Ég væri að ljúga ef ég segði að fjöldi manna spyrji mig hvers vegna ég hafi fyrir því að þeytast upp á hálendi til að veiða þegar næsta vatn er innan við 10 mín. akstur frá heimili mínu, en það hefur nú samt komið fyrir. Þegar svo ber undir þyl ég þessa venjulegu rullu um náttúrufegurð og friðsæld fjallamennskunnar alveg þangað til ég heyri sjálfan mig fara með frasa sem allir hafa heyrt. Stundum hætti ég reyndar áður en kemur að því að frasarnir taka völdin, einkum þegar ég sé áhuga spyrjandans fjara hægt og rólega út og augnaráðið hans byrjar að leita að einhverju áhugaverðu í nágrenninu. Það er ekki alltaf auðvelt að skýra það út fyrir fólki sem ekki þekkir, hvernig það er að vera á fjöllum.
Mér finnst hverjum manni holt að kynnast eigin smæð af og til og það er væntanlega hvergi eins auðvelt og á fjöllum, þar er allt stærra en egó einstaklingsins og oft á tíðum ertu sá eini á staðnum. Stangveiði á fjöllum nýtur sífellt meiri vinsælda, og þá er ég ekki aðeins að tala um Íslands. Á síðustu árum hefur orðið hrein og bein sprenging í hálendisveiði í Skandinavíu og Norður-Ameríku, þ.e. heimsálfunni. Svipaða sögu má segja af Nýja Sjálandi og Tasmaníu þar sem veiðiferðamennska hefur lagst ofan á langa hefð íbúa að fara til fjalla, ráfa um og finna fyrir smæð sinni og kúpla sér algjörlega frá erli hversdagsins. Nú þekki ég ekkert sérstaklega sérstaklega vel til ferðamannaiðnaðarins á Nýja Sjálandi, en einhver ástæða er fyrir því að ég sé það oftar og oftar að veiðimenn lauma nettum pillum inn í pistla sínar sem hljóma eitthvað á þessa leið; komst því miður ekki að í vatninu, allt frátekið í skálunum, ekki þverfótað fyrir og svo framvegis. Ein hressilegasta athugasemdin sem ég hef séð frá þarlendum veiðimanni var að hann vildi helst stúta farsímum fræga fólksins, það væri þegar nóg af fólki sem asnaðist upp á hálendið til að upplifa Instagram færslur þeirra frægu. Mér varð barasta hugsað til einhvers kanadísks gutta sem velti sér hér um árið í mosanum í Skaftafellssýslunni og asnaðist síðan fram á bjargbrún sem skömmu síðar varð fótum troðin.
Það fólst ákveðin fró í síðasta sumri fyrir íslendinga eftir nokkur annasöm ár í túrismanum og það gladdi mitt litla hjarta ósegjanlega að sjá og heyra af fleiri innlendum ferðamönnum á fjöllum heldur en mörg undanfarin ár. Afsakið ef einhver á um sárt að binda vegna þess sem heitir í dag tekjufall vegna fækkunar ferðamanna, en kannski þurftu íslendingar einfaldlega á þessari pásu að halda þannig að þeir kæmust að á hálendinu án þess að þurfa að smokra sér í gegnum rútubiðraðir til þess eins að komast út í guðsgræna náttúruna og vera einir með sjálfum sér.
Fjöldi íslenskra veiðimanna á fjöllum verður seint til þess að yfirfylla hálendið, en það má heldur ekki gleyma því að standa vörð um þessa einstæðu upplifun, ekki drekkja henni í veiðitengdri þjónustu þannig að enginn komist að án þess að þurfa að kaupa þjónustu umfram veiðina sjálfa. Síðasta haust heyrðum við hressilega gagnrýni á afleidda starfsemi tengda laxveiði á íslandi, kvaðir um hitt og þetta sem tengdist laxveiðinni væru orðnar aðalútgjaldaliðurinn, ekki veiðin sjálf. Þetta er ekkert ný gagnrýni og verður háværari eftir því sem fiskunum fækkar á stöng. Hvort þetta breytist eitthvað í sumar, er svo allt annað mál.
Ég nýti mér veiðitengda þjónustu uppi á hálendinu og kann afskaplega vel að meta hana, greiði fyrir hana með glöðu geði þeim sem leggja það á sig að halda þurrum og notalegum húsum í rekstri í Veiðivötnum, Framvötnum og víðar. Dásamlegasti kosturinn er að ég á völina sjálfur, ég er ekki skuldbundinn til að kaupa neitt annað en það sem ég vil einmitt kaup og þannig vil ég halda því.
Senda ábendingu