Í orðabókum er töfralyf skilgreint sem eitthvað sem hefur undraverð áhrif. Skyld orð eru gefin upp; kraftaverkalyf, töframeðal, galdraformúla, undralyf, kynjalyf. Það er eitthvað mjög ótrúverðugt við öll þessi orð og ósjálfrátt leitar hugurinn til snákaolíu sem hefur verið notað til að lýsa gagnslausum eða jafnvel skaðlegum meðulum.
Í besta falli byrja ég þessar hugleiðingar með efasemdir í huga, ef ekki beinlínis neikvæður. Þetta orð rakst ég á í frétt frá því síðla á síðustu öld þar sem því var slengt fram sem fullyrðingu, svarinu eina við minnkandi laxagengd í ám á Íslandi. Spurningamerkið í fyrirsögninni er töluvert yngra og varð eiginlega til í beinni útsendingu s.l. haust á meðan á fundi Sporðakasta stóð um stöðu laxveiðinnar á Íslandi. Þar sem ég er einn þeirra sem verð að ná endum saman þegar mig brestur minni eða spurningar eru látnar hanga í lausu lofti, þá lagðist ég í grúsk. Til að ná þessum endum saman, þá leiddist ég út og suður og kippti með mér töluverðu efni sem ég reyndi að tengja saman í kollinum á einhvern vitrænan hátt.
Flestar ár og vötn eru í raun lokuð lífkerfi sem verða helst fyrir áhrifum veðurfars og náttúru almennt. Reyndar langar mig til að bæta hér inn einum stærsta áhrifavaldinum sem er mannskepnan, en látum hana liggja á milli hluta til að byrja með. Til að meta hæfni ákveðins svæðis er, eða öllu heldur ætti, að framkvæma svokallað búsvæðamat. Búsvæðamat er unnið með samræmdum hætti samkvæmt verklýsingu Hafró ( VMST-R/0014 ) og er fyrst og fremst ætlað til að meta hvernig viðkomandi svæði hentar t.d. laxi og silungi til uppvaxtar. En búsvæðamat nýtist einnig til ýmissa annarra hluta, m.a. til að koma auga á góð búsvæði í ám og vernda þau sérstaklega og vitaskuld til að velja góð búsvæði til seiðasleppinga. Frjósemi vatns og hentug búsvæði hafa augljóslega hve mest áhrif á vöxt og viðgang laxfiska. Ef við líkjum þessu við venjulegt heimilishald, þá er ekki nóg að byggja stórt hús sem rúmar marga einstaklinga, búrið og ísskápurinn þurfa að geyma næga fæðu fyrir alla íbúa hússins. Innkoma heimilisins þarf að nægja til að brauðfæða alla. Eins má ekki gleyma því að aldur fjölskyldumeðlima skiptir miklu máli, því eldra sem heimilisfólk er, því hærri er matarreikningurinn.
Sem sagt, fjöldi og aldur einstaklinga skiptir máli en það gerir einnig stærð einstaklinga og það á við um mannfólk, urriðaseiði, bleikjuseiði og laxaseiði. Framleiðslugeta vatnasvæðis skiptir því alveg jafn miklu máli fyrir lax og silung því laxaseiði þurfa jú líka að nærast eftir að þau klekjast. Víða hefur færst í aukana að stærri seiðum sé sleppt í ár heldur en áður þekktist. Ræður þar mestu að stærri (stálpaðri) seiði eru lífvænlegri heldur en þau smærri. Stærri seiði taka til sín meiri fæðu heldur þau smærri og því ætti að sleppa til muna færri einstaklingum. Sé horft framhjá seiðasleppingum og aðeins reiknað með þeim svæðum þar sem náttúruleg hrygning fer fram, þá skiptir stærð hrygningarfisks líka töluverðu máli. Þar sem áhersla hefur verið lögð á veiða og sleppa, sérstaklega þar sem öllum stærri fiski skal sleppt, þar heggur hve harðast í framleiðslugetu vatnasvæðis. Það hefur lengi verið vitað að stærri laxfiskar framleiða stærri hrogn ( Nikolsky, G.V. 1963. The ecology of fishes ) og gæði hrognanna eru meiri. Stærri hrogn verða til þess að fleiri einstaklingar komast á legg, ungviðinu fjölgar og tekur samsvarandi til sín meiri fæðu. Sem sagt, þar sem sleppingar eru óhóflegar eða hrygningu stýrt ætti að meta stofnstærð ungviðis og bera saman við framleiðslugetu svæðisins. Ef það er ekki gert, þá bera sleppingar seiða og hrygningarfisks ekki tilætlaðan árangur nema til skamms tíma, stofninn er þá einfaldlega orðinn of stór.

Þegar kemur að því að meta stofnstærð hrygningarstofns og nýliðunar er almennt stuðst við tvö mismunandi líkön. Annað líkanið er kennt við Beverton Holt, en hitt Ricker. Bæði þessi líkön gera ráð fyrir að nýliðun aukist með stækkandi hrygningarstofni þar til ákveðnu hámarki er náð. Á þessum tímapunkti skilur á milli þessara líkana. Beverton Holt reiknar með að eftir að hámarki hrygningarstofns sé náð þá fjölgi nýliðum ekkert sökum afráns. Rickers gerir aftur á móti ráð fyrir því að nýliðun dragist saman eftir að hámarki sé náð og því meira sem stofninn fari meira yfir hámarkið. Þetta líkan ( Ricker, W.E. 1975. Computation and interpretation of biological statistics of fish populations ) er oftast notað fyrir laxfiska þar sem afkoma nýliða ræðst mest af samkeppni um fæðu og búsvæði. Þess verður jafnframt að geta að nýliðun laxfiska er mjög háð umhverfisþáttum, sér í lagi þeirra laxfiska sem taka mestan sinn vöxt út í sjó. Ofgnótt nýliða í ám og vötnum er til lítils ef þeir eru ekki nægjanlega öflugir til að komast slysalaust til sjávar og taka upp breyttar fæðuvenjur. Afföll ofgnóttar eru hlutfallslega miklu meiri í sjó heldur en hjá færri sterkari einstaklingum.
En hvert var þá þetta töfralyf? Jú, þarna var verið að vísa til tvöfaldrar bólusetningar sem átti að redda allri laxagengd á Íslandi; auknar seiðasleppingar og sleppa öllum fiski yfir 80 sm. Með öðrum orðum; fjölga einstaklingum eins og mögulegt væri þannig að hrygningarstofninn stækkaði. Það skyldi þó aldrei vera að menn hafi rekist á skurðpunktinn hans Ricker‘s í einhverjum ám hér á landi fyrir einhverjum árum síðan og laxastofnar séu á niðurleið eftir rauðu línunni?
Mögulega er kominn tími til að endurskoða búsvæðamat einhverra áa eða í það minnsta lesa eldra mat aftur og setja það í samhengi við breyttar venjur og aðferðir við fiskirækt; stærri eða fleiri seiði. Fyrir nördana er síðan hægt að taka snúning á því að Ricker á ekki aðeins við stofnstærð í ferskvatni. Stofnstærð og fæðuþörf í sjó fylgir þessu líkani einnig og einmitt þar tekur laxinn út margfaldan vöxt sinn á lífsleiðinni. Kannski glugga ég síðar í samhengi fæðuframboðs í sjó og fjölda seiðasleppinga í ám, sjáum til.