Hvernig hljómar nú málshátturinn? Gefðu manni fisk og hann verður mettur einn dag, kenndu honum að veiða og hann verður mettur alla ævi. Þegar maður er að meðhöndla íslenskan silung er engin ástæða til að flækja málið. Allt sem þarf er smjör, hvítlaukur og snarpheit panna.
Bestur þykir mér silungurinn þegar hann er steiktur upp úr nógu smjöri með nokkrum sneiðum af hvítlauk og kannski nokkrum sveppum til hliðar. Um leið og smjörið hefur bráðnað eru sveppirnir og hvítlaukssneiðarnar sett út í og þeim leyft að gyllast örlítið. Því næst er flakið af silunginum steikt á holdið í örstutta stund, rétt aðeins þar til það tekur lit. Þá er því snúið snarlega á roðhliðina, hvítlaukurinn lagður ofan á og steikt þangað til maður heldur að fiskurinn eigi 30 sek. eftir, þá er hann tilbúinn. Ef þú bíður í þessar 30 sek. er hann ofsteiktur.

Það þarf ekki flókið meðlæti með svona villibráð. Nýjar soðnar kartöflur eru auðvitað frábærar (með smjörbráðinni yfir) en það má líka spara sér suðuna og skera gúrku gróft og skreyta með nokkrum brauðtengingum. Ef þetta er ekki villibráð eins og hún gerist best, þá er hún ekki til.