Fyrir utan þá sem hlaupa eftir hrekkjum lómanna þann 1. apríl, þá eru margir sem sjálfviljugir taka upp á því að hlaupa fram á vatns- eða árbakka og bleyta í færi eftir langa bið í dag. Svo eru aðrir sem bíða spenntir eftir því að laus rúmfleti í Veiðivötnum fari í almenna sölu, en gerist einmitt í dag.
Dyggir lesendur muna væntanlega eftir nokkur greinum hér á síðunni frá því fyrir áramót þar sem smá skoðanakönnun FOS.IS um veiði í Vötnunum var rýnd, vonandi til gagns fyrir einhverja. Frá því að þessar greinar komu hér fram, þá hafa nokkrir veiðimenn verið í sambandi og viðrað ýmsar hugmyndir sínar og vangaveltur um Veiðivötnin.
Eitt af því sem velt hefur verið upp eru vangaveltur um minni seiðasleppingar í Vötnunum og samhengi þeirra við aflatölur. FOS.IS lék forvitni á að kanna þetta og lagst var í grúsk í tölur um sleppingar, heildarafla og sleppingar síðustu ára. Nærtækast var að leggjast yfir tölurnar úr Litlasjó, þar sem flestir urriða hafa komið á land síðustu árin.
Hækkun meðalþyngdar ætti að öllu jöfnu að gefa vísbendingar um fækkun einstaklinga sem gæti orsakast af minni sleppingum seiða árin á undan. Meðalþyngd afla í Litlasjó hefur haldist nær óbreytt síðustu fimm árin og er nánast á pari við meðalþyngd áranna 1999 til 2006 eins og sjá má hér að ofan. Ef við bætum tölum um sleppingar inn í línuritið, þá ættum við að sjá einhverja fylgni þar á milli hér að neðan, en því er ekki til að dreifa.
Ef þyngdartopparnir koma fram u.þ.b. 4 árum eftir lægð í sleppingum, þá sjáum við smávægilegan topp 2005 eftir litlar sleppingar 2001, en það vantar þá toppinn 2007 sem hefði átt að koma eftir litlar sleppingar 2003. Toppurinn 2014 kemur þó nær á pari við litlar sleppingar 2009 og 2010. Meðalþyngd 2016 – 2018 eru þó ekki í neinu samhengi við sleppingar 2012 – 2014.
Við fyrstu sýn virðist þó vera aðeins meiri fylgni milli afla og sleppinga í Litlasjó, en þegar nánar er rýnt í tölurnar þá eru töluverð frávik þarna í milli líka.
Oft hefur verið talað um náttúrulegar sveiflur í náttúrunni sem verða á sjö til níu ára fresti, en þær eru vandfundnar í þessum tölum. Mögulega liggur hér ekki nægjanlega langt tímabil til grundvallar eða við erum einfaldlega að horfa á eitthvað sem við skiljum ekki.
Senda ábendingu