Markmið Febrúarflugna

Frá upphafi hefur markmið þessa átaks verið að hvetja til fluguhnýtinga og veita hnýturum tækifæri til að sækja sér leiðsögn reyndari hnýtara eða álits þeirra á verkum sínum.

Átakið hefur alla tíð fylgt sama sniði og vefurinn FOS.IS, þ.e. rekið án þátttökugjalds með það fyrst og fremst að markmiði að svala forvitni þeirra sem áhuga hafa á flugum og stangveiði almennt.

Saga Febrúarflugna

Árið 2014 efndi FOS.IS til viðburðar á Facebook þar sem lesendur vefsins voru hvattir til að birta myndir af þeim flugum sem þeir voru að hnýta í Febrúar. Undirtektir lesenda voru slíkar að árið á eftir var viðburðurinn opinn öllum og óx hann verulega að umfangi og ljóst varð að ótímabærar frásagnir af dalandi áhuga á fluguhnýtingum voru stórlega ýktar.

Jafn og öruggur vöxtur hefur verið í þessu litla átaki frá þessum sokkabandsárum og nú er svo komið að rúmlega 950 hnýtarar og áhugamenn um flugur og fluguhnýtingar eru í hópinum á Facebook, auk þeirra þúsunda sem fylgja FOS.IS

Febrúarflugur 2021

Eftir frábært ár 2020 voru væntingar hófstilltar þegar átakið hóf göngu sína þann 1. febrúar 2021. Fljótlega var þó ljóst að áhugi á átakinu var jafnvel meiri en árið á undan og þátttakendum fjölgaði ört fyrstu vikuna í febrúar. Þegar yfir lauk, voru meðlimir Febrúarflugna orðnir 950 þegar því lauk á miðnætti 28. febrúar. Af þessum meðlimum settu 186 hnýtarar auk 6 aðila á Instagram inn 1430 flugur undir merkjum Febrúarflugna.

Átakið hefur alla tíð notið mikils velvilja verslana og veiðileyfasala og það brást ekki árið 2021. Ómetanlegur stuðningu og velvild gerði FOS.IS kleyft að veita 27 heppnum hnýturum viðurkenningu fyrir þátttökuna.

FOS.IS er þegar farið að láta sig dreyma um eitthvað nýtt og skemmtilegt til að gera í febrúar 2022, draumarnir eru e.t.v. ekki allir jafn rausnsæir, en þannig eru draumar veiðimanna stundum og hver veit nema þeir gangi eftir.

Smellið á myndirnar hér að neðan til að skoða allar flugurnar sem bárust viðkomandi ár.