Boltabull

Mér skilst að það sé hreinn ótrúlegur fjöldi fólks sem lifir og hrærist í fótbolta. Virkir iðkendur knattspyrnu eru trúlega rétt innan við 30 þ. manns í dag, voru 25.343 árið 2017 og því telst knattspyrna vera fjölmennasta hreyfing íþróttafólks á landinu. Ekki dettur mér í hug að dissa knattspyrnuiðkendur og áhangendur, ég bara skil ekki hvers vegna ég hef 0% áhuga á þessu sporti. Þess í stað vel ég mér sport sem iðkað er af 80 þ. manns (2017) hér á landi og er ekki viðurkennd íþrótt.

Flest knattspyrnulið eiga sér heimavöll, sumir veiðimenn líka. Stóri munurinn er að knattspyrnumenn keppast við að ná áhorfendum á leiki, en veiðimenn (flestir) kjósa að vera lausir við þá. Hróp og köll, húúú og trommusláttur er ekki sérstaklega vel séð á veiðislóð.

Til að spila fótbolta þarf einn bolta, eitt eða fleiri mörk en notast má við góða bílskúrshurð eða tvo steina við enda grasflatar. Sko, þegar maður fer í veiði þá þarf stöng, línu, hjól, flugur eða annað agn og ýmislegt annað smálegt.

Til að velja um það hvort liðið byrjar með boltann þarf tíkall, en notast má við kóktappa eða eitthvert annað drasl sem henda má í loft upp. Þegar ég byrja leikinn, þá þarf ég að velja mér veiðistað, opna nokkur flugubox og velja úr óteljandi flugum þá einu réttu og rétt eins og fótboltamenn, þá þarf ég að teygja og toga (línu og taum) áður en leikurinn hefst.

Fótboltamönnum þykir ekki verra að vera í þar til gerðum skóm. Ég sé á ráfi mínu um heimasíður íþróttavöruverslana að þær hamast við að telja fótboltafólki trú um að það þurfi par fyrir gras, annað fyrir þétt undirlag og helst innanhússpar líka. Æ, þetta er nú afturför frá minni barnæsku þegar venjulegir strigaskór dugðu. Jú, ég þarf vissulega skófatnað í veiðina, en mér dugir alveg eitt par, sýnist í fljót bragði að þeir séu aðeins eða töluvert dýrari heldur en fótboltaskór, þ.e.a.s. parið.

Eigum við eitthvað að bera saman klæðaburð veiðimanna og fótboltaiðkenda? Veiðimenn hafa lengi legið undir því að líta allir eins út á veiðistað, sami græn/grái gallinn og pollabuxur upp í háls. Þetta hefur verið að breytast, en vissulega eiga veiðimenn langt í land með toppa fótboltatreyjur og búninga. Raunar sé ég oftast þessa vatteruðu fótboltamenn á hliðarlínunni (þjálfarar?) fyrir mér eins og Michelin manninn. Ef þeir væru ekki rækilega merktir sínu liði (hvaða lið er þetta Emirates annars?) þá næði ég ekki að greina þá í sundur. Þennan samanburð er e.t.v. ekkert að marka, ég viðurkenni það, sá þetta bara í einhverjum raunveruleikaþætti í sjónvarpinu um daginn sem þröngvaði sér yfir kvöldfréttirnar mínar.

Já, eigum við að tala um sjónvarpið. Ég er ekki með greidda áskrift að fótboltarásum, bara þennan venjulega heimilispakka með fréttum og Landanum en ég fæ í kaupbæti einhverjar 6 rásir af svona raunveruleikafótboltaþáttum, en ekki eina einustu veiðirás. Svo eru leikararnir í þessum þáttum ekkert sérstaklega góðir, þeir kunna ekki að halda sannfærandi um ökklann eða velta sér grenjandi í grasinu. Má ég þá frekar biðja um svekktan veiðimann að telja upp allar ástæðurnar fyrir lélegu fiskiríi.

Ég er kannski að fikra mig út á hálan ís þegar ég minnist á heilu landsliðinn sem eru í vandræðum vegna ávirðinga um ósæmilega hegðun iðkenda. Í veiðinni hefur það nú ekki verið tiltökumál að strippa eins og brjálæðingur og ég get lofað þér að það kippir sér enginn upp við góða sögu af strippi og það besta, þær koma örugglega ekki á forsíðu slúðurmiðlanna næsta dag.

Guði sé lof, þá blandast þessi áhugamál eitthvað. Ég þekki einn og einn veiðimann sem nennir að sparka í tuðru, en ég þekki fleiri tuðrusparkara sem sækja beinlínis í að veiða og ég skil þá vel. Að komast í veiði og ná bolta á stórkostlegasta þjóðarleikvangi stangveiðimanna, ám og vötnum Íslands, er eitthvað sem Laugardalurinn toppar ekki. Eina sem ég næ ekki alveg utan um er, af hverju er stangveiði ekki viðurkennd íþróttagrein?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.