Guð, hvað þetta er fallegt

Það er einkennilegt hve lítil augnablik geta greypt sig svo fast í minni að þau mást aldrei út. Ég á mér eitt svona augnablik, lítið andvarp sem ég deili með besta vini mínum. Þetta var fyrir nokkuð mörgum árum, fleiri en ég vil endilega tilgreina, að við hjónin vorum á ferð í Þjórsárdal á leið inn að Stöng með tjald, prímus og nesti. Þetta var á þeim árum sem þjóðvegurinn lá innan og yfir Gaukshöfða, leiðinlegur malarvegur, holóttur og beinaber. Rétt í þann mund sem við komum yfir höfðann heyrði ég hvar frúin greip andann á lofti, leit angurvært yfir dalinn þar sem hann lá baðaður í geislum kvöldsólarinnar fyrir framan okkur og hvíslaði; Guð, hvað þetta er fallegt. Þetta er augnablik sem gleymist aldrei. Ég efast ekki um að fleiri hafi fengið þessa tilfinningu og ég óska þess að enn fleirum gefist kostur á að upplifa hana um ókomin ár. Mögulega er því samt á annan veg farið því ásýnd þessa svæðis gæti tekið miklum stakkaskiptum til hins verra á næstu árum.

Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun
Fyrirhugað virkjanastæði Hvammsvirkjunar – Mynd: Landsvirkjun

Í lok september rann út frestur til að skila inn athugasemdum við umhverfismat á fyrirhugaðri Hvammsvirkjun í Þjórsá og nýttu 39 aðilar sér tækifærið. Persónulega hefði ég kosið að fleiri aðilar hefðu nýtt sér þennan frest, en það er e.t.v. ekki fjöldi athugasemda sem skiptir máli heldur það sem þær innihalda. Þó aðeins ein vel ígrunduð athugasemd hefði komið fram, ætti hún að vera nóg til þess að vekja ráðmenn til umhugsunar um gildi þessa svæðis fyrir annað en orkuframleiðslu.

Eftir virkjun – Mynd: Landsvirkjun
Eftir virkjun – Mynd: Landsvirkjun

Áhugafólk um verndun Þjórsár hefur bent á ýmsa vankanta á fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta árinnar, allt frá sjónmengun til óafturkræfra áhrifa á lífríkið, dýr og plöntur.

Frá því fiskvegurinn við Búða var opnaður árið 1991 hefur lax tekið sér bólfestu á svæðum í ánni sem lokuðust við jarðskjálftann árið 1896 og göngufiskur fært sig sífellt ofar í Þjórsá og þverár hennar. Þessarar fiskgengdar hefur orðið vart í Þverá, Sandá, Fossá og Minnivallalæk, veiðimönnum og náttúruunnendum til óblandinnar ánægju. Bæði lax og sjóbirtingur ganga nú í flestar, ef ekki allar þessara áa ofan Búða. Því hljómar það einkennilega að sjóbirtingurinn kemur lítið sem ekkert fram í niðurstöðum þeirra fáu rannsókna sem farið hafa fram á svæðinu, engar upplýsingar um stofnstærð né gönguhegðun og þar af leiðandi ekki gert ráð fyrir neinum mótvægisaðgerðum vegna hans. Það dugir ekki að skella skollaeyrum við tilvist birtingsins og láta eins og hann sé ekki til staðar. Endurskoðaðar áætlanir Landsvirkjunar gera ráð fyrir ‘stórum’ hverflum, gerð fiskfarvega og rennslisstýringu, allt eitthvað sem á að auðvelda fiskinum að ferðast… á pappírnum.

En það má ekki gleyma því að í Þjórsá og þverám hennar eru líka stofnar staðbundins urriða og bleikju. Þær litlu rannsóknir sem gerðar hafa verið á göngufiski á þessum slóðum ná ekki til staðbundins fiskjar að því er ég best veit og því eru engar mótvægisaðgerðir á döfinni fyrir þann fisk sem á sér fasta búsetu á virkjanasvæðinu.

Fyrir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
Fyrir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Mönnum hefur orðið tíðrætt um þá hrygningarstaði sem opnuðust ofan Búða og inn að Viðey árið 1991 og það með réttu. Svæðið er talið henta einstaklega vel til hrygningar og hefur örugglega átt stóran þátt í að auka viðkomu laxa í Þjórsá. En þarna er ekki aðeins að finna lax; urriði og bleikja hafa haldið til á þessum slóðum svo áratugum ef ekki hundruðum skiptir. Stór hluti þessa svæðis mun þorna upp ef af Hvammsvirkjun verður, þ.e. alveg frá virkjun og niður að Ölmóðsey eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

Eftir virkjun - Kort: verndumthjorsa.is
Eftir virkjun – Kort: verndumthjorsa.is

Geta má nærri að svæðið ofan virkjunar, svo kallað Hagalón nýtist fiski ekkert til hrygningar vegna framburðar sem þar safnast saman og myndar botnset sem drepur allt líf. Með tilkomu Hagalóns raskast um 68% af búsetusvæði fiska á virkjanasvæðinu og þar við bætist að rennsli á milli annarra fyrirhugaðra lóna verður aðeins brot af núverandi rennsli Þjórsár í farvegum hennar. Nefndar hafa verið tölur um 10 – 15 rúmmetra á sek. í stað 360 – 400 í eðlilegu árferði. Það gefur augaleið að svo lítið vatn dugir seiðum og hrognum ekki til lífs. Heildarárhrif virkjunarinnar á vatnasvæði Þjórsár, neðan Búrfells, nema um 30% Áhugasömum um vernd svæðisins er bent á mikið efni sem finna má á vefnum Verndum Þjórsá.

Þegar ég nefni hér önnur fyrirhuguð lón á svæðinu hugsa ég til þess að Hvammsvirkjun er skv. minnisblaði OS; ..hluti af samfelldri heild virkjanasvæða. Vegna ísmyndunar í ánni þarf að byggja Hvammsvirkjun og Holtavirkjun á undan Urriðafossvirkjun. Hvammsvirkjun er aðeins fyrsta skrefið í keðju virkjana í Neðri-Þjórsá, hún er fyrsta skrefið í óafturkræfri eyðileggingu árinnar neðan Búrfells og trúlega sú sem mest áhrif hefur á lífríkið. Athugið, ég á eftir að skrifa greinarnar um Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, ég gæti hæglega skipt um skoðun þegar ég hef lokið lestrinum um þær virkjanir.

Í sumar sem leið átti ég því láni að fagna að spreyta mig í veiði í Þverá við bæinn Fossnes. Í ármótum Þjórsár og Þverár er ótrúlegur veiðistaður þar sem staðbundinn fiskur, urriði og bleikja skjótast fram og til baka á milli bergvatnsins og jökulvatnsins auk þess sem göngufiskur, lax og sjóbirtingur stökkva í vatnaskilunum og gefa fyrirheit um kröftugar tökur. Þar sem ég stóð við ármótin og mátaði ýmsar flugur fyrir fiskinn, varð mér litið upp í hlíðina við afleggjarann að Gnúpverjavegi og sá hvar fyrirhuguð lónshæð er merkt með skilti. Verði að Hvammsvirkjun fer kletturinn sem ég stóð á undir vatn, nokkrar þúsundir tonna og væntanlega fá veiðimenn framtíðarinnar aldrei tækifæri til að njóta dásemda þessa svæðis. Ég vildi óska þess að önnur sjónarmið en peningar fái ráðið um framtíð Þjórsár og þess ótrúlega lífríkis sem þar er. Ég er hræddur um að uppistöðulón og varnargarðar fái ekki fólk til að andvarpa og segja; Guð, hvað þetta er fallegt.

2 svör við “Guð, hvað þetta er fallegt”

  1. Gunnar Runólfsson Avatar
    Gunnar Runólfsson

    Það eru ótrúlega margar rangfærslur og misskilningur í þessari grein. Ég hef skrifað allnokkuð um þetta mál inni á Facebook síðu Verndum Þjórsá. Ég hvet þig, og aðra, til að kynna sér það sem ég er að fjalla um þar. Drögum ályktanir út frá staðreyndum.

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Sæll Gunnar og takk fyrir þitt innlegg. Ég hef séð og lesið athugasemdir þínar á Facebook síðu Verndum Þjórsá í gegnum tíðina og er vel kunnugt um þitt álit á því sem fram kemur á þeirri síðu. Þú sem fyrrum starfsmaður Landsvirkjunar hefur e.t.v. betra aðgengi að gögnum um Þjórsá og nágrenni hennar heldur en almenningur hér heima og þá væri óskandi að Íslendingum gæfist kostur á að lesa þau gögn til að koma í veg fyrir ‘rangfærslur og misskilning’ sem þú segir að séu í ótrúlegu magni í þessari grein. Ég tel mig hafa dregið ályktanir út frá staðreyndum, en þær horfa greinilega öðruvísi við okkur.
    Skoðanir okkar og álit á fyrirhuguðun virkjunum í Neðri-Þjórsá eiga augljóslega ekki samleið. Ég er t.d. ekki sáttur við þau áform LV að byggja og taka Hvammsvirkun í gagnið og ‘samfara rekstri hennar verður virkni mótvægisaðgerða rannsökuð, metin og lagfærð eins og þörf krefur’. Þetta hljómar í mín eyru eins og að skjóta fyrst og spyrja svo hvort ekki megi setja plástur á sárið. Þetta er háskaleikur sem ég vil ekki taka þátt í því við eigum hvorki að leika okkur með náttúru né lífríki Íslands, í þeim liggur auður okkar, ekki orkufrekri stóriðju af nokkru tagi.
    Bestu kveðjur héðan af klakanum til þín í Noregi,
    Kristján Friðriksson

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com