Ég strengi aldrei áramótaheit, en ég set mér reglulega markmið og þá helst í tengslum við áhugamál eða vinnu. Þessi markmið setja ránna í ákveðna hæð og svo tek ég tilhlaup. Því er eins farið með mig og nokkra aðra, að stundum vill það taka nokkurn tíma að hefja atrennuna. Æ, ég er svo upptekinn núna. Hva, það er nægur tími, nota þær ekkert fyrr en í vor / sumar / næsta haust. Já, ég er að tala um allar flugurnar sem mig langar til að hnýta og vil eiga tilbúnar fyrir fyrstu veiðiferðina í apríl.
Það eru vissulega til þeir veiðimenn sem hnýta allan ársins hring, en ég hnýti helst á veturna og gjarnan byrja ég ekki fyrr en í febrúar, stundum mars og það kemur jafnvel fyrir að ég hnýti ekkert fyrr en í apríl. Þessar síðbúnu hnýtingar í apríl vilja oft einkennast af einhverju stresskasti, stutt í fyrstu ferð og þá verða fæstar af þeim flugum sem mig langaði til að hnýta fyrir valinu.
Markmið haustsins er; að byrja að hnýta fyrr í vetur og ekkert vera að taka einhverjar nýjar inn í prógrammið fyrr en ég er búinn að hnýta þær hefðbundnu. Þetta síðasta ætti að hvetja mig til verka því mér finnst einstaklega gaman að hnýta nýjar flugur, þ.e. flugur sem ég hef ekki prófað áður. Hvort ég prófi þær síðan í veiði er allt önnur saga og hefur verið sögð hér áður, oft. Þetta að klára þær hefðbundnu fyrst er svona taktík eins og maður
Fyrsta skrefið er náttúrulega að taka til í hnýtingadótinu. Ég bara skil ekkert í því hvernig stendur á því að hnýtingarhornið mitt er alltaf í drasli. Það hlýtur bara einhver að laumast þangað inn og rusla til, rugla boxum og pokum í hillum þannig að ekkert er á sínum stað og ekkert finnst þegar til þess á að taka. Það er margt skemmtilegt við að taka til í hnýtingadótinu. Fyrir það fyrsta, þá finnur maður svo margt sem maður var alveg búinn að steingleyma að maður hafði keypt þegar maður rétt aðeins kíkti inn í búðina. Svo er það þetta með innkaupalistann. Vá, hvað það er gaman að finna hálftómt kefli eða rétt aðeins botnfylli í einhverjum poka eða boxi, þetta þarf að fara á innkaupalistann. En það er líka ýmislegt neyðarlegt sem kemur upp úr krafsinu þegar tekið er til. Af hverju ætli ég eigi allt í einu fimm poka af peacock herl, alla opnaða en nær alla fulla ennþá? Ég bara skil þetta ekki.
Svo fer maður með innkaupalistann í búðina. Mér liggur við að skrifa búðina með stóru Bjéi, veiðibúðir ætti alltaf að skrifa með stóru Bjéi, þær eru svo mikið aðal. Ef svo ólíklega vill til að eitthvað það sem er á innkaupalistanum er ekki til, þá verður maður að bíða og kíkja aftur þegar varan er komin. Kannski þarf maður að fara nokkrum sinnum í búðina og athuga hvort þetta sé komið og þá gæti eitthvað annað skemmtilegt borið fyrir augu sem gott væri að eiga. Þegar svo allt efni er loksins komið, þ.e. það sem var á upprunalega innkaupalistanum, þá gæti maður allt eins þurft að laga aftur til í hnýtingarhorninu til að koma öllu skemmtilega efninu fyrir. Það þýðir nefnilega ekkert að byrja að hnýta fyrr en allt efnið er komið á sinn stað.
Á þessum C-vítans tímum getur biðin eftir hnýtingarefni verið töluverð. Mér skilst að erlendar hænur séu oft í sóttkví og þori ekki að fella fjaðrir af ótta við að sýkjast af einhverri veiru og spunarokkar hnýtingaþráðar eru víst þagnaðir vegna skorts á hraustu vinnuafli. Skyndilega getur því allt eins verið komið að jólum og þá þarf maður að huga að jólagjöfum sem passa á listana (innkaupalistann fyrir veiðifélagann og óskalistann). Alla lista skyldi íhuga vandlega áður en þeir eru birtir, þetta getur tekið drjúga stund.
Eftir jól er maður síðan alveg örmagna og þarf að hvílast fram að þeim tíma sem sækja þarf um veiðileyfi fyrir næsta sumar. Óhvíldur veiðimaður kaupir stundum tóma vitleysu og það ber að forðast. Eftir skil á vandlega ígrunduðum umsóknum, þá eru þær allt í einu komnar á fullt; Febrúarflugurnar. Þar fær maður nú heldur betur hugmyndir að flugum til að hnýta fyrir næsta sumar og því best er að bíða aðeins fram til 1. mars og sjá þá allar flugurnar sem maður gæti hugsað sér að hnýta og prófa næsta sumar.
Svona geta nú göfugustu markmið horfið eins og dögg fyrir sólu og þegar apríl gengur í garð, þá er maður jafn blankur af flugum eins og venjulega og verður í einhverju stresskasti að hnýta upp í það nauðsynlegasta sem vantar. Hver var að tala um markmið?
Senda ábendingu