Flestir veiðimenn eiga sér einhverja uppáhalds græju, flugu eða fatnað. Einn sem ég þekki fer ekki út að veiða öðruvísi en hann sé búinn að spegla sig í bak og fyrir, look‘ið verður að vera í lagi. Ég tek það sérstaklega fram að umræddur veiðimaður er karlmaður, bara til að koma í veg fyrir einhvern leiðinda misskilning. Mig grunar að þessi veiðimaður sé alltaf klæddur í sama vörumerkið, bæði að ofan og neðan, jafnvel innanundir líka. Hann er eiginlega gangandi auglýsing, snyrtilegur og flottur til fara. Annar sem ég þekki er ekki bara trúr ákveðinni stangartegund, hann beinlínis elskar þær allar og er sérstaklega duglegur að mæla með þeim. Á ég eitthvað að nefna þá sem ég þekki og hafa tekið ástfóstri við ákveðið taumaefni eða línu? Ég held að það sé óþarfi, þið þekkið væntanlega einhvern svona veiðimann.
Þessir veiðimenn eru góðir fulltrúar framleiðenda og ég viðurkenni það fúslega að ég legg við hlustir þegar þeir tjá sig og það kemur oft fyrir að ég fer eftir því sem þeir segja. Mér vitandi njóta þeir sem ég hef hér í huga ekki neitt betri kjara hjá verslunum heldur en Pétur eða Páll utan af götunni og þetta ræður töluverðu um það að þegar þeir opna munninn, þá legg ég við hlustir. Ég þekki þessa aðila, þeir veiða af ástríðu fyrir veiðinni sjálfri, eru góðir félagar félaga sinna og þekkja vel til á ýmsum veiðistöðum, hoknir af reynslu.
Nú er ég ekki að gefa í skyn að þeir veiðimenn sem leynt og ljóst eru styrktir til dáða af ákveðnum vörumerkjum eða verslunum séu ekki góðir félagar félaga sinna eða eitthvað slakari veiðimenn. En, því miður tek ég ekki alveg eins mikið mark á svörum þeirra þegar spurt er; Hvaða stöng á ég að fá mér? og svarið er einfaldlega það sama og stendur með myllumerki (#) undir profile myndinni þeirra á Instagram eða Facebook. Svona er ég nú einkennilegur og fer eiginlega ekkert batnandi með aldrinum. Eflaust hef ég farið á mis við eða ekki lagt trúnað á margar góðar ráðleggingar vegna þess að frábær álitsgjafi var á mála hjá einhverju Co. Ltd. eða Inc. Vegna þess að ég trúi því í einlægni að margir álitsgjafar séu vel meinandi og viti í raun sínu viti, þá langar mig til að segja að það sé miður að efasemdir um gildi áhrifavalda hafi verið að færast í aukast síðustu misserin. En því miður þá verða svörtu sauðirnir í hópinum oft til þess að stimpla fjöldann.

Þessar hugleiðingar mínar eiga sér raunar nokkuð langan aðdraganda, ég varð nefnilega fyrir áhrifum af grein sem Ryan Hudson, eigandi Wyoming Fishing Company skrifaði árið 2018 og hefur dregið nokkurn dilk á eftir sér. Það tilfelli sem hann vísaði til var álitshnekkir, ef ekki skellur fyrir tímaritið American Angler og vakti marga til umhugsunar um val styrktaraðila á þeim áhrifavöldum sem þeir hafa valið sér til samstarfs. Eitthvað var líka ýjað að ábyrgð veiðimanna að standa vörð um heilindi sinna félaga. Ég get nú ekki sagt að ég hafi tekið þetta mjög til mín, hef hingað til talið að fávitarnir á netinu (afsakið orðbragðið) dæmi sig sjálfir og ekki endilega þörf á að ég setjist í eitthvert dómarasæti yfir þeim. En, kannski á maður samt að hafa orð á því þegar sami fiskurinn kemur fyrir beint af bakkanum í tvær vikur í röð á samfélagsmiðlum eða tanngarðar veiðimanns læsast um handfangið á taumalausri veiðistönginni sem fangaði trophy fiskinn? Ef ég mætti hafa áhrif á einhvern lesanda, þá mæli ég með að smella á nafn Ryan Hudson og lesa greinina sem nærri setti American Angler á hausinn.