Kannski get ég að einhverju leiti sjálfum mér um kennt, en þegar kreppir að í laxveiðinni, þá leita sífellt fleiri og fleiri veiðimenn í vatnaveiðina. Sumir þessara veiðimanna hafa ekki snert á silungsveiði í fjölda ára og ég hef stundum grínast með það að þessir veiðimenn séu í afturbata. Ég veit að þetta er ljótt að grínast með en stundum er svartasti húmorinn einfaldlega sá sem segir mest, þessi hárbeitta lína sem liggur á milli þess sem er of eða þess sem segja má.
Ég var hér um daginn, kannski í síðustu eða þar síðustu viku, með greinarstúf sem ég vann upp úr nokkrum gullkornum sem ég hef heyrt á bakkanum síðustu sumur. Það er aldrei að vita nema einhverjir hafi borið kennsl á sjálfa sig þarna, en trúið mér, það var ekki einhver einn sem átti það sem ég vitnaði til, þið voru nokkrir sem áttuð kveikjurnar að þeirri grein.
Til að bæta gráu ofan á svart þá hef ég punktað hjá mér nokkur atriði sem ég hef séð að bæði afturbata- og nýir veiðimenn eiga sameiginlegt þegar þeir smella saman við vatnaveiðina.
Eitt af því sem ég hef alveg tekið eftir eru þessar rosalegu pælingar um allt og ekki neitt sem veiðimenn detta niður í. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst þetta um að veiða og njóta, ekki ofhugsa eða vanda sig út fyrir öll skynsemismörk þannig að veiðimaðurinn looki vel á samfélagsmiðlum. Slakið á og hættið að ofhugsa allt mögulegt og umfram allt, það þarf enginn að kunna allt á veiðistað, þú hefur nægan tíma næsta vetur til að velta þér upp úr mistökum sumarsins og finna lagfærslur á eigin breiskleika.
Glysgirni er eitthvað sem ég datt alveg á bólakaf í á mínum fyrstu árum. Síðan rann aðeins af mér og ég fór að spá meira í einfaldleika, liti og sköpulag fluga sem ég sá að líktu eftir fæðunni sem fiskurinn sækir í. Mikið af þeim flugum sem ganga í augun á veiðimönnum eru beinlínis fjarstæðukenndar í augum fisksins. Ég held að þetta heiti back to the basics upp á enska tungu.
Besta afsökun sem ég hef fundið fyrir sjálfan mig er að það fæðist enginn fullkominn kastari, þetta lærist smátt og smátt. Sumir þurfa hjálp við þetta, misjafnlega mikla, en örugglega einhverja leiðsögn, en það er algjör óþarfi að vera með 40 feta köstin á tæru í fyrstu ferð. Farðu þér aðeins hægar og lærðu að setja fluguna niður innan við 50 sm frá staðnum sem þú sást fyrir þér, stutt og nákvæmt er oft betra heldur en langt og víðsvegar. Og jafnvel þótt þú æfir þig á veiðislóð, takir stutta spilið fram yfir lengdarköstin, þá gerir enginn alvöru veiðimaður grín að þér.
Ég vona að enginn taki þessum hugrenningum mínum og orðaleikjum illa, þetta er ekki illa meint og helst punktað niður fyrir sjálfan mig, kannski einhverja fleiri.
Senda ábendingu