FOS
  • Færslur
  • Flugur
    • Flugur – uppskriftir
    • Febrúarflugur
    • Úr þvingunni
    • Klassískar flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Fólk er misjafnt

    4.nóvember 2021
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Það kemur alveg fyrir að ég skil bara hvorki upp né niður í fólki sem er ekki eins og ég, en það er náttúrulega bara hið besta mál, þ.e. að fólk sé ekki eins og ég. Ég til dæmis verð oft svolítið hissa, í smá stund, þegar ég rekst á veiðimann sem vill ekki segja frá flugu, veiðistað eða veiðiaðferð berum orðum, en kemur þess í stað með einhverjar dulspekilegar tilvitnanir. Svo rifjast það upp fyrir mér að fólk er misjafnt og þá legg ég bara árar í bát, dreg í land og leyfi þeim að eiga allan sinn vísdóm út af fyrir sig. Kannski set ég viðkomandi í flokkinn dulvitringar en þá þarf hann líka að vera sérlega afundinn.

    Það getur vissulega verið viðkvæmt mál að gefa upp góða veiðistað eða aðferð, en minnugur þess að ef það liggur fiskur í netinu mínu þegar ég tölti frá veiðistað, þá er nánast enginn möguleiki á að einhver annar veiði hann og mér er bara þægð í því að segja frá ef einhver spyr mig.

    Eitt er það þó sem fer alveg ósjálfrátt í  pirrurnar hjá mér og það eru dulvitringar sem halda til á dulnetinu. Auðvitað á maður ekki að láta svona nokkuð pirra sig, en það gerir það nú samt. Dulvitringar á dulnetinu eru þeir sem svara saklausum fyrirspurnum á samfélagsmiðlunum með því að senda einkaskilaboð á þann sem spyr; Þú átt PM og við hin sitjum bara eftir og vitum ekki neitt. Blessunarlega eru til þeir aðilar sem láta eins og ekkert sé og svara hreint út og það þarf ekki gráðu í Tarotlestri til að ná innihaldinu.

    Kannski eru fleiri en ég pirraðir á svona dulvitringum og þá mæli ég eindregið með því að menn leggist bara í sína eigin Google leit, leiti að veiðisögum og veiðitölum, kortum og loftmyndum og einfaldlega læri af því sem fyrir augu ber. Hver veit nema þú getir komist að einhverju sem dulvitringarnir hafa ekki hugmynd um og þú getir sjálfur, eftir að hafa prófað, gefið einhverjum öðrum góð ráð um flugu, veiðistað eða aðferð, opinskátt.

  • Líka fyrir innipúka

    12.október 2021
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Stangveiði er aðeins ein af mörgum leiðum til að njóta útiveru og nándar við náttúruna. Það gefur augaleið að veiðin sjálf á sér stað utandyra, en það er svo margt annað sem getur fylgt stangveiðinni sem á sér ekki stað utandyra. Innivera er líka ágæt og ef þú ert forfallinn veiðimaður eða bara innipúki inni við beinið, þá getur þú sökkt þér enn frekar niður í stangveiðina og sinnt henni utan veiðitímans með virkum hætti.

    Einfaldasta leiðin til að sinna stangveiði utan veiðitíma er að ganga í eitthvert af þeim fjölmörgu veiðifélögum sem eru til staðar. Ég hef kynnst nokkrum afar snjöllum veiðimönnum í heimsóknum mínum til stangaveiðifélaga og minni hópa á liðnum árum, t.d. veiðiklúbba á vinnustöðum, hnýtingarklúbba félagasamtaka o.s.frv. Allt gefur þetta veiðimönnum færi á að hittast utan veiðitíma, mögulega til að skipuleggja komandi veiðiferðir, grúska í veiðitölum eða kynnast nýjum veiðisvæðum með því að skiptast á upplýsingum eða fá til sín í heimsóknir utan hópsins.

    Þegar ég lít til baka og rifja upp kynni mín af minni hópum og félagsstarfi, þá standa þau upp úr þar sem blandaður hópur veiðimanna kemur saman. Þó áhugi minn á stangveiði beinist fyrst og fremst að fluguveiði, þá finnst mér frábært að heyra af og kynnast annarri veiði, hvort sem það er spúna- eða beituveiði og svo má ekki gleyma því að sögur af fiski, veiðistöðum og víðernum standa alltaf fyrir sínu, sama hver aðferðin er.

    Stóru veiðifélögin hafa vitaskuld burði til að halda úti meiru og öflugara félagsstarfi á vetrum, en það er ekki þar með sagt að minni félög sem e.t.v. telja aðeins nokkra tugi félagsmanna geti ekki haldið úti öflugu starfi þó smærra sé í sniðum. Hún kemur eflaust á óvart, öll sú þekking og færni sem er til staðar innan hópsins ef meðlimum yrði gert kleyft að koma fram og segja frá. Mögulega þyrftu einhverjir smá hvatningu og aðstoð við að forma efnið, koma því t.d. á glærur eða í texta, en til þess eru örugglega einhverjir félagar reiðubúnir að aðstoða við án þess að yfirtaka kynninguna. Ég má til með að nefna þetta með yfirtökuna sérstaklega því ég hef setið kynningu þar sem aðstoðarmaðurinn beinlínis yfirtók efnið þannig að eiginlegur höfundur þess fór í baklás og hefur vart opnað munninn síðan. Ég reyndar náði viðkomandi á eintal síðar og mikið rosalega fóru fundargestir mikils á mis vegna þessarar yfirtöku.

    Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, þá taka veiðimenn sig mismunandi alvarlega og það er vel. Háalvarlegir fyrirlestrar um vaxtarskilyrði fiska, aflatölur og dómsdagsspár eru ekki alveg til þess fallnar að trekkja að. Hafði léttleika í öndvegi og áhugavert umtalsefni. Já, ekki gleyma því að opna á samtalið manna í millum, undir kynningunni eða í lokinn, þetta er jú félagsskapur.

    Framundan er langur íslenskur vetur eftir sérlega félagslega erfið misseri vegna þessarar óværu sem hefur hrjáð okkur. Eins og útlitið er í dag, þá er lag til að setja saman dagskrá fyrir veturinn, hún þarf ekki að vera öflug eða margbrotinn, en ég held að veiðimönnum veiti ekkert af því að koma sama, augliti til auglitis, skiptast á hryllings- og hetjusögum sumarsins eða kynnast einhverju nýju í veiðinni, af nógu er að taka.

  • Markmið og árangur

    30.september 2021
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Ég strengi aldrei áramótaheit, en ég set mér reglulega markmið og þá helst í tengslum við áhugamál eða vinnu. Þessi markmið setja ránna í ákveðna hæð og svo tek ég tilhlaup. Því er eins farið með mig og nokkra aðra, að stundum vill það taka nokkurn tíma að hefja atrennuna. Æ, ég er svo upptekinn núna. Hva, það er nægur tími, nota þær ekkert fyrr en í vor / sumar / næsta haust. Já, ég er að tala um allar flugurnar sem mig langar til að hnýta og vil eiga tilbúnar fyrir fyrstu veiðiferðina í apríl.

    Það eru vissulega til þeir veiðimenn sem hnýta allan ársins hring, en ég hnýti helst á veturna og gjarnan byrja ég ekki fyrr en í febrúar, stundum mars og það kemur jafnvel fyrir að ég hnýti ekkert fyrr en í apríl. Þessar síðbúnu hnýtingar í apríl vilja oft einkennast af einhverju stresskasti, stutt í fyrstu ferð og þá verða fæstar af þeim flugum sem mig langaði til að hnýta fyrir valinu.

    Markmið haustsins er; að byrja að hnýta fyrr í vetur og ekkert vera að taka einhverjar nýjar inn í prógrammið fyrr en ég er búinn að hnýta þær hefðbundnu. Þetta síðasta ætti að hvetja mig til verka því mér finnst einstaklega gaman að hnýta nýjar flugur, þ.e. flugur sem ég hef ekki prófað áður. Hvort ég prófi þær síðan í veiði er allt önnur saga og hefur verið sögð hér áður, oft. Þetta að klára þær hefðbundnu fyrst er svona taktík eins og maður

    Fyrsta skrefið er náttúrulega að taka til í hnýtingadótinu. Ég bara skil ekkert í því hvernig stendur á því að hnýtingarhornið mitt er alltaf í drasli. Það hlýtur bara einhver að laumast þangað inn og rusla til, rugla boxum og pokum í hillum þannig að ekkert er á sínum stað og ekkert finnst þegar til þess á að taka. Það er margt skemmtilegt við að taka til í hnýtingadótinu. Fyrir það fyrsta, þá finnur maður svo margt sem maður var alveg búinn að steingleyma að maður hafði keypt þegar maður rétt aðeins kíkti inn í búðina. Svo er það þetta með innkaupalistann. Vá, hvað það er gaman að finna hálftómt kefli eða rétt aðeins botnfylli í einhverjum poka eða boxi, þetta þarf að fara á innkaupalistann. En það er líka ýmislegt neyðarlegt sem kemur upp úr krafsinu þegar tekið er til. Af hverju ætli ég eigi allt í einu fimm poka af peacock herl, alla opnaða en nær alla fulla ennþá? Ég bara skil þetta ekki.

    Svo fer maður með innkaupalistann í búðina. Mér liggur við að skrifa búðina með stóru Bjéi, veiðibúðir ætti alltaf að skrifa með stóru Bjéi, þær eru svo mikið aðal. Ef svo ólíklega vill til að eitthvað það sem er á innkaupalistanum er ekki til, þá verður maður að bíða og kíkja aftur þegar varan er komin. Kannski þarf maður að fara nokkrum sinnum í búðina og athuga hvort þetta sé komið og þá gæti eitthvað annað skemmtilegt borið fyrir augu sem gott væri að eiga. Þegar svo allt efni er loksins komið, þ.e. það sem var á upprunalega innkaupalistanum, þá gæti maður allt eins þurft að laga aftur til í hnýtingarhorninu til að koma öllu skemmtilega efninu fyrir. Það þýðir nefnilega ekkert að byrja að hnýta fyrr en allt efnið er komið á sinn stað.

    Á þessum C-vítans tímum getur biðin eftir hnýtingarefni verið töluverð. Mér skilst að erlendar hænur séu oft í sóttkví og þori ekki að fella fjaðrir af ótta við að sýkjast af einhverri veiru og spunarokkar hnýtingaþráðar eru víst þagnaðir vegna skorts á hraustu vinnuafli. Skyndilega getur því allt eins verið komið að jólum og þá þarf maður að huga að jólagjöfum sem passa á listana (innkaupalistann fyrir veiðifélagann og óskalistann). Alla lista skyldi íhuga vandlega áður en þeir eru birtir, þetta getur tekið drjúga stund.

    Eftir jól er maður síðan alveg örmagna og þarf að hvílast fram að þeim tíma sem sækja þarf um veiðileyfi fyrir næsta sumar. Óhvíldur veiðimaður kaupir stundum tóma vitleysu og það ber að forðast. Eftir skil á vandlega ígrunduðum umsóknum, þá eru þær allt í einu komnar á fullt; Febrúarflugurnar. Þar fær maður nú heldur betur hugmyndir að flugum til að hnýta fyrir næsta sumar og því best er að bíða aðeins fram til 1. mars og sjá þá allar flugurnar sem maður gæti hugsað sér að hnýta og prófa næsta sumar.

    Svona geta nú göfugustu markmið horfið eins og dögg fyrir sólu og þegar apríl gengur í garð, þá er maður jafn blankur af flugum eins og venjulega og verður í einhverju stresskasti að hnýta upp í það nauðsynlegasta sem vantar. Hver var að tala um markmið?

  • Afturbataveiðimenn

    27.maí 2021
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Kannski get ég að einhverju leiti sjálfum mér um kennt, en þegar kreppir að í laxveiðinni, þá leita sífellt fleiri og fleiri veiðimenn í vatnaveiðina. Sumir þessara veiðimanna hafa ekki snert á silungsveiði í fjölda ára og ég hef stundum grínast með það að þessir veiðimenn séu í afturbata. Ég veit að þetta er ljótt að grínast með en stundum er svartasti húmorinn einfaldlega sá sem segir mest, þessi hárbeitta lína sem liggur á milli þess sem er of eða þess sem segja má.

    Ég var hér um daginn, kannski í síðustu eða þar síðustu viku, með greinarstúf sem ég vann upp úr nokkrum gullkornum sem ég hef heyrt á bakkanum síðustu sumur. Það er aldrei að vita nema einhverjir hafi borið kennsl á sjálfa sig þarna, en trúið mér, það var ekki einhver einn sem átti það sem ég vitnaði til, þið voru nokkrir sem áttuð kveikjurnar að þeirri grein.

    Til að bæta gráu ofan á svart þá hef ég punktað hjá mér nokkur atriði sem ég hef séð að bæði afturbata- og nýir veiðimenn eiga sameiginlegt þegar þeir smella saman við vatnaveiðina.

    Eitt af því sem ég hef alveg tekið eftir eru þessar rosalegu pælingar um allt og ekki neitt sem veiðimenn detta niður í. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst þetta um að veiða og njóta, ekki ofhugsa eða vanda sig út fyrir öll skynsemismörk þannig að veiðimaðurinn looki vel á samfélagsmiðlum. Slakið á og hættið að ofhugsa allt mögulegt og umfram allt, það þarf enginn að kunna allt á veiðistað, þú hefur nægan tíma næsta vetur til að velta þér upp úr mistökum sumarsins og finna lagfærslur á eigin breiskleika.

    Glysgirni er eitthvað sem ég datt alveg á bólakaf í á mínum fyrstu árum. Síðan rann aðeins af mér og ég fór að spá meira í einfaldleika, liti og sköpulag fluga sem ég sá að líktu eftir fæðunni sem fiskurinn sækir í. Mikið af þeim flugum sem ganga í augun á veiðimönnum eru beinlínis fjarstæðukenndar í augum fisksins. Ég held að þetta heiti back to the basics upp á enska tungu.

    Besta afsökun sem ég hef fundið fyrir sjálfan mig er að það fæðist enginn fullkominn kastari, þetta lærist smátt og smátt. Sumir þurfa hjálp við þetta, misjafnlega mikla, en örugglega einhverja leiðsögn, en það er algjör óþarfi að vera með 40 feta köstin á tæru í fyrstu ferð. Farðu þér aðeins hægar og lærðu að setja fluguna niður innan við 50 sm frá staðnum sem þú sást fyrir þér, stutt og nákvæmt er oft betra heldur en langt og víðsvegar. Og jafnvel þótt þú æfir þig á veiðislóð, takir stutta spilið fram yfir lengdarköstin, þá gerir enginn alvöru veiðimaður grín að þér.

    Ég vona að enginn taki þessum hugrenningum mínum og orðaleikjum illa, þetta er ekki illa meint og helst punktað niður fyrir sjálfan mig, kannski einhverja fleiri.

  • Að finna fyrir smæð sinni

    13.apríl 2021
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Ég væri að ljúga ef ég segði að fjöldi manna spyrji mig hvers vegna ég hafi fyrir því að þeytast upp á hálendi til að veiða þegar næsta vatn er innan við 10 mín. akstur frá heimili mínu, en það hefur nú samt komið fyrir. Þegar svo ber undir þyl ég þessa venjulegu rullu um náttúrufegurð og friðsæld fjallamennskunnar alveg þangað til ég heyri sjálfan mig fara með frasa sem allir hafa heyrt. Stundum hætti ég reyndar áður en kemur að því að frasarnir taka völdin, einkum þegar ég sé áhuga spyrjandans fjara hægt og rólega út og augnaráðið hans byrjar að leita að einhverju áhugaverðu í nágrenninu. Það er ekki alltaf auðvelt að skýra það út fyrir fólki sem ekki þekkir, hvernig það er að vera á fjöllum.

    Mér finnst hverjum manni holt að kynnast eigin smæð af og til og það er væntanlega hvergi eins auðvelt og á fjöllum, þar er allt stærra en egó einstaklingsins og oft á tíðum ertu sá eini á staðnum. Stangveiði á fjöllum nýtur sífellt meiri vinsælda, og þá er ég ekki aðeins að tala um Íslands. Á síðustu árum hefur orðið hrein og bein sprenging í hálendisveiði í Skandinavíu og Norður-Ameríku, þ.e. heimsálfunni. Svipaða sögu má segja af Nýja Sjálandi og Tasmaníu þar sem veiðiferðamennska hefur lagst ofan á langa hefð íbúa að fara til fjalla, ráfa um og finna fyrir smæð sinni og kúpla sér algjörlega frá erli hversdagsins. Nú þekki ég ekkert sérstaklega sérstaklega vel til ferðamannaiðnaðarins á Nýja Sjálandi, en einhver ástæða er fyrir því að ég sé það oftar og oftar að veiðimenn lauma nettum pillum inn í pistla sínar sem hljóma eitthvað á þessa leið; komst því miður ekki að í vatninu, allt frátekið í skálunum, ekki þverfótað fyrir og svo framvegis. Ein hressilegasta athugasemdin sem ég hef séð frá þarlendum veiðimanni var að hann vildi helst stúta farsímum fræga fólksins, það væri þegar nóg af fólki sem asnaðist upp á hálendið til að upplifa Instagram færslur þeirra frægu. Mér varð barasta hugsað til einhvers kanadísks gutta sem velti sér hér um árið í mosanum í Skaftafellssýslunni og asnaðist síðan fram á bjargbrún sem skömmu síðar varð fótum troðin.

    Það fólst ákveðin fró í síðasta sumri fyrir íslendinga eftir nokkur annasöm ár í túrismanum og það gladdi mitt litla hjarta ósegjanlega að sjá og heyra af fleiri innlendum ferðamönnum á fjöllum heldur en mörg undanfarin ár. Afsakið ef einhver á um sárt að binda vegna þess sem heitir í dag tekjufall vegna fækkunar ferðamanna, en kannski þurftu íslendingar einfaldlega á þessari pásu að halda þannig að þeir kæmust að á hálendinu án þess að þurfa að smokra sér í gegnum rútubiðraðir til þess eins að komast út í guðsgræna náttúruna og vera einir með sjálfum sér.

    Fjöldi íslenskra veiðimanna á fjöllum verður seint til þess að yfirfylla hálendið, en það má heldur ekki gleyma því að standa vörð um þessa einstæðu upplifun, ekki drekkja henni í veiðitengdri þjónustu þannig að enginn komist að án þess að þurfa að kaupa þjónustu umfram veiðina sjálfa. Síðasta haust heyrðum við hressilega gagnrýni á afleidda starfsemi tengda laxveiði á íslandi, kvaðir um hitt og þetta sem tengdist laxveiðinni væru orðnar aðalútgjaldaliðurinn, ekki veiðin sjálf. Þetta er ekkert ný gagnrýni og verður háværari eftir því sem fiskunum fækkar á stöng. Hvort þetta breytist eitthvað í sumar, er svo allt annað mál.

    Ég nýti mér veiðitengda þjónustu uppi á hálendinu og kann afskaplega vel að meta hana, greiði fyrir hana með glöðu geði þeim sem leggja það á sig að halda þurrum og notalegum húsum í rekstri í Veiðivötnum, Framvötnum og víðar. Dásamlegasti kosturinn er að ég á völina sjálfur, ég er ekki skuldbundinn til að kaupa neitt annað en það sem ég vil einmitt kaup og þannig vil ég halda því.

  • Heppni að eldast

    6.apríl 2021
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Ég er einn þeirra heppnu og held áfram að eldast og vonandi að þroskast aðeins. Fyrir utan hið augljósa, þ.e. færri hár á höfði, hrukkur og að þau eftirlifandi hár sem enn tolla á höfði mér eru farin að minna töluvert á silfrað Crystal Flash, þá er ég bara nokkuð góður. En áhjákvæmilega er ýmislegt annað sem aldurinn færir manni. Eitt af því er alveg nýtt orðfæri og viðmót sem kemur helst fram þegar ég opna munninn og heyri heyri í gömlum tuðandi karli sem ég kynntist fyrir 20 árum síðan.

    Það hafði einhver góður maður orð á því um daginn í mín eyru að það væri algjör sprengja í nýjungum í fluguveiðinni. Fyrir einhverjum árum síðan hefði ég sperrt eyrun og haft muninn lokaðan, tilbúinn að meðtaka upplýsingar um allar þessar nýjungar, en núna stóð ég mig að því að fussa og sveia í huganum „Nýjungar, þetta er ekkert nýtt, ég man nú þá tíð að …….“ og þar með var gamli tuðandi karlinn mættur.

    Það er allt nýtt fyrir þeim sem sér hlutina í fyrsta skiptið, en það er í raun afar fátt nýtt undir sólinni. Það sem er nýr sannleikur eins, en gamalkunnugt stef í eyrum annars og stundum finnst mér eins og ég sé búinn að heyra voðalega margt áður sem flutt er sem nýjustu fréttir.

    Rétt eins og aðrir veiðimenn, þá þykist ég hafa orðið var við verulega aukinn áhuga á stangveiði síðustu ár, sérstaklega á vatnaveiði. Nú kann einhver mér eldri að segja eitthvað á þá leið að „það hefur alltaf verið aukning í stangveiði“ en fyrir mér eru þetta nýjar fréttir, ekki síst að ég sé fleiri og fleiri laxveiðimenn finna gleðina aftur í silungsveiðinni. Margir þessara veiðimanna hafa ekki snert við litlum púpum eða hefðbundnum votflugum í áratugi og flest allt sem á borð þeirra kemur er nýtt og spennandi, nýjar fréttir.

    „Mikið vildi ég vera með staðkunnugum manni hér sem gæti sagt mér nákvæmlega til hvernig ég á að veiða“ kom úr munni eins sem dreymdi um leiðsögumann sem gæti ljóstrað upp hinni gullnu reglu ákveðins vatns. Mér þótti líklegt að viðkomandi hefði notið óbrigðullar leiðsagnar við ákveðna á nýlega og lifði enn í endurminningunni um það að hafa fengið inn með teskeið hvar, hverju og hvernig hann ætti að kasta. Mér varð hugsað til svona MiB græju eins og Tommy Lee Jones notaði til að þurrka út minni fólks, það væri gott að hafa svona græju stundum til að núllstilla suma veiðimenn, ná þeim niður á lærdómsstigið aftur. Breytileiki vatna eftir árstíma, veðri og tíma sólarhrings er afar mikill og þetta verða menn að læra svolítið sjálfir. Vissulega er hægt að vísa einhverjum á álitlega veiðistaði, en hvernig viðkomandi veiðir verður hann að finna út sjálfur, það sem einum hentar er öðrum fráleitt.

    „Það var ekki fyrr en klukkan varð tvö að ég fékk fisk, virkar þetta vatn ekkert fyrir hádegi?“ var ég eitt sinn spurður. Klukka fisksins er ekki skífa með vísum, hún er miklu stærri og gengur ekki alltaf klukkutímann á 60 mínútum. Sumir dagar að vori byrja snemma með glampandi sól, kannski tilheyrandi snjóbráð sem skilar sér niður í nærliggjandi vatn sem rétt rúmlega 1°C heitt vatn. Þá er e.t.v. ekki mikil von til þess að fiskurinn sæki upp að bakkanum fyrr en líða tekur á daginn. Sama vatn, örfáum dögum síðar getur verið kraumandi í uppitökum frá kl.06:00 til 09:00 að morgni þegar flugan klekst en svo gerist ekkert meira fyrr en húmar að kvöldi og hornsílin fara á stjá.

    „Urriðinn tók Pheasant Tail en vildi ekki Nobbler“ er mjög góð setning og hún þarf alls ekkert að vera eins fjarstæðukennd eins og viðkomandi lét hana hljóma. Við vitum að urriðar eru sérstakir aðdáendur marabou flugna sem sem líkja eftir hornsílum, en þeir borða ýmislegt annað en hornsíli. Raunar er það svo að hornsíli eru yfirleitt ekki nema á bilinu 15 – 30% af fæðu urriðans, bobbar og púpur fylla upp í það sem upp á vantar. Það er því ekkert einkennilegt við það veiða urriða á púpu, en auðvitað er þetta misjafnt eftir vötnum. Þá getur nú verið gott að vera búinn að safna reynslu í sarpinn.

    Ég er ekki viss hvaða viðbrögð ég sýndi við þessu öllu á sínum tíma, en mér þykir ekkert ólíklegt að gamli jálkurinn hafi komið upp í mér og hljómað í það minnsta 20 árum eldri en ég er í raun.

«Fyrri síða
1 2 3 4 5
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2022 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

Hleð athugasemdir...
 

    • Fylgja Fylgja
      • FOS
      • Gakktu í lið með 156 áskrifendum
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Breyta vef
      • Fylgja Fylgja
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar