Flýtileiðir

Bölmóður

Hann er mættur, spámaðurinn Bölmóður úr Tinna bókunum. Ég hef stundum notað þessa persónu sem varúðarmerki í fyrirlestrum sem ég hef haldið hingað og þangað, sérstaklega ef ég er að nálgast eitthvað neikvætt umfjöllunarefni. Síðast í vetur notaði ég Bölmóð þegar ég gerði því skóna að það stefndi í að bleikjan hyrfi úr vötnum á láglendi Íslands innan tíðar. Ég veit alveg upp á mig sökina að tala stundum fjálglega og nota sterk lýsingarorð um ástand eða orsakir hnignunar fiskistofna, en stundum er gott að hafa samhengi orðanna í huga þegar þau eru sögð. Mér skilst að 10.000 ár séu augnablik í hugum jarðfræðinga og sé maður að fjalla um ættfræði bleikjunnar frá lokum ísaldar, þá getur ‘innan tíðar’ verið þó nokkur tími í árum, áratugum eða hundruðum talið.

En, það stendur þó óhaggað í mínum huga að bleikjunni er hætta búin og ef ekkert verður að gert, þá mun hún, fyrr eða síðar snúa endanlega baki við íslenskum vötnum. Okkur, sem höfum fylgst með bleikjustofnum á liðnum áratugum, er ljóst að henni fækkar í mörgum vötnum og í þetta skiptið styðja mjög margar rannsóknir við þetta álit okkar.

Það eru þó alltaf vötn sem eru undantekning frá þessari upplifun eins og til dæmis þau sem hafa haldið hitastigi sínu þrátt fyrir hlýnun jarðar. Vötn sem njóta kaldra linda, vatns sem hefur jafnvel fallið að vetri í formi snjókomu, bráðnað í rólegheitum á heiðum uppi og seytlað þannig annað hvort í gegnum jarðlög eða í lækjum til næstu lægðar þar sem það rennur fram ofan eða neðanjarðar í vatn sem myndast hefur. Verst þykir þó bleikjustofnum þeirra vatna reiða af sem hafa sannanlega hlýnað eða við tvífætlingarnir gert eitthvað það sem hefur haft áhrift á lífríkið, hnekkt á móður náttúru.

Það sem við getur gert á hlut bleikjunnar er ýmislegt. Nefnt hefur verið að einhverjir okkar sjá meiri hag í öðrum fiskum heldur en bleikjunni, friða vinsæla söluvöru sem étur bleikju eða jafnvel plantað frænda þeirra í búsvæði hennar í þeirri von að sá fiskur nái þeim vexti að hægt sé að selja hann, jafnvel nokkrum sinnum á lífsleiðinni.

Svo getum við til dæmis tekið upp á því að leggja veg í sveitinni, að sumarbústaðnum eða næsta bæ, og tekið upp á þeim óskunda í efnishallæri að moka upp botninum í næstu á eða læk án þess að spyrja kóng eða prest leyfis. Það er mjög skjótvirk leið til að hnekkja á einum eða tveimur árgöngum silungs, jafnvel óklöktum árgöngum komandi ára, en að sama skapi ekki vinsælt umræðuefni.

Meira að segja í sjónum er silunginum okkar ekki einu sinni óhætt fyrir strákapörum. Einhverjir okkar hafa komist upp með, jafnvel með leyfi kóngs og prests, að girða af farleiðir bleikju og urriða í sjó með fljótandi drullupollum sem dæla laxalús yfir silunginn í margföldun magni þess sem er eðlilegt er við Íslandsstrendur.

Smá innskot: þau rök að lágur sjávarhiti við stendur landsins takmarki viðkomu laxalúsar stenst ekki skoðun. Jafnvel á köldustu svæðum sjávar við stendur landsins hefur laxalús hefur alltaf verið til staðar og þessir drullupollar fiskeldis gera ekkert annað en fjölga lúsinni.

Já, strákapörum okkar er ekki alls varnað og hann virðist vera nær botnlaus sá brunnur sem ausið er upp úr lélegum hugmyndum sem eiga eftir að koma okkur eða komandi kynslóðum í koll. Er ekki til eitthvert gott spakmæli sem segir manni að ganga vel um það sem okkur var gefið og skila því til komandi kynslóða í jafn góðu eða betra ásigkomulagi heldur en það var okkur fengið?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com