Nú er ekki seinna vænna heldur en koma afla sumarsins í gómsæta rétti og gera sér að góðu. Það er alltaf gott að fá grafinn fisk og reyktan ofan á ristað brauð, en það er líka hægt nýta þennan fisk í gómsæta smárétti og það þarf alls ekki að taka langan tíma að útbúa slíka rétti.
Persónulega finnst mér grafinn urriði betri heldur en grafinn lax og þá er ég ekki bara að tala um grafinn eldislax, um þann fisk vil ég helst sem fæst orð hafa. Hér kemur uppskrift að gröfnum urriða sem vafin er upp í hveiti tortillakökur.
Á átta stórar tortillakökur nota ég eina dós af Philadelphia Original rjómaosti sem ég hræri út með einni dós af 18% sýrðum rjóma. Ég kýs að nota óbragðbættan ost þannig að kryddið af urriðanum fái að njóta sín. Urriðan sneiði ég niður í heldur þykkari sneiðar heldur ég nota venjulega á risað brauð, nóg til að ég geti raðað sneiðunum í 5 – 6 raðir á hverja hveitiköku sem smurð hefur verið ríflega með ostinum. Ef þið viljið heldur nota heilhveitikökur, þá mæli ég með því að smyrja örlítið þykkara lagi af osti á hverja köku. Heilhveitikökurnar eru yfirleitt heldur þurrari heldur þær úr hvítu hveiti.

Ég rúlla síðan kökunum þétt upp (gott að nota sushi bambusmottur) og sneiði síðan rúlluna niður í u.þ.b. 1,5 sm. þykkar sneiðar. Það er ekki verra að leyfa óskornum rúllunum að taka sig í kæli yfir nótt, en ekki nauðsynlegt. Þetta er í raun mjög fljótlegt og getur hentað vel þegar óvænta gesti ber að garði. Ég leyfi mér að bæta því við að með þessu er alveg tilvalið að drekka kælt hvítvín eða stinga úr eins og einni dós af ljósum bjór.
Senda ábendingu