu ástæður, fimmtán voru einfaldlega of margar. Nú er bara að muna eftir þessum fjórum og þá tekst mér e.t.v. að útiloka helming þeirra hnúta sem ég raða reglulega á tauminn minn.
Senda ábendingu