Þegar lagt er af stað í veiðiferð er eins gott að vera þokkalega nestaður. Það er aldrei að vita hve langan göngutúr maður þarf að leggja í til að finna fisk og ef maður finnur gjöfulan stað, getur teygst á því að maður tölti til baka.
Orkuríkt nesti er málið og þá koma fyrst upp í huga manns hnetur, þurrkaðir ávextir og fræ í poka. Það er náttúrulega hægt að kaupa svona hnetumix í sjoppum, en það er líka hægt að útbúa þetta sjálfur áður en lagt er af stað. Þá getur maður líka valið eitthvað sem manni finnst gott í blandið. Sem dæmi um svona orkubombu sem setja má í poka er t.d.; kassjúhnetur, jarðhnetur, möndlur, graskersfræ, sesamfræ, döðlur, þurrkaðar apríkósur og rúsínur. Og til að skjóta óvæntum glaðningi í pokann er rétt að setja nokkra mola af suðusúkkulaði með. Stærsti ókosturinn við svona blöndu er að það virðist aldrei vera nóg af henni, þetta á það til að gufa upp í einni eða tveimur kaffipásum, alveg sama hvað maður setur mikið í pokann.

Ef maður er síðan með kókómjólk í farteskinu eða hitabrúsa og bollasúpu, þá er maður nokkuð vel settur langt frameftir degi, jafnvel langt fram á kvöld og næg orka til staðar til að bera allan aflann til baka.