Markmið Febrúarflugna

Frá upphafi hefur markmið þessa átaks verið að hvetja til fluguhnýtinga og veita hnýturum tækifæri til að sækja sér leiðsögn reyndari hnýtara eða álits þeirra á verkum sínum.

Átakið hefur alla tíð fylgt sama sniði og vefurinn FOS.IS, þ.e. rekið án þátttökugjalds með það fyrst og fremst að markmiði að svala forvitni þeirra sem áhuga hafa á flugum og stangveiði almennt.

Saga Febrúarflugna

Árið 2014 efndi FOS.IS til viðburðar á Facebook þar sem lesendur vefsins voru hvattir til að birta myndir af þeim flugum sem þeir voru að hnýta í Febrúar. Undirtektir lesenda voru slíkar að árið á eftir var viðburðurinn opinn öllum og óx hann verulega að umfangi og ljóst varð að ótímabærar frásagnir af dalandi áhuga á fluguhnýtingum voru stórlega ýktar.

Jafn og öruggur vöxtur hefur verið í þessu litla átaki frá þessum sokkabandsárum og nú er svo komið að rúmlega 500 hnýtarar og áhugamenn um flugur og fluguhnýtingar eru í hópinum á Facebook, auk þeirra þúsunda sem fylgja FOS.IS

Febrúarflugur 2020

Febrúarflugur tóku stórt stökk á þróunarbrautinn árið 2020. Þá tókst FOS.IS að virkja SVFR, SVAK, SVFB og Ármenn til að standa fyrir viðburðum í tengslum við átakið og verslanir gengu markvisst til liðs við hnýtara og buðu afslætti af hnýtingarvörum í mánuðinum. Fjölmargir gestir sóttu viðburði mánaðarins sem haldnir voru og oft var mikil stemming á þeim samkomum. Þátttökumet var slegið enn eitt árið, meðlimir í hópinum á Facebook náðu 528 og fjöldi flugna fór fram úr björtustu vonum. Alls bárust 1.040 flugur í mánuðinum undir merkjum Febrúarflugna á Facebook og Instagram, fjöldi sem trúlega verður seint sleginn út. Nánar má fræðast um niðurstöður ársins með því að smella hérna.

Það er óhætt að segja að Febrúarflugur séu vinsælasti veiðitengdi viðburðurinn á netinu, formið og umgjörðin virðist höfða vel til hnýtara á öllum aldri, óháð kynjum eða reynslu af hnýtingum.

Smellið á myndirnar hér að neðan til að skoða allar flugurnar sem bárust viðkomandi ár.