Einn sér eða í smærri hópum

Fyrirsögn þessa greinarstúfs er fyrir löngu orðinn að frasa, en stendur alltaf fyrir sínu. Ég sjálfur tengi ég vel, líður almennt vel einn sér eða í smærri hópum. Þetta þýðir alls ekki að mér líði illa í stórum hópi eða á mannmörgum stöðum, en þegar ég er í veiði þá sækist ég oftar en ekki eftir því að vera svolítið einn í mínum eigin heimi og einfaldlega njóta þess að vera. Þetta ætti að vera farið að síast inn hjá lesendum, svo oft hef ég komið þessu á framfæri.

Stangveiði er í raun einverusport og hentar sérstaklega vel þeim sem njóta þess að vera einir eða þurfa virkilega að kúpla sér út, vinda ofan af sjálfum sér og tengjast upp á nýtt. Meira að segja í þokkalegum hópi í veiðiferð næst ákveðin einvera, ef hópurinn er réttur, því veiðimenn eru almennt ekkert að kjá framan í hvorn annan í veiði. Þeir miðla upplýsingum, spjalla þegar færi gefst, en meðan einhver er að veiða, þá er hann almennt látinn í friði. Hann skilar sér örugglega inn í spjallið ef hann hefur áhuga á því.

Með árunum hef ég kynnst eða verið meðlimur í sífellt fleiri hópum sem fara saman á veiðislóð. Í mínu tilfelli er það svo að þessir hópar hafa einfaldlega smollið saman eða ekki. Sjálfur held ég að það sé ekki farsælt að reyna að smyrja eða slípa saman veiðihóp. Nú er ég ekki að tala um ólík sjónarmið eða veiðiaðferðir meðlima, heldur karaktera, þeir verða að smella saman. Fjölmennasti hópurinn sem ég hef verið í, hingað til er hópur fólks þar sem engum dettur í hug að agnúast út í veiðiaðferðir, allir sleppa því að predika veiða og sleppa, þetta er hópur þar sem skynsemin ræður.

Veiðihópar eru ekkert öðruvísi heldur en aðrar hjarðir og því þarf meðlimum að líða vel í návist hvers annars því óhjákvæmilega er alltaf eitthvert samneyti í veiðihóp. Að morgni hittist hópurinn og þá geta verið mis-morgunfúlir einstaklingar innan hans sem taka verður tillit til. Sumir virka einfaldlega ekki fyrr en á öðrum eða þriðja kaffibolla og eru ekkert endilega tilbúnir til að kryfja gærdaginn og leggja á ráðin fyrr en að þeim loknum. Æðibunukarlinum gæti þótt það heldur seint í rassinn gripið, hann er kominn í vöðlurnar áður en fyrsti bolli er búinn og mættur á veiðistað áður en bolli tvö er hálfnaður. Ef það er sátt um þetta fyrirkomulag, þá er það vel, en það er hætt við að einhver fái á sig stimpilinn að vera frekjuhundurinn ef hann er alltaf fyrstu niður á bakka eða vera letihaugur ef hann sleppir fyrsta klukkutímanum í veiði.

Það þarf líka að vera gott samkomulag um matmálstíma og ef einhver annar sér um matinn, þá þýðir ekkert að vera gikkurinn í hópinum sem hvorki étur þetta eða hitt. Ég hef verið svo heppinn með þá hópa sem ég hef verið í að samkomulag um matreiðslu er til fyrirmyndar. Alls ekki eins í þeim öllum, en í góðu samkomulagi. Í lengri ferðum er t.d. tilvalið að skipta með sér matreiðslu og frágang eftir sameiginlegar máltíðir, þannig að einn eða tveir sjá um matseldina eitthvert kvöldið og eiga því frí önnur kvöld, morgunmatur og millimál eru á ábyrgð hvers og eins. Í styttri ferðum er sjálfsagt að hver sjái um sig, frjáls mæting í mat og ekkert stress hjá kokkinum hvort allir nái í hús á tilsettum tíma.

Í sumar sem leið var ég svo heppinn að vera nokkrum sinnum í frábærum hópi á veiðislóð sem eiginlega pússaðist saman úr tveimur mismunandi hollum sem við veiðifélagarnir höfum veitt með. Mér fannst þessi hópur virka fullkomlega, fjórir veiðimenn á svipaðri línu sem náðu vel saman, virtu einveruþörf hvers annars, skiptust á upplýsingum og gátu kjaftað hvern annan í hel á kvöldin. Að vísu hélt ég mínu striki og var sá morgunfúli sem þurfti nokkra bolla áður en talfærin fóru í gang, en það slapp allt til vegna þess að einn kom yfirleitt ekki fram fyrr en ilmurinn af bacon og eggjum var orðinn ómótstæðilegur og fram að þeim tíma naut ég umburðalyndis þeirra tveggja sem ótaldir voru og fékk að  vera í morgunfýlunni minni í friði.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com