Þegar lagt er af stað í veiðiferð er eins gott að vera þokkalega nestaður. Það er aldrei að vita hve langan göngutúr maður þarf að leggja í til að finna fisk og ef maður finnur gjöfulan stað, getur teygst á því að maður tölti til baka.
Orkuríkt nesti er málið og þá koma fyrst upp í huga manns hnetur, þurrkaðir ávextir og fræ í poka. Það er náttúrulega hægt að kaupa svona hnetumix í sjoppum, en það er líka hægt að útbúa þetta sjálfur áður en lagt er af stað. Þá getur maður líka valið eitthvað sem manni finnst gott í blandið. Sem dæmi um svona orkubombu sem setja má í poka er t.d.; kassjúhnetur, jarðhnetur, möndlur, graskersfræ, sesamfræ, döðlur, þurrkaðar apríkósur og rúsínur. Og til að skjóta óvæntum glaðningi í pokann er rétt að setja nokkra mola af suðusúkkulaði með. Stærsti ókosturinn við svona blöndu er að það virðist aldrei vera nóg af henni, þetta á það til að gufa upp í einni eða tveimur kaffipásum, alveg sama hvað maður setur mikið í pokann.
Hnetumix með fræjum og ávöxtum
Ef maður er síðan með kókómjólk í farteskinu eða hitabrúsa og bollasúpu, þá er maður nokkuð vel settur langt frameftir degi, jafnvel langt fram á kvöld og næg orka til staðar til að bera allan aflann til baka.
Hvernig hljómar nú málshátturinn? Gefðu manni fisk og hann verður mettur einn dag, kenndu honum að veiða og hann verður mettur alla ævi. Þegar maður er að meðhöndla íslenskan silung er engin ástæða til að flækja málið. Allt sem þarf er smjör, hvítlaukur og snarpheit panna.
Bestur þykir mér silungurinn þegar hann er steiktur upp úr nógu smjöri með nokkrum sneiðum af hvítlauk og kannski nokkrum sveppum til hliðar. Um leið og smjörið hefur bráðnað eru sveppirnir og hvítlaukssneiðarnar sett út í og þeim leyft að gyllast örlítið. Því næst er flakið af silunginum steikt á holdið í örstutta stund, rétt aðeins þar til það tekur lit. Þá er því snúið snarlega á roðhliðina, hvítlaukurinn lagður ofan á og steikt þangað til maður heldur að fiskurinn eigi 30 sek. eftir, þá er hann tilbúinn. Ef þú bíður í þessar 30 sek. er hann ofsteiktur.
Smjörskeiktur silungur með sveppum og gúrkusalati
Það þarf ekki flókið meðlæti með svona villibráð. Nýjar soðnar kartöflur eru auðvitað frábærar (með smjörbráðinni yfir) en það má líka spara sér suðuna og skera gúrku gróft og skreyta með nokkrum brauðtengingum. Ef þetta er ekki villibráð eins og hún gerist best, þá er hún ekki til.
Mér liggur við að segja að því miður fjaraði áhugi minn á fiski allsnarlega út eftir að hafa unnið í fiskvinnslu sem unglingur. Svo sterkt hefur eimt af þessari ládeyðu að ég legg mér nánast aðeins til munns þann fisk sem ég hef sjálfur veitt og verkað. En einn maður getur vart étið á annað hundrað fiska yfir sumarið og því ferð stór hluti aflans í frystinn til síðari tíma. Töluvert fer í reyk og er deilt þannig með vinum og vandamönnum, annað er eldað eftir hentugleikum. Þannig getur afli sumarsins nýst vel fram undir og rétt framyfir áramótin. Mikið lengur getur maður ekki geymt fisk í frysti án þess að eiga það á hættu að hann skemmist.
Ein er þó sú geymsluaðferð sem ég hef lengi ætlað að prófa og það er þurrkun. Fyrir nokkrum árum gaukaði vinsamlegur veiðimaður að mér þurrkaðri bleikju á bökkum Frostastaðavatns og frá þeim tíma hef ég alltaf ætlað að prófa þetta. Ég efast ekki um að fleiri veiðimenn hafa prófað að þurrka silung og eflaust eru nokkrar aðferðir notaðar, hver hefur sitt lagið á þessu og skiptir væntanlega litlu hvernig þetta er framkvæmt, svo lengi sem útkoman er góð.
Allur ferskvatnsfiskur getur borið með sér sníkjudýr sem geta tekið sér bólfestu í spendýrum og því er rétt að snyrta fiskinn vel og frysta áður en hafist er handa við þurrkun.
Fyrst af öllu útbý ég pækil með 100 gr. af salti í 1,5 ltr. af vatni. Þetta magn dugar ágætlega fyrir u.þ.b. 20 flök af undirmálsfiski, þ.e. fiski undir 500 gr. sem hentar einmitt ágætlega til þurrkunar, jafnt bleikja sem urriði.
Skorið í flökin
Næst tek ég afþýdd flökin og sker þvert á þau inn að roði með u.þ.b. 1,5 sm. millibili. Þetta er gert til þess að fiskurinn þorni hraðar og jafnar. Eftir að öll flökin hafa verið þverskorin og spyrðubönd þrædd í hvert þeirra, læt ég þau liggja í pæklinum í 10 – 15 mín.
Flökin í pækil
Svona rétt á meðan flökin liggja í pæklinum ætla ég að nefna að með því pækla fiskinn verður bragðið af honum skarpara auk þess sem saltið virkar sem rotvörn rétt á meðan fiskurinn nær að þorna. Annar kostur, ekki síðri er að saltið heldur lykt í algjöru lágmarki á meðan á þurrkun stendur, nokkuð sem ég hafði áhyggjur af í byrjun, þar sem ég þurrka fiskinn innandyra.
Komið í þurrk
Til að hengja flökin upp hef ég fest nokkra króka undir hillu við hitaveitugrindina í bílskúrnum þar sem flökin fá að hanga í rúmlega viku eða þar til þau eru þurr í gegn. Sumir þurrka fisk utandyra eða í kaldri útigeymslu en þá verður að gæta þess að fluga komist ekki í fiskinn og því eins gott að velja svalari árstíma. Hitastig hefur auðvitað mikil áhrif á þann tíma sem það tekur að þurrka fiskinn og ekki síður hvort einhver hreyfing sé á loftinu. Staðið, kalt loft verður til þess að þurrkun tekur nokkuð lengri tíma.
Að þurrkun lokinni er það smekksatriði og undir styrkleika tanna komið hvort flökin eru barinn eða neytt sem bitafiskur. Hvort sem verður ofan á þá roðríf ég fiskinn og set í box eða poka og þannig ætti hann að geymast í frysti eins lengi og vill. Reyndar hefur ekkert af þeim fiski sem ég hef þurrkað hingað til náð því að fara í frysti, svo vinsæll hefur hann verið hjá þeim sem hafa smakkað.