Bygging fjaðra

Þegar maður stendur frammi fyrir heilu veggjunum af hnýtingarefni er stundum úr vöndu að ráða. Auðvitað væri stórkostlegt að geta einfaldlega keypt eina pakkningu af hverju, raða í skotið sitt heima og hnýtt allar flugur veraldar upp úr þessu efni. En maður þarf alls ekki að eignast allt til að geta hnýtt flest.

Eitt af því sem tók mig töluverðan tíma að átta mig á voru allar þessar nafnagiftir á fjöðrum, heilu hnakkastykkin af hönum og hænum frá ýmsum heimshornum. Satt best að segja leið töluverður tími þar til mér tókst að henda reiður á helstu tegundum fjaðra og í hvað best væri að nota hverja þeirra. Með þessum pistli, og nokkrum næstu, ætla ég að reyna að draga saman nokkur lykilatriði um fjaðrir, uppbyggingu þeirra og hvaðan af skepnunni þær koma.

Fjöður
Fjöður

Ekki eru allar fjaðrir eins. Þær eru eins misjafnar að gerð eins og staðirnir á fuglinum eru margir. Næst skinninu eru fíngerðar dúnfjaðrir en utar, í stéli, vængjum og á hálsi eru fan fjaðrir. Hver fjöður skiptist í geisla (A) enska:barbs sem vísa í sitthvora áttina út frá hryggnum (B) enska:rachins. Geislarnir eru alsettir krókum sem krækja þeim saman við næsta geisla og þannig mynda þeir fanir (C) enska:vane. Hver fjöður hefur því tvær fanir, eina sitt hvoru megin við hrygginn. Fanirnar geta verið nánast samhverfar á t.d. stél-, háls- og hnakkafjöðrum, en misstórar á vængfjöðrum. Minni og grófari fönin á vængfjöðrum nefnist biots upp á enska tungu (F).

Fíngerðustu geislarnir (D), næst fjöðurstafnum (E) mynda dún sem ver fuglinn fyrir kulda og raka. Dúnn er alls ekki á öllum fjöðrum, en sannanlega á öllum fuglum.

Galdurinn við fan fjaðrirnar er að fuglinn getur lagfært þær með því að renna þeim í gegnum gogginn og læsa krókunum aftur saman og fjöðrin fær þannig á sig upphaflegt form. Þetta getum við nýtt okkur líka til að lagfæra fjaðrir fyrir eða eftir hnýtingu.

Sokkabuxur

Nei, þú ert ekki að misskilja fyrirsögnina. Sokkabuxur, þessar sem þvælast um í þurrkaranum innan um sokkana okkar strákanna, eru alveg tilvaldar til fluguhnýtinga. Þær eru alveg tilvaldar til að halda brjóstunum á Bobbingaflugum á sínum stað og ekki síðra efni í bak á púpum, helst rækjum. Mér skilst að líftími svona buxna sé frekar skammur og það falli alltaf eitthvað til af svona dóti, helst hjá konum. Þeir ykkar hnýtaranna sem ekki nota svona græjur sjálfir, endilega setjið inn pöntun hjá kunnugum fyrir svona græjum, helst í mismunandi litum. Athugið: netsokkabuxur hafa takmarkað notagildi við hnýtingar. Þú getur lesið meira um Bobbingaflugur á blogginu hans Svarta Zulu hérna.

Ummæli

21.07.2012 – Þórunn BjörkAha….þetta útskýrir ýmislegt…..en,…í hvað notaðir þú þá netsokkabuxurnar?

Svar: Við ræðum þetta bara á koddanum, frú mín góð.

Teygjur

Smelltu fyrir stærri mynd

Gúmmílappir á flugur auka verulega á aðdráttarafl þeirra í vatni og eru fáanlegar í ýmsum útfærslum. En það er ekki sama hvaða teygjur menn nota, þær þurfa að vera hæfilega stífar og umfram allt, rúnaðar. Fyrir þá sem vilja prófa, án þess að þræða allar veiðibúðir bæjarins, þá er ágætur möguleiki á að finna heppilega teygju úti í bílskúr. Kerruteygjur innihalda oft fínar teygjur og ef þú ert heppinn, í ýmsum litum. Kíktu á trosnuðu teygjurnar og athugaður hvort ekki þurfi að stytta þær um eins og 10 sm.

Latex

Smelltu fyrir stærri mynd

Rækjur og ýmsar púpur kalla á latex- eða plastræmur í bakefni. Fyrir utan það hversu snúið það getur verið að finna hentugt efni í verslunum, þá er til afskaplega einföld lausn á latex-skorti. Næst þegar þú ferð með bílinn þinn í smurningu, athugaðu þá hvort strákarnir séu ekki til í að eftirláta þér eins og einn ónotaðan hanska. Þeir nota í flestum tilfellum afar þykka latex hanska sem er frábært að klippa niður í ræmur og nota í flugur.

Annars hef ég líka prófað að nota gult sellófan utan af Mackintosh’s karamellum, það virkar ágætlega. Það ætti nú að vera nóg að slíkum bréfum í umferð núna rétt eftir jólinn.

Penslar

Smellið fyrir stærri mynd

Nú fer hver og einn að verða síðastur til að mála fyrir jólinn. Þeir sem eiga eftir að kaupa góðan pensil til að skera við loft eða í hornum ættu að velja pensilinn af kostgæfni. Góður pensill með hæfilega stífum hárum, helst með örlitlum litabreytingum er alveg frábært efni í skotthár (Fibbets) í flugur. Auðvitað mæli ég með því að fækka hárunum áður en þið byrjið að mála, en auðvitað má líka nota hár úr stífa penslinum sem gleymdist frá því í fyrra. Gott ráð er síðan að geyma hárin límd saman á grófari endanum með málningarlímbandi. Það þarf ekkert að vera svo rosalega leiðinlegt að mála fyrir jólinn, það má alltaf hugsa til þeirra frábæru flugna sem hægt er að hnýta eftir hátíðar.

Jólaseríur

Nú fer í hönd uppáhalds tími ársins hjá mér, ‘NOT‘. Ég þarf af príla upp á loft og ná í jólaseríurnar frá því í fyrra, greiða úr flækjunum og prófa hverjar þeirra lifðu geymsluna af. Eins og kemur fyrir, þá eru örugglega einhverjar þeirra svo illa farnar að þeim er ekki hugað líf, nema þá framhaldslíf. Ekki henda öllum leiðslunum úr ónýtu jólaseríunum því inni í þeim er fínasti kopar- eða álvír fyrir fluguhnýtingar. Auðvitað strippar maður ekki 30m ljólaseríu og vefur upp á kefli, einfaldari leið er að taka u.þ.b. 20-25sm bút af leiðslunni, afhýða hana alla nema c.a. 2sm bút, taka 4-5 svona vöndla og líma þá saman á kápustubbunum, t.d. með silicone kítti (örlítið niður fyrir kápuna) þannig að vírarni losni ekki hver frá öðrum. Með þessu móti er auðvelt að ná sér í einn og einn vír án þess að allt rakni í sundur og jólaserían öðlast nýtt líf í flottum flugum í vetur.