Flestir þekkja grafinn lax á ristuðu brauði með graflaxsósu, herramannsmatur. En það getur verið tómt vesen að borða þetta nema með hníf og gaffli og því verður stundum ekki komið við, sérstaklega í veislu eða kokteilboði þar sem fátt er um hnífapör. Ég hef því tekið grafinn urriða, sneitt hann niður og saxað gróft ofan á þunnar (u.þ.b. 0,5 sm. þykkar) sneiðar af grófu snittubrauði. Hver sneið verður því u.þ.b. tveir munnbitar og ekkert mál að tylla henni við hlið te- eða kaffibollans á undirskálina.

Til að halda örlítilli nýbreytni í þessu, þá hef ég smurt sneiðarnar með Philadelphia Original rjómaosti í stað smjörs eða majónes. Hverri sneið hef ég síðan úthlutað einum vænum dropa af graflaxsósu og ef ég er ekki í mikilli tímaþröng, þá hef ég sett örlítið af steinselju ofaná til skrauts. Vel að merkja, þá er auðvitað líka hægt að útbúa þessar snittur með reyktri bleikju.

Senda ábendingu