Markmið Febrúarflugna

Frá upphafi hefur markmið þessa átaks verið að hvetja til fluguhnýtinga og veita hnýturum tækifæri til að sækja sér leiðsögn reyndari hnýtara eða álits þeirra á verkum sínum.

Átakið hefur alla tíð fylgt sama sniði og vefurinn FOS.IS, þ.e. rekið án þátttökugjalds með það fyrst og fremst að markmiði að svala forvitni þeirra sem áhuga hafa á flugum og stangveiði almennt.

Hvernig átakið fer fram

Það eina sem þarf til að taka þátt í átakinu er að skrá sig í hópinn Febrúarflugur á Facebook, smella einni mynd af flugu eða flugum sem hnýttar eru í mánuðinum og birta í hópinn. Það felst enginn skuldbinding í því að taka þátt, hver og einn ræður því hvort hann setur inn eina flugu eða margar eða fylgist bara með því sem aðrir eru að hnýta.

Febrúarflugur 2020

Að þessu sinni langar FOS.IS til að hvetja stangaveiðifélög og hnýtingarhópa til að taka virkan þátt í átakinu. Einfaldasta leiðin er að nota s.k. hastag (#) til að merkja sitt innlegg ákveðnu félagi eða hópi. Þau félög eða hópar sem tök hafa á, gætu einnig staðið fyrir samkomu þar sem aðildarfélagar kæmu saman, hnýttu flugur eða nytu leiðsagnar og/eða fræðslu um fluguhnýtingar. Þeim félögum og hópum sem hug hafa á að koma slíkum samkomum á framfæri við meðlimi Febrúarflugna er bent á að senda okkur skilaboð með því að smella hérna eða á Fésbókarsíðu FOS.

Saga Febrúarflugna

Árið 2014 stofnaði FOS.IS til viðburðar á Facebook þar sem lesendur vefsins voru hvattir til að birta myndir af þeim flugum sem þeir voru að hnýta í Febrúar. Undirtektir lesenda voru slíkar að árið á eftir var viðburðurinn opinn öllum og óx hann verulega að umfangi og ljóst varð að ótímabærar frásagnir af dalandi áhuga á fluguhnýtingum voru stórlega ýktar.

Jafn og öruggur vöxtur hefur verið í þessu litla átaki frá þessum sokkabandsárum og nú er svo komið að hátt í 400 hnýtarar og áhugamenn um flugur og fluguhnýtingar eru í hópinum á Facebook, auk þeirra tæplega 2.000 fylgjenda sem eru að FOS.IS