Stangveiði er aðeins ein af mörgum leiðum til að njóta útiveru og nándar við náttúruna. Það gefur augaleið að veiðin sjálf á sér stað utandyra, en það er svo margt annað sem getur fylgt stangveiðinni sem á sér ekki stað utandyra. Innivera er líka ágæt og ef þú ert forfallinn veiðimaður eða bara innipúki inni við beinið, þá getur þú sökkt þér enn frekar niður í stangveiðina og sinnt henni utan veiðitímans með virkum hætti.
Einfaldasta leiðin til að sinna stangveiði utan veiðitíma er að ganga í eitthvert af þeim fjölmörgu veiðifélögum sem eru til staðar. Ég hef kynnst nokkrum afar snjöllum veiðimönnum í heimsóknum mínum til stangaveiðifélaga og minni hópa á liðnum árum, t.d. veiðiklúbba á vinnustöðum, hnýtingarklúbba félagasamtaka o.s.frv. Allt gefur þetta veiðimönnum færi á að hittast utan veiðitíma, mögulega til að skipuleggja komandi veiðiferðir, grúska í veiðitölum eða kynnast nýjum veiðisvæðum með því að skiptast á upplýsingum eða fá til sín í heimsóknir utan hópsins.
Þegar ég lít til baka og rifja upp kynni mín af minni hópum og félagsstarfi, þá standa þau upp úr þar sem blandaður hópur veiðimanna kemur saman. Þó áhugi minn á stangveiði beinist fyrst og fremst að fluguveiði, þá finnst mér frábært að heyra af og kynnast annarri veiði, hvort sem það er spúna- eða beituveiði og svo má ekki gleyma því að sögur af fiski, veiðistöðum og víðernum standa alltaf fyrir sínu, sama hver aðferðin er.
Stóru veiðifélögin hafa vitaskuld burði til að halda úti meiru og öflugara félagsstarfi á vetrum, en það er ekki þar með sagt að minni félög sem e.t.v. telja aðeins nokkra tugi félagsmanna geti ekki haldið úti öflugu starfi þó smærra sé í sniðum. Hún kemur eflaust á óvart, öll sú þekking og færni sem er til staðar innan hópsins ef meðlimum yrði gert kleyft að koma fram og segja frá. Mögulega þyrftu einhverjir smá hvatningu og aðstoð við að forma efnið, koma því t.d. á glærur eða í texta, en til þess eru örugglega einhverjir félagar reiðubúnir að aðstoða við án þess að yfirtaka kynninguna. Ég má til með að nefna þetta með yfirtökuna sérstaklega því ég hef setið kynningu þar sem aðstoðarmaðurinn beinlínis yfirtók efnið þannig að eiginlegur höfundur þess fór í baklás og hefur vart opnað munninn síðan. Ég reyndar náði viðkomandi á eintal síðar og mikið rosalega fóru fundargestir mikils á mis vegna þessarar yfirtöku.
Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, þá taka veiðimenn sig mismunandi alvarlega og það er vel. Háalvarlegir fyrirlestrar um vaxtarskilyrði fiska, aflatölur og dómsdagsspár eru ekki alveg til þess fallnar að trekkja að. Hafði léttleika í öndvegi og áhugavert umtalsefni. Já, ekki gleyma því að opna á samtalið manna í millum, undir kynningunni eða í lokinn, þetta er jú félagsskapur.
Framundan er langur íslenskur vetur eftir sérlega félagslega erfið misseri vegna þessarar óværu sem hefur hrjáð okkur. Eins og útlitið er í dag, þá er lag til að setja saman dagskrá fyrir veturinn, hún þarf ekki að vera öflug eða margbrotinn, en ég held að veiðimönnum veiti ekkert af því að koma sama, augliti til auglitis, skiptast á hryllings- og hetjusögum sumarsins eða kynnast einhverju nýju í veiðinni, af nógu er að taka.
Senda ábendingu