Flestir geta hrósað því happi að hafa notið leiðsagnar vinar eða reynds veiðimanns þegar þeir tóku sitt fyrsta flugukast á æfinni. Þetta er vitaskuld ekki einhlítt, en fyrr eða síðar hefur væntanlega einhver bent á eitthvað hjá ykkur sem betur mætti fara.
Eitt það fyrsta sem ég fékk að heyra var að bíða, bíða eftir því að línan væri búin að rétta fyllilega úr sér í falskastinu áður en ég hefði atlöguna í næsta falskast. Þetta er frábær punktur, en því miður ekki alveg réttur, því ef maður bíður alveg þangað til línan hefur rétt úr sér, þá er maður orðinn of seinn og missir af hleðslu stangarinnar í næsta kast.

Merkilegt nokk, þá tók ég mark á þessari athugasemd í frumbernsku minni í fluguveiði og afraksturinn varð heldur máttlaus falsköst í báðar áttir, ég var meira að veifa línunni fram og til baka heldur en lengja í henni. Um leið og ég fékk örlítið betri leiðsögn eða betur útfærða ábendingu, þá fóru falsköstin af verða öflugri og í beinu framhaldi færri. Sem sagt; ekki bíða eftir því að lína hafi rétt alveg úr sér. Taktu mark á kraftinum sem stöngin leiðir niður í handfangið, þegar kraftinn hann þverr, þá er rétt að hefja undirbúning að næsta kasti með hægri en aukinni færslu stangarinnar í gagnstæða átt við feril línunnar. Það er vissulega smá kúnst að finna rétta augnablikið til að hefja nýtt kast, en þegar þú hefur fundið það, þá er það fljótt að festast í vöðvaminninu hjá þér.
Senda ábendingu