Í þröngum hópi veiðinörda er stundum talað um fimm þroskastig veiðimanna, stundum með glotti á vör og jafnvel einhver nafngreindur og flissað. Best er að setja þann fyrirvara strax að ég þekki nokkra einstaklinga, ekkert endilega veiðimenn, sem hafa sáralítið þroskast frá því þeir voru á gelgjunni og því er alveg eins von á að það finnist háaldraðar gelgjur meðal veiðimanna eins og annars staðar. Eins og annað sem sett hefur verið fram, þá eru ekki allir sammála um ástæður þroska. Sumir segja að reynsla (ástundun) þroski veiðimanninn einna mest á meðan aðrir segja að öldrun hans ráði mestu, alveg óháð því hve duglegur veiðimaður hann sé. Mig grunar að þarna séu menn að rugla saman þroska og færni, þetta fer alls ekki endilega saman.
Fyrsti fiskurinn er stigið þegar veiðimaður hefur himinn höndum tekið þegar fiskur bítur á. Stundum er þetta einfaldlega fyrsti fiskurinn en stundum endurtekur þetta sig nokkrum sinnum á lífsleiðinni; fyrsti á maísbaun, fyrsti á spún, fyrsti á flugu (undirflokkur: fyrsti á eigin flugu). Hvaða afbrigði af fyrsta fiskinum sem þetta er, þá hefur viðkomandi náð ákveðnum toppi á lífsleiðinni og það sést langar leiðir.
Fullt af fiski er mislangt skeið hjá veiðimönnum. Þetta er eiginlega gelgjuskeiðið og það smellur stundum harkalega inn rétt á eftir fyrsta fiskinum og það er mjög misjafnt hve lengi það varir. Eins og ég nefndi hér að framan, þá eru til eilífðargelgjur sem alltaf eru á eftir fullt af fiski, sama hvað, þannig að það er alveg eins víst að þú, lesandi góður, þekkir einhvern þannig. Því miður fylgir þessu stigi oft örlítið dómgreindarleysi, allur fiskur telur, sama hvað hann er lítill. Annars er grunnt á næsta stigi meðal allra þessara fiska, viðkomandi keppist við allt og alla og vill helst ekki aðeins vera með flesta fiska í veiðiferðinni, sá stærsti verður að vera meðal þeirra.
Stórfiskaleikur kviknar stundum án fyrirvara, eiginlega alveg óvart eða með einum fiski meðal margra. Þegar fyrsti stóri fiskurinn hleypur á snærið, þá er eins og magnþörfin hverfi og veiðimaðurinn metur gæði umfram magn. Oft eru gæðin metin í stærð, sem er eiginlega svolítið sérstakt því stór fiskur er ekkert endilega betri matfiskur, en þetta markast náttúrulega af því að ég kýs að éta það sem ég veiði. Eftir stendur að á þessu stigi þykir stærðin skipta máli, en það kemur ekki í veg yfir að gelgjan grípi um sig og veiðimaðurinn verði að landa stærsta fiskinum.
Næsta stig er hreint ekki sjálfgefið og margir veiðimenn þekkja ekkert til þess og vilja því meina að þetta sé ekkert ákveðið stig. Aðrir kannast þó við að hvorki magn eða stærð skipta lengur máli, gjarnan þegar þörf hvoru tveggja hefur verið fullnægt á fyrri stigum. Þá leita menn í að sækja fisk með fyrirhöfn, gjarnan á ókunnar slóðir, þangað sem erfitt er að komast eða ná orðlögðum þverhaus á sitt band. Það er svolítið erfitt að hengja ákveðin frasa á þetta stig, en sumir hafa viljað meina að þetta sé úrvalsdeildin sem segir e.t.v. meira um meðlimina heldur en nokkuð annað.
Ef mér telst rétt til og hef farið nokkurn veginn rétt með þessi stig, þá er komið að fimmta og síðasta stigi þroskaferils veiðimanns. Það eru til skemmtilegar greinar um þetta stig en sumar hverjar eru hálfgerðar minningargreinar um orðlagða veiðimenn þar sem þeir eru hafnir upp til skýjanna sem nánast ómennskir öðlingar. Þeir mæta á veiðistað, setja mögulega ekki einu sinni saman og hafa mesta unun af því að horfa á aðra veiða og samgleðjast innilega þeim veiðimanni sem tekst að glepja fisk. En það er til önnur útgáfa af þessu stigi og það eru einfaldlega þeir veiðimenn sem fá alveg jafn mikið út úr því að vera, hlusta á vatnið eða ekkert, gleyma jafnvel að draga inn af því þeir sjá eitthvað merkilegt í fjarska. Þetta er þeir veiðimenn sem vakna til lífsins þegar einhver fær fisk, taka þátt í gleði annarra og láta sér fátt um finnast ef gelgjan grípur um sig.
Um þennan seinasta flokk er hreint ekki einhugur. Veiðimenn? Eru það ekki þeir sem veiða eða í það minnsta gera tilraun til þess? Jú, jú, þetta er alveg sjónarmið, en ég held samt að sá sem hefur einu sinni hefur fengið stimpilinn veiðimaður losni nú ekki svo glatt við hann og því geti fimmta stigið alveg átt við.
Senda ábendingu