Það kann að hljóma eins og ég sé einhver mannafæla, sífellt talandi um þessa dásemd að vera einn (eða í smærri hópum) uppi á hálendi í veiði. Já, eflaust er ég með snert af mannfælni, en hjá mér lýsir hún sér ekkert endilega sem óþægindi af því að vera innan um fólk, miklu frekar sem upplifun kosta þess að vera svolítið einn úti í náttúrunni.
Það hefur oft komið hér fram að ég tel það til ótrúlegra forréttinda að vera búsettur á Íslandi þar sem fólksfjöldi er svolítið takmarkaður og þar sem ferkílómetrarnir eru jafn margir pr. haus eins og raun ber vitni. Ég hef fengið að heyra það að við kunnum ekki að meta þau forréttindi að vera ekki öxl í öxl á veiðislóð. Á hálendinu er það ekki vandamál, svona dags dagsdaglega og ef einhver kemur inn á ferkílómeterinn hjá manni, þá hefur maður úr nægum öðrum kílómetrum að velja. Svo er það nú oft þannig að rekist maður á einhvern uppi á hálendi, þá tekur sig gjarnan upp eitthvert spjall og jafnvel samflot út daginn og jafnvel inn í kvöldið þegar á náttstað er komið. Þetta gerist örugglega ekki í fjölmenninu niðri á láglend, það er eins og gríma hversdagsleikans falli þegar uppi á hálendið er komið. Aðilar sem mundu ekki einu sinni kinka kolli til hvors annars á Laugaveginum, taka tal saman, finna sameiginlega þörf til að dásama það að vera til.
Trúlega er það umhverfið, náttúran á hálendinu sem hefur þessi áhrif á fólk, það tengir upp á nýtt og þær tengingar eru miklu sterkari en þær sem myndast í erli hversdagsins. Einstaklingar hverfa inn í borgina og verða í raun ósýnilegir. Einstaklingur getur vissulega horfið á hálendinu, í óeiginlegri merkingu, en náttúran hefur einstakt lag á að draga okkur fram í dagsljósið. Hve oft hefur það ekki komið fyrir að maður fylgir tófu eða mink eftir með augunum og þá fyrst kemur maður auga á næsta veiðimann. Þó auðnin á hálendinu eigi yfirleitt sviðið, þá tekur hún fagnandi aukaleikurum úr borginni og leyfir þeim að vera þátttakendur í hápunkti sýningarinnar.
Veiðimenn miða sinn hápunkt sýningarinnar oft við fisk á land. En það er svo einkennilegt að hápunkturinn færist einhverra hluta til á skalanum yfir fjölda eða stærð fiska þegar upp á hálendið er komið. Vissulega eru þeir til sem fyllast eldmóð og telja afla í fjölda og kílóum, en oftar en ekki þá breytist þetta viðmið á hálendinu. Einn fiskur úr lítt snortnu fjallavatni verður stundum á við 10 úr öðrum vötnum og stærðin þarf ekki alltaf að verða talin í tugum punda til að vekja lotningu. Sumarið uppi á hálendinu er töluvert skemmra heldur en niðri á láglendi og það síast fljótlega inn hjá veiðimönnum að hver veiddur fiskur hefur þurft að hafa aðeins meira fyrir vextinum þar heldur en víða annars staðar.
Allt þetta spilar inn í upplifun veiðimanna af hálendisveiði og eitt besta dæmi þessa eru Veiðivötn á Landmannaafrétti. Veiðimenn taka ástfóstrið við svæðið, taka nærri sér þegar aflabrestur verður og leggjast í spádóma og spekúlasjónir um ástæður og orsakir. Sumir fyllast efasemdum um að þeir staðfesti dagana sína í Vötnunum næsta sumar, en þegar kemur að eindaga, þá greiða menn sína daga og fyllast vonum þess að næsta sumar verði einfaldlega sumarið þegar allt gerist. Annað slagið gengur það eftir og enginn kannast lengur við að hafa haft efasemdir. Svona er aðdráttarafl hálendisins og það ætti enginn að efast um mátt þess og megin. Hálendið sleppir ekki svo glatt þeim sem það hefur náð tangarhaldi á.
Senda ábendingu