Flýtileiðir

Draumalíf

Á þessum árstíma lifa margir veiðimenn einhvers konar draumalífi, láta sig dreyma um veiðina í báðar áttir á dagatalinu. Mörgum verður hugsað til veiðinnar síðasta sumar, öðrum verður hugsað til næsta sumars og setja sér háleit markmið. Þá sem detta niður í hnýtingar og setja í einhverja nýja flugu, dreymir líka næsta sumar, suma ósjálfrátt en aðra meðvitað því nú skal hnýta fluguna sem verður game changer næsta sumars. Svo eru þeir til sem dreymir draumalífið, ég er þar á meðal. Draumalífið mitt er samt beiskju og öfund blandið.

Tærnar við íslenskt fjallavatn – Samsett mynd

Á sumrin set ég gjarnan tærnar upp í loft við fjallavatn á Íslandi, nýt þess að heyra í engu nema náttúrunni í góðra vina hópi, baða flugur og nýt þess einfaldlega að vera til. Þegar tekur að haustar á Íslandi og veiðin fer að dala, þá fæ ég hin og þessi skilaboð að sunnan, veiðitímabilið er að hefjast á Nýja Sjálandi. Þá fer mig að dreyma tærnar mínar upp í loft á allt öðrum stað.

Tærnar við nýsjálenskt fjallavatn – Samsett mynd

Þó það sé yfirleitt alltaf í nógu að snúast hérna heima á Íslandi yfir vetrarmánuðina, þá geta þessir mánuðir stundum verið ótrúlega lengi að líða. Það styttir vitaskuld biðina þegar maður fær skilaboð frá nýsjálenskum veiðimönnum sem eru að njóta sumarsins þarna hinumegin á kúlunni okkar. Ég þori alveg að viðurkenna að stundum grípur samt um sig smá öfund eða afbrýðisemi innra með mér þegar menn státa sig af hinum eða þessum veiðitúr á meðan ég sit hérna heima og veturinn hamast á litlu veiðibakteríuna mína.

Haustið og það sem af er vetrar hefur verið mörgum veiðimanninum erfitt vegna þessarar skollans veiru sem gengur hér yfir. Sumarið varð heldur endasleppt hjá þeim sem ekki treystu sér í fjölmennari veiðihús s.l. haust og ekki bætti úr skák þegar veiruskollinn sótti í sig veðrið og setti vetrarstarf og samkomur veiðimanna úr skorðum. Auðvitað ber maður þá von í brjósti að þessi óáran gangi yfir og haldist í lægð þannig að maður getir farið að hitta mann og annan, þó ekki væri nema til þess að komast aðeins í samband í gegnum eitthvað annað en mynd- eða hljóðsamskipti í gegnum tölvuna. Þangað til verður maður bara að láta sig dreyma draumalandið, annað hvort þetta hérna eða hinu megin á hnettinum.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com