Í gegnum tíðina hef ég oft velt því fyrir mér hversu mikilvægt það sé að fylgja uppskrift flugu alveg í þaula. Uppskriftir eru misjafnar, sumar erfast nokkuð nákvæmlega frá höfundi yfir í bók, tímarit eða út á veraldarvefinn, á meðan aðrar eru í skásta falli gott gisk eða hafa þynnst út og aflagast í meðförum hnýtara. Ég tel mig þekkja refilstigu upprunaleitar flugna nokkuð vel og þeim drullupyttum sem víða leynast þegar leitað er að upprunalegri uppskrift. Sjálfur hef ég lent í einhverjum pollum og jafnvel farið með rangt mál í uppskriftum hér á síðunni, en blessunarlega eru góðir lesendur alltaf tilbúnir að benda mér á mistökin sem mér verður á að gera.
Það er ekki bara nördaskapurinn í mér sem hefur orðið til þess að ég ligg eins og ormur á gulli þegar kemur að bókum sem gaukað hefur verið að mér. Reynslan hefur kennt mér, helst vegna erlendra flugna, að leita uppskrifta í eins gömlum bókum og mér er unnt, helst þeim sem höfundur flugunnar hefur ritað sjálfur eða tekið þátt í að rita.
Yngri heimildir eru oft því marki brenndar að sá sem skrásetur uppskriftina hefur farið sínum höndum um innhaldslýsinguna, sem mér í sjálfu sér finnst ekkert óeðlilegt, svo fremi hann geti þess að um persónulegt val hráefnis eða útfærslu sé að ræða. Ef eitthvað er, þá finnst mér það virðingarvottur við flugu og höfund hennar þegar hnýtarar leggja út frá henni, breyta efni eða aðferð að því leiti sem þeim þyki betur fara. Það væri nú dapurlegt ef við stæðum föst í sporum fyrsta hnýtarans og hefðum aldrei breytt út frá uppskrift hans. Þá væri Watson‘s Fancy ennþá bara votfluga og sumar flugur væri hreinlega bannað að hnýta þar sem upprunaleg uppskrift innheldur fjaðrir af alfriðuðum fugli.
En hvenær bregður fluga svo út frá fyrirmyndinni að til verður afbrigði eða jafnvel ný fluga sem gefa ætti sérstakt nafn? Þeir sem hafa fylgst með Febrúarflugum síðustu árin kannast mæta vel við öll þau afbrigði sem hnýtarar senda inn af hinum og þessum flugum. Mér hefur oft fundist margar þeirra skera sig svo frá nafnamóður sinni að þær í raun verðskuldi sérstakt heiti. Svo hafa komið afbrigði af flugu og það eina sem gert hefur verið er að nota Glo brite #5 í staðinn fyrir #7 í einhvern hluta hennar. Er það afbrigði eða bara móðurflugan í nýju litaafbrigði?
Ef ég tek nú þekkta votflugu og hnýti hana úr hanafjöður í stað hænu og hún tekur upp á því að fljóta á yfirborðinu, er ég að hanna nýja flugu og get eignað mér hana? Nei, það væri nú full langt gengið, en það er ekkert sem bannar mér að gera það. Það eina sem gerist er að ég þarf að lifa með því að hafa stolið góðri hugmynd, gert að minni og falið það undir nýju nafni. Ég gæti meira að segja valið henni nafn sem allt önnur fluga er þekkt undir, því nöfn á flugum eru hreint ekki heilög. Það eru t.d. mjög margar dægurflugur sem heita Magic og engin amast við því.
Sjálfur hef ég tekið þekktan hárvæng, einfaldlega sleppt honum og notað þess í stað hanafjaðrir í hefðbundin væng og veitt vel á fluguna eftir sem áður. Ekki dettur mér í hug að endurskýra fluguna, ekki neitt FOS Dentist eða Dentist hanaafbrigði, bara Dentist og hún er með fjaðurvæng. Skárra væri það nú ef maður hrærði í pönnukökur og notaði AB mjólk í stað Súrmjólkur og eftir það hétu þær ekki pönnukökur heldur AB kökur. Og hver segir svo að það eigi að vera Súrmjólk í pönnukökum. Aldrei bakaði mamma mín pönnukökur úr Súrmjólk, en pönnukökur voru það nú samt heillin.
Senda ábendingu