Flýtileiðir

Heppni að eldast

Ég er einn þeirra heppnu og held áfram að eldast og vonandi að þroskast aðeins. Fyrir utan hið augljósa, þ.e. færri hár á höfði, hrukkur og að þau eftirlifandi hár sem enn tolla á höfði mér eru farin að minna töluvert á silfrað Crystal Flash, þá er ég bara nokkuð góður. En áhjákvæmilega er ýmislegt annað sem aldurinn færir manni. Eitt af því er alveg nýtt orðfæri og viðmót sem kemur helst fram þegar ég opna munninn og heyri heyri í gömlum tuðandi karli sem ég kynntist fyrir 20 árum síðan.

Það hafði einhver góður maður orð á því um daginn í mín eyru að það væri algjör sprengja í nýjungum í fluguveiðinni. Fyrir einhverjum árum síðan hefði ég sperrt eyrun og haft muninn lokaðan, tilbúinn að meðtaka upplýsingar um allar þessar nýjungar, en núna stóð ég mig að því að fussa og sveia í huganum „Nýjungar, þetta er ekkert nýtt, ég man nú þá tíð að …….“ og þar með var gamli tuðandi karlinn mættur.

Það er allt nýtt fyrir þeim sem sér hlutina í fyrsta skiptið, en það er í raun afar fátt nýtt undir sólinni. Það sem er nýr sannleikur eins, en gamalkunnugt stef í eyrum annars og stundum finnst mér eins og ég sé búinn að heyra voðalega margt áður sem flutt er sem nýjustu fréttir.

Rétt eins og aðrir veiðimenn, þá þykist ég hafa orðið var við verulega aukinn áhuga á stangveiði síðustu ár, sérstaklega á vatnaveiði. Nú kann einhver mér eldri að segja eitthvað á þá leið að „það hefur alltaf verið aukning í stangveiði“ en fyrir mér eru þetta nýjar fréttir, ekki síst að ég sé fleiri og fleiri laxveiðimenn finna gleðina aftur í silungsveiðinni. Margir þessara veiðimanna hafa ekki snert við litlum púpum eða hefðbundnum votflugum í áratugi og flest allt sem á borð þeirra kemur er nýtt og spennandi, nýjar fréttir.

„Mikið vildi ég vera með staðkunnugum manni hér sem gæti sagt mér nákvæmlega til hvernig ég á að veiða“ kom úr munni eins sem dreymdi um leiðsögumann sem gæti ljóstrað upp hinni gullnu reglu ákveðins vatns. Mér þótti líklegt að viðkomandi hefði notið óbrigðullar leiðsagnar við ákveðna á nýlega og lifði enn í endurminningunni um það að hafa fengið inn með teskeið hvar, hverju og hvernig hann ætti að kasta. Mér varð hugsað til svona MiB græju eins og Tommy Lee Jones notaði til að þurrka út minni fólks, það væri gott að hafa svona græju stundum til að núllstilla suma veiðimenn, ná þeim niður á lærdómsstigið aftur. Breytileiki vatna eftir árstíma, veðri og tíma sólarhrings er afar mikill og þetta verða menn að læra svolítið sjálfir. Vissulega er hægt að vísa einhverjum á álitlega veiðistaði, en hvernig viðkomandi veiðir verður hann að finna út sjálfur, það sem einum hentar er öðrum fráleitt.

„Það var ekki fyrr en klukkan varð tvö að ég fékk fisk, virkar þetta vatn ekkert fyrir hádegi?“ var ég eitt sinn spurður. Klukka fisksins er ekki skífa með vísum, hún er miklu stærri og gengur ekki alltaf klukkutímann á 60 mínútum. Sumir dagar að vori byrja snemma með glampandi sól, kannski tilheyrandi snjóbráð sem skilar sér niður í nærliggjandi vatn sem rétt rúmlega 1°C heitt vatn. Þá er e.t.v. ekki mikil von til þess að fiskurinn sæki upp að bakkanum fyrr en líða tekur á daginn. Sama vatn, örfáum dögum síðar getur verið kraumandi í uppitökum frá kl.06:00 til 09:00 að morgni þegar flugan klekst en svo gerist ekkert meira fyrr en húmar að kvöldi og hornsílin fara á stjá.

„Urriðinn tók Pheasant Tail en vildi ekki Nobbler“ er mjög góð setning og hún þarf alls ekkert að vera eins fjarstæðukennd eins og viðkomandi lét hana hljóma. Við vitum að urriðar eru sérstakir aðdáendur marabou flugna sem sem líkja eftir hornsílum, en þeir borða ýmislegt annað en hornsíli. Raunar er það svo að hornsíli eru yfirleitt ekki nema á bilinu 15 – 30% af fæðu urriðans, bobbar og púpur fylla upp í það sem upp á vantar. Það er því ekkert einkennilegt við það veiða urriða á púpu, en auðvitað er þetta misjafnt eftir vötnum. Þá getur nú verið gott að vera búinn að safna reynslu í sarpinn.

Ég er ekki viss hvaða viðbrögð ég sýndi við þessu öllu á sínum tíma, en mér þykir ekkert ólíklegt að gamli jálkurinn hafi komið upp í mér og hljómað í það minnsta 20 árum eldri en ég er í raun.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com