Markmið Febrúarflugna

Frá upphafi hefur markmið þessa átaks verið að hvetja til fluguhnýtinga og veita hnýturum tækifæri til að sækja sér leiðsögn reyndari hnýtara eða álits þeirra á verkum sínum.

Átakið hefur alla tíð fylgt sama sniði og vefurinn FOS.IS, þ.e. rekið án þátttökugjalds með það fyrst og fremst að markmiði að svala forvitni þeirra sem áhuga hafa á flugum og stangveiði almennt.

Hvernig átakið fer fram

Það eina sem þarf til að taka þátt í átakinu er að skrá sig í hópinn Febrúarflugur á Facebook, smella einni mynd af flugu eða flugum sem hnýttar eru í mánuðinum og birta í hópinn. Það felst enginn skuldbinding í því að taka þátt, hver og einn ræður því hvort hann setur inn eina flugu eða margar eða fylgist bara með því sem aðrir eru að hnýta.

Saga Febrúarflugna

Árið 2014 stofnaði FOS.IS til viðburðar á Facebook þar sem lesendur vefsins voru hvattir til að birta myndir af þeim flugum sem þeir voru að hnýta í Febrúar. Undirtektir lesenda voru slíkar að árið á eftir var viðburðurinn opinn öllum og óx hann verulega að umfangi og ljóst varð að ótímabærar frásagnir af dalandi áhuga á fluguhnýtingum voru stórlega ýktar.

Ákveðin kaflaskil urðu 2016 þegar FOS.IS fékk afnot af félagsheimili Ármanna eitt kvöld í lok febrúar og veitti heppnum hnýturum viðurkenningar fyrir framlag sitt það árið. Það var síðan árið 2017 að boðað var til vikulegra hnýtingarkvölda Febrúarflugna og það kom skemmtilega á óvart að gestir fylltu félagsheimili Ármanna í fjórgang það ár.

Árið 2018 óx átakinu enn ásmegin og stofnaður var opinn hópur á Facebook fyrir þátttakendur þar sem þeir birtu myndir af yfir 500 flugum sem þeim hnýttu í mánuðinum og skiptust á hugmyndum og ráðleggingum. Jafnframt var þekktum hnýturum boðið að sýna flugur sínar og handbragð á mánudagskvöldunum í félagsheimili Ármanna og nýttu margir sér þetta kærkomna tækifæri til að virða handbragð þessara hnýtara fyrir sér, milliliðalaust.